Leynt ofbeldi
Árið 1997 var ákveðið að skipta Hebronborg formlega á milli Palestínskra yfirvalda og Ísraelskra. Þeir 30.000 íbúar sem voru svo óheppnir að eiga heima á svæði H2, sem kom í hlut Ísraels, eiga vægast sagt undir högg að sækja og hefur fækkað mikið. Til að mynda þurfa þeir númer til að mega ganga göturnar heim að húsinu. Þeim er bannað að keyra á þessum götum og þurfa því að bera allt sem þeir kaupa eða vilja losna við. Við sáum konur bera ungabörn langar leiðir því það er lítið um barnakerrur. Einstaka hesta sáum við og ég hugsaði að auðvitað ættu Palestínumenn bara að koma sér upp hestum og vögnum, en það er víst dýrt að halda hest.
Palestínumenn sem vilja heimsækja íbúana á þessum svæðum þurfa að laumast í gegnum bakgarða til að komast þangað. Við hittum tvo eldri menn, bræður sem voru að heimsækja aldraðan föður þeirra í einu þessara húsa. Stundum, þegar þannig lá á hermönnunum, fengu þeir ekki að heimsækja pabbann.
Við máttum alls staðar ganga, því við vorum ferðamenn. En dóttir gestgjafa okkar þurfti að sækja okkur bakleiðina, yfir grindverk og hallandi stíga, þegar við heimsóttum félaga í baráttunni sem bjó röngu megin við línuna. Uppi á þakinu á húsinu hans var varðstöð fyrir ísraelskan hermann.
Hvarvetna á götunum eru litlar varðstöðvar með tveimur eða fleiri hermönnum sem gera ekkert þegar ferðamenn (lesist: hvítt fólk) gengur framhjá og víða uppi á húsum múslima mátti sjá lítil skýli fyrir hermenn. Það er erfitt að ímynda sér hvernig fólki líður með vopnaðan mann úr óvinaliðinu uppi á þaki. Á föstudögum eftir bænastund múslima koma þessir þakgæsluhermenn niður á göturnar til að sýna múslimum hverjir hafa valdið.
Fimmtán ára dóttirin fékk það verkefni að sýna okkur leiðina að moskunni. Við ætluðum að skoða gyðingahlutann þar sem það var föstudagur og moskan því lokuð fyrir öðrum en múslimum. Hún gekk hiklaust framhjá fyrri varðstöðinni og kannski heyrði hún ekki í vörðunum sem ætluðu að stoppa hana. Við varðstöð númer tvö stoppaði hún, sýndi okkur leiðina og bað okkur að vera ekki lengi svo hún myndi ekki lenda í vandræðum. Við gengum framhjá nokkrum varðstöðvum til að komast inn í bænahúsið en létum eins og við ættum fullt erindi þangað inn. Á leiðinni út sagði ég viljandi sjukran, sem þýðir takk á arabísku, til að storka ísraelsku hermönnunum. Þeir muldruðu eitthvað en við máttum ekkert vera að því að hlusta á það, heldur flýttum okkur til baka.
Þegar kom að varðstöðinni múslimamegin, þar sem einn svartstakkur stóð, greinilega fúll yfir að hún skyldi hafa hunsað hann áður. Venjulegir hermenn eru í hermannagrænum einkennisbúningum, en á föstudögum koma illskeyttir svartstakkarnir, í svörtum vestum, gagngert til þess að storka múslimum og efna til vandræða. Hann heimtaði að sjá skilríkin hennar og skipaði okkur að færa okkur frá. Ég neitaði að færa mig og sagði að við værum með henni. Hann sagði að við mættum bara vera kyrrar ef við værum fjölskylda og sagðist ég þá vera mamma hennar.
Þá varð karlinn aldeilis stórbokkalegur, sagði að nú hefði ég komið mér í vandræði og heimtaði að sjá skilríkin mín. Það hvarflaði ekki að mér að verða hrædd, sagði bara ‚fínt‘ og rétti honum passann minn. Ég þoli ekki svona frekjuhunda sem halda að þeir geti ógnað öðrum með heimskulegum tilburðum. Hann skoðaði passann og fann ekkert sem hann gat hankað mig á en reyndi mikið að fá félaga mína til að færa sig frá. Því næst sneri hann sér svo aftur að stelpunni og fór að yfirheyra hana. Ég vildi alls ekki koma henni í vandræði, því pabbi hennar hafði setið í fangelsi í mörg ár og oft verið handtekin fyrir friðsamleg mótmæli, svo ég sagði að við værum gestkomandi hjá fjölskyldu hennar og að hún hafi bara verið að sýna okkur leiðina að bænahúsinu. Þá mildaðist hann eitthvað en sagði að ég skyldi ekki voga mér að ljúga aftur og leyfði okkur að halda áfram. Mér datt ekki í hug að þakka honum fyrir. Þetta er rakið dæmi um hvernig gyðingar halda múslimum niðri með ógnandi tilburðum og óttastjórnun. Ofbeldi er ekki alltaf sýnilegt.
Veggurinn sem aðgreinir svæði múslima og gyðinga er 708 kílómetrar að lengd. Að mestu liggur hann meðfram landamærum Vesturbakkans en stundum girðir hann stór frjósöm svæði frá svæðum Palestínumanna. Á leiðinni heim til Amman hitti ég Palestínumann sem er í doktorsnámi í Frakklandi. Hann sagðist búa í litlu þorpi og að aðskilnaðarveggurinn hefði einmitt tekið besta landið frá þorpinu til handa Ísraelum og þess vegna þyrftu þeir að finna nýjar leiðir til að fæða þorpsbúa. Þeir þurfa að kaupa allan mat frá Ísrael og allt sem þeir flytja inn til landsins þarf samþykki Ísraela. Palestínumenn greiða tvöfalda skatta á öllu innfluttu. Hann var til að mynda að rannsaka endurnýtanlega orku og sagði að nýja tæknin í sólarsellum yrði Palestínumönnum erfið, því það yrði svo dýrt að kaupa inn efni til að búa til sellurnar.
Það er næstum því helmingi ódýrara að fljúga frá Tel Aviv heldur en Amman í Jórdaníu. En Palestínumönnum er bannað að fljúga frá Tel Aviv, heldur verða að fara yfir landamærin Jórdaníu og fljúga frá Amman. Þess vegna er dýrt að fara yfir landamærin þarna á milli. Það kostar um það bil 25 þúsund krónur að fara fram og til baka yfir landamærin, svo það bætist við flugmiða Palestínumanna.
Ástandið er óþyrmilega líkt aðskilnaðarstefnunni í Suður-Afríku. Fólk þarf númer til að ganga um göturnar. Því er mismunað eftir litarhætti. Svæði eru aðgreind með veggjum, girðingum og varðstöðvum. Gyðingar halda múslimum niðri með óttastjórnun, leitast við að niðurlægja þá og gera líf þeirra erfiðara.
Athugasemdir