Bedúínakonur
Ég sit í stofunni hjá fjölskyldu gestgjafa míns. Yngsta systirin, 19 ára, er að strauja fötin af bræðrum sínum og raular arabískt popplag. Þetta er greinilega lag sem hún fílar, því í gær var hún að raula sama lag þegar hún var að hengja upp þvottinn. Hún er glaðleg. Við og við tekur hún upp símann sinn og spjallar við vinkonu á whatsapp. Þær ætla að hittast á eftir.
Í gær fylgdist ég með henni þar sem hún var að þvo þvottinn í bakgarðinum. Þau eru með frumstæða þvottavél sem er opin að ofan og þvotturinn einhvern veginn sullast í brúnu vatninu. Þegar stúlkunni finnst nóg komið tekur hún flíkurnar, eina í einu, upp úr og vindur. Svo hengir hún flíkurnar á snúru með vatnið drjúpandi niður. Í gær var hún með slæðu til að skýla sér fyrir hádegissólinni og söng þetta líflega lag. Mér fannst þetta svo fallegt að ég spurði hvort ég mætti taka mynd. Hún varð skyndilega óttaslegin, skýldi andlitinu með höndunum og sagði að ég mætti það alls ekki. Gestgjafi minn sagði mér síðar að það mætti alls ekki taka myndir af konum í þorpinu.
Um daginn fórum við í næsta þorp til að versla því mamman þurfti að kaupa nokkra hluti. Ég hafði ekki hitt fjölskylduna áður svo ég hitti hana fyrst í bílnum. Hún var í svartklædd með slæðu fyrir neðri hluta andlitsins. Í bílnum var líka systir gestgjafa míns sem er gift í bænum sem við ætluðum í og var á heimleið. Hún var líka svartklædd með slæðu fyrir hluta andlitsins og hélt á lítilli stelpu, kannski tæplega tveggja ára, sem var dauðhrædd í hvert sinn sem hún leit á mig. Áður en við fórum úr bænum var stansað fyrir utan hús hjá konu sem þurfti líka að kaupa inn. Gestgjafi minn útskýrði að hún var dóttir pabba hans en með annarri eiginkonu.
Gestgjafi bjó í eyðimörkinni þar til hann var tíu ára gamall. Pabbi hans átti þrjár eiginkonur, fullt af kindum og þrettán börn. Ástæðan fyrir því að eiginmenn máttu taka sér fleiri konur var að í eyðimörkinni þarf kona á karlmanni að halda og þetta tryggði að ekkjur og allar konur höfðu einhvern til að hjálpa sér. Nú á tímum finnst karlmönnum nógu mikið vesen að eiga eina konu.
Gestgjafi minn keyrði bílinn því konur læra ekki að keyra hér. Hann gætti þess að leggja alltaf beint fyrir utan búðirnar til að konurnar þyrftu ekki að ganga langt. Ég held að mamma hans sé bara örfáum árum eldri en ég, en hún virkar miklu eldri sökum reykinga og kannski mataræðis og hreyfir sig hægt.
Í kvöld er trúlofunarveisla eins bróðurins. Hann hlakkar mikið til og segir mér að konan sé mjög falleg. Augun sérstaklega. Hann hefur bara hitt hana nokkrum sinnum til að spjalla, en hann ljómar þegar hann talar um hana.
Menn og konur í þorpinu umgangast ekki. Þegar kona og maður eru komin á giftingaraldur, eftir tvítugt, fær konan að sjá mynd af manni sem er kannski frændi vinkonu og hugsanlegt er að þau gætu átt saman.Trúlofunin varar í nokkra mánuði og er hugsuð sem tækifæri til að unga fólkið geti kynnst betur. Ef unga fólkið ákveður að því líkar ekki við hvort annað verður engin gifting og þau eru laus allra mála. Hjónabönd eru ekki því ákveðin hér af foreldrum, heldur fær unga fólkið að ráða hverjum það giftist. Sumir ungu mannanna eru ekkert endilega áfjáðir endilega í að halda í hefðirnar og hafa jafnvel kynnst stórborgarlífi í Amman þar sem flest allt er leyfilegt.
Þannig að í kvöld heldur fjölskyldan veislu, bara fyrir nánustu, til að fagna því að bróðirinn geti nú hugsanlega kynnst væntanlegri eiginkonu. Ákveði þau að giftast verður öllu þorpinu boðið til veislu og bróðirinn sagði, þar sem við vorum að týna sprek fyrir kvöldeldinn í búðunum, að mér væri líka boðið verði ég á svæðinu.
Myndina tók ég úr setustofunni yfir portið þar sem þvotturinn er hengdur upp til þerris. Ég kunni ekki við að hafa meira af heimilinu á myndinni. Falleg fjallasýn allt í kring.
Athugasemdir