Þessi færsla er meira en 3 ára gömul.

Lýðskrum, lygar og myndavélar

Lýðskrum, lygar og myndavélar

Þá er mikið hamfaraár loksins á enda. Árið hófst með eldum í Ástralíu og endaði með aurskriðum á Austfjörðum og í Noregi. Einnig upplifðum við jarðhræringar á Reykjanesi og á tímabili óttaðist fólk jafnvel eldgos þar. Helsta einkenni ársins var þó nýja kórónaveiran, sem ferðaðist frá Kína í upphafi árs og hefur endaði ævi næstum tveggja milljóna manna um heim allan nú í árslok. 

 

Í Bandaríkjunum urðu þáttaskil í maí þegar blökkumaðurinn George Floyd var drepinn í haldi lögreglu í augsýn vitna, sem mörg hver tóku atburðinn upp á myndavélar síma sinna og dreifðu á netinu. Í kjölfarið fóru af stað víðtæk mótmæli gegn kynþáttabundnu lögregluofbeldi um öll Bandaríkin og víða um heim. Á Íslandi voru líka haldin samstöðumótmæli og í tengslum við þau komu fram raddir einstaklinga sem sögðu frá því að Ísland væri fjarri því að vera fullkomið í kynþáttamálum. Við þurfum að hlusta á þessar raddir og taka tillit til þess sem þær segja.

 

Tífalt færri látnir

Við höfum verið tiltölulega heppin hér á landi, þar sem aðeins 29 manns hafa látist af völdum covid-19 á árinu. Ef við værum með sama hlutfall látinna miðað við fólksfjölda og Bandaríkjamenn eða Svíar, væru tvö til þrjú hundruð manns látin hérlendis eða allt að tífalt fleiri. Þessi árangur hefur náðst meðal annars með skimunum á landamærum og hlýðni almennings, en langflestir hafa farið eftir tilmælum og reglum um sóttvarnaraðgerðir, eins og fjöldatakmarkanir, tveggja metra reglu, handþvott og grímunotkun.

 

Einmitt þess vegna er sorglegt hvað íslenskir ráðamenn hafa staðið sig illa í því að fylgja þessum sömu reglum. Ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafa ítrekað látið grípa sig í aðstæðum, þar sem vafi hefur leikið á því hvort farið væri eftir sóttvarnarreglum. Þannig fór ferðamálaráðherra Sjálfstæðisflokksins á vinkonudjamm í ágúst þar sem tveggja metra reglan var látin lönd og leið, en það voru myndir á Instagram sem komu upp um hana. Nú á Þorláksmessu fór fjármálaráðherra og formaður sama flokks á samkomu sem ýmist hefur verið kölluð sölusýning eða partý í Ásmundarsal, en í það minnsta voru þar tugir manna samankomnir, grímulausir og undir áhrifum áfengis, þvert á tilmæli yfirvalda. 

 

Okkar eigin Trump

Erlendis hafa margir í opinberum stöðum þurft að segja af sér vegna svipaðra yfirsjóna. Á Íslandi segir hins vegar enginn ótilneyddur af sér og í stað þess að iðrast er pakkað í vörn. Þannig var fjármálaráðherra ósáttur við spurningar um samkomuna í áramótaþætti Stöðvar 2 í dag, og þó hann hafi byrjað á því að biðjast afsökunar strax eftir viðburðinn virðist línan núna vera að hann hafi ekkert gert af sér. Lögreglan er að sögn að skoða málið, þar á meðal upptökur úr búkmyndavélum, en líklegt er að ekkert komi út úr því nema hugsanlega áminning á hendur þeim lögreglumanni sem fyrstur sagði frá því að ráðherra hefði verið í hópi gestanna ölkæru í Ásmundarsal.

 

Ein bestu tíðindi ársins voru þau að Donald Trump, Bandaríkjaforseti undanfarinna fjögurra ára, tapaði í forsetakosningum fyrir Joe Biden. Snemma á næsta ári hverfur því einn hraðlygnasti forseti sögunnar af valdastóli og vonandi hverfa áherslur hans á lýðskrum og upplausn með honum. Líklega flýttu hörmungar ársins, mótmæli og mikið mannfall af völdum veirunnar í Bandaríkjunum, fyrir falli Trumps. Hér á Íslandi sitjum við enn uppi með okkar eigin Trump á þingi, en við eigum þó möguleika á að breyta því í alþingiskosningum á næsta ári. 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni