Það er kalt í Súðavík fimmtudaginn 2. mars en þó hlýrra en víðast hvar í nágrenninu, við Djúp. Bæði hefur sólin fundið sér hér leið fram úr skýjunum og svo er stafalogn, nokkuð sem gárungarnir segja ríkjandi vindátt í Álftafirðinum.
Kona með tvo blómvendi gengur fram hjá álftunum tveimur sem ramma inn innganginn að leikvellinum Raggagarði í því sem nú er kallað gamla þorpið í Súðavík.
Þegar hún er komin örlítinn spöl eftir Túngötunni snýr hún sér við og brosir lítillega um leið og hún segir okkur að við séum komin.
„Þetta er húsið mitt,“ segir hún og gerir sig líklega til að ganga upp heimreiðina en hættir við, stansar og snýr sér við. Það birtir yfir henni þegar hún rifjar upp daginn sem hún flutti hingað í desember fyrir að verða 29 árum. Hún, maðurinn hennar og stelpurnar þeirra tvær.
„Ég var svo ánægð að vera flutt. Ég man þegar ég var að skreyta fyrir jólin. Hérna var tré og ég var að setja jólaseríu á það í fyrsta skiptið. Þetta var fyrsti garðurinn minn. Þetta var fyrsta húsið mitt og á meðan ég var að koma seríunni á kom vindhviða og serían fauk og stóð eins og strik út í innkeyrsluna,“ segir Sigríður Rannveig Jónsdóttir, sem er alltaf kölluð Sigga Ranný.
Hún gengur áfram upp á grasbalann og stikar út innganginn í húsið. Eins og í flestum húsum var innangengt um þvottahús og aðalinngangurinn meira til spari. Þegar Sigga Ranný gengur inn í húsið sitt þennan dag, fer hún inn um þvottahússinnganginn. Þaðan áleiðis í gegnum eldhúsið og inn í stofuna.
Hún hikar aðeins, áður en hún færir sig yfir í efri helming hússins, þar sem hún bendir í átt að baðherberginu, áður en hún staðnæmist á svefnherbergisganginum miðjum.
„Síðan voru herbergin okkar þrjú hér,“ segir hún og tekur ómeðvitað skref til hliðar, meðfram ímynduðum vegg og inn í hjónaherbergið, í átt að glugganum yfir hjónarúminu, sem snýr í átt til fjallsins fyrir ofan. Þangað sem hún leit reglulega síðustu klukkutímana sem þau voru hér öll fimm.
Í húsinu sem eitt sinn stóð hér, þar sem nú er bara tún.
„Hérna var þessi litla unga fjölskylda að baka vöfflur og fara í bað,“ segir hún og snýr sér frá fjallinu og bendir á grátt steinhús niðri við aðalgötuna, í á að giska 80 metra fjarlægð.
„Og ég enda hjá pósthúsinu.”
Hvort það var höggbylgjan sem fyrst kom eða snjómassinn sem fylgdi og fyllti húsið er erfitt að segja til um. Hins vegar er ljóst að franska Vedette veggklukkan í afgreiðslusal pósthússins í Súðavík hætti að slá klukkan 6:17 að morgni mánudagsins 16. janúar árið 1995. Líklegast hefur batteríið hrokkið úr klukkunni um leið og hún féll í gólfið sem fylltist af snjó.
Snjóflóðið sem féll á þorpið í Súðavík þennan morgun olli ólýsanlegum skaða. Sextán hús urðu fyrir flóðinu og stóðu fæst af sér kraftinn. Fjórtán létust, þar af átta börn.
Eitt þessara barna var Hrafnhildur Kristín Þorsteinsdóttir, Habbý Stína, eins og hálfs árs gömul dóttir Siggu Rannýjar og Þorsteins Gestssonar, þáverandi eiginmanns hennar, sem er alltaf kallaður Öddi.
„Ég ætla að leggja þessar rósir í herbergið hennar,“ segir Sigga um leið og hún gengur í átt að þeim stað sem eitt sinn var herbergi dóttur hennar og leggur niður búnt af fallegum rauðum rósum, þar sem rúmið hennar stóð.
„Það var búið að vara við þessu. Þau þurftu ekki að deyja.“
Á lóðamörkum húss hennar og þess númer 6 við Túngötu er nú minnisvarði um snjóflóðin og fórnarlömb þess. Undir stórum krossi eru sex steinar, einn fyrir hvert þeirra húsa hvers íbúi eða íbúar létust í flóðinu. Raunar létust íbúar sjö húsa. Nafn Habbýjar Stínu litlu er hins vegar á steini með nöfnum ömmu hennar og alnöfnu og afa, sem létust þegar flóðið féll á hús þeirra sem stóð við Nesveg 7.
Þegar Sigga Ranný hefur lagt blóm að minnisvarðanum og fer yfir nöfnin á steinunum sex verður enn ljósara hversu lítið og náið samfélagið var í þorpinu í Súðavík.
„Við áttum öll sögu,“ segir hún. „Hjördís var að vinna á leikskólanum, Birna Dís og Helga pössuðu fyrir mig. Og börnin þeirra Hafsteins og Lindu, þrjú. Pettý, vinkona systur minnar og Bella mamma hennar. Hafsteinn Björnsson og Júlíana bjuggu við hliðina á mér. Og svo Bogga, sem bjó hérna niður frá, hún var vinkona mömmu. Ég fór alltaf með mömmu í kaffi til Boggu. Habbý Stína og Svenni, tengdaforeldrar mínir. Og svo Habbý Stína mín.“
Sigga Ranný staldrar ögn við áður en hún svo segir: „Og það tók einhver þessu of létt. Það var búið að vara við þessu. Þau þurftu ekki að deyja.“
Með henni í Súðavík þennan dag eru þau Hafsteinn Númason, sem missti þrjú barna sinna í snjóflóðunum, og María Hrafnhildardóttir, alltaf kölluð Maya, sem missti foreldra sína í flóðinu. Þau eru hluti hóps eftirlifenda og aðstandenda fólks sem lést í snjóflóðunum, sem telja tíma kominn á uppgjör.
Þetta var og er mikill harmleikur fyrir mjög marga og það fólk á rétt á því að yfirvöld rannsaki þetta mál ofan í kjölinn.
Í eitt skiptið var mér gert að skilja hamsturinn minn eftir, ég varð svo kvíðin yfir því að pabbi minn fór með björgunnarsveitarmönnum að sækja dýrið, þá fyrst ærðist ég af ótta og samviskubiti yfir að hafa sent pabba minn í hættu. Ég vissi af öllu fólkinu sem fórst árið 1995 og þekkti krakka sem misst höfðu frændsystkyni.
Þangað til núna hélt ég að það væri eðlilegt og leyfilegt að byggja á snjóflóðahættusvæði.