Næst tökum við Kerlingafjöll
Það var sumarið 1960 sem Valdimar Örnólfsson fékk lánaðan skála Ferðafélagsins í Kerlingafjöllum og bauð upp á skíðanámskeið inn á miðhálendinu. Þetta varð feikivinsælt um áratugaskeið og að föstum viðburði í mörgum fjölskyldum að fara inneftir eina viku á hverju sumri. Umsvif Valdimars og félaga jukust jafnt og þétt. Þeir byggðu nokkra fjallaskála sem féllu vel að svæðinu, nýttu jarðhitann fyrir heita potta og upphitun húsanna auk þess að reisa litla vatnsaflsstöð.
En tímarnir breyttust og fólk fór í auknum mæli að sækja í skíðaferðir erlendis og kynntist þar svæðum og brekkum sem varð til þess kröfur skíðafólks hækkuðu. Hitastig jarðar hefur einnig hækkað mikið og skíðabrekkurnar upp við Loðmund eru nánast horfnar. Vinsældir gönguferða hafa aukist. Kerlingafjöllin eru eins og allir vita með fegurstu svæðum þessa lands, enda hefur verið rætt um að vernda svæðið gagnvart raski og miklum framkvæmdum. Þrátt fyrir að Kerlingafjöllin bjóði upp á gríðarlega möguleika í orkuframleiðslu með jarðvarmaveitum.
Kerlingafjallasvæðið hefur ætíð verið vinsælt göngusvæði og undanfarin ár hefur verið gert átak í að merkja og lagfæra göngustígana sem hefur orðið til þess að aðsókn hefur aukist aftur. Það hefur legið fyrir að lagfæra og endurbyggja gömlu skálana, en þó þannig halda ætti hinum klassíska stíl og útliti íslenskra fjallaskála.
Síðasta sumar voru hins vegar fluttar inneftir, án þess það væri opinbert, nokkrar hótelherbergiseiningar og þeim raðað upp. Þessar einingar eru ekki ósvipaðar vinnuskálaeiningum (gámunum) sem settar hafa verið upp við virkjanir. Í framhaldi af því er allt í einu búið að teikna upp hótel með 120 samskonar einingum og 342 gistirýmum.
Teikningin sýnir risastóran svartan ferkantaðan kassa utan um herbergiseiningarnar inn í hinum hlýlega litla dal þar sem tjaldsvæðið var. Og nú er hrópað, engin gerði aths. og það er þeim að kenna að þessi staða er kominn upp. Við erum búnir verja gríðarlegum fjármunum í fjárfestingar á svæðinu og munum ekki láta stöðva okkur.
Í Fréttablaðinu er í dag kemur síðan fram opinber starfsmaður frá Orkustofnun og stillir upp kostulegri stöðu. Reyndar hefur Orkustofnun sýnt sig upp á síðkastið að vera orðinn einn helsti málsvari helfararinnar gegn íslenskri náttúru og einn harðasti andstæðingur Rammaáætlunar.
Orkustofnun bendir réttilega á að svona stórt hótel ásamt stóru tjaldsvæði til viðbótar þeim starfsmönnum sem svæðið kallar á myndi samsvara allt að 1000 manna þorpi. Orkustofnun segir að hér mætti koma í veg fyrir það umhverfisslys að reist verði stór olíurafstöð fyrir svæðið með því að leggja þangað mjög dýran rafstreng. En því fylgdi vitanlega gríðarlegur kostnaður sem mætti hins vegar bjarga að tillögu Orkustofnunar með því að rjúfa samþykkta verndun Kerlingafjalla og reisa stóra og glæsilega jarðvarmavirkjun á svæðinu og þá um leið gróðurhús og fiskeldisstöð.
Þetta er svo fyrirsjáanleg vinnubrögð Orkustofnunar, Landsvirkjunar og formanns atvinnuveganefndar Alþingis. Fyrst tökum við Eldvörpin og svo tökum við Kerlingafjöllin, heitir það í söngtextanum hans Leonard Cohen.
Athugasemdir