Bjarni Benediktsson svíkur eldri borgara
Bjarni Benediktsson fer mikinn þessa dagana enda styttist í kosningar. Hann ásakar fjölmiðlamenn og pistlahöfunda um falsanir og það sé ekkert að marka það sem þeir birti, það sé þvættingur. Bjarni er upp við vegg í mörgum málum er í hverju málinu á fætur öðru staðinn að ósannindum. Hans viðbrögð eru að skamma fjölmiðlamenn og pistlahöfunda þegar þeir sýna fram að óheilindi hans. Hér verður farið yfir eitt af mörgum málum Bjarna.
Eldri borgarar eru ákaflega ósáttir við óheilindi Bjarna. Hann sendi eldri borgurum bréf í síðustu kosningabaráttu þar sem hann lofaði að afnema tekjutengingar í tryggingarkerfinu og rjúfa þá fátæktargildru sem stjórnvöld hefðu búið lífeyrisþegum og öryrkjum. Bjarni sagði þar að þetta fyrirkomulag væri ákaflega ósanngjarnt og vinnuletjandi. Þetta væri í fullkominni mótsögn við þá stefnu sem nú væri uppi þeas þar sem eldra fólk væri hvatt til þess að lengja vinnualdurinn og auka þannig þjóðartekjurnar.
Bjarni hefur hins vegar ekki staðið við neitt af því sem í bréfinu stóð og við lífeyrisþegar erum enn í þessari gildru. Bjarni setur enn í dag á okkur 100% jaðarskatt ef við vogum okkur út á vinnumarkaðinn. Undirritaður getur staðfest þetta, ég hef farið út vinnumarkaðinn og orðið að greiða þegar upp er staðið að jafnaði um 80% skatt af þeim tekjum sem ég aflaði.
Ég skil það vel að Bjarni missi alltaf stjórn á sér í viðtölum og á Alþingi þegar hann er spurður út í þessi mál, því vinnubrögð hans hvað þetta varðar eru svo ómerkileg. Þetta kerfi tíðkast hvergi á Norðurlöndunum sakir þess að það er svo ósanngjarnt. Bjarni notar þekkta aðferð þegar hann reynir að klóra yfir svik sín og segir að hann hefði í upphafi núverandi kjörtímabils hætt að telja greiðslur úr lífeyrissjóðum með tekjum við útreikning grunnlífeyris. Bjarni virðist halda að hann geti blekkt almenning og kjósendur með því að tala hratt og hátt í ræðupúlti Alþingis og í viðtölum. Slegið ryki í augu almennings með fullyrðingum um að hann hafi afnumið allar tekjutengingar lífeyris eldri borgara í kerfi TR.
Það eina sem Bjarni hefur gert er að hætta að reikna greiðslur úr lífeyrissjóðum með tekjum við útreikning grunnlífeyris. Hið sanna er að tekjutengingin er enn í fullu gildi á öllum öðrum sviðum eins og tekjutryggingar og heimilisuppbótar við útreikning lífeyris og hún tekur líka til atvinnutekna og fjármagnstekna við útreikning lífeyris TR.
Það er máflutningur á afskaplega lágu plani. Fjármálaráðherra sem reynir að blekkja fullorðið fólk sem á margt hvert í miklum vanda við að ná endum saman. Hann setur sjálfan sig á afskaplega lágt plan með því að halda því fram að hann sé búinn að efna loforð um afnám tekjutenginga. Hið rétta er að Bjarni hefur aðeins efnt 5-10% af loforði sínu um afnám tekjutenginga. Þar til viðbótar ætlar hann í frumvarpi til almannatrygginga að kippa til baka þessu lítilræði sem hann efndi.
Athugasemdir