Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Efnahagslegar þrælabúðir

Efnahagslegar þrælabúðir

Í nánast hverjum einasta fréttatíma þessa dagana eru fluttar fréttir af gríðarlegum hagnaði bankanna og tryggingarfélaganna. Ofboðslegar arðgreiðslur ásamt bónusum sem nema jafnvel ríflegum ævilaunum verkafólks renna þessa leið greitt í vasa fárra. Sömu fyrirtæki hafa hins verið að barma sér og talið sig þurfa að hækka iðgjöld og þjónustugjöld.

 

Engum hvorki í bankastjórn eða ráðherrum kemur til hugar að bankarnir skili einhverju sem tekið var úr ríkissjóð til þess að koma bankakerfinu á fætur eftir þeirra eigið Hrun, engum þeirra dettur í hug að bæta heimilunum þann skaða sem bankarnur ullu heimilunum. Nei takkþað fer í vasa hinna fáu sem telja sig eiga öll hlutabréfin í samfélaginu Íslandi.

 

Augljóst er að stór hluti af hagnaði bankana er þannig tilkominn vegna aðgerða ríkisstjórnarinnar þegar hún færði tæplæga 100 milljarða af skatttekjum íslenskra launamanna í niðurfærslu á þeirra eigin lánum, samfara því að opna fyrir að launamenn geti tekið út séreignarsparnað sinn og nýtt til það greiða upp lán. Þetta fjármagn til „Leiðréttingarinnar“ kom sannarlega ekki frá erlendum hrægammasjóðum og var reyndar heldur ekki 350 milljarðar eins og forsætisráðherra hafði lofað.

 

Ástæða er að halda því til haga að eignir launamanna í lífeyrissjóðum eru ekki aðfararhæfar. Eins og málum er nú komið hjá öldruðum og öryrkjum er það eina haldreipið þegar komið er á þann aldur til þess að geta framfleytt sér. Bankar hafa hins vegar allt frá Hruni beitt öllum brögðum til þess að fá fólk til þess að taka út inneign sína í lífeyrissjóðum og koma með þá peninga í bankann til þess að greiða inn á skuldir sínar. Bankarnir bíða síðan með að selja ofan af fólki þar til það hefur tekið þessa peninga út.

 

Aðgerð ríkisstjórnarinnar var þannig aldrei neitt annað en tilfærsla á tugum milljarða úr ríkissjóð til bankanna. Sem varð til þess að eignir sem þeir voru búnir að afskrifa urðu með aðgerðum ríkisstjórnarinnar að miklum hagnaði í bókhaldi síðasta árs. Það voru nokkrir sem bentu á þetta en kölluðu þá yfir sig fordæmingu stjórnarþingmanna og þess fjölmiðlaveldis sem að baki þeim stendur.

 

Hið einangraða umhverfi íslensku bankanna er þannig aldeilis draumur í dós fyrir eigendur þeirra og svo skiljanlegt að þeir með góðri aðstoð ráðandi stjórnmálamanna og þeim sem standa að baki þeim. Þessi hópur berst með öllum tiltækum ráðum gegn því að að opna íslenska hagkerfið og taka upp alvöru gjaldmiðil og fara inn í samfélag alvöru hagkerfa sem kallar á eðlilga samkeppni. Það eru nefnilega þeir sem hagnast ofboðslega á að halda Íslandi einangruðu, þetta fína kerfi tryggir að það eru 80% þjóðarinnar (launamenn) sem standa undir þessari tilfærslu.

Nei við ætlum sko ekki að afsala fullveldi okkar (þá eru þeir vitanlega að tala um sjálfa sig, ekki okkur hin þessi 80% þjóðarinnar) segja þeir fyrir okkar hönd í Brussel og setja sínum manni í ríkisstjórninni það verkefni að senda þangað afsagnarbréf án þess að bera það undir þjóðina , (til þess að geta viðhaldið þeim vinnubrögðum sem hér hafa verið viðhöfð allt frá því krónan var aftengd þeirri dönsku.)

Næsta skref í þessu séríslenska hagkerfi (efnahagslegu þrælabúðum) verður gengisfelling launa með sinni verðbólgu þar sem árangur síðustu kjarabaráttu er tekinn og færður til hins ofurríka 20% þjóðarinnar. Og svo mæta formaður fjárlaganefndar ásamt fjármálaráðherra í fjölmiðlum með venjubundnar yfirlýsingar um að það sé verkalýðshreyfingunni til skammar hversu lág laun séu á Íslandi.

Stóri kostur krónunnar er að það er "blóðsúthellingalaust hægt að lagfæra of góða kjarasamninga launamanna með gengisfellingu krónunnar" segir Hannes Hólmsteinn fyrrv. Seðlabankastjórnarmaður og helsti hugmyndasmiður hægri manna.

 

Næsti áfangi í þessari hringekju er svo upphlaup í verkalýðshreyfingunni þar sem krafist er leiðréttingar á gengisfellingu launa. Þá mætir formaður fjárlaganefndar ásamt fjármálaráðherra í fjölmiðla og fordæma ábyrgðarleysi verkalýðshreyfingarinnar. Hún stefni að því að að kollkeyra hagkerfinu, kalla fram stórkostlegar vaxtahækkanir og setja allt samfélagið í rúst.

 

Samtryggingarkerfi 20% þjóðarinnar er nefnilega í toppformi í bankakerfinu. Í næsta pistli fjalla ég um samtryggingarkerfi þeirra í tryggingarfélögunum og hvernig farið var með launafólk í landinu þegar það varð svo ósvífið að taka sig til og gera tilraun til þess að brjótast út þeim helgreipum með stofnun Alþýðutryggingar um síðustu aldamót. Og svo er það varðgæsla 20%-anna gegn breytingum á stjórnskránni.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni