Þægileg þjóðarmorð
Yerevan, höfuðborg Armeníu, er byggð úr bleikum steini, sem gefur borginni ljósrautt yfirbragð og verður hún blóðrauð í sólarlaginu; mjúk en mikilfengleg Ararat drottnar yfir borginni handan landamæranna - í Tyrklandi.
Á hverju götuhorni og við hvert torg í Yerevan eru vatnsbrunnar þar sem vegfarendur geta notið ískalds vatns á sumrin, langt fram á vetur.
Brunnarnir í borginni bleiku eru til minningar um alla þá sem fórust í þjóðarmorðum á Armenum sem fóru fram árið 1915, af Ottómönum. Hvort sem þessir tilteknu Ottómanar voru Tyrkir, Kúrdar, eða eithvað annað verður látið liggja á milli hluta. Það skiptir ekki mestu máli í dag.
Þessir brunnar eru til þess gerðir að aldrei muni nokkur Armeni deyja úr þorsta svo lengi sem vatn renni um Armeníu. Þessir brunnar eru byggðir til þess að minnast allra þeirra þúsunda sem dóu úr þorsta þegar þeir voru leiddir inn í Sýrlensku eyðimörkina um hásumar til þess eins að fría land fyrir aðra.
Armenía hefur ávallt verið sem vin í eyðimörk -- fyrsta kristna landið í heiminum, en það hefur haldið í trú sína þrátt fyrir að hafa verið umlukin Islam svo öldum skipti. Konungsveldi af gamla skólanum, þetta sem við hugsum þegar við lesum um the riddara hringborðsins, var land sem átti sinn hlut í Silkileiðinni. Á tuttugustu öldinni var Armenía einskonar fyrirmyndarríki fyrir Sovétríkin í ræktun og skipulagningu.
Tár, tær, trú
Leið mín lá um landið síðsumars 2013, á för minni frá Íran. Við mér tóku hlykkjóttir vegir, grænt landslagið iðaði af lífi í hitanum og þegar inn í Yerevan var komið: rafmagnslínur, skökk hús og nýir bílar. Eins og gengur og gerist á ferðalögum mínum fann ég mér fólk til að blanda geði við, vinahóp sem hafði nýlega flutt til Yerevan. Þau tóku á móti mér með brosi og faðmlagi; þau voru nýflutt frá Aleppo, Sýrlandi. Þau voru Armenir sem höfðu búið í þrjár kynslóðir í Sýrlandi, höfðu búið í armensku hverfi, gengu í armenskan skóla, töluðu armensku að móðurmáli.
Kvöldið sem við snæddum saman hófust árásir inn í kristna hverfið í Aleppo.
Þetta kvöld sátum við saman, ég frá Íslandi, fjögur frá Aleppo og einn frá Kanada, og við hlógum. Þau vissu ekki hvort að fjölskyldur þeirra væru lífs eða liðnar. Við drukkum, við dönsuðum, töluðum um lífið og tilveruna.
Við löbbuðum um Yerevan á tánum og tókum mynd af þeim saman. Við vorum svo lík, og það sást best á tánum okkar, sem voru allar eins en samt svo mismunandi, jafnvel á sama fæti.
Að sitja á sumbli með sýrlenskum flóttamönnum gerði heiminn í því svo fáránlegan. Vegabréf urðu tilgangslaus, þar sem þau segja ekkert til um húmor, tár eða tær.
Armenía hefur á undanförnum árum veitt þúsundum flóttamanna frá Sýrlandi sem koma af armenskum uppruna landvistarleyf og vegabréf. Þetta litla land hefur gefið þeim skjól, skólavist og skilríki. Að því sem ég best veit þá hefur það ekkert gengið þrautarlaust fyrir sig, enda kannski ekki eitthvað sem armenska ríkisstjórnin ákvað; að það yrði stríð í Sýrlandi.
Þægilegt þjóðarmorð
Undanfarin ár hafa fjölskyldur þurft að flýja inn í eyðimörkina - og deyja úr þorsta. Fjölskyldur hafa þurft að flýja landið sitt yfir hafið á illa gerðum bátum - og drukknað.
Heimili þeirra hafa verið tekin af þeim, heimili í þeim heilagasta skilningi þar sem öryggi og vatn er að finna. Alltaf er dauðinn næsti áningastaður þessara ferðalanga lífsins sem eru bara að leit af friði.
Við horfum bara framan í þau og gerum ekki neitt. Við stundum þjóðarmorð í þægilegri fjarlægð með því að líta sem svo að þetta komi okkur ekki við. Aldrei aftur, sögðu þjóðir heimsins þegar þær komust að því hvernig útrýmingabúðir nasista virkuðu. Hinsvegar stöndum við aðgerðarlaus þegar Miðjarðarhafið breytist í blóðrauða helför sólarlagsins.
Myndum við veita Armenum hæli á Íslandi ef þeir stæðu frammi fyrir ofsóknum líkt og þeir voru árið 1915?
Eins mikið og ég vildi geta svarað því játandi, þá er svarið er nei. Ekki frekar en Sýrlendingum árið 2015, eða fólki frá Palestín, Líbýu, Íran eða Sómalíu.
Aðgerðarleysið, aðgerðarleysið mun verða okkur að falli. Við horfum upp á helfarir samtímans sigla um höfin blá og réttlætum aðgerðarleysið með því að þetta er svo langt í burtu. Þetta kemur okkur ekki við, og ef eitthvað er, sýni það og sanni mannvonsku fólks frá þessu landsvæði, frá þessari trú, þessum uppruna.
Í stað þess að hjálpa fólkinu með því að gefa þeim skjól, þá hjálpum við uppreisnarmönnum og kúgurum landa við syðri botn Miðjarðarhafsins að ná takmörkum sínum með því að hjálpa ekki drukknandi fólki heldur kennum hafinu um.
Athugasemdir