Þetta er ógeðslegt þjóðfélag
Hr. Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands ferðaðist um heimsbyggðina í einkaþotum fjárglæframanna ásamt ráðherrum og mönnum úr viðskiptalífinu árin fyrir Hrunið í október 2008. Þar hrósaði hann íslensku útrásarvíkingunum fyrir áræðni þeirra. "Þann dug og kjark sem einkenndi hina íslensku þjóðarsál og gerði Íslendinga svo sérstaka og stæðu framar öðrum þjóðum."
„How to succeed in modern business. Lessons from the icelandic voyage“ hét kennsluræða forseta Íslands. "Íslenskt efnahagslíf væri einstakt Afrek á heimsmælikvarða. Sönnun á hæfileikum íslenskra athafnamanna. „You ain’t seen nothing yet."
Í fyrirlestrunum var meðal annars sagt „Íslensku fyrirtækin sem leitt hafa útrásina á undanförnum árum byggja öll meira eða minna á þeim kostum og einkennum sem við teljum okkur hafa sem þjóð í augum útlendinga. Við erum lítil þjóð, vel tengd innbyrðis, erum fljót að átta okkur á stöðu mála, erum hugmyndarík, tökum ákvarðanir strax og lærum fljótt og örugglega af reynslunni.
Við stefnum að því að gera Ísland að samkeppnishæfasta landi í heimi með því að aflétta íþyngjandi regluverki sem hefur hvílt á viðskiptalífinu. Íslendingar láta þannig vinda viðskiptafrelsis leika um sem flest svið hagkerfisins. Því meira frelsi, þeim mun meira svigrúm hefur viðskiptalífið til að vaxa og dafna. Ísland mun hætta að bera sig saman við Norðurlöndin enda stendur Ísland þeim framar á flestum sviðum. Ísland mun bera sig saman við þau ríki sem standa hvað fremst á hverju sviði fyrir sig.“
Hvað hefur gerst? Hvar stöndum við?
Undanfarin misseri hefur forseti Íslands ásamt ráðherrum núverandi ríkisstjórnar endurtekið leikinn og farið víða um heimsbyggðina og lofsungið eigin afrek. Enda valdi hann einhendis núverandi forsætisráðherra. Og þeir sögðu frá hinu einstaka afreki þar sem við íslendingar hefðum rifið okkur upp út úr spillingunni með búsáhaldabyltingunni og nýrri stjórnarskrá sem þjóðin sjálf samdi.
Einnig má spyrja hversu oft hafa Ólafur Ragnar og Sigmundur Davíð sagt undanfarin misseri : Engin þjóð hefur rifið sig upp á jafnskömmum tíma. Íslendingar hafa unnið einstakt efnahagsafrek sem varð mögulegt vegna mikillar samheldni lítillar þjóðar með sinn eigin gjaldmiðil. Langsterkasta gjaldmiðil heimsins.
En svo eru menn að stinga undan ofurhagkerfi hinnar íslensku krónu svimandi upphæðum í skjól á aflandseyjum til þess að koma sér hjá reglubundnum gengisfellingum krónunnar. Frá þeim tíma sem þessir reikningar voru stofnaðir fyrir hrun hefur krónan fallið um 72%
Í Rannsóknarskýrslu Alþingis, sem kom út árið 2010. (Ríkisstjórnin hefur reyndar hent henni út í horn) Þar stendur ma. : Viðhorf meginþorra atvinnulífsins í viðskiptaháttum í aðdraganda hrunsins birtist í því þar voru framin alvarleg lögbrot og viðhafðir afleitir viðskiptahættir sem kostuðu gríðarlega fjármuni og þjáningu.
Stórkostleg markaðsmisnotkun átti sér stað. Ofurtrúin á markaðshagkerfið og hið frjálsa framtak beið hnekki. Þær efnahagslegu hremmingar sem þjóðin gekk í gegnum voru svo gríðarlegar að þær munu lifa í huga fólks um ókomin ár og væntanlega langt þar reiðin rennur af fólk sem missti aleigu sína.
Styrmir Gunnarsson fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins sagði í viðtali við RNA „Ég er búinn að fylgjast með þessu þjóðfélagi í 50 ár. Þetta er ógeðslegt þjóðfélag, þetta er allt ógeðslegt. Það eru engin prinsipp, það eru engar hugsjónir, það er ekki neitt. Það er bara tækifærismennska, valdabarátta.“
Páll Skúlason heitin fyrrv. háskólarektor sagði eftir hrunið : „Það er ríkið sem hefur brugðist. Það er Ríkið sem á að setja leikreglur sem tryggja stöðu almennings. Ríkið hefur brugðist, þar á bæ hefur ekki verið tekið tillit til ábendinga um hvert stefni og því er Ísland í þessari stöðu.
Það eru stjórnvöld sem setja lögin og þau hafa lagt til hliðar samkennd og jöfnuð, en látið markaðshyggjuna ráða för. Með því hafa þau ákveðið að viðhalda því ástandi sem tryggir áframhald óstöðugleikans. Sú stefna sem fylgt hefur verið við mótun þjóðfélagsins undanfarið hefur leitt til þess að rökvísi efnahagslífsins hefur yfirtekið stjórnmálalífið.“
Þetta á nákvæmlega jafnmikið við í dag. Það var niðurlút þjóð sem gekk til sængur í gærkvöldi en ætlar á útifund í dag. Kl. 17:00.
Athugasemdir