Myndefni frá RÚV
Þessi grein birtist fyrir meira en ári.

„Þau þurftu ekki að deyja“

Snjóflóð­ið sem féll á Súða­vík­ur­þorp í janú­ar 1995 kostaði 14 manns líf­ið. Að­stand­end­ur telja að ný gögn stað­festi fyrri grun þeirra. Yf­ir­völd hafi gert fjöl­mörg mis­tök í að­drag­anda flóðs­ins, huns­að að­var­an­ir og brugð­ist skyld­um sín­um.

Það er kalt í Súðavík fimmtudaginn 2. mars en þó hlýrra en víðast hvar í nágrenninu, við Djúp. Bæði hefur sólin fundið sér hér leið fram úr skýjunum og svo er stafalogn, nokkuð sem gárungarnir segja ríkjandi vindátt í Álftafirðinum.

Kona með tvo blómvendi gengur fram hjá álftunum tveimur sem ramma inn innganginn að leikvellinum Raggagarði í því sem nú er kallað gamla þorpið í Súðavík.

Þegar hún er komin örlítinn spöl eftir Túngötunni snýr hún sér við og brosir lítillega um leið og hún segir okkur að við séum komin.

„Þetta er húsið mitt,“ segir hún og gerir sig líklega til að ganga upp heimreiðina en hættir við, stansar og snýr sér við. Það birtir yfir henni þegar hún rifjar upp daginn sem hún flutti hingað í desember fyrir að verða 29 árum. Hún, maðurinn hennar og stelpurnar þeirra tvær.

„Ég var svo ánægð að vera flutt. Ég man þegar ég var að skreyta fyrir jólin. Hérna var tré og ég var að setja jólaseríu á það í fyrsta skiptið. Þetta var fyrsti garðurinn minn. Þetta var fyrsta húsið mitt og á meðan ég var að koma seríunni á kom vindhviða og serían fauk og stóð eins og strik út í innkeyrsluna,“ segir Sigríður Rannveig Jónsdóttir, sem er alltaf kölluð Sigga Ranný.

Hún gengur áfram upp á grasbalann og stikar út innganginn í húsið. Eins og í flestum húsum var innangengt um þvottahús og aðalinngangurinn meira til spari. Þegar Sigga Ranný gengur inn í húsið sitt þennan dag, fer hún inn um þvottahússinnganginn. Þaðan áleiðis í gegnum eldhúsið og inn í stofuna.

Hún hikar aðeins, áður en hún færir sig yfir í efri helming hússins, þar sem hún bendir í átt að baðherberginu, áður en hún staðnæmist á svefnherbergisganginum miðjum.

„Síðan voru herbergin okkar þrjú hér,“ segir hún og tekur ómeðvitað skref til hliðar, meðfram ímynduðum vegg og inn í hjónaherbergið, í átt að glugganum yfir hjónarúminu, sem snýr í átt til fjallsins fyrir ofan. Þangað sem hún leit reglulega síðustu klukkutímana sem þau voru hér öll fimm.

Í húsinu sem eitt sinn stóð hér, þar sem nú er bara tún.

„Hérna var þessi litla unga fjölskylda að baka vöfflur og fara í bað,“ segir hún og snýr sér frá fjallinu og bendir á grátt steinhús niðri við aðalgötuna, í á að giska 80 metra fjarlægð.

„Og ég enda hjá pósthúsinu.”

Hvort það var höggbylgjan sem fyrst kom eða snjómassinn sem fylgdi og fyllti húsið er erfitt að segja til um. Hins vegar er ljóst að franska Vedette veggklukkan í afgreiðslusal pósthússins í Súðavík hætti að slá klukkan 6:17 að morgni mánudagsins 16. janúar árið 1995. Líklegast hefur batteríið hrokkið úr klukkunni um leið og hún féll í gólfið sem fylltist af snjó.

Snjóflóðið sem féll á þorpið í Súðavík þennan morgun olli ólýsanlegum skaða. Sextán hús urðu fyrir flóðinu og stóðu fæst af sér kraftinn. Fjórtán létust, þar af átta börn.

Eitt þessara barna var Hrafnhildur Kristín Þorsteinsdóttir, Habbý Stína, eins og hálfs árs gömul dóttir Siggu Rannýjar og Þorsteins Gestssonar, þáverandi eiginmanns hennar, sem er alltaf kallaður Öddi.

„Ég ætla að leggja þessar rósir í herbergið hennar,“ segir Sigga um leið og hún gengur í átt að þeim stað sem eitt sinn var herbergi dóttur hennar og leggur niður búnt af fallegum rauðum rósum, þar sem rúmið hennar stóð.

Á lóðamörkum húss hennar og þess númer 6 við Túngötu er nú minnisvarði um snjóflóðin og fórnarlömb þess. Undir stórum krossi eru sex steinar, einn fyrir hvert þeirra húsa hvers íbúi eða íbúar létust í flóðinu. Raunar létust íbúar sjö húsa. Nafn Habbýjar Stínu litlu er hins vegar á steini með nöfnum ömmu hennar og alnöfnu og afa, sem létust þegar flóðið féll á hús þeirra sem stóð við Nesveg 7.

Þegar Sigga Ranný hefur lagt blóm að minnisvarðanum og fer yfir nöfnin á steinunum sex verður enn ljósara hversu lítið og náið samfélagið var í þorpinu í Súðavík.

„Við áttum öll sögu,“ segir hún. „Hjördís var að vinna á leikskólanum, Birna Dís og Helga pössuðu fyrir mig. Og börnin þeirra Hafsteins og Lindu, þrjú. Pettý, vinkona systur minnar og Bella mamma hennar. Hafsteinn Björnsson og Júlíana bjuggu við hliðina á mér. Og svo Bogga, sem bjó hérna niður frá, hún var vinkona mömmu. Ég fór alltaf með mömmu í kaffi til Boggu. Habbý og Svenni, tengdaforeldrar mínir. Og svo Habbý Stína mín.“

Sigga Ranný staldrar ögn við áður en hún svo segir: „Og það tók einhver þessu of létt. Það var búið að vara við þessu. Þau þurftu ekki að deyja.“

Með henni í Súðavík þennan dag eru þau Hafsteinn Númason, sem missti þrjú barna sinna í snjóflóðunum, og María Hrafnhildardóttir, alltaf kölluð Maya, sem missti foreldra sína í flóðinu. Þau eru hluti hóps eftirlifenda og aðstandenda fólks sem lést í snjóflóðunum, sem telja tíma kominn á uppgjör.

Þorpið í þorpinu

Þorpið í Súðavík á sér, eins og mörg önnur smærri þorp um landið, ekki langa sögu. Í raun voru það þýskir Hansa-kaupmenn sem fyrst komu sér fyrir og mynduðu um sig kjarna, á þeim stað sem byggðin fluttist eftir snjóflóðin 1995, í og við svokallaða Langeyri, innan við gamla þorpið í Súðavík. Þar er bæði hafnaraðstaða frá náttúrunnar hendi og láglendi sem ekki er berskjaldað fyrir skriðum eða snjóflóðum, eins og í þorpinu sem byggðist upp síðar. Það hvers vegna byggt var upp þar tengist að sögn deilum, sem inn í fléttast átök milli fjölskyldna, sem aftur virðast líka hafa snúist um peninga.

Byggðin í þorpinu undir Súðavíkurhlíð óx upp jafnt og þétt eftir seinna stríð og byggðin teygði sig utar eftir, þar sem höfninni var valinn staður og reist var frystihús Frosta hf. Togarinn Bessi ÍS kom til Súðavíkur í upphafi áttunda áratugarins en fyrir var togarinn Haffari, auk þess sem sem minni skip voru gerð þaðan út. Næga vinnu var að fá og á níunda áratugnum fjölgaði Súðvíkingum hratt og höfðu ekki verið fleiri í áratugi, eða um yfir 270. Fjöldi nýrra íbúa flutti á þessum tíma vestur til að freista gæfunnar.

„Ég flyt til Súðavíkur 1986,“ segir Hafsteinn Númason, sem sjálfur er uppalinn Patreksfirðingur. „Ég var með allt niður um mig og átti ekkert þegar ég kom úr meðferð og fór vestur. Fyrst til Bolungarvíkur á sjóinn en fljótlega kynnist ég konunni minni og flyt til Súðavíkur. Þar fer ég á Haffarann og þaðan á Bessann. Ég náttúrlega hafði unnið mikið, aldrei tekið mér frí. Ég var að byggja mig upp og búinn að vera þarna í átta eða níu ár að koma öllu á réttan level og við gátum farið að horfa til bjartari tíma.“

Hafsteinn minnist samfélagsins í Súðavík með hlýju. „Það var líka fleira fólk þarna sem var búið að taka til í sínum málum og komið í góð mál. Þetta var flott og þétt samfélag, allir þekktu alla og okkur leið vel. Þarna var líka gott að ala upp börn. Þau gátu leikið sér hvar sem var, maður var ekki með áhyggjur. Og ef eitthvað var að þá gátu þau farið í næsta hús.“

Maya Hrafnhildardóttir flutti vestur 19 ára gömul árið 1982. Mamma hennar og fósturfaðir, sem gengið hafði henni í föðurstað, höfðu flutt þangað frá Svíþjóð árinu áður. Habbý, eins og Hrafnhildur, mamma Mayu, var kölluð, hafði ásamt börnum sínum fjórum gengið í gegnum erfiða tíma, áður en hún kynntist Sveini, seinni manni sínum, og þau fest rætur í Súðavík. Fyrstu æviárin ólst Maya upp í mikilli fátækt í Seattle í Bandaríkjunum þar sem drykkjuskapur og ofbeldi lituðu heimilishaldið.

„Við bjuggum eiginlega í fátækrahverfi, af því að pabbi minn var alkóhólisti. Blóðfaðir minn, hann var á svona krabbaskipum frá Alaska og hann bara kom aldrei heim með pening svo þetta var bara viðbjóður, þessi ár. Þarna var mamma ung og komin með fjögur börn 24 ára,“ rifjar Maya upp. Það lifnar yfir henni þegar talið berst að næstu árum í lífi þeirra systkinanna. Eftir að mamma hennar og Sveinn G. Salómonsson kynntust. Sveinn gekk Mayu í föðurstað.

„Þau fluttu svo heim og til Súðavíkur. Hann fór fyrst á Bessann og hún vann í mötuneytinu hjá Frosta. Hún var svo góður kokkur. Þau tóku svo við og ráku Shell-skálann gamla á Aðalgötunni,“ segir Maya, sem hafði ekki verið lengi í bænum þegar hún var komin með kærasta og barn á leiðinni. Hún ákvað því að setjast að í Súðavík, þrátt fyrir að hafa lítið litist á staðinn fyrst. En þarna leið þeim öllum vel og Maya vann við hlið mömmu sinnar í Shell-skálanum.

Aukin umsvif í útgerð og fiskvinnslu í Súðavík á áttunda áratugnum og fram eftir þeim níunda urðu þess valdandi að íbúum fjölgaði og byggja þurfti fleiri íbúðarhús. Svæðið fyrir ofan frystihúsið var þá að mestu óbyggt ef frá eru talin fjárhús og engjar sem nýtt voru af bændum. Þarna var framtíðarbyggingarland þorpsins. Uppbyggingin hófst strax þegar fyrstu hús við Túngötuna voru byggð 1969 og á næsta áratug risu nærri tuttugu hús fyrir ofan aðalgötuna ofan við frystihúsið.

Lok árs 1994

Hættan af ofanflóðum fylgdi einfaldlega vetrinum í lífi Súðvíkinga um miðjan tíunda áratuginn. Á þeim tíma var umferð um Súðavíkurhlíð, yfir til Ísafjarðar, orðin mun meiri og mun algengara að fólk stundaði nám eða vinnu og keyrði á milli daglega.

