Spilaborg: Einveldi ráðherra og íslensku bankarnir
Prelúdían sem sönglaði innan ríkisapparatsins fyrir hrun er byrjuð aftur að óma. Voðalega veikt reyndar, en þó heyrist hver einasta nóta skýrt og greinilega. Fiðlustefið hans Neró virðist vera spilað í sífellu frá ráðuneytum silfurskeiðastjórnarinnar.
Fjármálaráðherra hefur lagt fram frumvarp þess efnis að einkavæða bankanna á ný. Það er keimlíkt því frumvarpi sem var samþykkt þegar ný þúsöld gekk í garð. Það virðist því ekki vera mikill vilji til þess að læra af reynslunni hjá stjórnarflokkum vorum, frekar en fyrri daginn.
Einkavæðing bankanna hin fyrri
Mistök í aðdraganda einkavæðingu bankanna við upphaf 21. aldarinnar voru reifuð í fyrsta bindi Rannsóknarskýrslu Alþingis. Þar er útskýrt í megindráttum hvernig hver feilnótan á fætur annarri var slegin í hörpuspili ríkisstjórnarinnar í aðdraganda einkavæðingar bankanna.
Frumvarp var smíðað í viðskiptaráðaneytinu og lagt fram fyrir þingið á árunum 2000-2001. Það var samþykkt í maímánuði með 35 atkvæðum af 63, þ.e. einróma af þingmeirihlutanum. Minnihlutinn sat ýmist hjá eða greiddi atkvæði á móti. Engar breytingartillögur minnihlutans voru samþykktar, en þingnefndin klofnaði þrívegis í áliti sínu á þessu stjórnarfrumvarpi; minnihlutinn vildi ýmist ekki selja bankana yfir höfuð (VG) eða setti alvarlegar athugasemdir við útfærsluna -- eða kannski skort á henni (samfylkingin). (RA, 1. bindi, bls. 234-5)
Frumvarpið um einkavæðingu bankanna tók því alla heimild frá þinginu til þess að ákvarða frekar hvernig skyldi fram gengið við einkavæðinguna. Þannig gat ráðherra einn ákveðið:
- Hvort ætti að selja einn eða tvo banka
- Hversu stórir hlutir skyldu seldir -
- Verð
- Kröfur um skilmála
- Hvort heimilt væri að binda kaupendur skilyrðum um stærð keyptra hluta.
- Tímasetningu sölunnar
- Fyrirkomulag sölunnar
Þannig gaf Alþingi ríkisstjórninni fullt vald - einkavald - til þess að einkavæða bankana. Valgerður Sverrisdóttir, þáverandi viðskiptaráðherra sagði að "framkvæmdavaldið var náttúrlega mjög dómerandi í þinginu á þeim tíma". (RA 1, bls. 235) Þegar Davíð Oddsson var spurður í skýrslutöku Rannsókanrnefndar Alþingis þá svaraði hann:
[Þ]að er bara meirihlutaákvörðun um það að fara þessa leið, en, og það má auðvitað segja að framkvæmdavaldinu sé þá, hafi verið veitt rúmar heimildir til að meta það og kannski var það nú svo að á þessum tíma þá höfðu menn ekki mótað sér hugmyndir um það með hvaða hætti þetta mundi fara fram. (RA 1, bls. 235)
Davíð Oddsson réttlætir þessa framferð framkvæmdavaldsins því með því að þingið hafi gefið grænt ljós, þingið sem hann var með í taumhaldi, þingið þar sem hans flokkur og Framsóknarflokkur skipuðu meirihluta. Þessir flokkar hverra menn hvorki hafa brjóstvit né hugrekki til þess að standa fyrir siðferði heldur fylgja leiðtogunum út í rauðan dauðann, að þetta þing hafi samþykkt þetta frumvarp. Það er léleg afsökun. Þetta fólk vissi nákvæmlega hvað það var að gera: Með því að hafa ekki of nákvæmar heimildir í frumvarpinu sem var samþykkt í maímánuði 2001 var verið að draga valdið frá þinginu til ráðherra.
Þetta er enn ein ástæðan fyrir því að við verðum og þurfum að aðskilja framkvæmdavaldið og þingvaldið -- það hefur þæfst svo mikið saman að það er orðið eitt og hið sama og ekki er hægt að ná neinum vitrænum breytingum fram. Það að skýla sér á bak við að þetta hafi í reynd verið ákvörðun þingsins að fara svona fram í málinu var óspart notað - þótt það hafi í rauninni verið yfirborðskennd ákvarðanataka. Það er það sem hæstvirtur Fjármálaráðherra hefur í hug að beita núna.
Veikburða ákvörðunarvald og stefnumörkunarvald Alþingis var eitt af veigamestu atriðunum sem fór úrskeiðis við einkavæðingu bankanna 2001. Með því að gefa ráðamönnum algjöra heimild til þess að einkavæða bankanna var komið valdaójafnvægi. Davíð Oddsson vissi nákvæmlega hvað hann var að gera og skildi alveg hvaða ójafnvægi þettaa skapaði og þetta ójafnvægi vill Bjarni Ben búa til aftur.
Í upphafi ferlisins mörkuðu stjórnvöld sér ferla og hugmyndir um hvernig einkavæðingin ætti að fara fram. Þessir ferlar höfðu og hafa ekkert lagalegt gildi. Það þýðir að þegar framkvæmdavaldið tók þá ákvörðun að selja bankana til aðila sem höfðu takmarkaða reynslu á fjármálastarfsemi, þá voru engin viðurlög við því. Það var ríkisstjórnarinnar að ákveða þetta, það var ríkisstjórnarinnar að ákveða allt. Ríkisstjórnin var gott sem einvöld þegar það kom að einkavæðingunni hinni fyrri og veikburða Alþingi gerði það að verkum að ráðherra gat gott sem valsað um eftir sínum takti, og ekkert gat Alþingi gert, nema eins og Davíð segir, að spurja ráðherra spurninga.
Einkavæðing bankanna hin síðari
Leikslok einkavæðingarinnar hinnar fyrri voru dramatísk. Guð þurfti að blessa Ísland, það varð kreppa, atgervisflótti og ömurlegheit. Bankarnir voru þjóðnýttir, fóru á hausinn, þið þekkið söguna. Nú virðist önnur stund vera runnin upp og farið er að huga að einkavæðingu bankanna að nýju. Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, hefur lagt fram frumvarp um einkavæðingu bankanna að nýju. Það rímar við það sem var samþykkt var fyrst árið 2001.
Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að ráðherra hafi fullt umboð til þess að búa til "eigendastefnu" sem útlistar því hvernig fyrirtækinu skyldi stjórnað. Væri ekki eðlilegra að það færi í gegnum Alþingi þar sem ríkisfyrirtæki eru ekki einvörðungu í eigu ríkisstjórnarinnar heldur, þið vitið, allrar þjóðarinnar?
Þegar það víkur að söluferlinu segir: "Ráðherra er heimilt að selja að öllu leyti eða að hluta eftirtalda eignarhluti ríkisins í fjármálafyrirtækjum, að fenginni heimild í fjárlögum" (7 gr.).
Enn fremur er sagt að "Ráðherra get[i] að eigin frumkvæði, eða að fenginni tillögu ráðgjafarnefndar, tekið ákvörðun um að hefja sölumeðferð einstakra eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum skv. 1. mgr. 7. gr." (8. gr)
Og að "Ráðherra [taki] ákvörðun um hvort tilboð skuli samþykkt eða þeim hafnað og undirritar samninga fyrir hönd ríkisins um sölu eignarhlutarins." (Þingskjal 1179 — 705. mál., 10gr.).
Ráðherra hefur því víðtækar valdheimildir til þess að:
- Hefja söluferlið
- Selja bankana
- Samþykkja eða hafna tilboði
- Ákveða verð
- Velja kaupendur
- Ákveða skilmála
- Ákveða hversu stór hluti skuli seldir
- Tímasetning sölunnar
Í þessu ferli þarf hann að leita álits hjá ýmsum og "[þ]egar ákvörðun er tekin um undirbúning og framkvæmd sölu eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum skal áhersla lögð á opið söluferli, gagnsæi, hlutlægni og hagkvæmni." (9 gr.) Eins og þetta hljómar nú fallega, opið og gagnsætt allt saman þá hefur þessi klausa nákvæmlega ekkert lagalegt gildi. Skal áhersla lögð á? Hvaða lagalegu merkingu hefur það? Núll.
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, hefur síðasta orðið þegar það kemur að einkavæðingunni. Hann er að gefa sér og sínum frjálsar hendur til þess að einkavæða bankana að nýju. Með sömu aðferðum, jafnvel betri aðferðum heldur en síðast til þess að tryggja valdið í sínum höndum í skjóli sérsmíðaðra laga sem hans fylgismenn munu samþykkja einróma.
Spilaborg
Þetta fólk veit alveg nákvæmlega hvað það er að gera. Þetta frumvarp er skrifað af fólki sem hefur mikla innsýn inn í hvernig real-pólitík á Íslandi virkar. Þetta frumvarp er skrifað með það að markmiði að hægt sé að einkavæða bankana hratt og örugglega -- að mati ráðherra. Enn eitt sem Rannsóknarskýrsla Alþingis benti glögglega á að hefði verið feigðarrós bankanna - að einkavæða hratt vegna þess það þótti pólitískt mikilvægt að ljúka sölunni fyrir 2003 -- fyrir lok kjörtímabilsins. (RA 1, bls. 262, 302).
Pólitísk ákvörðun um að einkavæða bankana varð til þess að eigendur bankanna voru gott sem pólitískt valdir til þess að gegna eignarhaldi á bönkunum. Það var pólitísk ákvörðun að hefja útboð 2002 og 2003 -- eftir að Björgólfsfeðgarnir höfðu samband við ráðuneytið. Það var óhagstætt efnahagsástand til þess að selja banka samkvæmt niðurstöðum Rannsóknarskýrslunnar og ráðamenn fóru á skjön við fyrirfram gefnar forsendur um hverjir væru hæfir til þess að eiga og reka banka, vegna þess að það var pólitískt mikilvægt að gera þetta sem fyrst. Ísland varð að verða eins og önnur lönd - sem fyrst - með einkavædda bankastarfsemi. (RA 1, bls. 262).
Pólitískt ákvarðanaferli varð til þess að bankarnir lentu í höndum manna sem voru ekki hæfir til þess að gegna þessari stöðu. (bls. 244)
Þetta gerðist fyrst og fremst vegna þess að eftirlitshlutverk Alþingis hafði verið skert. Þetta gerðist vegna þess að Alþingi samþykkti orðrétt lög ráðamanna sem gáfu ráðherra rúmar heimildir til þess að ákveða allt milli himins og jarðar í einkavæðingunni hinni fyrri.
Þegar litið er á nýja frumvarpið hans Bjarna Ben þá sést draugur fyrri einkavæðingarinnar skína skýrt í gegn. Frumvarpið veitir honum heimildir til þess að selja bankana, ákveða verð, ákveða hver fær að kaupa, ákveða skilmála, reglur, fyrirvara og allt milli himins og jarðar.
Frumvarpið gefur ráðherranum einkavald til þess að ákvarða hvernig einkavæðingin skuli eiga sér stað, hvenær hún eigi að eiga sér stað og hverjir fá að taka þátt, en umfram allt þá tekur það ákvarðanavald og stefnumótunarvald frá Alþingi.
Þetta, góðir lesendur, er uppskrift að öðru hruni.
Athugasemdir