Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Borg eða eyðimörk

Borg eða eyðimörk

Ég var þrjár vikur í Beirut og er búin að vera hér í sjö daga, held ég, þegar þetta er skrifað. Í Beirut skrifaði ég blogg um spillinguna, skort á innviðum samfélagsins, stjórnmálin og stríðsástand. Hér í eyðimörkinni er ekkert nema friður og fegurð og því langar mig ekki að skrifa um neitt annað.  Í Beirut var orkan hörð og áreitið mikið og kannski þess vegna sem það voru eilíf átök í skrifunum mínum. Hér ríkir friður og ég veit einu sinni hvernig klukkunni líður eða hvaða dagur er. Hér eru engir fastir liðir nema sólarupprás og sólsetur og varðeldur eftir myrkur.

Hér flaug flugvél yfir í gær, sú þriðja frá því ég kom og sú fyrsta að degi til og þá hvarflaði að mér hvort ég myndi sjá hana varpa niður sprengju einhvers staðar langt í burtu. Ekkert slíkt gerðist, en það var fyrsta hugsunin um stríð frá því ég kom.

Það er að vísu þreytandi að keyra út um alla eyðimörk með ferðamenn í steikjandi hitanum, en meira að segja hitastigið fer lækkandi og kvöldin eru svöl, kannski 20 gráður. Veit samt ekkert um tölur, því hér er ekkert internet til að gúggla hitastigið eða hitamælir til að skoða. Ég veit bara að ég get verið berfætt í skónum, en það er of kalt til að vera með bera fætur, þótt þunnir bómullarsokkar séu nóg. Um sólsetur fer ég í léttan jakka og á morgnana þegar ég vakna. Öll hlýju fötin mín bíða ennþá í ferðatöskunni og ég er svo sem ekkert óþreyjufull að fara að nota þau.

Þetta líf er eins og stanslaus hugleiðsla. Tímalaust og tölulaust. Vinstra heilahvelið algjörlega óþarft, nema náttúrulega til að læra arabísku. Ég kann að telja upp að 10 og er að læra næstu upp í 20. Þegar ég geri magaæfingarnar æfi ég arabísku tölurnar í leiðinni. Mjög praktískt.

En þetta er eins og að vera stödd á annarri plánetu þar sem ríkir annað tímatal en hjá mannkyninu yfirleitt.  Meira að segja landslagið er eins og á annarri plánetu.

Eitt kvöldið sat ég fyrir utan hjá Ali í Bazaarnum. Hann er ekki með neitt rafmagn og notast því við ennisljós til að lýsa sér í myrkrinu. Bæði ljósið hans og ljósin í símum hinna gestanna voru hinu megin við skýlið og því var engin ljósmengun. Ég horfði upp í himinhvolfið á milljón trilljón stjörnur í lengri tíma og ég get svarið það að ég sá himininn hreyfast. Eða öllu heldur, ég sá á stjörnunum hvernig jörðin hreyfðist.

Ég held að þetta sé fullkomin leið til að öðlast hugarró. Ef fólk getur ekki róað hugann við þessar aðstæður verður það viðþolslaust.

Hingað kom amerísk kona um daginn sem býr í Kairó. Hún sagðist vera örþreytt á lífinu. En í staðinn fyrir að leyfa sér að njóta kyrrðarinnar og öðlast sálarró, blaðraði hún stanslaust við félagana með sinni þreytulegu rödd. Sennilega hrædd við að hlusta á eigin huga. Á sama tíma var hér strákur sem er í heimsferð. Búinn með Afríku og er nú í Miðausturlöndum. Hann kunni að slaka á og njóta.

Eftir margra daga flakk um eyðimörkina var afslöppun í dag. Við sátum í stóra tjaldinu og spjölluðum. Biðum af okkur hitann. Ég spáði fyrir mannskapnum. Sé ekki eftir að hafa tekið spilin með.

Nú sit ég ein í búðunum, hin öll skroppin eitthvert (ekki af hitanum heldur skruppu til að sinna erindum). Sólin er að hníga til viðar og eina hljóðið er í vindinum og suð í einstaka flugu. Það er loksins orðið svalt.      

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni