Eiga launamenn einir að verja stöðugleika efsta lagsins?
Efsta lag íslensks samfélags hefur undanfarið nýtt sér stöðu sína til þess að ótrúlegrar skammlausrar sjálftöku. Æðstu embættismenn ásamt þingheim hafa skammtað sér tugprósenta launahækkunum og borið fyrir sig kjararáði sem sömu aðilar skipuðu. Þingmenn hækkuðu laun sín um 44,3% og síðar nefndarmönnum kjararáðs um sömu upphæð.
Í framhaldi af því var tekin pólitísk ákvörðun um hækka laun forstjóra ríkisfyrirtækja um 20-32% á tekjur sem voru um og yfir 1.5 millj. kr. Hækkun sem nam um og yfir 400 þús. kr. á mánuði. Þessir sömu menn mættu síðan í fjölmiðla og hvöttu eigin starfsmenn að sýna ábyrgð í komandi kjarasamningum.
Á síðasta kjarasamningstímabili höfðu stjórnmálamenn hins vegar tekið ákvörðun um að minnka kaupmátt þeirra sem voru á lægstu töxtum með því að breyta vaxta- og barnabótakerfinu. Það hefur orðið til þess að fjölskyldum sem fá barnabætur hefur fækkað á undanförnum áratug vel á annan tug þúsunda. Skattbyrði tekjulægstu hópanna hefur aukist mest allra hópa frá 1998. Þetta kemur glögglega fram í bók Stefán Ólafssonar og Arnalds Sölva Kristjánsson um Ójöfnuð hér á landi.
Þingmenn og ráðherra hafa lýst því yfir að þeir ætli sér að halda áfram á þessari braut og ætla sér að lækka neðra þrep tekjuskatts um 1%. Það mun rýra tekjur ríkissjóðs um 14 milljarða króna og fyrir liggur að 2/3 þessara milljarða munu renna til þeirra sem eru með milljón eða meira í laun, þeas til þingmanna og efsta lagsins.
Stjórnvöld ákváðu eftir Hrunið, sem þau höfðu sjálf skapað, að greiða úr ríkissjóði svokallaða „Leiðréttingu“ sem kostaði ríkissjóð 72,2 milljarða. Þingmenn héldu uppteknum hætti og komu málum þannig fyrir að þeir sem væru með sambærileg laun og þeir eða hærri fengu tæp 90% af þessari gjöf úr ríkissjóð. Það hefur lítil sem engin leiðrétting borist þeirra tekjulægstu fjölskyldnanna.
Á sama tíma hefur fasteignaverð tvöfaldast og hefur leitt til þess hratt vaxandi hópur býr í foreldrahúsum. Stærsti vandi láglaunahópsins, sem er að stærsta leiti myndaður af ungum fjölskyldum, er koma þaki yfir höfuðið. Hvort sem það er að fá leiguhúsnæði eða festa kaup á húsnæði. Þessi hópur þarf að verja að lámarki helming tekna sinna í húsaleigu og getur augljóslega ekki lagt fyrir til húsnæðiskaupa.
Þingmenn og ráðherrar ásamt efsta laginu eru sjálfum sér samkvæm og senda landsmönnum reglulega tóninn og hvetja launamenn til þess að sýna ábyrgð og raska ekki þeim stöðugleika sem þeir hafi skapað hér á landi. Launamönnum er hótað öllu illu verði settar fram óábyrgar launakröfur og því kerfi raskað sem þeir hafi komið á hér á landi. Kerfi fyrir hina fáu á kostnað hinna mörgu.
Verkalýðsforystan stóð í þeirri trú við gerð síðustu samninga með stóru samfloti og þar sem stjórnvöld komu að borðinu, að nú yrðu tekinn upp önnur vinnubrögð og ýtt til hliðar höfrungahlaupinu og kollsteypu stefnunni. Sem birtist t.d. í því að hér á landi hafa verkalýðsfélögin orðið reglulega að semja um margfaldar launahækkanir sé litið þess sem um var samið í nágrannalöndum okkar. Þingmenn og ráðherrar hafa hins vegar ekki staðið neitt að þessu samkomulagi og farið fram með aukinni hörku gegn þeim sem minnst mega sín.
Íslenskir stjórnmálamenn hafa með þessu fjarlægt Ísland frá hinum Norðurlöndunum og komið málum þannig fyrir að fámennur hlutur þjóðarinnar hefur aðgengi að tækifærum, upplýsingum og þá um leið eignum samfélagsins.
Það er einungis ein leið úr þessum vanda, hún er sú að þingheimur og efsta lagið dragi til baka sjálftökuna og hundruð þúsunda króna launahækkanir. Skapa þarf svigrúm til þess að færa vaxta- og barnabótakerfið í fyrra horf. Lagfæra þarf innviði samfélagsins sem hafa laskast mikið undir þessari efnahagstefnu á undanförnu.
Þetta verður ekki gert nema að greitt sé eðlilegt gjald fyrir aðgang að sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar og skattkerfið lagfært. Sú efnahagsstefna sem þingheimur hefur markað hefur valdið gríðarlegum skaða á íslensku samfélagi.
Athugasemdir