„Að hafa alist upp þarna innihélt það að maður mundi vel eftir snjóflóðum sem féllu fyrir ofan byggðina svo ég tali nú ekki úr Súðavíkurhlíðinni. Þetta var bara hluti af lífinu, að búa við þessar aðstæður,“ rifjar Ómar Már Jónsson, bróðir Siggu Rannýjar, upp. Ómar, sem seinna varð sveitarstjóri í Súðavík, er uppalinn í þorpinu.


„Það var náttúrlega rætt um það því það hafði aldrei komið flóð þarna, og fyrst það gat gerst gat náttúrlega alls staðar fallið á byggðina. Þannig að allir gerðu ráð fyrir því að það væri bara mjög vel fylgst með og allt væri bara tékkað til þess að fleiri myndu ekki lenda í því sama,“ segir Sigga Ranný, sem varði aðventunni í að koma sér fyrir í nýja húsinu sínu ásamt Ödda manni sínum og stelpunum þeirra tveimur og héldu svo saman fyrstu jólin í nýja húsinu. Öddi, þáverandi eiginmaður Siggu Rannýjar, er bróðir Mayu. Sveinn og Habbý voru tengdaforeldrar Siggu Rannýjar.

„Á gamlárskvöld bauð Habbý tengdamamma okkur öllum í mat því henni fannst svo mikið atriði að við yrðum öll saman,“ segir Sigga Ranný. Meðal annarra í boðinu voru nágrannar þeirra, hjónin Jónas og Hjördís, sem bjuggu í Túngötu 8, og dætur þeirra, Birna Dís og Helga Björk.

„Við vorum ekki mörg í þessu matarboði þarna en það er hryllilegt til þess að hugsa að tíu dögum seinna var helmingur gestanna dáinn, sex okkar.“

Flóðið

Fyrstu daga ársins 1995 hafði snjóað talsvert í Súðavík og þegar fór að rigna og við tók frost urðu snævi þaktar fjallshlíðar eitt svell. Laugardaginn 14. janúar hafði snjóað nokkuð og var farið að þyngjast vel á ofankomunni þegar veður tók að versna.

„Það var svona einhver kvíði í mér, undirmeðvitundin var að reyna að segja mér eitthvað. Það var eitthvað ekki allt í lagi, sko,“ segir Sigga Ranný og rifjar upp þessa helgi sem þau Öddi eyddu mestan part heima með dætrum sínum tveimur.

Á sunnudeginum hafði veðrið enn versnað og hert í vind. Engu að síður ákváðu Sigga Ranný og Öddi að fara út í garð með stelpurnar, Lindu Rut, fimm ára og Habbý Stínu, eins og hálfs árs, þar sem þau gerðu saman snjóhús.

„Mér fannst bara einhvern veginn að við þyrftum að fara út úr húsinu, gera eitthvað saman,“ rifjar Sigga upp. „Við vorum eins og snjókarlar þegar við komum inn en við náðum að gera pínu snjóhús og áttum góðan tíma saman.“

Undir Grænuhlíð

Þennan sunnudags seinni part voru Hafsteinn, nágranni Siggu Rannýjar, og Ómar, bróðir hennar, ásamt öðrum í áhöfn Bessa ÍS að hífa trollið í síðasta sinn á miðunum úti fyrir Vestfjörðum. Á leið í land heima í Súðavík.

„Þarna er komið stjörnuvitlaust veður,“ segir Hafsteinn um siglinguna inn á Ísafjarðardjúpið. Heima í Súðavík biðu hans konan og börnin hans þrjú. Ákveðið var að sigla Bessanum í var undir Grænuhlíð og halda þar sjó til morguns. Ómar segist hvorki fyrr né síðar hafa verið á sjó í aðstæðum eins og þeim sem voru um nóttina.

„Veðrið var algjörlega tryllt þarna,“ segir Ómar Már og minnist þess að þessa nótt hafi mælar sýnt upp undir 30 metra á sekúndu inni í Súðavík. Undir Grænuhlíð lónaði Bessinn á meðan skipverjar sinntu trollviðgerðum úti á dekki, undir brúnni, þar sem venjulega var skjól.

„Við heyrðum vindhviðurnar koma niður fjallið, þær bara öskruðu. Og þegar þær skullu á skipinu þá bara lagðist það svona 20 gráður á hliðina,“ segir Hafsteinn. Það var svo ekki fyrr en seint um nóttina sem sjávarföll þóttu orðin þolanleg til þess að hægt væri að leggja í hann inn til Súðavíkur. Á sama tíma hélt veðrið áfram að versna í þorpinu.

Í brúnni á Bessanum

Þegar flóðið féll klukkan 6:17 að morgni mánudagsins var Bessi ÍS kominn langleiðina í höfn í Súðavík. Veðrið var þó þannig að skipverjar voru grunlausir um hvað gerst hafði enda skyggnið ekkert. Klukkan 7 hringdi síminn í brúnni.

„Við fengum hringingu úr frystihúsinu þar sem okkur var sagt að það hefði fallið flóð á gömlu byggðina í Súðavík,“ segir Ómar Már, sem staddur var í brúnni þegar símtalið kom. Fyrstu fréttir voru fátæklegar, enda hafði flóðið þá rétt nýlega uppgötvast og fyrstu einstaklingarnir sem komust höfðu úr því af sjálfsdáðum voru enn að tínast í hús, í frystihúsið Frosta, sem gert var að fjöldahjálparmiðstöð.

„Þetta var óþægilegur tími. Foreldrarnir mínir bjuggu á þessu svæði, systir mín líka með sína fjölskyldu,“ rifjar Ómar upp. Hafsteinn, skipsfélagi hans, var niðri á dekki ásamt öðrum hásetum að gera klárt til að binda skipið, sem átti stutt eftir inn á höfnina.

„Og þegar við erum komnir þarna upp að hafnargarðinum þá fer hann ekki inn,“ segir Hafsteinn sem kvaðst hafa orðið var við að skipstjórinn væri farinn að lýsa með ljóskösturum upp í hríðina. Stuttu seinna fengu þeir fréttir af því sem hafði gerst. Hafsteinn kveðst strax hafa lagt saman tvo og tvo, út frá þeim takmörkuðu upplýsingum sem þó lágu fyrir.

„Ég segi við strákana, fyrst þetta er að koma þarna niður eftir hefur þetta lent á húsinu mínu. Þeir segja mér bara að vera ekki að þessu bulli,“ segir Hafsteinn og kveðst illa hafa þolað við biðina og farið upp í brú þar sem skipstjórinn hringdi fyrir hann í frystihúsið, sem var eitt fárra númera sem samband var við í þorpinu.

„Þegar ég kynni mig kemur á manninn og hann segir, ég ætla að ná í hann svila þinn, ég bið hann að tala við þig.“ Í símann fær Hafsteinn að vita að húsið hans hafi horfið í flóðinu, eiginkona hans hafi komist út úr því af sjálfsdáðum en að börnin hans þrjú séu týnd. Hann segist enn í dag sjá fyrir sér hvernig björt ljós siglingatækjanna í brúnni hafi skyndilega dofnað, og hann sjálfur um leið.

„Skipstjórinn sá náttúrlega að ég var eitthvað skrýtinn þegar ég legg símann frá mér og greip um höndina á mér og studdi mig á stól,“ segir Hafsteinn, sem segir næstu tíma um borð óraunverulega.

Hafsteinn minnist þess að hafa farið inn í klefann sinn, setið þar með innrammaða mynd af börnunum sínum og í örvæntingu fengið þá hugmynd að ná sér í flotgalla, sæta lagi þegar togarinn væri sem næst hafnargarðinum, stökkva í sjóinn og freista þess svo að synda í land.

„Þau eru dáin,“ var það fyrsta sem Maya segist hafa heyrt systur sína segja og svo heyrt hana segja eitthvað um snjóflóð og hús foreldra þeirra. Fyrstu viðbrögð Mayu voru að systir hennar væri farin yfir um. Hún hafði síðast heyrt í mömmu sinni og pabba kvöldið áður, en þá höfðu eldri tveir synir hennar ætlað að gista hjá þeim. Þeir höfðu meira að segja lagt af stað labbandi enda leiðin varla meiri en 100 metrar frá blokkinni, en yngri sonurinn gefist upp í veðrinu og þeir neyðst til að snúa við. Maya hálfskellti á systur sína, en ákvað til öryggis að kíkja fram á stigaganginn.

„Og þá sé ég að það er snjór inni í blokkinni og ég sé að það er þarna blóð og rýk út í glugga og kíki og þá sé ég bara húsgögn og bíla og allt fyrir framan blokkina,“ segir Maya, sem fór nú að reyna að hringja í mömmu sína, en náði ekki sambandi. Næst í aðra nágranna og svo „bara í alla götuna sem ég þekkti og enginn svarar“. Stuttu síðar var bankað upp á og íbúum sagt að rýma blokkina og halda niður í frystihús.

Albert Heiðarsson bjó innar í þorpinu, ásamt foreldrum sínum og bróður, í húsi við Aðalgötu þegar flóðið féll. Hann var þá 25 ára og meðlimur í björgunarsveitinni Kofra í Súðavík. Þegar pabbi hans vakti hann um morguninn og dreif með sér út í bíl, með þeim orðum að flóð hefði fallið, hvarflaði umfang þess hreinlega ekki að honum.

„Þegar við komum þarna niður eftir að frystihúsinu, að þeim stað þar sem flóðið endaði, sá maður eyðilegginguna. Húsþak sem borist hafði með flóðinu og stóð þarna á miðju þvottaplani sjoppunnar. Svo sér maður þessar rústir um allt og brak. Þarna fékk maður auðvitað bara sjokk. Svo fer maður að sjá fólk sem hafði komist af sjálfsdáðum út úr flóðinu. Þarna er auðvitað allt orðið rafmagnslaust og annað eftir því,“ segir Albert þegar hann rifjar upp aðkomuna. Hann fór ásamt tveimur félögum sínum fyrstu yfirferð yfir svæðið til þess að reyna að ná utan um hversu stórt flóðið hefði verið og hversu mörg hús hefðu farið undir.

„Þarna fundum við fljótlega einn mann sem lá ofan á flóðinu og komum honum niður í frystihús. Fljótlega eftir það fórum við svo – allir sem voru komnir út – niður í frystihús til þess að ná okkur í stangir og útbúnað. Við vorum þarna tveir sem höfðum farið á námskeið stuttu áður þannig að við héldum þarna mjög stutta kennslu í því hvernig væri best að nota stangirnar,“ rifjar Albert upp og segir aðstæðurnar hafa verið skelfilegar.

„Við vorum þarna að leita í húsarústum þar sem öllu ægði saman og þess vegna var það oft sem menn komu niður á sófa eða rúm eða eitthvað mjúkt að farið var að grafa. Þannig að það var alltaf verið að grafa. En mjög fljótlega þarna finnum við í útjaðri flóðsins ungabarn, sem var enn þá með lífsmarki, sem farið var með niður í frystihús. Þessir sem við fundum þarna fyrst dóu stuttu seinna,“ segir Albert, sem var við leit næstu klukkutímana þar til björgunarmenn komu að úr nágrannasveitum, einu færu leiðina, á sjó.

Súðavíkurhöfn

Jóhann Símonarson, skipstjóri á Bessanum, var orðinn úrkula vonar um að hann kæmist að bryggju í Súðavík eftir því sem leið á morguninn. Hann fann þó á endanum leið til að koma þeim Ómari og Hafsteini í land. Með aðstoð gúmmítuðru voru þeir selfluttir yfir í Súðavíkurbátinn Haffara innar í firðinum, þar sem veðurlag var skárra. Haffara var síðan siglt inn á höfn í Súðavík og þegar stefni bátsins lagðist stutta stund að bryggjunni stukku þeir í land, Hafsteinn og Ómar.

„Við stóðum þarna tveir og ég man að við sögðum ekki mikið,“ rifjar Ómar upp og Hafsteinn minnist þess hvernig þeir stóðu á bryggjuendanum og sáu ekki nema nokkra metra fram fyrir sig, fyrir hríðarkófinu. Leiðin upp að frystihúsinu er ekki meiri en 200 metrar en þó sást ekki þangað. Þeir gengu því og studdu hvor annan upp bryggjuna og reyndu reglulega að rýna í kófið til að geta séð hvernig umhorfs væri í þorpinu.

Staðan í Súðavík var mun verri en í fyrstu var talið. Veðrið var enn snælduvitlaust og því náðist ekki full mynd af ástandinu fyrr en leið á morguninn. Tæplega fimmtíu manns höfðu lent í flóðinu en af þeim hafði 26 tekist að komast af sjálfsdáðum undan því og í skjól. Tuttugu og einn var ófundinn, meirihlutinn börn.

Flóðið hafði fallið úr efstu hlíðum Súðavíkurfjalls og náð ógnarhraða á þeirri 1.200 metra vegalengd sem það fór í gegnum þorpið og nánast ofan í sjó. Sextán hús höfðu orðið fyrir flóðinu. Átta íbúðarhús við Túngötu eyðilögðust alveg en þrjú önnur skemmdust. Tvö efstu íbúðarhúsin við Nesveg eyðilögðust sömuleiðis, auk leikskóla þorpsins sem stóð þar fyrir ofan. Til viðbótar hafði flóðið lent á og skemmt blokkina, pósthús og áhaldahús við Aðalgötu, neðstu götu þorpsins. Fullkomin ringulreið ríkti í frystihúsinu á meðan reynt var að koma böndum á ástandið. Slasað fólk, fólk í áfalli og óvissu um afdrif barna sinna eða ættingja. Á sama tíma komu björgunarmenn með þá sem fundust í hús.

„Það voru allir bara labbandi um í panikki,“ segir Maya um fyrstu klukkutímana eftir flóðið. „Það var verið að koma inn með fólk sem var að finnast, þar á meðal var hún Petty litla, hennar Bellu, sem var svona heimalningur heima hjá mér. Hún var bara 12 ára, ég man þegar þeir komu með hana inn og ég sá hárið hangandi á börunum. Þá fyrst áttaði ég mig á því, fólk er dáið. Maður eiginlega áttaði sig ekki á því fyrst, það var bara ekki raunverulegt. Ég var í það miklu sjokki að ég einhvern veginn var ekki nógu dugleg að halda utan um strákana mína líka. Ég læt þá í hendurnar á frænku minni, ég segi, viltu aðeins hugsa um þá, því ég meikaði ekki allt þetta álag og að segja þeim hvað væri að gerast.“

„Og þá kemur barnsfaðir minn, hann Eiríkur. Ég segi, farðu og leitaðu að mömmu, þau eru þarna, þau fara ekkert lengra en niður í garð á næsta húsi, enda vissi ég þá að það stóð enn. Ég var bara, greyið, ég píndi hann út,“ segir Maya.

„Einhvern veginn setti maður svo bara á einhverja sjálfstýringu þarna og keyrði sig inn í þessa atburðarás sem síðan var fram undan. Það fól til dæmis í sér einhvers konar aftengingu við tilfinningar manns. Það komst ekkert annað að en að vitja um sína nánustu og reyna að hjálpa,“ segir Ómar, sem fékk fljótlega að vita að hús foreldra hans og þau hefðu sloppið við flóðið, systir hans og mágur væru fundin heilu á höldnu en að dætur þeirra tvær væru týndar.

Fagranesið

Í Súðavík voru þegar flóðið féll hvorki læknir né hjúkrunarfræðingur. Björgunarstörf, fyrsta hjálp og skipulagning lenti því öll í höndum heimamanna fyrstu klukkutímana, eða þar til tókst að ferja 50 manna björgunarlið frá Ísafirði til Súðavíkur, með Djúpbátnum Fagranesinu. Með í för voru líka nokkrir sérþjálfaðir leitarhundar sem voru í fyrsta sinn notaðir til leitar í þetta skipti og þóttu skipta sköpum. Þar með tókst að skipta út örþreyttum björgunarmönnum fyrir nýja.

Í staðinn var ákveðið að Fagranesið flytti íbúa og eftirlifendur í burtu og yfir til Ísafjarðar. Óttast var að annað flóð gæti fallið á þorpið enda veðrið enn vont. Tæplega hundrað manns voru því fluttir úr frystihúsinu Frosta og niður á bryggju og þaðan um borð áleiðis til Ísafjarðar. Sú ákvörðun að fara reyndist mörgum gríðarlega erfið.

„Ég vildi ekkert fara, af því að ég vildi bíða, ég var svo mikil mömmustelpa,“ segir Maya um sjóferðina yfir til Ísafjarðar, þar sem að heita má allt þorpið var flutt í burtu. Sjálf segist hún innst inni hafa vitað að litlar líkur væru á að mamma hennar fyndist á lífi, á þeim tímapunkti.


Á þessum tímapunkti voru á annan tug enn ófundnir í rústum flóðsins. Það er því erfitt að gera sér í hugarlund stöðu þeirra sem neyddust nú til að yfirgefa ástvini sem enn voru ófundnir. „Mér fannst nógu erfitt að fara frá foreldrunum hvað þá heldur fólkið sem missti börnin sín. Ég bara get ekki sett mig í þessi spor. Það var hryllilegt,“ rifjar Maya upp.

Sjóferðinni yfir til Ísafjarðar líkja margir sem hana fóru við hreina martröð. Fólk lá eins og hráviði um allt skip, sem barðist á móti veðrinu í haugasjó.

„Þetta var bara eins og í hryllingsmynd, allir öskrandi og sjóveikir,“ segir Maya.

Ómar Már segir það hafa verið hreint kraftaverk að skipstjóri Fagranessins hafi haldið skipinu á réttum kili og komið fólkinu í land. „Hjalti Hjaltason gerði ótrúlega vel að koma skipinu hreinlega þarna á milli. Það var mikið öskrað og mikið grátið.“

Sigga Ranný lýsir sjóferðinni eins og öðru áfalli. Siglingin hafi verið hræðileg lífsreynsla. Lindu Rut, fimm ára dóttur hennar, hafði stuttu áður verið bjargað lifandi úr rústum flóðsins og fór því með Fagranesinu til Ísafjarðar. Yngri dóttirin, Habbý Stína litla, var hins vegar enn ófundin.

„Að skilja Habbý eftir, mér fannst það skelfilegt. Að vera ekki til staðar þegar hún yrði fundin,“ segir Sigga.

Hafsteinn segist hálfþakklátur fyrir að muna lítið úr sjóferðinni „Þetta var ömurlegt. Fólk var þarna sjóveikt og grátandi, ég var með konuna þarna að halda henni gangandi.“ Hafsteinn og Berglind, kona hans, yfirgáfu Súðavík á meðan tvö barna þeirra voru enn ófundin. Berglindi hafði þá ekki enn verið tilkynnt um að þá þegar hefði yngsti sonur þeirra, Aðalsteinn Rafn, verið úrskurðaður látinn eftir að hann fannst í flóðinu snemma um morguninn.  „Ég var með konuna þarna að halda henni gangandi og ég var búinn að vera að ljúga að henni að drengurinn okkar væri fundinn, hann væri á lífi, hélt því stöðugt fram,“ segir Hafsteinn. Það var ekki fyrr en hópurinn hafði komist í land á Ísafirði og búið var að koma þeim fyrir á sjúkrahúsinu á Ísafirði sem Hafsteinn treysti sér til að færa konu sinni fréttirnar.

Ömurleg bið

Á sjúkrahúsinu hélt hópurinn allur til og beið næsta sólarhringinn fregna af ástvinum sínum, sem enn voru ófundnir. Á sama tíma börðust tugir björgunarmanna við að leita þeirra sem enn voru fastir undir flóðinu. Togarar af svæðinu höfðu verið nýttir til að ferja björgunarmenn á staðinn allan daginn og stuttu eftir kvöldmat var ákveðið að skipta út mannskapnum og koma þeim sem verið höfðu að allan daginn fyrir í grunnskóla bæjarins til að hvíla sig fyrir næstu átök. Eiríkur Ragnarsson, íbúi í Súðavík, var með í rútunni sem fór með hópinn frá Frosta og inn í þorpið eftir aðalgötunni.


Þrjú íbúðarhús lentu undir flóðinu sem féll úr Traðargili þetta kvöld. Öll höfðu þau verið rýmd vegna snjóflóðahættu nóttina áður, svo þau voru mannlaus. Rútan, full af björgunarmönnum, var skammt undan þegar flóðið féll.

„Ég hef oft hugsað um hvílík heppni þetta í raun var, enda er ég nokkuð viss um að ef við hefðum ekki tafist í þessi andartök sem hurðin stóð föst hefðum við orðið fyrir flóðinu og rútan full af mönnum farið með flóðinu út í sjó,“ rifjar Eiríkur upp.

Lindu Rut, eldri dóttur Siggu Rannýjar, var bjargað lifandi úr flóðinu eftir rúma fimm tíma með minni háttar áverka. Habbý Stína litla fannst hins vegar látin rúmum sólarhring eftir flóð. Afi hennar og amma hennar og alnafna voru með þeim síðustu sem fundust látin, stuttu fyrir hádegi sama dag. Húsveggur hafði fallið yfir hjónin, þar sem þau lágu í hjónarúmi húss síns að Nesvegi 7. Eldri börn Hafsteins og Berglindar, Kristján Númi, fjögurra ára, og Hrefna Björg, sjö ára, voru síðust til að finnast en lík þeirra beggja fundust með stuttu millibili undir kvöld þann 17. janúar.

Þar með var orðið ljóst að alls hefðu 14 látist í flóðinu. Þar af voru átta börn á aldrinum eins til fjórtán ára. Ljóst var að flóðið var eitt það mannskæðasta í sögunni. Fólk átti bágt með að trúa því að svona nokkuð hefði gerst.

Mannskæð snjó- og krapaflóð áratugina á undan höfðu vissulega líka komið fólki í opna skjöldu, bæði þegar 12 manns létust í Neskaupstað árið 1974 og svo þegar fjórir létust í flóðum á Patreksfirði áratug seinna. Hvort tveggja atburðir sem urðu tilefni mikillar umræðu um andvara- og varnarleysi yfirvalda og almennings gagnvart ofanflóðum.

Ólíkt því sem hafði verið, bæði í Neskaupstað og á Patreksfirði, hafði í Súðavík verið í gildi hættumat vegna ofanflóða, sem gerði bæði ráð fyrir virku eftirliti og viðbúnaði almannavarna. Súðavík hafði meira að segja verið fyrst þéttbýlisstaða á Íslandi metið vegna snjóflóðahættu, þegar lög um það voru loksins sett árið 1985. Það var því kannski vonlegt að margir vildu skýringar á því hvað hefði klikkað.

Atburðarásin um nóttina

Fljótlega eftir flóðin fóru að berast fréttir af því að þeim sem lögum samkvæmt bar að fylgjast með og bregðast við snjóflóðahættu, hafi mátt vera ljóst í hvað stefndi. Að erfiðleikar í samskiptum einstaklinga heima í héraði og skortur á upplýsingaflæði hafi jafnvel valdið því að ekki var farið í að rýma eða vara við, eins og margir íbúanna virðast hafa gengið út frá að yrði gert. Að kröfur um að almannavarnanefnd staðarins yrði kölluð saman hafi verið hunsaðar.

Sigga Ranný segist ítrekað hafa viðrað áhyggjur sínar af fjallinu við mann sinn kvöldið fyrir flóðin, en hann sagt henni að engin ástæða væri til þess, á meðan ekki væri lýst yfir neinni hættu. Haft yrði samband við íbúa ef minnsti grunur léki á að hættuástand væri að skapast.

Maya tekur í sama streng og segist sérstaklega hafa haft orð á því við mömmu sína að sér litist ekki á veðrið í símtali nokkrum klukkustundum áður en flóðið féll:

Jónas hringdi í Elvar Ragnarsson, slökkviliðsstjórann í Súðavík og lýsti áhyggjum af ástandinu og fékk til baka skilaboð um að engin hætta væri á ferðum en að til öryggis gæti fjölskyldan sofið þeim megin í húsinu, sem sneri frá fjallinu. Jónas fór að þeim ráðum og bjó um konu sína og tvær dætur á stofugólfi hússins en lagðist sjálfur til svefns í sófa. Elsta dóttir hjónanna var ekki heima þessa nótt en Hjördís eiginkona Jónasar og tvær yngri dætur hans, Birna Dís 14 ára og Helga Björk 10 ára, létu allar lífið þegar flóðið féll á og yfir hús þeirra. Jónas komst hins vegar lífs af úr flóðinu.

Þrátt fyrir orð hreppstjórans voru nefndarmenn í almannavarnanefnd Súðavíkur, byrjaðir að hringjast á þetta kvöld og viðra áhyggjur sínar af því að vindátt og snjósöfnun væri mögulega að verða áhyggjuefni vegna snjóflóðahættu. Skipulag almannavarna var þá þannig að Veðurstofa Íslands fór með eftirlit með snjóflóðahættu og mat á mögulegri hættu, í samráði við heimamenn. Ákvörðun um aðgerðir, eins og það að rýma eða lýsa yfir hættuástandi, var síðan í höndum almannavarnanefndar á staðnum. Í henni sátu Ólafur Helgi Kjartansson, sýslumaður á Ísafirði, og staðgengill hans, hreppstjórinn í Súðavík, Gunnar Finnsson. Einnig áttu þar sæti læknir, slökkviliðsstjóri og fulltrúi slysavarnafélagsins. Auk þess voru tveir fulltrúar í sveitarstjórn Súðavíkur í almannavarnanefndinni, annars vegar oddvitinn og sveitarstjórinn í Súðavík, Sigríður Hrönn Elíasdóttir, en einnig Heiðar Guðbrandsson, sem var oddviti minnihlutans í hreppsnefndinni. Heiðar var auk þess snjóflóðaeftirlitsmaður í Súðavík.

Í ljós kom að hart hefði verið tekist á í almannavarnanefndinni kvöldið og nóttina fyrir flóðið. Nefndarmenn ræddu sín á millli og fullyrtu að varað hefði verið við hættu þar sem flóðin féllu en þær viðvaranir ekki náð í gegn. Eins kom í ljós að almannavarnanefnd staðarins var aldrei kölluð saman, þrátt fyrir beiðnir þar um. Nefndin fundaði ekki kvöldið eða nóttina fyrir flóðin, en ákveðið hafði verið að hún kæmi saman klukkan átta, morguninn sem flóðið féll. Af því varð þó aldrei af skiljanlegum ástæðum. Engu að síður hafði verið gripið til þess að rýma nokkur hús undir svokölluðu Traðagili um nóttina, vegna yfirvofandi snjóflóðahættu. Traðargilssvæðið var skilgreint hættusvæði, samkvæmt snjóflóðamati, og var innan við það svæði sem fór undir flóð morguninn eftir.

Deilurnar, nóttina fyrir flóð, áttu samkvæmt því sem eftirlifendur flóðanna fóru að heyra ávæning af, að hafa hverfst um þau Sigríði sveitarstjóra og Heiðar, snjóflóðaeftirlitsmann og oddvita minnihlutans. „Við fórum að heyra alls konar sögur, meðal annars hvað hefði gerst áður en flóðið féll og vissum ekki hvað var rétt eða rangt í því. En það var heldur ekki vinsælt að við værum að spyrja mikið,“ segir Hafsteinn Númason um þessar fyrstu vikur eftir flóðin. Hann líkt og fleiri voru enda upptekin við annað.

Hópur fólks sem misst hafði ættingja í flóðinu kallaði eftir opinberri rannsókn á þessum tíma og lagði lögmaður þeirra fram kröfu um hana til dómsmálaráðuneytisins. Slík rannsókn var hins vegar aldrei framkvæmd heldur var Almannavörnum ríkisins falið að skila greinargerð um flóðið. Í skýrslum þeirra sem komu að málum nóttina áður varð enn ljósara að samskipti milli yfirvalda almannavarna þessa nótt voru í miklu ólagi og orð stóð gegn orði um það hver vissi hvað og hvenær.

Hins vegar upplýsti Magnús Már, snjóflóðavaktmaður hjá Veðurstofunni, um það í skýrslu til nefndarinnar að Heiðar Guðbrandsson snjóflóðaeftirlitsmaður hefði ekki verið einn um að vara formann almannavarnanefndar Súðavíkur við. Magnús Már lýsti því þannig að hann hefði eftir símtöl við Heiðar milli hálf tvö og tvö um nóttina, rætt við Sigríði sveitarstjóra, hvatt til þess að almannavarnanefnd yrði kölluð saman í Súðavík, og sagt það niðurstöðu þeirra Heiðars að snjóflóðahætta væri að skapast undir Traðargili en að „ekki væri síður ástæða til að hafa áhyggjur af ytra svæðinu“ og að þó ekki hafi verið rætt um rýmingu, hefði verið rætt um að hafa samband við íbúana þar og láta vita af ástandinu. Í skýrslum eftir flóðin þvertók Sigríður fyrir að ytra svæðið hafi verið nefnt við hana. Sigríður tók í sama streng þegar hún ræddi við blaðamenn Heimildarinnar. „Ég gerði þetta upp þarna á eftir með bestu samvisku og sagði satt og rétt frá öllu.“

Magnús Már gekkst hins vegar einn við því að hafa gert mistök þessa nótt, að hafa ekki minnst á „ytra svæðið“ í samtali við vaktmann Almannavarna ríkisins stuttu fyrir samtal sitt og Sigríðar. Hreppstjórinn Gunnar Finnsson lýsti í sinni skýrslu yfir furðu á því að hafa litlar sem engar upplýsingar fengið um stöðu mála alla nóttina. Að allt frá því snemma að kvöldi 15. janúar, að hann átti stutt samtal við sýslumann á Ísafirði, og þar til eftir að flóðið var fallið, hafi enginn haft samband við hann, utan Heiðar Guðbrandsson. Sömuleiðis hafi hann aldrei fengið vitneskju um að Veðurstofan hafi hvatt til að almannavarnanefnd yrði kölluð saman um nóttina.

Um frásögn Heiðars af því að Gunnar hefði verið á línunni í öðrum síma og hlustað á hann ræða við Sigríði sveitarstjóra, þegar hann kvaðst hafa varað hana við og hún skellt á hann, sagðist Gunnar í skýrslu sinni ekki geta staðfest orð Heiðars, enda hafi hann illa heyrt hvað fór fram. Gunnar greinir hins vegar þar frá því að þeir Heiðar hefðu rætt um mögulega hættu á ytra svæðinu í símtalinu áður en Heiðar svaraði í hinn símann, en vísaði til þess að það hefði verið „lítillega“. Gunnar kvaðst þó geta staðfest að hann hafi heyrt Heiðar fara fram á það við Sigríði að almannavarnanefnd yrði kölluð saman strax um nóttina.

Sigríður kallaði hins vegar ekki saman almannavarnanefndina og afþakkaði að stjórnstöð almannavarna í Reykjavík væri virkjuð í samtali við vaktmann almannavarna. Í samtölum við Gunnar og Magnús Má sagði hún sýslumann hafa ákveðið að láta rýma Traðargil strax en að nóg væri að almannavarnanefnd kæmi saman klukkan átta um morguninn, þar sem „ekki væri hundi út sigandi“ vegna veðurs. Magnús Már segir enn fremur frá því að hún hafi sagst ekki geta haldið símafund þar sem hún kunni ekki að setja upp slíkan fund fyrir almannavarnanefndina.

Frásögn Sigríðar af samráði um frestun fundarins mótmælti Ólafur Helgi sýslumaður seinna, samkvæmt skýrslu vaktmanns Almannavarna þessa nótt. Í minnispunktum vaktmannsins hafði verið bætt við færsluna um samtal hans og Sigríðar, feitletraðri athugasemd þar sem sagði: „Sýslumaðurinn segist hafa sagt Sigríði að kalla saman fund eða símafund, ekki samþykkt að fresta fundi til kl. 8. Hann hafi aftur á móti talið rétt að rýma strax neðan Traðargils.“

Í skýrslu sinni eftir flóðin, sem finna má í gögnum Almannavarnarnefndar ríkisins á Þjóðskjalasafninu, bregst Sigríður ekki sérstaklega við þessu atriði en segir aftur á móti að hún hafi rætt við fulltrúa almannavarnanefndar Súðavíkur, hvern fyrir sig í síma um nótt og vísar til þess sem nokkurs konar símafundar. Aðstæður í Súðavík hafi verið þannig vegna veðurs og ofankomu að ekki hafi verið hægt að halda fund um nóttina, auk þess sem eina snjómoksturstæki hreppsins verið upptekið við rýmingar húsa undir Traðargili. Hún hafnar þar líka alfarið að Heiðar og Magnús Már hafi varað við hættu á ytra svæðinu sem hún segir „samkvæmt mati utan hættumarka“.

Tveimur mánuðum eftir flóð komu fulltrúar almannavarnayfirvalda í héraði og á landsvísu saman á fundi. Í fundargerð sést að hart var deilt um samskiptin þessa nótt og ásakanir gengu á víxl milli fólks. Snjóflóðaeftirlitsmaðurinn Heiðar Guðbrandsson vakti þar athygli á því að hann og Magnús Már hefðu varað við hættunni á ytra svæðinu, í símtölum við sveitarstjórann. Því neitaði hún eftir sem áður. Ólafur Helgi Kjartansson sýslumaður brást ókvæða við og sakaði Heiðar um að bregðast skyldu sinni sem nefndarmaður í almannavarnanefnd Súðavíkur, með því að hafa ekki haft samband við sig, hafi hann eða aðrir á annað borð haft slíkar áhyggjur.

Í viðtali við Morgunblaðið, haustið eftir flóð, aftók Sigríður Hrönn með öllu að nokkur mistök hafi verið gerð í viðbrögðum almannavarnanefndarinnar undir hennar stjórn og sakaði Heiðar Guðbrandsson um að reyna að slá sig til riddara, með frásögn sinni af viðvörunum um hættuna á ytra svæðinu sem hún segir Heiðar hafa sett fyrst fram löngu eftir flóðið. Hún ávarpar þó ekki þarna frásögn Magnúsar Más af því að hafa bæði rætt þessar áhyggjur við Heiðar um kvöldið og vakið athygli á þeim við Sigríði sjálfa. 

Svo er enda að sjá að þessar frásagnir hafi verið afgreiddar sem orð gegn orði í greinargerð Almannavarna ríkisins sem kom ári eftir flóðið. Í samantekt um viðbrögð yfirvalda í aðdraganda flóðanna segir: „Ekki var fylgt skipulagi almannavarna um viðbúnaðar- eða hættustig við boðskipti og mat á aðstæðum“. Ekkert er þó fjallað um á hvers ábyrgð þetta skipulagsleysi var. „Misskilningur kemur upp milli aðila í Súðavík og komast réttar upplýsingar um þann misskilning aldrei til sýslumanns eða [Almannavarna ríkisins]“ og „Ekki er fylgt því formi sem á að vera á tilkynningaflæði og mati á hættuástandi“. Allt þetta virðist þó í raun litlu hafa breytt að mati Almannavarna ríkisins.

„Ekki verður séð af fyrirliggjandi gögnum að önnur málsmeðferð hefði firrt því manntjóni sem varð, þar eð þau hús sem lentu í snjóflóðinu voru utan hættusvæðis samkvæmt gildandi hættumati,“ eins og segir í greinargerðinni um snjóflóðin í Súðavík, sem kom út í janúar 1996.

„Halda kjafti og gleyma“

Albert Heiðarsson var 25 ára gamall árið 1995 og bjó ásamt tveimur bræðrum sínum og foreldrum, Maríu Kristófersdóttur og Heiðari Guðbrandssyni snjóflóðaeftirlitsmanni í húsinu Árnesi, við Aðalgötu í Súðavík.

„Pabbi var alltaf í miklu sambandi við Veðurstofuna og fékk meðal annars senda einhverja svona litla veðurstöð frá þeim. Ég hef stundum í seinni tíð velt þessu fyrir mér hvað varð til þess að hann var svona upptekinn af þessari ofanflóðahættu, því hann var oft yfir þessu um nætur og sat svo við tölvuna og rýndi í veðurtölur þegar var vont veður.“

Kvöldið og nóttina áður en flóðið féll segist Albert lítið hafa sofið:

„Pabbi var eiginlega í símanum allt kvöldið og alla nóttina. Ég fór inn í herbergi til að leggja mig í kringum ellefu. En ég svo sem svaf ekki neitt, því að þegar pabbi var í símanum þá gekk hann um gólf. Ég viðurkenni það að um nóttina var ég orðinn irriteraður á því að geta ekki fengið svefnfrið fyrir karlinum gangandi um gólf, enda þyngdist bæði rómurinn og skrefþunginn eftir því sem á leið,“ segir Albert sem var síðan vakinn upp af Heiðari pabba sínum, við þær fréttir að flóð hefði fallið á bæinn.

Næstu daga sáust þeir feðgar lítið enda allir uppteknir við björgunarstörf.

„Ég man eftir því að hann var fljótlega farinn að reyna að ná í fólk til að reyna að benda á að þarna hefði verið hægt að grípa inn í fyrr,“ lýsir Albert sem segir föður sinn hafa undrast mjög viðbrögðin. „Sama hvert hann leitaði, svörin sem hann fékk voru bara þau að hann ætti að halda kjafti og gleyma þessu,“ rifjar Albert upp.

Heiðar lést fimm árum eftir snjóflóðið í sviplegu slysi, rétt við heimili sitt. „Hann var á snjósleða sem við bræðurnir áttum. Fyrir ofan húsið hafði skafið og pabbi var á leið þarna niður, hefur verið með snjóblindu líklegast og ekki séð hengjuna, þegar hann fór fram af henni og lenti bara fram fyrir sleðann og undir honum. Hann var 52 ára þegar hann dó,“ segir Albert í samtali við Heimildina, en hann er nú búsettur í Noregi.

Albert segir að foreldrar hans hafi verið aðflutt í Súðavík og upphaflega ætlað að staldra stutt við þegar þau fluttu þangað árið 1973 með tvö börn og þriðja á leiðinni. Gosið í Eyjum hafði þá valdið því að ungt barnafólk átti erfitt með fá leiguhúsnæði í Reykjavík og þau flust tímabundið vestur en ílengst. Skotið rótum og tekið virkan þátt í samfélaginu. Í minningargrein að Heiðari látnum sagði þekktur Súðvíkingur: „Kannski hefur Heiðar í raun verið meiri Súðvíkingur en ég eftir allt saman þótt aldrei hafi verið talið að skorti á stolt mitt gagnvart uppruna mínum.“

Albert sonur hans tekur undir það en segir að flóðið og eftirleikur þess hafi reynst pabba hans erfiður. „Síðasta árið sem hann lifði er fyrsta og eina skiptið sem ég heyrði hann tala um að vilja flytja frá Súðavík, þá var hann eiginlega bara búinn að fá nóg. Hann var bara búinn að gefast upp. Ég held að þetta hafi bara tekið of mikið á hann. Honum fannst þetta ósanngjarnt. Hvernig kerfið lokaði á hann sat djúpt í honum alveg þar til hann dó.“

Heiðar hafi aldrei sæst við það sem gekk á nóttina fyrir flóðið og ekki síður viðbrögðin við því þegar reynt var að benda á það.

„Það var bara reynt að þagga niður í honum,“ segir Albert sem segir föður sinn hafa árangurslaust reynt að vekja athygli þingmanna og fleiri á málinu. „Hann fékk ekki önnur viðbrögð en þau að honum var sagt að hætta þessari vitleysu og láta þetta eiga sig. Þetta var þungt þarna á eftir. Við strákarnir fengum alveg að heyra það í bænum að karlinn ætti nú að fara að halda kjafti.“

Þótt Heiðar væri gagnrýninn á viðbragðsleysi annarra þessa nótt og áður, var ekki örgrannt um að á hann leitaði djúp sektarkennd yfir því að hafa sjálfur ekki gengið lengra til að reyna að vara fólk við. „Ég hefði til dæmis sjálfur getað aðvarað íbúana upp á mitt einsdæmi. Ég velti því fyrir mér en taldi erfitt að gera það án samráðs við sýslumann eða sveitarstjóra. Mest sé ég þó eftir því að hafa ekki sjálfur haft samband við sýslumanninn aftur um nóttina þótt ég líti svo á það hafi verið annarra hlutverk,“ sagði Heiðar til að mynda í viðtali stuttu eftir flóðin.

Í gögnum úr safni Heiðars, sem sonur hans afhenti Heimildinni, sést að Heiðar reyndi næstu árin að vekja athygli á málinu og fá áheyrn með áhyggjur sínar.

Heiðar Guðbrandsson var augljóslega talinn erfiður maður af mörgum í Súðavík, bæði fyrir og eftir flóð.

Í Súðavík höfðu áratuginn fyrir flóð nokkrum sinnum risið upp deilur, þar sem íbúar skiptust í fylkingar. Til að mynda um staðsetningu nýrrar grunnskólabyggingar og svo ekki síður í kringum viðskipti hreppsnefndarmanna með hlutabréf í frystihúsinu Frosta. Deila sem endaði fyrir dómstólum og vakti athygli langt út fyrir Súðavík. Í báðum þessum málum var Heiðar fyrirferðarmikill. Albert sonur hans segir það vissulega hafa stundum tekið á hann sem ungling, að vera sonur pabba síns.

„Pabbi hélt nú aldrei kjafti,“ segir Albert og brosir út í annað. „Konan mín fékk til að mynda að heyra það, og sagði mér það ekki fyrr en nokkrum árum seinna, hvort hún ætlaði virkilega að fara að vera með syni Heiðars Guðbrandssonar? Það átti sem sagt að bitna á okkur líka. Yngri bróðir minn lenti líka í þessu. Karlinn var náttúrlega umdeildur og annað eftir því, það er ekki spurning,“ segir Albert sem segir pabba sinn hafa lagt sig fram um að kynna sér það sem hann var að fást við og fór því aldrei ólesinn á hreppsnefndarfundi.

Þegar flóðið féll á Súðavík var Heiðar pólitískur andstæðingur formanns almannavarnanefndarinnar. Þau sátu bæði í hreppsnefndinni, hún leiddi meirihlutann en hann minnihlutann. Nálægðin og fámennið í litlum þorpum gerir það að verkum að þeir eru oft eins og stór fjölskylda, með kostum þess og göllum. Viðmælendur Heimildarinnar segja engan vafa leika á að þær deilur sem höfðu verið í hreppsnefndinni séu rót þess hve samskipti Heiðars og Sigríðar voru slæm nóttina sem um ræðir.

„Það hafði auðvitað klárlega áhrif en það hins vegar breytir því ekki að eftir á hafi ekki verið neinn vilji að því er virðist til að rannsaka málið til hlítar. Maður skilur það auðvitað alls ekki,“ segir Albert sonur hans, sem telur löngu tímabært að flóðið sé gert upp með viðeigandi hætti. Rétt eins og pabbi hans og fleiri reyndu fyrstu árin eftir flóðin. Tillaga hans um að hreppsnefnd Súðavíkurhrepps mæltist til þess að skipuð yrði rannsóknarnefnd á vegum Alþingis var til að mynda felld, haustið 1995, með þeim rökum að rannsókn væri þá yfirstandandi á vegum Almannavarna ríkisins.

Hættan metin

Þó að vissulega hafi kraftur og stærð flóðsins í Súðavík komið mörgum í opna skjöldu er þó ekki þar með sagt að snjóflóðahætta á þessum sama stað hafi ekki legið fyrir. Í Súðavík einni voru munnlegar og skriflegar heimildir fyrir flóðum alla síðustu öld. Árlega féllu þau svo tugum skipti á veginn um Súðavíkurhlíð, sem skilur að Súðavík og Ísafjörð. Eins höfðu fjölmörg flóð fallið á og við þann stað þar sem flóðin féllu 1995. Frásagnir voru til af flóði alla leið í sjó fram, bæði úr Traðargili og líka þar sem flóðið féll 1995. Sú frásögn af flóði árið 1905 virtist þó ekki hafa verið skjalfest sem munnleg heimild fyrr en eftir flóðið 1995.

Hættan af ofanflóðum og ekki síður það hvernig hætta af þeim var hunsuð eða gleymd, minnti reglulega á sig á Íslandi áratugina fyrir flóðið í Súðavík. Þetta kom í ljós þegar snjóflóð féllu í Neskaupstað í desember árið 1974. Tólf fórust í flóðum, sem féll í þekkta snjóflóðafarvegi. Áratugum fyrr hafði meira að segja verið varað við því að reisa byggð á stað sem seinna fór undir flóð, því þar hefðu fallið mannskæð flóð. Varnarorð sem einfaldlega gleymdust og bárust aldrei þeim sem síðan gerðu sér þar heimili.

Eftir Neskaupstaðarflóðin var enda heitið því að auka vitund um snjóflóðahættu svo koma mætti í veg fyrir að sambærilegir harmleikir endurtækju sig.

Skipaður var starfshópur Rannsóknarráðs ríkisins um snjóflóð, sem skilaði áliti árið 1976. Stofna átti svæðisstöðvar þar sem snjóflóðahætta var mest og fylgjast með snjóalögum, veðurfari og fleiru, undir stjórn almannavarnanefnda á hverju svæði í samráði við Veðurstofuna. Ekkert varð þó af þessu, frekar en öðru sem starfshópurinn lagði til. Almannavarnir gengust þó fyrir námskeiðum í því hvernig bregðast skyldi við snjóflóðum, námskeiðum í björgun og fræðslu um snjóflóð.

Áfram liðu árin og aftur féll snjóflóð í þekktan flóðfarveg.

Hálfum mánuði síðar, þann 22. janúar, létust þrír, þar með talin lítil stúlka, í krapaflóði á Patreksfirði. Fimm slösuðust. Síðar kom í ljós að til voru heimildir um að krapaflóð hefðu fallið á sama stað, síðast innan við tuttugu árum áður, ofan í húsgrunn sem var í byggingu í bænum. Mánuði síðar féll svo snjóflóð á byggðina í Ólafsvík og olli miklum skemmdum. Tveir menn lentu í flóðinu en komust lífs af.

Enn á ný var ákveðið að reyna að draga lærdóm og í þetta skiptið með nýrri löggjöf um varnir gegn snjóflóðum sem sett var árið 1985. Þar var í fyrsta sinn gert ráð fyrir því að meta skipulega hættu af ofanflóðum í byggðum landsins. Hættumatinu var svo ætlað að stýra viðbrögðum við flóðahættu og ákvörðunum um byggingu snjóflóðavarnarmannvirkja. Sérstök ofanflóðanefnd, undir forystu forstjóra Almannavarna ríkisins, átti síðan að vera stjórnvöldum til ráðgjafar um framkvæmd og skipulag varna og hættumats. Í henni sátu meðal annars fulltrúar Veðurstofu, vísindamenn Háskólans og skipulagsstjóri ríkisins.

Veðurstofunni var svo falið að afla gagna um snjóflóð og -hættu á þeim stöðum um landið þar sem vitað var af ofanflóðahættu. Á grunni þess yrði hættan metin og þörf fyrir byggingu varnarvirkja og rýmingar við yfirvofandi hættu í samráði við almannavarnir í hverju sveitarfélagi.

„Óráðlegt að byggja“

Í bréfi til sveitarstjórans í Súðavík benti Skipulagið á þarna væri „svæði sem nokkur snjóflóðahætta kann að vera fyrir hendi“ en að líkur á „mikilli hættu“ séu litlar, svo langt sem heimildir ná. Síðan er í bréfinu vísað til vettvangskönnunar tveggja verkfræðinga þar sem sagt var auðvelt að útbúa snjóvarnarkeilur á svæðinu, og bregðast við flóði eins og því sem féll 1983. „Með þessum fyrirvara, þ.e.a.s. að varnir verði gerðar, get ég mælt með íbúðarhúsabyggð neðanvert við Engjaveg“.

Húsið sem hún og Eiríkur byggðu stendur enn og er nú í eigu sonar Mayu sem keypti það fyrir nokkrum árum. Út um eldhúsgluggann sjást lítil ummerki um að annað hús hafi staðið þar í nokkurra metra fjarlægð. Hús foreldra hennar sem gjöreyðilagðist í snjóflóðinu. Fyrir Mayu er minningin samt ljóslifandi.

Vettvangskönnunin sem Skipulagsstjóri vitnaði í bréfi sínu 1985, unnu verkfræðingarnir Árni Traustason frá Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsen og Gísli Eiríksson frá Vegagerð ríkisins árið 1984. Hún innihélt einnig varnaðarorð um hús sem þá voru óbyggð, en risu síðar, og urðu undir snjóflóðinu áratug seinna.

Blaðamaður Morgunpóstsins dró þá ályktun að þarna sé um að ræða húsnúmer en ekki lóðanúmer. Það er að segja að þarna sé talað um húsin, Túngötu 1-3. Það fæst hins vegar ekki staðist, því þau hús voru öll risin þegar þarna er komið sögu. Miklu líklegra er að þarna sé átt við lóðir, sem byggðar voru árið eftir, 1985, og á stóðu seinna íbúðarhúsin númer 1, 7 og 9 við Nesveg. Þessi hús eru þar fyrir utan öll næst leikskólanum, eins og vísað er til í skýrslu verkfræðinganna. Þessi hluti Nesvegarins er auk þess í beinni línu og í framhaldi af Túngötunni, sem gæti skýrt hvers vegna lóðanúmerin eru sögð Túngata 1-3. Sé þetta rétt, sem flest bendir til, voru verkfræðingarnir að vara við því að hús Hrafnhildar Þorsteinssonar og Sveins Salómonssonar, yrði reist. Hús sem fór í flóðinu sem kostaði þau bæði lífið.

Viðhorf sveitarstjórnarinnar á þessum tíma til aðvaranna Árna og Gísla birtist ekki síður í aðalskipulagi Súðavíkur fyrir árin 1987-2007, sem varðveitt er á Þjóðskjalasafninu. Sérstaklega er fjallað um snjóflóð í greinargerð skipulagsins, þar sem segir: „Gerð hefur verið tillaga að snjóflóðavörnum unnin af Árna Traustasyni tæknifræðingi á Ísafirði [...] og er framkvæmd skipt í tvo áfanga. Er áðurnefndum framkvæmdum er lokið verður væntanlega hægt að úthluta lóðum við Skólaveg og Engjaveg, en sem stendur er einungis hægt að úthluta lóðum við Nesveg og neðanverðan íþróttavöll.“

Engu breytti þá að tilvitnaðar tillögur Árna sýndu að án snjóflóðavarna mætti gera ráð fyrir að flóð féll yfir allar þær lóðir sem sveitarstjórninni þótti í lagi að úthluta á Nesvegi. Sem svo var gert.

Maya segist aldrei fyrr hafa heyrt af þessum umræðum og því hvernig yfirvöld höfðu rætt um svæðið sem hún og fjölskyldan hennar voru að gera að heimili sínu. „Það er bara erfitt að lýsa því hvernig er að sjá þetta og heyra. Ég veit persónulega að ég hefði ekki viljað byggja á snjóflóðahættusvæði, og mamma og pabbi ekki heldur. Það sagði okkur þetta enginn og ég bara skil ekki hvernig það gat gerst.“

Þrír fengnir í verkið

Á sama tíma og húsin héldu áfram að rísa við Nesveginn voru embættismenn í Reykjavík og sveitarstjórnarfólk í Súðavík að skiptast á bréfum um hvernig skyldi bregðast við hættunni af því að snjóflóð féllu á þau. Aðeins nokkrum mánuðum eftir að lög um snjóflóðavarnir höfðu tekið gildi hafði sveitarstjóri Súðavíkur skilað inn formlegri beiðni um gerð hættumats fyrir sveitarfélagið. Í bréfinu, sem sent var 1986, vísaði sveitarstjórinn sérstaklega til þess að fyrr þann áratug hefðu snjóflóð fallið úr Súðavíkurhlíðinni, ofan við byggð. Nauðsynlegt væri að bregðast við enda stæði uppbygging á því sama svæði fyrir dyrum.

Þrátt fyrir að snjóflóðavarnir hafi verið forsenda áframhaldandi uppbyggingar féllst ofanflóðanefnd ekki á að veita fjármagni til byggingar þeirra. Ekki á meðan hættumat fyrir svæðið væri óklárað. Vinna við það var talsvert umfangsmikil enda fyrsta sinnar tegundar hér á landi.

Til verksins voru fengnir ýmsir aðilar. Starfsmenn Veðurstofunnar voru sendir á staðinn til að meta aðstæður og kanna hvað lesa mætti úr landslaginu; fyrir þá var lagt að kanna heimildir um snjóflóð sem fallið höfðu við bæinn síðustu hundrað ár þar á undan. Til viðbótar voru kallaðir til verkfræðingar bæði frá Siglufirði og Reykjavík; frá Verkfræðistofu Siglufjarðar annars vegar og Hnit hins vegar. Allir unnu verkfræðingarnir og vísindamennirnir samkvæmt forskrift í reglugerð um gerð snjóflóðahættumats.

Almannavarnaráð fékk öll gögn í hendurnar, lagði mat á þau og teiknaði sína eigin hættumatslínu. Öðrum megin línunnar var „hættusvæði“ litað með rauðum trélit, og hinum megin „hættulaust svæði“, litað með grænu. Línan var dregin nokkurn veginn eftir útreikningum í því reiknilíkani sem reglugerðin hafði mælt fyrir um. Verkfræðistofan Hnit hafði þó líka sett forsendurnar inn í tvö önnur algrím, sem höfðu skilað tveimur ólíkum niðurstöðum. Hættumatslínan var því alls ekki óumdeild. Hún var engu að síður dregin ofanvert meðfram efstu röð húsanna við Túngötu, í gegnum bílskúr eins hússins, í gegnum húsið við Nesveg 1 og svo meðfram húsaröðinni út götuna. Þrjú hús við enda hennar lentu, samkvæmt kortinu, innan hættusvæðisins; Nesvegur 11, 13 og 19.

Samkvæmt upplýsingum Heimildarinnar var kurr um forsendurnar sem lagt var upp með í þessari reglugerð. Af hverju takmarkaðist gagnaöflunin við síðustu 100 ár? Hvaða reikniformúlur var rétt að nota fyrir snjóflóð af ólíkri gerð? Engin gögn finnast um af hverju þessar forsendur voru valdar en efasemdir voru enn til staðar eftir að matið hafði verið fullgert árið 1989. Og í gögnum Almannavarnaráðs ríkisins er að finna upplýsingar um að á innan við ári fyrir hin mannskæðu flóð í Súðavík og Flateyri, hafi yfirvöld verið byrjuð að undirbúa nýrri reglugerð um gerð hættumats, vegna þeirrar gagnrýni. Almannavarnanefnd Súðavíkur var sérstaklega tilkynnt um það á fundi með forstjóra Almannavarna ríkisins í apríl 1994 að endurskoða ætti hættumat staðarins, þegar ný reglugerð lægi fyrir, eins og það var orðað.

Allir sem komu að gerð hættumatsins 1989 virðast hafa hagað vinnu sinni á þann veg að útilokað væri að stærra snjóflóð gæti fallið en hafði gert síðustu hundrað árin þar á undan. Flóðið sem féll í byrjun janúar 1983 var ágætlega skrásett og var hættumatslínan sögð dregin við mörk þess. Rétt við efri lóðamörk efstu húsanna í Túngötunni, jafnvel þó að í fórum ofanflóðanefndar hafi verið upplýsingar um að flóðið 1983 hafi náð niður og jafnvel niður fyrir sum þessara húsa. Þetta má sjá í drögum að hættumatinu sem finna má í gögnum ofanflóðanefndar.

„[Eigandi] Túngötu 4 sagði að flóðið 1983 hefði stöðvast á húsi sínu við svefnherbergisglugga, og gengið upp á vegginn um einn meter. Hann sagði að systir konu hans hefði vaknað við flóðið og gat þess að jeppabifreið sem stóð vestan við húsið hefði farið á hliðina í flóðinu.“

Í þetta sama hús fluttu Sigga Ranný og fjölskylda hennar stuttu áður en flóð féll á það í ársbyrjun 1995, þar sem dóttir hennar lést. Húsið tilheyrði Verkamannabústöðum Súðavíkurhrepps. Sigga komst ekki að því fyrr en nýlega að flóð hefði áður fallið á húsið, og náð rúmlega metra upp að gluggum svefnherbergjanna sem hún og fjölskylda hennar sváfu síðar í. Hún segist fyrst hafa heyrt óljósar frásagnir í þessa átt fyrir um tveimur árum, á þá leið að fyrri eigendur hússins hefðu í nokkur ár eftir flóðið 1983 neglt hlera fyrir svefnherbergisgluggana sem sneru í átt að fjallinu, til að verja þá snjóflóði.

„Ég frétti þetta svo bara núna þegar ég sé í þessum gögnum að það hafi verið búið að falla flóð á þetta hús,“ segir Sigga Ranný, sem segist varla hafa trúað eigin augum í fyrstu. „Hversu fáránlegt er það að selja hús sem er búið að falla snjóflóð á? Ég spyr mig bara sem fullorðin kona, hversu fáránlegt er það að leyfa ungri fjölskyldu með lítil börn að flytja inn í slíkt hús? Ég get svarið fyrir það að ég skil það ekki. Og ég veit ekki hvort nokkur maður skilur það,“ segir hún og minnist þess hvaða skýringar hún og fleiri í sömu stöðu fengu frá yfirvöldum eftir flóðin.

„Dagana á eftir þá var bara alltaf sagt við okkur að við höfum verið á öruggu svæði. Það var enginn á hættusvæði og það óraði engan fyrir að þarna gæti fallið flóð. En samt var búið að falla þarna flóð.“

Forgangur í áratug

Fullyrðingar um að ekki hafi verið fyrirsjáanleg hætta á svæðinu sem fór undir flóðið stemma heldur ekki við þær upplýsingar sem komu fram þegar gert var hættumat fyrir Súðavík eða þegar samskipti yfirvalda um hættuna og ítrekaðar umræður um þörf á byggingu varnargarða á akkúrat því svæði sem fór undir flóð, áratuginn á undan.

Í gögnum Almannavarna ríkisins sést að strax í janúar 1986 hófust viðræður um þörf á því að verja þetta sama svæði. Steinn Kjartansson, sveitarstjóri Súðavíkurhrepps, sendi þá ofanflóðanefnd bréf og óskar eftir því að farið verði í gerð hættumats fyrir Súðavík. Vísar hann sérstaklega til flóðanna 1983. „Annað þessara flóða náði niður að íbúðarhúsum við Túngötu, stöðvaðist þar við bílskúr“, segir í bréfi sveitarstjórans, þar sem tilkynnt er um að verið sé að hanna mannvirki til að verja ystu hús við Túngötu og Engjaveg, sem þá stóð enn til að byggja ofan við Nesveginn.

„Sótt verður um styrk til þeirra framkvæmda strax og hönnuninni er lokið“, segir í bréfi sveitarstjórans. Mánuði síðar berst svo kostnaðaráætlun verkfræðinga vegna ofanflóðavarna fyrir Súðavík, til ofanflóðanefndar. Tveimur mánuðum síðar, í maí 1986, tóku Almannavarnir ríkisins málið fyrir og höfnuðu beiðninni, á þeirri forsendu að ekki hefði verið gert hættumat fyrir Súðavík.

Ári seinna, í júlí 1987, er í fundargerð ofanflóðanefndar fjallað um hættumat vegna Súðavíkur og talað um að áfram verði unnið að því og hvort og hvernig unnt verði að verjast snjóflóðum á þeim svæðum, sem aðalskipulagið gerir ráð fyrir að tekin verði til byggingar. Nefndin vekur svo athygli á því að stór hluti þessara svæða er á hættusvæðum. Um svipað leyti varð ljóst að ekki yrði byggt frekar á svæðinu ofan við Nesveginn, vegna snjóflóðahættu.

Þegar svo hættumat var gert fyrir Súðavík árið 1989 var eitt af skilyrðum þess að byggðar skyldu varnir. Í fundargerðum yfirvalda í Súðavík og á landsvísu var svo ítrekað fjallað um þörfina á þeim næstu árin. Í fundargerðum almannavarnanefndar Súðavíkur er ítrekað rætt um gerð varnarvirkja fyrir fyrir ofan Túngötu og Nesveg.

„Fundarmenn sammála um að rétt væri að snjóflóðavarnir ofan Nesvegar skyldu hafa forgang“, segir til að mynda í fundargerð forstjóra Almannavarna ríkisins eftir fund í febrúar árið 1990 með almannavarnanefnd Súðavíkur. Í fundargerð nefndarinnar segir jafnframt:

„Rætt fram og aftur um varnir gegn snjóflóðum. Nefndin sammála um að nyrðra svæðið (ofan Nesvegar) hafi forgang. Telur nefndin að garður komi fyllilega til greina þó ekki sé lokað á aðra möguleika.“

Um þetta leyti virðist sem deilur um fjármögnun og skiptingu kostnaðar milli ríkis og sveitarfélaga hafi farið að þvælast fyrir því að farið yrði í að verja það sem talið hafði verið forgangsatriði fram að því. „Kostnaðarhlutdeild sveitarfélagsins þykir há“, segir í fundargerð almannavarnanefndar Súðavíkur í febrúar 1991. Sveitarfélagið átti að greiða 20 prósent af kostnaðinum á móti 80 prósentum ríkisins.

Fjögur, níu eða kannski bara tvö?

Þó að hættumatið hafi aðallega birst á korti sem staðfest var með undirskrift félagsmálaráðherra í september árið 1989, lá einnig til grundvallar greinargerð sem lýsti í texta hvernig hættumatið var, hvernig það var unnið og hvaða gögn lágu til grundvallar matinu. Breytingar sem gerðar voru á niðurstöðukafla greinargerðar snjóflóðahættumatsins, vekja óneitanlega spurningar.

Ekki liggur fyrir hver hélt á blýantinum hverju sinni sem strikað var yfir og leiðrétt né á hverju mismunandi tölur um húsafjölda byggðu. Engin af tölunum sem prentaðar voru í drögum eða lokaútgáfu greinargerðarinnar voru enda réttar. Ekki frekar en sjálft hættumatskortið. Íbúðarhúsin voru níu og til viðbótar var leikskóli.

Ljóst má vera að einhver þessara aðila hafi mátt vera meðvitaður um húsin fimm sem byggð voru eftir að loftmyndin sem Almannavarnir studdust við var tekin en áður en hættumatið var gefið út. Kort sem bárust almannavarnaráði frá Hnit verkfræðistofu sýna þessi nýju hús teiknuð inn. Það var líka raunin á kortum sem bárust frá Verkfræðistofu Siglufjarðar. Einu kortin sem ekki virðast hafa innihaldið húsin við Nesveg voru kort Almannavarna, sem síðan voru grundvöllur hættumatsins.

Kemur í ljós áratugum síðar

Á þessu korti byggðu viðbrögð þeirra sem áttu að stýra aðgerðum. Hafsteinn og Maya lýsa því bæði að hafa strax í kjölfar flóðanna kallað eftir svörum um af hverju engin hús hafi verið rýmd. Af hverju var enginn við Túngötu og Nesveg látinn vita? Daginn eftir flóð kveðst Maya hafa gengið á sveitarstjórann og sýslumanninn og spurt um hvers vegna hús foreldra hennar hafi ekki verið rýmt.

Jafnvel eftir að hafa beðið sveitarstjórann og sýslumanninn afsökunar eftir að hafa gengið á þau varðandi rýmingu húss foreldra sinna, sat þetta í Mayu, sem var sannfærð um að foreldrar sínir hafi talið húsið standa á hættulegum stað. „Ég hringi í Magnús Má [yfirverkefnisstjóra snjóflóðavarna á Veðurstofu Íslands] sem var þarna við vinnu þessa nótt, sem var í sambandi við, semsagt á Veðurstofunni. Og ég fæ hættumatið. Ég segi, má ég fá að sjá þetta hættumat? Og við skoðum það, en við rákum ekkert augun í það, það voru engin hús teiknuð inn á, við áttuðum okkur ekki á því. Og þá sé ég já, þarna er gatan, jú, jú, þetta er allt á rauðu svæði.“

Það var hins vegar ekki fyrr en rétt um 27 árum seinna að Maya og Hafsteinn átta sig á hvað vantaði inn á kortið. „Ég fer að gramsa aftur vegna þess að ég sé á hættumatinu, ég skoða hættumatskortið, þá sjáum við allt í einu að það er eitthvað bogið við það. Við förum að athuga, þá vantar fjögur hús á Nesveg. Það er ekki til á hættumatinu. Þá gera þeir hættumatskortið, af gömlu korti af Súðavík. Loftmynd. Og hún er áður en húsin eru byggð,“ segir Hafsteinn.

Sigga Ranný man líka eftir þessum skýringum, um að engin hætta hafi verið í byggðinni undir hlíðinni. Skýringum sem hún furðar sig á í dag. Hættumatið sjálft hafði hún aldrei séð og hafði ekki forsendur til að efast um það.

Fullyrðingin sem seinna var sett fram í greinargerð Almannavarna ríkisins, ári eftir flóðið: „Ekki verður séð af fyrirliggjandi gögnum að önnur málsmeðferð hefði firrt því manntjóni sem varð, þar eð þau hús sem lentu í snjóflóðinu voru utan hættusvæðis samkvæmt gildandi hættumati.“

Sú setning í skýrslunni sem sett var fram sem meginniðurstaða rannsóknar á snjóflóðinu í Súðavík, var því einfaldlega röng.

Og jafnvel þótt hópur Súðvíkinga hafi reynt að benda á það og fleiri atriði sem þau töldu rangt farið með eða ekki fjallað um í skýrslunni, varð þeim lítið sem ekkert ágengt. Málið var úr sögunni og afgreitt með vísan til niðurstöðu Almannavarna, sem í raun voru að framkvæma skoðun á eigin verkum. Tilraunir eftirlifenda og ættingja þeirra sem fórust í flóðinu til þess að fá í gegn hlutlausa opinbera rannsókn á málinu, hefur oftsinnis síðan verið svarað með því að málið hafi þegar verið rannsakað.

Í greinargerð Almannavarna, sem vísað var til sem rannsóknar á flóðinu, var aldrei fjallað um ágalla í hættumatinu eða hvers vegna hættulína var dregin ofan við húsin í Túngötunni, þvert á upplýsingar um fyrri flóð. Ekki frekar en reynt var að varpa ljósi á hvers vegna snjóflóðavarnir höfðu ekki verið settar upp í Súðavík, þrátt fyrir að það hefði verið sagt forsenda þess að tryggja öryggi í byggðinni. Upplýsingar sem íbúum bárust aldrei, ekki frekar en upplýsingar um áhyggjur af yfirvofandi hættu nóttina fyrir flóð.

Lærdómurinn

Eftir harmleikinn í Súðavík í janúar 1995 var aftur ákveðið að draga lærdóm. Rétt eins og eftir flóðið í Neskaupstað 1974 og krapaflóðið á Patreksfirði 1983. Enginn vildi upplifa annan eins harm aftur.

Í viðtali við Morgunblaðið 19. janúar, þremur dögum eftir að flóðin féllu, orðaði Þorsteinn Jóhannes, yfirlæknir á Sjúkrahúsi Ísafjarðar, það sem margir hugsuðu. „Það er ljóst að við verðum að endurskoða okkar snjóflóðahættumat. Ég sé ekki að okkur sé fært annað en að endurskoða þetta mat og setja upp mjög strangar reglur. Þetta eru hlutir sem ekki mega koma fyrir.“

Enginn læknir var í Súðavík og var Þorsteinn sendur í fyrsta hópi björgunarmanna morguninn sem flóðið féll. „Ég hef aldrei lent í öðru eins og vona að ég eigi aldrei eftir að upplifa þetta aftur. Þetta er lífsreynsla sem er mjög þungbær,“ sagði hann þá.

Því miður varð Þorsteini ekki að ósk sinni. Tíu mánuðum seinna, þann 26. október, féll snjóflóð á Flateyri. Tuttugu létust í því flóði; þar af fjögur börn.

Óútskýrða skarðið

Fyrir utan minnisvarðann í Túngötunni er fátt sem gefur til kynna hvaða hörmungar dundu yfir þorpið. Ef menn vissu ekki betur gætu þeir haldið að þar hefðu menn farið fram úr sér og lagt götur og gangstéttir, langt umfram eftirspurn, þegar rutt var út byggingaland.

Það hvernig staðið var að því að ryðja burtu eftir flóðin hafði sitt að segja um hversu illa gekk að græða sár þeirra sem eftir stóðu. Meira að segja húsgrunnarnir, sem oft voru það eina sem stóð af sér flóðið, voru brotnir upp og fjarlægðir. Allir nema einn.

Ragna Aðalsteinsdóttir, bóndi á Laugabóli, lagðist hart gegn því að húsgrunnur dóttur sinnar, Bellu, sem lést í flóðinu ásamt Petreu, barnabarni Rögnu, yrði hreyfður. Ragna fékk sínu fram þótt mörgum þætti krafa hennar allt að því þráhyggjukennd.

Einn veggur húss Siggu Rannýjar stóð lengi vel uppi, en var svo rifinn, rétt eins og grunnur húss hennar. Hún segist í dag sjá eftir veggnum og því sem eftir stóð.

„Í dag hefði ég viljað hafa minjar,“ segir Sigga Ranný þegar hún horfir yfir túnin, sem áður voru húsin í götunni hennar. „Og ég er svo stolt af henni Rögnu að hafa barist fyrir grunninum. Því þetta er táknmynd þess sem gerðist hérna, að hér voru fjölskyldur. Og heimili. Hún á heiður skilinn. Eins og Hafsteinn. Þau börðust.“

Það hvernig eigum fólks var mokað í burtu og jafnvel út í sjó, eftir flóðin, húsarústir jafnaðar við jörðu og grunnar húsanna grafnir upp, er lýsandi fyrir það hvernig Sigga og fleiri upplifa að bæði flóðið og aðdragandi þess hafi verið meðhöndlaður til þessa. Hún er ekki ein um þá skoðun.

Á annan tug aðstandenda og eftirlifenda úr flóðinu telja tíma kominn á uppgjör. Upplýsingar sem komið hafi fram nýverið staðfesti að það sem afgreitt var sem sögusagnir og misskilningur strax eftir flóðin, sýni fram á stórkostlega vanrækslu yfirvalda í aðdraganda og viðbrögðum við yfirsteðjandi hættu í Súðavík.

Með þessa nýju vitneskju ítrekar Hafsteinn ósk sína um að opinber rannsókn fari fram á snjóflóðunum, sem nú eru liðin næstum þrír áratugir frá því að féllu. Strax í mars árið 1995 bað Hafsteinn um að málið yrði skoðað; hann væri sjálfur ekki tilbúinn að setjast í dómarasætið og segja að einhver hafi haft rangt við. „Það sem vakir fyrir okkur er að umræðan verði opnuð og málin komist á hreint og við lærum eitthvað af þessu,“ sagði hann við Helgarpóstinn þá.

Það sama segir hann nú.

Maya lýsir sömu upplifun. „Það er ekki sá dagur sem líður sem ég hugsa ekki til þeirra og mér finnst að ég fái ekki sálarfrið fyrr en ég er búin að koma þessu á framfæri. Þau eru dáin, ég fæ þau ekki, þau koma ekki til baka, en það er kannski hægt að bjarga einhverjum öðrum,“ segir hún.

Hluti hópsins reyndi að fá málinu hreyft nokkrum árum eftir flóðin, en hlaut hvergi áheyrn. Sigga Ranný var sjálf rétt rúmlega tvítug á þeim tíma. Hafði misst ungt barn, tengdaforeldra, vinafólk og heimili sitt. Hún segist á þeim tíma hvorki hafa getað barist fyrir svörum eða hreinlega viljað horfast í augu við það sem nú blasi við.

„Ég gat það ekki. Þetta var að éta mig að innan. Ég lokaði bara og læsti og vildi bara sjá það góða og fallega í öllu. Ég vildi ekkert neikvætt. Það var bara fyrir sjálfa mig til að komast af. Ég varð bara að sleppa og fór að lifa mínu lífi og ala upp mín börn. Í dag hins vegar er ég tilbúin til að vera rödd dóttur minnar í öllu þessu ranglæti og öllu þessu sem gekk á hérna.“

Ragna á Laugabóli og Hafsteinn voru lengi vel háværust í hópi þeirra sem vildu fá upp á borð svör við fjölmörgum ósvöruðum spurningum á árunum eftir flóðin. Þau voru erfið og fengu líka að heyra það og voru afgreidd í samræmi við það. Gaslýst, eins og það kallast í dag. Ragna lést síðastliðið haust 97 ára að aldri.

„Í dag sé ég það sem Ragna gerði og gekk í gegnum. Og ég sé það sem Hafsteinn gerði og gekk í gegnum. Ég sé það og ég ber svo mikla virðingu fyrir þessu fólki sem reyndi allt sem þau gátu. Það vildi bara enginn hlusta, af því að þetta var bara afgreitt sem reitt fólk í sorg. Núna erum við smám saman að sjá meira og fá að vita meira um það hvernig þetta var. Og það er sárt. Þetta þurfti ekki að gerast,“ segir Sigga Ranný. „Ég veit að dóttir mín þurfti ekki að deyja þessa nótt.“

Minningin lifir

Auk hins sára ástvinamissis horfðu margir á eftir nær öllum eigum sínum og heimili í snjóflóðinu. Þar á meðal voru ljósmyndir og minningar festar á filmu; meðal annars síðustu samverustundir foreldra og barna. Fyrir blöndu harðfylgis og hreinnar heppni tókst endurheimta þessar upptökur. Myndbandsupptökuvél Hafsteins Númasonar og Berglindar Kristjánsdóttur, fannst til að mynda hálfu ári eftir flóðið, fyrir algjöra tilviljun. Sigga Ranný lagðist sjálf í leit að sinni ásamt Ómari bróður sínum og fann hana, eftir nokkurra daga leit í flóðinu. Myndböndin raða saman svipmynd af síðasta mánuðinum í lífi tíu íbúa í Súðavík. Frá jólatónleikum barnaskólans sléttum mánuði fyrir snjóflóðið og síðan undirbúningi, jólahaldi og áramótafögnuði. En líka hverdagslegum leikjum eins og því þegar Helga Björk Jónasdóttir dansar við þá vinsælasta dægurlag Íslands, Tomorrow með hljómsveitinni Spoon.


Myndataka: Haukur Sigurðsson, Davíð Þór Guðlaugsson.
Myndefni: RÚV, Sigríður Rannveig Jónsdóttir, Maya Hrafnhildardóttir, Jónas Hrólfsson, Hafsteinn Númason, Albert Heiðarsson.
Vefframleiðsla: Jón Ingi Stefánsson, Aðalsteinn Kjartansson, Rafn Steingrímsson.
Tónlist: Spoon - Tomorrow, Friðrik Geirdal Júlíusson/Egill Lárusson (Birt með góðfúslegu leyfi höfunda)
Sérstakar þakkir: Stefán Aðalsteinn Drengsson, THANK YOU Studio.
Kjósa
89
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir (13)

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
  • Emma Geirsdóttir skrifaði
    Ég var ung móðir í Reykjavík þegar þetta kom fyrir ég grét og svaf með 1 árs son minn í fanginu í marga daga því ég fann svo til með þessu fólki ❤️ í dag 2023 les ég þetta grátandi og þetta nyrstir en 😔 hjarta mitt 💞
    0
  • Boggi Tona skrifaði
    Átakanlegt að lesa og horfa á þetta og greinilegt að þarna var verið að sópa röngum ákvörðunum undir teppið sem skömm er að fyrir þá sem koma við sögu og báru ábyrgð.
    Þetta var og er mikill harmleikur fyrir mjög marga og það fólk á rétt á því að yfirvöld rannsaki þetta mál ofan í kjölinn.
    3
  • Þarna er vel lýst hvernig sér íslensk stjórnsýsluþvæla virkar. Svona ef það hefur farið framhjá einhverjum.
    2
  • Sigrún Oddgeirsdóttir skrifaði
    Ég bjó á Patreksfirði 10 ára gömul árið 1995. Þar leikum við okkur oft við að klifra á minnisvarðanum því þá stóðu bindisjárnin enn út úr honum að aftanverðu. Við bjuggum í nýlegri hlutananum á bænum og var oft rýmt á veturnar vegna snjóflóðahættu.
    Í eitt skiptið var mér gert að skilja hamsturinn minn eftir, ég varð svo kvíðin yfir því að pabbi minn fór með björgunnarsveitarmönnum að sækja dýrið, þá fyrst ærðist ég af ótta og samviskubiti yfir að hafa sent pabba minn í hættu. Ég vissi af öllu fólkinu sem fórst árið 1995 og þekkti krakka sem misst höfðu frændsystkyni.
    Þangað til núna hélt ég að það væri eðlilegt og leyfilegt að byggja á snjóflóðahættusvæði.
    1
  • Andri Gunnarsson skrifaði
    ❤️
    1
  • K Hulda Guðmundsdóttir skrifaði
    Gríðarlega góð umfjöllun - tæknilega vel út færð í skýringarmyndum, video- og fréttaklippum. Átakanleg, og getur ekki öðru vísi verið þegar fjallað er um óumræðilega skelfilega atburði. Birtir líka fálmkennd viðbrögð ,sérfræðinga' andspænis náttúruvá og alveg sérstaklega óskiljanlegt en samþykkt hættumat frá 1989 sem dregur línu „feigs og ófeigs“ um húsveggi við Túngötuna. Ekkert grátt svæði! - og að hugsa sér að sveitarstjórnarfólkið á staðnum skuli hafa kyngt þessu
    5
  • Kristín Ósk Gestsdóttir skrifaði
    Takk Heimildin fyrir vel unnið verk.
    7
  • Jón Ragnarsson skrifaði
    Takk fyrir þetta . Pólitíkin er alltaf eins .
    3
  • Gunna Jóh skrifaði
    Þarna hefði mátt standa öðruvísi að málum. Hefði það verið gert hefði þessum mannslífum verið borgið. Gleymi þessum degi aldrei, hvað þá fólkið sem lenti í snjóflóðinu og missti börnin sín ættingja og vini. Allt þetta fólk á alla mína samúð og ég hugsa oft til þessa hræðilega atburðar þegar veður eru slæm fyrir vestan. Takk þið sem stóðuð að því að þessar upplýsingar komi í dagsljósið ❤️
    4
  • JDK
    Jóna Dóra Karlsdóttir skrifaði
    Manni fallast hendur 🙏🏼❤️ Það er morgunljóst að mörgu var haldið leyndu. Takk Helgi og Aðalsteinn fyrir magnaða vinnu❤️ Og þið öll hin ❤️
    6
  • Anna María Sverrisdóttir skrifaði
    Takk.
    3
  • SIL
    SVEINN INGI LÝÐSSON skrifaði
    Þarfleg umfjöllun um skelfilegan atburð. Sakna þess að ekki hafi verið leitað álits fólks sem gegndi lykilembættum eins og Ólafs Helga og Sigríðar Hrannar.
    2
    • Heiða B. Sorvino Heiðars skrifaði
      https://heimildin.is/grein/17329/gerdi-thetta-upp-eftir-bestu-samvisku/
      3
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.
Tengdar greinar

Súðavíkurflóðið

Alþingi skipar rannsóknarnefnd um Súðavíkurflóðið
FréttirSúðavíkurflóðið

Al­þingi skip­ar rann­sókn­ar­nefnd um Súða­vík­ur­flóð­ið

Stjórn­skip­un­ar- og eft­ir­lits­nefnd hef­ur sam­þykkt beiðni að­stand­enda þrett­án þeirra sem fór­ust í snjóflóð­inu í Súða­vík í janú­ar ár­ið 1995 um að fram fari op­in­ber rann­sókn á að­drag­anda og eft­ir­mál­um flóðs­ins. Mál­ið fer til þing­for­seta og svo þings­ins í heild. Alls lét­ust fjór­tán þeg­ar snjóflóð féll á byggð­ina í Súða­vík snemma morg­uns 16. janú­ar, þar af átta börn.
Stíga fyrstu skrefin vegna mögulegrar rannsóknarnefndar vegna Súðavíkurflóðsins
FréttirSúðavíkurflóðið

Stíga fyrstu skref­in vegna mögu­legr­ar rann­sókn­ar­nefnd­ar vegna Súða­vík­ur­flóðs­ins

Stjórn­skip­un­ar- og eft­ir­lits­nefnd Al­þing­is ákvað í morg­un að hefja gagna­öfl­un vegna mögu­legr­ar rann­sókn­ar­nefnd­ar á veg­um Al­þing­is vegna að­drag­anda og eft­ir­mála snjóflóðs­ins sem féll ár­ið 1995 í Súða­vík. Nið­ur­staða þeirr­ar vinnu verð­ur grund­völl­ur ákvörð­un­ar um hvort leggja eigi til skip­un rann­sókn­ar­nefnd­ar.
Katrín bendir þinginu á að rannsaka aðdraganda og eftirmál Súðarvíkurflóðanna
FréttirSúðavíkurflóðið

Katrín bend­ir þing­inu á að rann­saka að­drag­anda og eft­ir­mál Súð­ar­vík­ur­flóð­anna

Í bréfi sem Katrín Jak­obs­dótt­ir for­sæt­is­ráð­herra sendi Þór­unni Svein­bjarn­ar­dótt­ur, for­manni stjórn­skip­un­ar- og eft­ir­lits­nefnd­ar Al­þing­is, seg­ist hún telja að rann­sókn­ar­nefnd á veg­um Al­þing­is væri til þess fall­in að skapa traust um nið­ur­stöð­ur rann­sókn­ar á að­drag­anda og eft­ir­mál­um snjóflóð­anna í Súða­vík 1995. Flóð­in hafi ver­ið reið­arslag fyr­ir ís­lenskt sam­fé­lag.
Hættan í Súðavík skjalfest áratug fyrr af sérfræðingi Veðurstofu
ViðtalSúðavíkurflóðið

Hætt­an í Súða­vík skjalfest ára­tug fyrr af sér­fræð­ingi Veð­ur­stofu

Vinnu­gögn snjóflóða­sér­fræð­ings sem starf­aði á Veð­ur­stof­unni til 1984 sýna að snjóflóða­hætta í Súða­vík var mun meiri á því svæði sem seinna var sagt hættu­laust en fór und­ir snjóflóð ár­ið 1995. Höf­und­ur þess furð­ar sig á því að yf­ir­völd hafi sett fram hættumat, sem stang­að­ist á við þeirra eig­in gögn.