Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Hvað gerist á sunnudag í Istanbul?

Hvað gerist á sunnudag í Istanbul?

Ég er stödd í Istanbul þessa mánuðina og þar sem nú er eitthvað að frétta er tími til að skrifa hér.  

Þessa dagana fer formaður aðalstjórnarandstöðuflokks Tyrklands CHP, Kemal Kılıçdaroğlu, gangandi frá Ankara til Istanbul, 460 km, til að vekja athygli á því óréttlæti sem ríkir í landinu. Nefnir hann gönguna "réttlætisgöngu".

Í skjóli neyðarástandsins sem Erdoğan, forseti Tyrklands, setti á eftir hina sviðsettu tilraun til valdaráns, hefur hann sett fram hverja tilskipunina á fætur annarri. Ein er þess efnis að hann geti handtekið þá sem honum sýnist, kennara, prófessora, rithöfunda og blaðamenn, án formlegrar handtökubeiðnar og án kæru. Önnur tilskipun gaf honum leyfi til að reka hvern ríkisstarfsmann sem honum dettur í hug og hafa margir kennarar og prófessorar misst stöður sínar vegna þess. Þeir mega ekki fara úr landi og ekki vinna við kennslu lengur. Með starfinu missa þeir öll réttindi, s.s. heilbrigðistryggingar svo staða þeirra er mjög bág. Tveir kennarar eru í hungurverkfalli vegna þessa og er ekki fyrirséð að þeir muni lifa það af. Tjáningarfrelsið hefur líka beðið hnekkis. Hefur Erdoğan lokað fjölda fjölmiðla sem ekki fjölluðu um hann eins og honum þóknaðist. 

Stjórnarandstaðan hefur sett fram fjölda frumvarpa til lýðræðisbóta og ekki síður til að sporna við þeirri þróun sem Erdoğan stendur fyrir, að breyta landinu úr opnu og fjölbreyttu ríki þar sem trúarbrögð blandast ekki í ríkismál, í múslimskt ríki. En þau ná ekki í gegn því forsetinn er orðinn einráður.

Hins vegar er búið að hækka hljóðið í bænaköllunum þannig að nú er ekki hægt að heyra mannsmál þegar það fer fram fimm sinnum á dag. Smám saman er verið að breyta efni skólabóka, þróunarkenning Darwins mátti fjúka, svo og myndir af kynfærum og búið að setja inn meiri trúarbragðakennslu. Erdoğan vill líka breyta sögu Tyrklands þannig að hlutur Kemal Atatürk, þjóðhetjunnar sem gerði Tyrkland að því sem það var áður en hann sjálfur komst til valda, verði minnkaður í sögubókunum. Erdoğan vill að sjálfsögðu taka hans stall sem þjóðarhetjan. 

Stjórnarandstöðuleiðtoginn er ekki ungur og sprækur göngugarpur, heldur 68 ára gamall maður. Eftir margítrekaðar tilraunir til lýðræðis- og réttlætisbóta, sá hann þetta eina ráð til að mótmæla því ekki vildi hann grípa til vopna eins og andstaðan í Sýrlandi, því allir vita hvernig það fór.   

Þúsundir manns úr mörgum stjórnmálaflokkum hafa gengið með Kemal Kılıçdaroğlu dagleiðir til að styðja málstaðinn. Hann nálgast nú Istanbul og er fólk hvatt til að slást í för með honum og styðja við málsstaðinn. Á sunnudaginn er fyrirhugað að hann 'komi til byggða' og hefur flokkurinn boðað samstöðufund til að taka á móti honum.  

Erdoğan og hans menn eru snillingar í að búa til falskar fréttir til að réttlæta hitt og þetta. Nú hafa þeir búið til frétt um að fjórir ISIL (sem við köllum ISIS) liðar hafi verið handteknir meðal göngufólks og því sé ekki víst að þeir geti tryggt öryggi hans á göngunni. Eflaust er þetta hugsað til að stoppa gönguna eða láta 'taka hann úr umferð' og kenna svo öðrum um.

Eins er ljóst að Erdoğan mun beita harðræði til að koma í veg fyrir fundinn á sunnudag. Gezi mótmælin árið 2013 voru friðsamleg mótmæli þar sem 7,5 milljónir velmenntaðs rósemdarfólks mættu til að mótmæla lokun Gezi garðsins, en Erdoğan sendi þungvopnaða hermenn með táragas, vatnsdælur og gúmmíkúlur til að kveða niður mótmælin. Átta þúsund manns særðust, fimm hundruð voru hneppt í varðhald og eitthvað um tuttugu létu lífið.

Í stað þess að sameina landsmenn, hefur forsetanum tekist að sundra þjóðinni. Helmingur þjóðarinnar, aðallega frá afturhaldssögum útkjálkum, styðja Erdoğan blint, en hinn helmingurinn hatar hann. Ég hef hitt marga hér í Istanbul sem segja að venjulega óski þeir engum dauða, en hann vona þeir að drepist sem fyrst. 

 Þetta eru spennandi tímar í Tyrklandi og forvitnilegt að sjá hvað gerist. 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni