Þessi færsla er meira en 5 ára gömul.

Jón

Konan fyrir framan mig á mótmælafundinum var með pott, sleif og barn sem sló í pottinn með sleifinni þarna rétt við styttuna af Jóni Sigurðssyni. Hún sneri sér skyndilega við, leit upp á styttuna fyrir aftan mig og kallaði: „Jón!“ Hún þagði andartak, eins og hún hefði ekki náð athygli Jóns og hrópaði síðan aftur til hans. „Jón!“ Mér fannst hugmyndin góð en kannski ögn mikið fyrir sjónleiknum haft í ljósi þess að enginn tók eftir honum nema ég, aðrir á þessum 4000 manna fundi voru, eðlilega, að fylgjast með skeleggri ræðu, taka undir þar sem við átti, hrópa slagorð, klappa. 

„Jón!“ kallaði konan enn og nú virtist hún ná augnsambandi við styttuna að baki mér „Ertu orðinn þreyttur á að standa þarna?“ Mér fannst hún öll ljóma af þeirri náttúrulegu geðbilun sem allur ídealismi er. Ég lét eftir mér að líta um öxl og uppgötvaði þá að gjörningurinn sem slíkur hafði hvergi átt sér stað nema í höfðinu á mér sjálfum því að hitt barn konunnar, Jón, stóð á brík á stöplinum með skilti. Og nei, Jón var ekki orðinn þreyttur á að standa þarna.

Ef Jóni forseta hefði verið farið að leiðast þarna uppi á stallinum hefði hann kannski stigið niður, rölt upp að þinghúsinu, bankað, enginn verið við og hann ekki með aðgangskort, þá hefði hann gengið upp að stjórnarráðinu og tekið stjórnarskrána um hin sérstaklegu málefni Íslands úr hendi Kristjáns IX. Þakka yður kærlega, yðar háæruverðuga tign! Stjórnarskrárgjafi — þetta orð — kemur stundum fyrir í gömlu á tímarit.is, fyrst með vísan til Alþingis. Þó er beinlínis stytta af gjafanum að gefa gjöfina fyrir framan stjórnarráðið. En þjóðin var ekki stjórnarskrárgjafi þegar orðið var fyrst notað. Það er tímabært að svo verði.

Jón „barn“, sonur ídealistans, stóð á bríkinni til enda fundarins. Þegar ég fór fannst mér ég hins vegar sjá Jón „forseta“ út undan mér príla aftur upp á stallinn, nýkominn ofan úr stjórnarráði. Þetta er orðið ágætt með þetta plagg, hefur hann hugsað. Ég skal geyma það til menja.

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu