Ofurkjör tryggingarfélaganna
Þessa dagana birtast okkur okkur fréttir um margra milljarða arðgreiðslur til eigenda tryggingarfélaganna. Manni finnst þetta harla einkennilegt sakir þess að framsetning fulltrúa tryggingarfélaganna hefur undantekningalaust verið á þann veg að iðgjöld séu of lág sakir þess að útgjöld vegna skaða svo mikil. Nú er hins vegar komið í ljós að þetta var rangt mat hjá tryggingarfélögunum. Á þeim grunn væru það heiðarlegir viðskiptahættir og eðlilegt að skila of háum iðgjöldum til þeirra sem voru blekktir til greiða alltof há iðngjöld á röngum forsendum.
Og svo lesum við í fjölmiðlunum að afkoman sé svo góð að eðlilegt sé að hækka laun stjórnenda um tæp 50% að jafnaði eða um fjórfalt hámark sem sömu forstjórar undirrituðu í nýlegum SALEK samningum, þar sem jafnt á að ganga yfir alla.
En sumir eru jafnari en aðrir og Heiðar Guðjónsson fjárfestir og stjórnarformaður skýrir fyrir okkur í Fréttablaðinu í morgun : „Ef fólk skoðar hvað er á bak við þessa vinnu, hvers konar sérfræðikunnátta það er. Ef þeir ætluðu að fá ráðgjafa úti í bæ, lögfræðinga eða aðra sérfræðinga, til að sinna þessu, þá er ljóst að þessi stjórnarlaun sem eru í dag myndu ekki duga fyrir þessum reikningi.“ Þetta er reyndar klárlega bjálfalegustu ummæli dagsins. Það er hin vinnandi hönd sem skapar verðmætin, ekki tilfærslur á peningum og bókhaldsbrellur.
En við búum lokuðu hagkerfi þar sem sjónarmið fárra ráða. Þeir eiga auðlindirnar, bankana og tryggingarfélögin og stjórna íslensku hagkerfi með örgjaldmiðli. Við höfum ekki annað val en að velja á milli fjögurra tryggingarfélaga sem í skjóli einangrunar leika okkur svona grátt.
Eitt af grundvallarbaráttumálum verkalýðsfélaganna hefur verið allt frá því að þau voru stofnuð í upphafi síðustu aldar að koma á hér sambærilegu öryggisneti og hinum norrænu verkalýðsfögunum tókst að mynda á síðustu öld. Íslenskum launamönnum gekk mun verr að ná fram almannatryggingum og atvinnuleysistryggingarsjóð, enda stóðu þingmenn útgerðar og bænda sterka varðstöðu um að þessi atriði næðu ekki fram. Þeim tókst áratugum saman og svæfa mál í þingnefndum og nýttu síðan tímann til þess að halda því að þjóðinni í fjölmiðlum sínum að þessar kröfur myndu leggja atvinnulífið í rúst.
Það var t.d. ekki fyrr en 1956 sem frumvarp um atvinnuleysistryggingasjóð nær fram að ganga eftir blóðug verkföll launamanna, hálfri öld eftir að þetta mál náði fram að ganga í hinum Norðurlöndunum. Þingmenn útgerðar og bænda sögðu þessi sjóður væri til þess eins að draga úr viðleitni og hvata launamanna til þess að bjarga sér sjálfir og myndi stuðla að leti og ómennsku í landinu. Samskonar málflutningur hafði ávalt verið í sölum Alþingis þegar mál almannatrygginga og bótakerfis bar á góma.
Andstaða íslenskra ráðamanna gagnvart úrbótum á almenna tryggingarkerfinu varð til þess að íslensku stéttarfélögin lömdu í gegn með verkföllum samtryggingarkerfi í gegnum kjarasamninga með mun öflugara veikindadagakerfi, sjúkrasjóðum og lífeyrissjóðum en tíðkaðist annarsstaðar. Þar fór þetta í gegnum tryggingarstofnun og kallaði á hærri skatta. Það liggur fyrir að ef það bótakerfi og veikindadagakerfi sem íslenskir launamenn hafa byggt upp yrði lagt niður og það flutt yfir í almannatryggingakerfið þá myndu laun hækka, en um leið þyrfti að hækka skatta líklega nálægt 15%.
Norrænu systurfélögum okkar tókst á síðustu öld að byggja upp öflug tryggingarfélög þar sem félagsmenn stéttarfélaganna stóðu til boða umtalsverðir afslættir á iðgjöldum. Hagkvæmnin náðist upp með því að stórir hópar voru tryggðir og þar með hvarf kostnaður við auglýsingar og sölu á tryggingarpökkum. Rétt áhættudreifing náðist strax með fjöldanum, en hún er mjög óhagkvæm fyrstu árin, sakir þess að þeir fyrstu sem leita sér trygginga eru þeir sem eru í mesta áhættuhópnum.
Fyrirkomulag systurfélaga okkar á hinum norðurlöndunum er að viðkomandi stéttarfélag skila öllum iðgjöldum til tryggingarfélagsins í einni greiðslu. Þannig losnar tryggingarfélagið undan miklum innheimtukostnaði. Verkalýðshreyfingin á sjálf viðkomandi tryggingarpakka og hann er sniðin að þeim tryggingum sem viðkomanda félagsmenn hafa í kjarasamningum og með tillit til þeirrar tryggingar sem verkalýðsfélögin skapa félagsmönnum sínum í gegnum sjúkrasjóði. Allt þetta veldur umtalsvert minni áhættukostnaði hjá tryggingartakanum og ákaflega lágum iðgjöldum.
Hafni félagsmaður þátttöku í stéttarfélaginu hefur hann möguleika að viðhalda tryggingunni en hann verður þá sjálfur að standa undir öllu iðgjaldinu. Viðkomandi fellur þá úr hóptryggingu yfir í einstaklingstryggingu. Það leiðir til þess að heildariðgjaldið verður vel ríflega það sem viðkomandi greiðir í félagsgjald. Iðgjald einstaklings er um tvöfalt hærra en félagsmenn njóta.
Einhverra hluta vegna virtist ætíð vera takmarkaður áhugi á þessu máli en loks tókst árið 1997 að mynda samstöðu um stofnun undirbúningsfélags innan ASÍ. Hlutverk þess átti að kanna til hlítar hvort og þá hvaða tryggingarpökkum væri mögulegt að koma á hér á landi og hvað það myndi kosta. Við könnun kom í ljós að þessar tryggingar voru félagsmönnum íslensku verkalýðsfélagann ákaflega hagkvæmar. Iðgjöld okkar myndu verða u.þ.b. 1/3 af því sem við erum að að greiða hér á landi.
Árið 1998 er var ákveðið að gera tilraun til þess að fá íslensku verkalýðshreyfinguna til þess að sameinast um stofnun nýs tryggingarfélags, „Alþýðutryggingar.“ Leitað var tilboða hjá tryggingarfélögunum. Til að byrja með komu engin tilboð, en þegar eftir því var gengið komu loks eftir mikinn eftirgang tilboð frá tryggingarfélögunum, en þau voru ótrúlega lík. Skakkaði einhverjum hundrað köllum. Sum stéttarfélögin gerðu samninga við tryggingarfélögin, en svo fór að nánast hvert einasta tryggingarmál sem upp kom fór í illvígar deilur og endaði fyrir dómstólum með gríðarlegum kostnaði.
Allt í einu fór að bera á allskonar flugum og klisjum eins og t.d. að stéttarfélögin skyldu ekki ímynda sér að það gengi upp að starfsmenn tryggingarfélaga gætu verið félagsmenn stéttarfélaga sem berðust gegn íslenskum tryggingarfélögum og félögum tengdum þeim, væri það eitthvað gefið að þau gætu haldið sjúkrasjóðunum. Svo maður tali nú ekki um þegar allt fór á annan endann þegar farið varð að kanna var hvort hægt væri að kaupa þessa pakka frá hinum norðurlandanna og þessi mál enduðu með því að ákveðið var að leggja Alþýðutryggingar til hliðar.
Síðan hafa streymt yfir okkur árlega um stöðu tryggingarfélaganna. Við Hrunið kom í ljós að einhver fjölskylda hafði sólundað baktryggingarsjóðunum Er þetta ekki bara orðið ágætt? Er ekki komið nóg og eigum við ekki að opna möguleika á því að komast út úr hinu lokaða íslenska hagkerfi?
Athugasemdir