Þessi færsla er meira en 6 ára gömul.

Er VR að hrynja?

Er VR að hrynja?

Samtök launamanna á almennum vinnumarkaði hafa verið ofarlega í umræðunni undanfarið og er mjög góð tilbreytni. Efnistök og áherslur fjölmiðla hafa hins vegar oft verið einkennileg, allavega að mati þeirra sem þekkja til starfshátta verkalýðshreyfingarinnar, sem eiga hver um sig langan aðdraganda og ákveðnar forsendur liggja þar að baki. Í flestum tilfellum með tilliti til deilna sem hafa risið og hvernig jafna megi stöðu lítilla aðildarfélaga gagnvart hinna risastóru.

Nýlega var kosið innan forystu ASÍ um hvort segja ætti upp núgildandi kjarasamningum. Samkvæmt vinnureglum var haft samband við formenn allra aðildarfélaga ASÍ og þeim falið að kanna hver um sig stöðuna í sínu baklandi og koma svo til fundar þar sem kosið yrði um málið. Í ljós kom að meirihluti formanna mættu til fundarins með skilaboð frá sínum félagsmönnum um að það ætti ekki að fella samningana.

Þar var einkennandi að það voru formenn verkalýðsfélaganna utan höfuðborgasvæðisins sem vildu ekki fella samningana. „Við erum ekki að fórna samning þar sem lægstu launataxtar munu hækka í 300 þús. eftir rúman mánuð. Okkar fólk er ekki á leið í verkföll sem jafnvel stendur yfir hábjargræðistímann.“

Formenn aðildarfélaga höfuðborgarsvæðisins ásamt forseta ASÍ urðu þannig undir í kosningunni. En þá er ráðist verklýðshreyfinguna, þrátt fyrir að það liggi fyrir að það eru síðustu ríkisstjórnir sem hafa með inngripum sínum eyðilagt markmið kjarasamninganna með því að hrifsa til ríkissjóðs öllum sérstökum hækkunum lægstu launa í gegnum breytingar á vaxta- og barnabótakerfinu og fleiru.

Hvað gerist í haust innan ASÍ er spurt. Undirbúningur um endurnýjun kjarasamninga er að hefjast hjá aðildarfélögum ASÍ og það liggur fyrir mikil óánægja í öllum hópunum. Við gerð núverandi kjarasamning náðist samkomulag um samflot með það að markmiði hækka sérstaklega lægstu laun. Það tókst að semja um sérstaka hækkun lágmarkstaxta eða um 31,1% á samningstímanum.

Forsenda þessarar niðurstöðu var samflotið. Þeas að iðnaðarmannasamfélagið ásamt fleiri hópum sem voru á hærri töxtunum gáfu eftir í sínum kröfum og sættu sig við minni launahækkanir.

Það ríkti sannarlega ekki mikil ánægja meðal félagsmanna í þessum hópum, en þeir sitja nú daglega undir hótunum í fjölmiðlum um að ASÍ verði splundrað sætti þeir sig ekki við áframhaldandi samflot og einhliða yfirráð tiltekinna sjónarmiða.

Það er engin launung, ef maður lítur inn á kaffistofur félagsmanna úr iðnaðarmannasamfélaginu, að þeir munu fagna því að fá að fara inn í næstu samninga án múlbindingar við aðra hópa innan ASÍ. Sama á við um tiltekna hópa innan VR og annarra stéttarfélaga. Altalað er að félagsmenn streymi þessa dagana úr VR yfir í gulu stéttarfélögin svonefndu.

Þetta er sama atburðarás og átti sér stað innan norrænu verkalýðshreyfingarinnar, sérstaklega í Danmörk, undanfarinn áratug. Þar fóru þúsundir félagsmanna danska VR og Starfsgreinasambandsins fór yfir í gulu félögin. Norræna iðnaðarmannasamfélagið hefur hins vegar á sama tíma fyllilega haldið sinni félagsmannatölu.

Það að halda því fram að formenn VR og Eflingar ráði því hvernig allir fulltrúar Landsambands verslunarmanna og Starfsgreinasambandsins kjósa á fundum innan ASÍ, er fullkomin fjarstæða. Ég tala nú ekki um ef fulltrúum annarra aðildarfélaga ASÍ verði gert að sitja undir einhverjum hótunum. Þar má t.d. benda á niðurstöður kosningarinnar sem rakin er hér nokkrum línum ofar. Því sem haldið er fram í fjölmiðlum hefur aldrei gerst í 102 ára sögu ASÍ, aldrei.

Formaður verkalýðsfélags ræður ekki öllu sem fram fer í félaginu, sérstaklega þeir sem ekki fara inn á listakosningu eins og t.d. í VR. Formenn sem eru þannig kjörnir geta, og hafa reyndar, lent í fullkominni andstöðu við stjórn félagsins.

Þarna er t.d. gríðarlegur munur á stöðu formanns Eflingar sem fór inn á listakosningu og er með stjórn sem hún setti saman í samvinnu við sína stuðningsmenn. Hún er í mjög öruggri stöðu og hefur auk þess sýnt í málflutningi sínum að hún hefur alla burði til þess að geta náð mjög langt innan verkalýðshreyfingarinnar.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni