Þessi færsla er meira en 6 ára gömul.

Fátækt barna og eldriborgara

Ég var að lesa rannsóknarniðurstöður sem voru birtar í grein árið 2016 þar sem höfundarnir bera saman áhrif kreppunnar á börn og lífeyrisþega í Evrópu. Ályktunin sem þau draga af gögnunum er að lífeyrisþegar hafi hagnast mest á kreppunni en börn hafi tapað mestu. Þetta vakti hjá mér forvitni um hvernig þessu væri háttað á Íslandi og ég fór að skoða ýmsar fátæktarmælingar á vef Eurostat.

Lágar tekjur

Lágtekjumörk er það sem áður var kallað fátæktarmörk. Það eru ýmsar leiðir til að skilgreina þau en sú algengasta er að notast við upphæð sem nemur 60% af miðgildi ráðstöfunartekna í því landi sem um ræðir.1 Þessi skilgreining byggir á þeirri hugmynd að fátækt sé afstæð, þ.e. að fólk sé fátækt ef það hefur of lágar tekjur til að njóta þeirra gæða sem eru talin sjálfsögð í því samfélagi sem það býr í. Mynd 1 sýnir hvernig lágtekjuhlutfallið þróaðist á milli 2004 og 2016. Ég notast við þriggja ára hlaupandi meðaltöl til að draga úr sveiflum og draga fram megin þróunina (fólk getur hinsvegar skoðað tölur hvers árs fyrir sig með því að smella á myndirnar). Því miður er ekki hægt að fá upplýsingar um lífeyrisþega sem hóp á vef Eurostat, enda erfitt að staðla framleiðslu slíkra upplýsinga þar sem reglur um lífeyrisaldur eru nokkuð mismunandi á milli landa, og fyrir vikið er aldursbilið 65 ára og eldri nokkurskonar skilgreining Eurostat á eldriborgurum.

Myndin sýnir okkur að lágtekjuhlutfall barna er nokkuð stöðugt yfir tíma en lágtekjuhlutföll eldriborgara taka umtalsverðum breytingum. Í fyrsta lagi hækkaði hlutfallið á útrásartímanum en lækkaði svo snarlega í kjölfar hrunsins en hefur svo verið að hækka á undanförnum árum.

Lágtekjumörkin eru snúin mæling. Þau eru skilgreind út frá miðtekjum á hverjum tíma og ef miðtekjur lækka þá lækka lágtekjumörkin samhliða og lágtekjuhlutfallið yfirleitt líka. Það er það sem gerðist á Íslandi í kjölfar hrunsins. Þannig sýnir þróun lágtekjuhlutfallsins ekki að dregið hafi úr fátækt eldriborgara í kjölfar hrunsins heldur aðeins að eldriborgarar með lágar tekjur hafi misst minna en fulltrúi millistéttarinnar á miðpunkti tekjudreifingarinnar.  

Önnur leið til að meta stærð lágtekjuhópsins er að skilgreina lágtekjumörkin út frá verðlagsþróun frekar en tekjuþróun þannig að lágtekjumörk mismunandi ára endurspegli sama kaupmátt.2 Mynd 2 sýnir þróun hópsins sem á hverju ári er með minni kaupmátt en sem nemur lágtekjumörkin ársins 2005. Þessi mynd gefur sennilega raunsannari mynd af bágum kjörum á Íslandi í kjölfar hrunsins. Við sjáum að hlutfallið undir mörkum hækkar hjá bæði börnum og eldriborgurum, en mun meira og hraðar hjá börnunum.

Lágtekjuhlutföll eru eitt, staða hópa undir lágtekjumörkum er annað. Lágtekjubilið er mæling sem er notuð til að meta hve djúp fátækt ólíkra hópa er. Því stærra sem bilið er, þeim mun dýpri er fátæktin.3 Mynd 3 sýnir lágtekjubil barna og eldriborgara árin 2004, 2008, 2012 og 2016.

Árið 2004 var lágtekjubilið mun stærra hjá börnum en hjá eldriborgurum en á útrásartímanum dró saman með hópunum. Staða barna batnaði en eldriborgara versnaði og árið 2008 var lágtekjubil hópanna svo gott sem jafn stórt. Í kjölfar hrunsins stækkaði svo lágtekjubil beggja hópa en umtalsvert meira hjá börnum. Á árunum á eftir batnaði svo staða beggja hópa en árið 2016 var lágtekjubil barna 2,5-fallt lágtekjubil eldriborgara. Ekki bara eru börn líklegri en eldriborgarar til að vera fátæk heldur standa fátæk börn einnig verr en fátækir eldriborgarar samkvæmt tekjumælingum á fátækt. 

Skortur á efnislegum gæðum

Tekjumælingar á fátækt hafa ýmsa annmarka og fyrir vikið hefur Eurostat þróað aðra mælingu sem á að endurspegla skort. Ef tekjur eru bjargirnar sem við höfum til að uppfylla þarfir okkar er skorturinn afleiðingin ef tekjurnar nægðu okkur ekki (hver svo sem ástæðan er). Input/output. Þetta er gagnleg mæling til að nota samhliða lágtekjumörkum enda leiða lágar tekjur ekki endilega til skorts, a.m.k. ekki ef þær eru tímabundið ástand og fólk hefur sparifé, eignir eða lánstraust til að brúa bilið.

Mynd 4 sýnir að hlutfall barna sem býr við skort á efnislegum gæðum er hærra öll þau ár sem gögnin ná yfir. Það dregur að vísu saman með hópunum á útrásartímanum en í kjölfar hrunsins eykst skortur á heimilum barna hraðar og meira en á meðal eldriborgara.

Niðurstaða

Það væri rangt að segja að eldriborgarar hafi notið góðs af kreppunni (eins og höfundar greinarinnar sem varð tilefni þessarar færslu raun gera). Lífskjör þeirra versnuðu eins og annarra. Það verður einnig að skoða þessar niðurstöður í samhengi við atvinnuþátttöku fólks á lífeyrisaldri. Það er ekki ósennilegt að hærra hlutfall eldriborgara væru undir lágtekjumörkum ef umtalsverður hluti hópsins gæti ekki drýgt lífeyrinn með atvinnutekjum.

Engu að síður jókst fátækt barna meira og var dýpri en fátækt eldriborgara í kjölfar hrunsins. Árið 2016 fátækt á meðal barna var tíðari og dýpri en fátækt eldriborgara. 10,4% barna voru undir lágtekjumörkum, 7,4% bjuggu við skort á efnislegum gæðum og lágtekjubilið nam 15,3% af lágtekjumörkunum. Til samanburðar voru 5,9% eldriborgara undir lágtekjumörkum, 3,3% skorti efnisleg gæði og lágtekjubil þeirra nam 6,1% af lágtekjumörkum. 

1 Miðgildi er einfaldlega gildið sem er í miðju dreifingarinnar, í þessu tilfelli ráðstöfunartekjur þess einstaklings sem er akkúrat í miðju tekjudreifingarinnar.

2 Skilgreiningar á ýmsum lágtekjumælingum Eurostat má finna hér.

3 Bilið er fundið með því að draga miðgildi ráðstöfunartekna hópsins frá lágtekjumörkunum og deila niðurstöðunni svo með sömu mörkum og margfallda með 100. Bilið er því hlutfall af lágtekjumörkunum. 

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni