Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Vald þjóðarinnar

Vald þjóðarinnar

Vald þjóðarinnar er stjórnarskrárvarið, það er hún sem setur stjórnvöldum leikreglur. Í þjóðaratkvæðagreiðslum ræðst niðurstaðan ætíð af vilja meirihluta þeirra kjósenda sem mæta á kjörstað og taka þátt í leynilegri atkvæðagreiðslu.

 

Vald sem ekki er sprottið frá þjóðinni verður aldrei annað en ofbeldi sem beint er gegn henni. Vilji þjóðarinnar er vilji samfélagsheildarinnar og sá vilji fer saman við almannahagsmuni.

 

Stjórnvald sem vill kallast réttmætt á hverju sinni að lúta skilyrðislaust niðurstöðum í þjóðaratkvæðagreiðslum. Í öllum lýðræðisríkjum lúta stjórnmálamenn án nokkurra skilyrða niðurstöðum þjóðaratkvæðagreiðslna. Þar gildir hið eina að öllum sé tryggður aðgangur að kjörklefa til þess að nýta sér vald sitt, annað er grímulaust valdarán.

 

Mikilvægir þættir lýðveldishugmynda um lýðræði eru forsendur upplýstrar umræðu en þessir þættir hafa verið  hunsaðar af stjórnmálamönnum okkar. Það er helsta ástæða þess að fylgið hefur hrunið af fjórflokknum. Beint lýðræði með þátttöku almennings með heimildum til þess að tiltekinn hluti þjóðarinnar geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslna var áberandi í kröfum þjóðfunda og tillögum Stjórnlagaráðs.

 

Vinna núverandi stjórnlaganefndar er algjörlega óásættanleg. Hún fer fram fyrir luktum dyrum og það litla sem hefur komið þaðan er ekki „einnar messu virði“ eins og það hefur verið réttilega kallað hér á öðrum stað á þessu vefstæði.

 

Auka má og treysta íslenska lýðræðismenningu, þar má taka mið af gagnrýni af skýrlsu Rannsóknarnefndar Alþingis. Einnig mætti standa við gefin loforð um rannsókn á einkavæðingu bankanna. Það verður einfaldlega að gera áður en lagt er í þá vegferð að selja bankana aftur.

 

Fáránleikakenning ríkisstjórnarinnar er þeir séu herrar en ekki þjónar þjóðarinnar. Sú nálgun er hreinlega súrrealískt að þeir telji það ómöguleika að þjóðin ætlist til þess að þeir fylgi eftir faglega og samviskusamlega niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu. Tilað bæta ofan á skömmina kemur forsætisráðherra fram og telur að það sé ráðherra að ákveða hvað sé sett í þjóðaratkvæðagreiðslu, ekki þjóðarinnar.

 

Ráðherrum er tíðrætt um óskorað lýðræðislegt umboð sitt á grundvelli alþingiskosninga. Hvernig komast þeir þá að þeirri niðurstöðu að þeim beri ekki að framfylgja í umboði þjóðarinnar í niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu?

 

Þó að ólík afstaða landsmanna til ESB sé undirliggjandi í þessu máli þá snýst það alls ekki nú um hana. Það snýst um grunnreglur í opinberu lífi í landinu. Um svik við kjósendur, um virðingu við lýðræðið, pólitíska ábyrgð og heiðarleika.

 

Ríkisstjórnin hefur í svörum sínum og útskýringum afvegaleitt tungumálið, ráðist inn í samband orðs og merkingar á skítugum skónum, reynt að rjúfa og brengla samband orðs og merkingar.

 

Loforð er ekki lengur loforð, orðið strax þýðir í huga ríkisstjórnarninnar „þegar það hentar.“ Framkoma ráðamanna við tungumálið er hættuspil. Svör þeirra einkennast af hártogunum og útúrsnúningum, með því eru vegið að orðum og hugtökum. Íslenska er grundvöllur samfélagsins og sjálfsmyndar okkar sem þjóðar.

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni