Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Nýja styttu við Stjórnarráðið

Nýja styttu við Stjórnarráðið

Það eru margir sem hafa velt fyrir sér hvers vegna það sé stytta af Kristjáni IX Danakonungi fyrir fram stjórnarráðið þar sem hann réttir fram stjórnarskránna og er mjög fúll á svipinn. Listamaðurinn er þarna greinilega að túlka hugsun valdastéttarinnar sem finnist algjör óþarfi að afhenda þjóðinni einhver mannréttindi.

Reyndar hefur það komið í ljós að Kristján afhenti Íslendingum ekki stjórnarskrána þegar hann kom í heimsókn til Íslands árið 1874. Hún kom ekki til landsins fyrr en árið 1904 og var send aftur utan árið 1928. Styttan er því sögufölsun. Kristján kóngur er nú búinn að standa þarna af sér marga hörkuvetur og skilað sinni plikt með því að halda að íslenskum almúga stjórnarskrá sem tryggir stöðu valdastéttarinnar.

Það voru margar þjóðir sem öfunduðu okkur Íslendinga þegar við fengum tækifæri til að kjósa um framtíðina með setningu nýrrar stjórnarskrár. Fréttin um kosningarnar fór víða og erlendir fjölmiðlar fögnuðu að á Íslandi væri samfélag þar sem lýðræði virkaði í alvöru en ekki kæft eða skrumskælt af þingmönnum og þeim hagsmunaöflum sem að baki þeim standa.

Margir erlendir fjölmiðlar sendu fréttamenn til Íslands til að fjalla um byltinguna sem íslensk alþýða framkallaði með friðsömum hætti árið 2009 með því að stilla sér upp fyrir framan Alþingishúsið og hrekja sitjandi ríkisstjórn frá völdum með grautarpottum og segja upp bankastjóranum sem hafði sett Seðlabankann á hausinn.

Þeir dáðust af þjóð sem valdi sér án afskipta stjórnmálaflokka 25 einstaklinga úr 530 frambjóðendum til þess að skrifa nýja stjórnarskrá. Þjóðin sem greip inn í spillta atburðarrás með því að setja stjórnmálamönnum og valdastéttinni nýjar leikreglur.

Íslenska alþýða varð fyrirmynd um víða veröld þar sem hún hafði komið í veg fyrir að valdastéttin og þingmenn hennar héldu áfram á sömu braut. Alþýðan hafði flett svo rækilega ofan af spillingunni, dugleysinu og svikunum að ekki yrði aftur snúið. Þjóðin fékk staðfestingu á réttmæti gjörða sinna þegar Rannsóknarskýrslan birti sín járnbundnu rök um þann fáránleika sem leitt hafði íslenska þjóð fram af björgunum.

Þar var rakið hvernig ekki bara efnahagskerfið hafði hrunið heldur hugmyndakerfið líka. Við blasti spillingin, misskiptingin, lygarnar og vanhæfnin. Ríkið sem átti að tryggja stöðu almennings lagði til hliðar samkennd og jöfnuð. Markaðshyggjan og græðgin réð þar för.

Hrunið var staðfesting á því að innri hugsun íslensks samfélags var verulega ábótavant. Í þjóðaratkvæðagreiðslu var samþykkt með 67 % kjósenda að Alþingi skyldi fara eftir tillögum stjórnlaganefndar um nýja stjórnarskrá. 82% vildu að náttúruauðlindir væru í eigu þjóðarinnar, 77% vildu auka persónukjör til Alþingis, 71% vildu auka beint lýðræði.

Niðurstaða var hins vegar andstæð þeim sérhagsmunum sem alþingismenn verja. Þeirra túlkun varð sú að þeir sem ekki mættu á kjörstað hefðu sagt nei og héldu áfram á sinni braut. Spillingin birtist í margföldu veldi þegar í ljós kom að valdastéttin hafði farið með þúsundir milljarða út úr hagkerfinu gefið sér að auki sérstaka auðlegðarafslátt.

Ég hef nýverið setið á fundum með erlendum prófessorum sem eru gáttaðir á því hvað hefði komið fyrir íslenska þjóð. Í morgun hafa verið hér heima hjá mér bandarískir prófessorar sem spurðu. Hvers vegna er nýja stjórnarkráin enn óstaðfest? Hverslags stjórnvald ríkir á Íslandi?

Það gæti vart staðist að íslensk stjórnmálastétt hefði komist upp með að leggja til hliðar stjórnarskrá sem hefði verið þýdd á erlendar tungur og farið víða um háskóla heimsins. Vakið þar eftirtekt fyrir hversu fagleg hún væri og notuð sem fyrirmynd í kennslu. En íslenskir stjórnmálamenn væru búnir að rústa því góða orðspori sem íslenskum almúga hefði tekist að skapa.

Einn þeirra sagðist staðið í þeirri trú þegar hann kom hingað í síðustu viku að við værum búinn að fella styttuna af danska kónginum sem varð svo súr á svipinn þegar hann þurfti að gefa eftir í sjálfstæðisbaráttu íslensks almúga.

Hann hélt að við hefðum reist nýja styttu á grunni hins glæsilega fordæmis sem íslenskur almúgi var öllum þjóðum heimsins með því að setjast niður og semja nýja stjórnarskrá þar sem valdastéttinni voru settar nýjar leikreglur. Á styttunni rétti brosandi almúgurinn fram nýja stjórnarskrá til íslenskrar stjórnmálastéttar, sem tæki við henni súr og skömmustuleg á svipinn.

Hvernig vegna létuð þið fara svona með ykkur?“ hef ég verið margspurður um helgina

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni