Pálslögin og verkfallsaðgerðir
Í umræðum um komandi kjaraviðræður í byrjun nýs árs, sem verða þær umfangsmestu sem hér hafa farið fram um langt skeið þar sem nánast allir kjarasamningar verða lausir á næstu vikum, hefur komið fram þekkingarleysi á ákvæðum núgildandi vinnulöggjafar og jafnvel vísað til fyrirvaralítilla skæru verkfalla sem voru oft ástunduð í kjarabaráttunni fram eftir síðustu öld. Í þessum pistli er skautað yfir tilurð og tilgang Pálslaga og hvaða breytingar urðu í kjarabaráttunni.
Davíð Oddson myndaði árið 1995 nýtt ráðuneyti með Framsóknarmönnum og eitt af markmiðum stjórnarinnar var að koma á endurbótum á vinnulöggjöfinni, en hún hafði þá staðið óbreytt allt frá árinu 1938. Margir stjórnmálamenn voru þeirrar skoðunar að koma yrði skikki á hvernig verkalýðsforystan nýtti verkfallsheimildir og töldu að verkföllum væri oft beitt til þess eins að koma höggi á réttkjörinn stjórnvöld. Koma yrði málum í þann farveg að verkalýðsforystunni gæti einungis boðað verkföll í kjarabaráttunni.
Ófært væri fyrir stjórnvald að búa við það ástand að formaður verkalýðsfélags gæti nánast einhendis hótað verkföllum án þess að bera það undir félagsmenn sína og jafnvel í málum sem snertu ekki kjarabaráttuna. Í þessu sambandi er ástæða að halda því til haga að margir stjórnmálamenn virðast telja að kjarabarátta snúist einungis um að breyta kauptöxtum og vinnutíma og verkfallsvopninu hefði oft verið nýtt til afskipta af því sem einungis kjörnir fulltrúar á Alþingi eigi að koma að.
Páll Pétursson þáv. félagsmálráðherra lagði fyrir Alþingi vorið 1996 niðurstöður vinnuhóps um breytingar á vinnulöggjöfinni þar sem gerð var sú grundvallarbreyting að verkalýðsfélög gætu einungis boðað vinnustöðvun í tengslum við kjaradeilu. Heimilt væri þó að boða til samúðarverkfalls eftir ákveðnum reglum, en þetta kom í veg fyrir skyndiverkföll til þess að mótmæla, t.d. einhverjum pólitískum ákvörðunum.
Þeir eru greinilega allmargir sem hafa ekki áttað sig á þessari nýjung og hafa oft sent verkalýðshreyfingunni jökulkaldar kveðjur fyrir að hafa ekki sett á skyndiverkföll. Þetta var t.d. áberandi í kjölfar Hrunsins þar þess var krafist að verkalýðshreyfingin væri virk í mótmælum almennings og vísað til þátttöku verkalýðsfélaga í öðrum löndum sem settu á skyndivinnustöðvanir samhliða mótmælum. Með Pálslögunum var komið í veg fyrir þennan möguleika hér á landi.
Vald formanna minnkað
Í ákvæðum Pálslaganna var tryggt að félagsmenn kæmu ávallt að ákvarðanatöku í kjarabaráttunni. Verkfallsaðgerðum yrði þannig ekki beitt án þess að þær hefðu verið samþykktar í atkvæðagreiðslu meðal þeirra félagsmanna sem störfuðu samkvæmt viðkomandi kjarasamning. Fram að þessum tíma hafði stjórn viðkomandi verkalýðsfélags ásamt trúnaðarmannaráði vald til þess að veita formanni félagsins heimild til boðunar verkfallsaðgerða og formaðurinn gat þannig fyrirvaralaust hótað verkfalli í samningaviðræðum eða öðrum tilvikum þegar hann teldi vegið að kjörum félagsmanna.
Með Pálslögum gengið þannig frá hnútunum að tryggt var að verkföll væru einungis nýtt í deilum um þann kjarasamning sem væri verið að endurnýja hverju sinni. Skilyrði voru sett að fyrir boðun vinnustöðvunar bæri verkalýðsfélagi að leggja fram þær kröfur það vildi ná fram og samningaviðræður um kröfurnar hefðu reynst árangurslausar og deilunni hafi verið vísað til sáttasemjara. Með þessum ákvæðum var tryggt að það væri fyrst að loknum árangurslausum sáttatilraunum sáttasemjara sem samninganefnd viðkomandi verkalýðsfélags gæti leitað til félagsmanna eftir heimild til boðunnar vinnustöðvunar.
Sáttasemjara var í Pálslögum einnig heimilað, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, að leggja fram sameiginlega miðlunartillögu, þ.e. tillögu sem næði til margra hópa og honum veitt heimild til að tengja saman vinnudeilur. Þessi grein vakti reiði hjá mörgum innan verkalýðshreyfingarinnar og hefur reyndar ekki verið nýtt. Markmið félagsmálaráðherra með þessu ákvæði var að koma í veg fyrir að litlir hópar gætu klofið sig frá sameiginlegum viðræðum, samfloti verkalýðsfélaga í kjaraviðræðum eins og það er gjarnan nefnt, og tekið samfélagið kverkataki í verkfalli fámenns hóps. Þetta var allt í fullu samræmi við þær reglur sem giltu í danskri vinnulöggjöf.
Settar voru reglur um lágmarksþátttöku í atkvæðagreiðslum um vinnustöðvun. Ef leitað væri eftir verkfallsheimild á félagsfundi þyrfti tiltekinn lágmarksfjöldi félagsmanna að vera til staðar á fundinum. Þetta ákvæði gilti hins vegar ekki um póstatkvæðagreiðslur en þar væri tryggt að allir félagsmenn sem féllu undir umræddan kjarasamning fengju tækifæri til þess að taka þátt í atkvæðagreiðslunni. Einfaldur meirihluti þeirra sem tæki þátt í póstatkvæðagreiðslu réði niðurstöðunni.
Danska módelið
Eitt merkasta nýmælið í nýju vinnulöggjöfinni var að báðir aðilar urðu að hafa gengið frá viðræðuáætlun minnst 10 vikum áður en kjarasamningur þeirra rynni út. Þetta var gert að danskri fyrirmynd og ætlunin var með þessu að koma í veg fyrir að samningaviðræður drægjust úr hófi fram, eins og oft hafði gerst. T.d. var hér á landi algengt að verkalýðsfélög gengu ekki frá sinni kröfugerð fyrr en eftir að viðræður voru hafnar og þá oft löngu eftir að fyrri kjarasamningur hafði runnið út.
Með þessu ákvæði var megintilgangur Pálslaga að þrýsta á um að allar kröfur verkalýðsfélags lægju fyrir nokkru áður en gildandi kjarasamningur rynni út, þannig væri stuðlað að því að nýir kjarasamningar væru undirritaðar áður en eldri kjarasamningur rynni út, eins er oftast tókst í dönsku samingaumhverfi. Þetta atriði átti eftir að klúðrast algjörlega, ekki síst í höndum verkalýðsfélaganna.
Margir í forystu verkalýðshreyfingarinnar létu frumvarp Páls Péturssona þáv. félagsmálaráðherra koma sér í opna skjöldu og voru algjörlega andvígir fyrirhuguðum breytingum. Á meðan þeir sem þekktu vel til vinnubragða á dönskum vinnumarkaði könnuðust við allmargt af því sem félagsmálaráðherra setti fram. Við gerð kjarasamninga í Danmörk leggja verkalýðsfélögin ávallt fram kröfugerð þegar viðræðuáætlun er gerð allnokkru áður en gildandi kjarasamningur rennur út. Danir töldu tilgangslaust að gera viðræðuáætlun ef öll markmið kröfugerðar væru ekki skilgreind og í viðræðuáætlun var kveðið á um þann tíma sem ætlaður var til þess að ná saman um hverja kröfu fyrir sig.
Þetta fyrirkomulag var óþekkt hér á landi. Íslenska aðferðin leiddi til þess að erfiðar kjaraviðræður voru oft leystar með skyndiákvörðunum síðustu samninganóttina, eins og t.d. með mætingarbónus, orlofsuppbót, lengingu orlofs og desemberuppbót, kaffitímar voru stundum seldir jafnvel oftar en einu sinni. Stundum fannst lausnin í því að fallast á gömul baráttumál eins og atvinnuleysissjóð árið 1955 svo ekki sé minnst á samningana um stofnun lífeyrissjóða árið 1969 og þannig mætti lengi telja. Þarna voru á ferðinni mál sem sum hver voru í raun risavaxin, en þeim var kippt fyrirvaralítið inn í samningaherbergin og leidd til lykta.
Kjaraviðræður hjá Dönum eru ávallt miðaðar við að samningar næðust áður en gildandi kjarasamningur rynni út, ef það náðist ekki fór deilan milliliðalaust til sáttasemjara og verkfall skall á. Þetta atriði fór vitanlega í taugarnar á íslenskum vinnuveitendum, enda hafa þeir ætíð haft hag af því að viðræður dragist sem lengst.
Meginmarkmið náðust ekki
Eitt af meginmarkmiðum Pálslaganna var að tryggja að nýr kjarasamningur tæki við þegar sá eldri rynni út t.d. með gerðu viðræðuáætlun eins getið er hér ofar þannig væri komið í veg fyrir að launamenn sætu uppi samningslausir jafnvel í alllangan tíma og launamenn töpuðu þannig umtalsverðum fjárhæðum vegna frestunar launahækkana. Hefði verið farið að þessum tillögum Pálslaga væri sú staða uppi að nái aðilar vinnumarkaðarins ekki samkomulagi um nýja kjarasamninga fyrir áramót, eða þegar kjarasamningur rynni út ætti sáttasemjari að leggja fram sáttatillögu strax eftir áramót. Væri hún felld skylli á verkfall.
Í allri umræðu um breytingar á vinnulöggjöfinni var lögð mikil áhersla á það af hálfu ráðherra við þáverandi verkalýðsforystu og Alþingi að breytingarnar ættu að verða til þess að samningar næðust á réttum tíma. Þegar samningar rynnu út hæfist verkfall nema samkomulag næðist um mjög stutta frestun aðgerða, eins og stundum gerist hjá Dönum.
Samkvæmt Pálslögunum eiga samningsaðilar að gera viðræðuáætlun 10 vikum áður en samningar renna út til að tryggja þann möguleika að samningar næðust áður gildandi kjarasamningur rynni út. En verkalýðsfélögin breyttu ekki vinnulagi þrátt fyrir nýja vinnulöggjöf þar sem kveðið var á um að skila ætti tímanlega tilbúnum kröfugerðum og gera alvöru viðræðuáætlanir. Verkalýðsfélögin hafa þannig ásamt Samtök vinnuveitenda átt þátt í því að fara ekki nákvæmlega eftir nýju vinnulöggjöfinni t.d. með því að gera ekki viðræðuáætlanir. Þannig að annar helsti tilgangur Pálslaganna um að stuðla að því að viðræðum kláruðust áður en fyrri samningar rynnu út náðist aldrei.
Endurtekin inngrip stjórnvaldsins í kjarasamninga
Íslenskir stjórnmálamenn tala gjarnan um að verkalýðshreyfingin eigi ekkert með að vera að skipta sér af ákvörðunum Alþingis, eins og komið er að hér framar. Við ættum ekki að skipta okkur af pólitík að halda okkur við norræna stöðugleikann svo launahækkanir haldist í hendur við vöxt hagkerfisins.
Staðreyndin er hins vegar sú að íslenskir stjórnmálamenn grípa endurtekið hiklaust inn í kjör launamanna með því að breyta skatt- og bótakerfinu og hafa þannig oft rústað þeim forsemdum endurnýjun kjarasamninga var reist á. Þarna er stór munur á heildarumhverfinu á hinum Norðurlöndunum annars vegar og á Íslandi hins vegar. Aðrir norrænir stjórnmálamenn líta nefnilega ávallt til heildarmyndarinnar en íslenskir stjórnmálamenn ekki.
Skattbyrði tekjulægstu hópa íslensks samfélags hefur t.d. aukist mest allra hópa frá árinu 1998 og hér á landi hafa stjórnvöld markvisst unnið að því að minnka skattbyrði þeirra tekjuhærri. Kaupmáttaraukning síðustu ára sem var grundvöllur nýrra kjarasamninga hefur þannig ekki skilað sér til þeirra sem liggja á neðstu töxtum vegna vaxandi skattbyrði.
Þetta er einfaldlega staðreynd. Fjölskyldum sem fengu barnabætur hefur fækkað u.þ.b. 12 þúsund síðustu ár, vaxtabætur hafa með sama hætti nánast horfið. Það eru þessar staðreyndir og bein afskipti stjórnmálamanna af kjörum launamanna sem valda óróanum á íslenskum vinnumarkaði ekki leikreglurnar og kröfur verkalýðsfélaganna.
Athugasemdir