Má gagnrýna Katrínu Jakobsdóttur?

Katrín Jakobsdóttir var spurð að því í kappræðum Heimildarinnar á þriðjudag hvort hún hefði ekkert íhugað að bíða með forsetaframboð í 4 til 8 ár, til að ýfa ekki upp þá skautun sem henni verður tíðrætt um sem vandamál í íslensku samfélagi.

Svarið var að hún hefði ekki íhugað það, þar sem hún hefði fengið svo margar áskoranir og svo góðar viðtökur frá fólki við framboði sínu. Þetta segja auðvitað allir frambjóðendur. Samt veit ég ekki um neina manneskju sem hefur boðið sig fram til forseta með hangandi haus, nauðbeygð til að láta undan félagslegum þrýstingi fólksins í kringum sig.

Auðvitað ekki: fólk býður sig fram til forseta af því það langar nógu mikið til að verða forseti. Sem er í góðu lagi. En það er þeirra ákvörðun, ekki hinna óræðu aðmálskomandi áskorenda.

Og það hefur auðvitað ekki farið fram hjá Katrínu frekar en öðrum að það hefur litað kosningabaráttuna alla að manneskja sem leiddi ríkisstjórn landsins fyrir fáeinum mánuðum síðan sé í framboði. Auðvitað litar það baráttuna, og gæti litað forsetatíð hennar, hvaða skoðanir fólk hefur á þeirri ríkisstjórn og störfum hennar sem forsætisráðherra undanfarin 7 ár. Það er eðlileg umræða, ekki "andlýðræðisleg", eins og Katrín hélt fram í einum kappræðunum.

Það er líka eðlilegt að það liti umræðuna að fólk hefur ýmsar skoðanir á því hvort það sé eðlilegt að forseti landsins gæti þurft að taka afstöðu til þingmála sem forsetinn lagði sjálfur fram á þingi sem ráðherra nokkrum mánuðum áður. Eða til stjórnarmyndunarviðræðna fólks sem forsetinn myndaði sjálfur ríkisstjórn með skömmu áður. Að fólk hafi skoðun á þessu þýðir ekki að öll þau sem hafa tekið þátt í stjórnmálum séu þar með orðin "geislavirk" (eins og Katrín hefur líka orðað það) og megi yfirhöfuð ekki bjóða sig fram til forseta.

Nú er svo komið að þessari umræðu er ekki bara lýst sem andlýðræðislegri og geislavirkri heldur er hún beinlínis sögð til marks um kvenhatur.

Það er naumast hvað málefnaleg gagnrýni á valdamestu manneskju landsins undanfarin 7 ár er orðin ótrúlega mikið tabú. Við ættum kannski bara að skammast okkar; þau mega þetta þannig að þau eiga þetta.

Einhvern tímann hefði kannski þótt undarlegt að saka fólk eins og Auði Jónsdóttur og Guðrúnu Jónsdóttur um kvenhatur - en við lifum undarlega tíma.

Fólkið sem ætlar að kjósa konuna úr viðskiptalífinu eða konuna úr orkumálageiranum (eða samkynhneigða karlmanninn eða karlmanninn sem kom fram í dragi á Hinsegin dögum) sem forseta er sakað um kvenhatur vegna þess að Ásgeir Ásgeirsson varð forseti 18 árum eftir að hann var forsætisráðherra. Eða vegna þess að Ólafur Ragnar Grímsson varð forseti 5 árum eftir að hann var ráðherra og báðir komu af þingi úr stjórnarandstöðu.

Hvorugt er sambærilegt við það að fara beint úr ríkisstjórn á Bessastaði, hvað sem fólki finnst um það. Og fræðafólk ætti kannski að skoða málin betur áður en það heldur því fram að "engum datt í hug að halda því fram að það væri siðlaust að hann [Ólafur Ragnar] tæki við embætti" þegar jafnvel við sem vorum sjö ára á þeim tíma munum hvað allt var brjálað í þeirri kosningabaráttu yfir pólitíkinni í framboði hans. Og þegar Ásgeir sigraði kosningarnar með slagorðinu "Fólkið velur forsetann!" eftir að valdaflokkarnir höfðu komið sér saman um annan frambjóðanda. Eða þegar Gunnar Thoroddsen, sem hafði verið ráðherra þremur árum áður, tapaði fyrir Kristjáni Eldjárn, sem hafði ekki haft nein opinber afskipti af pólitík.

Að sjálfsögðu má Katrín Jakobsdóttir bjóða sig fram til forseta. Og fólk sem hefur verið ánægt með störf hennar og telur hana þá hæfustu í embættið má auðvitað kjósa hana með stolti. Og svo megum við hin hafa aðrar skoðanir og lýsa þeim líka, án þess að vera sökuð um andlýðræðislegt kvenhatur.

 

Athugasemdir (2)

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
  • Kristjan Jons skrifaði
    Árið 1980 reyndu reyndu ýmsir að fella Vigdísi. Morgunblaðið birti þá eftirfarandi fyrirsögn í tilefni af skoðanakönnunum: “Baráttan er nú milli Alberts og Guðlaugs, en Vigdís er úr leik”. Við munum hvernig það fór.
    0
  • Örn Ægir Reynisson skrifaði
    Hey á Íslandi þar sem er innmúaðir fá hvað sem er keipt hjá ríkinu er þá nokkuð mál að fá hey hey keipta niðurstöðu í kosningum? Mig dreimdi þetta þegar Ólafur Ragnar var í framboði síðast og ný búið að huh huh stela mörg hundruð milljörðum í hruninu að Jón Ásgeir væri að telja upp úr kössunum það dugði til þess að ég er sannfærður vegna þess að heilagur andi lýgur ekki og er búin að velta þessu fyrir mér í hverjum kosningum síðan svo þegar ég sé hvernig hamrað er á skoðanakönnunum þá verð ég jafnvel enn sannfærðari um að svindlað sé á kerfisbundin hátt í kosningum á Íslandi. Og miðað við það sem ég hef svo lent í að hálfu ríkisins( árás valdníðsla fólks sem fer út fyrir valdsvið sitt sem ríkisstarfsmenn kjörnir eða ókjörnir stunda fyrir greiðslu frá aðilum úr hruninu ) sem er einn mesti lögbrjótur á landinu fyrir innmúraða elítu sem er með lögreglu í vasanum m.a. vegna þess að lögreglustjórarar eru aldrei ráðnir löglega á Íslandi þá fer ég að hallast að því að meiri möguleikar en minni séu á því að svindlað sé ó kosningum á Íslandi
    0
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Nýtt efni