Þessi færsla er meira en 5 ára gömul.

Tekjusagan: Ríku ríkari og fátæku fátækari?

Ég veit, þetta er bakkafullur lækur en ég ætla samt að splæsa í nokkrar færslur um dreifingu tekna á Íslandi og breytinguna á milli 1997 og 2017 út frá gögnum Tekjusögunnar enda margt þar sem er upplýsandi.

Í þessari færslu ætla ég bara að skoða hvernig meðal ráðstöfunartekjur misunandi tekjutíunda breyttust á milli 1997 og 2017. Ég ætla ekki að segja neitt um útrásartímann og hrunið annað en að það var mjög óvenjulegt tímabil og hefur fyrir vikið tilhneigingu til að fanga athyglina en ég hef meiri áhuga á breytingunum sem urðu yfir lengra tímabil.

Tímabilið stjórnast af því að í seinni færslum ætla ég að skoða hvað Tekjusagan segir okkur um áhrif ólíkra tekjuliða sem og mismunandi skatta á þróunina og þá er þægilegt að miða við árið 1997 þegar lög nr. 94/1996 um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur tóku gildi.

 Viðmiðunarfjölskyldan sem ég nota hér er fólk á aldrinum 25-64 ára, í hjúskap, með 1-2 börn sem er í leiguhúsnæði. Ég vel leigjendur frekar en fasteignaeignendur af því ég hef fyrst og fremst áhuga á að bera saman áhrif tekjuskatta og fjármagnstekjum í seinni færslum. Af því þetta er tekjusagan, þá erum við að tala um fólk á vinnumarkaði.

Árið 1997 var ég 22 ára og hafði ekki minnsta áhuga á tekjutölfræði og hefði verið slétt sama ef einhver hefði bent mér á að ráðstöfunartekjur tekjuhæstu 10 prósentanna væru þrisvar sinnum hærri en þeirra 10 prósentanna sem voru með lægstu tekjurnar. Ég var upptekinn við aðra hluti. Man ekki nákvæmlega hvað, en hvað sem það var þá fól það í sér töluvert hangs á kaffihúsum. Það var samt þannig, þó mér fyndist fátt um það, að fjölskyldur eins og þær sem ég miða við hér höfðu að meðaltali 385.166 krónur á mánuði til ráðstöfunar ef þær voru á botni tekjudreifingarinnar en þær sem voru í efstu tíundinni fengu 1.173.979 krónur.

Svo liðu 20 ár og hagur allra vænkaðist. Vissulega ekki jafnt og þétt og stundum versnuðu lífskjörin á milli ára en engu að síður höfðu lífskjör batnað yfir alla tekjudreifinguna árið 2017 miðað við árið 1997. Samt ekki jafn mikið. Þannig jókst kaupmáttur neðsta tíundahluta atvinnutekjudreifingarinnar um 32,5% en efsta tíundin um 71,2%. Sumsé, hlutfallsleg aukning tekjuhæsta hópsins var rúmlega tvisvar sinnum meiri en aukning tekjulægsta hópsins og af þrisvar sinnum hærri grunni. Önnur leið til að setja þetta fram: Meðal ráðstöfunartekjur þeirra sem eru á botni tekjudreifingarinnar hækkuðu um rúmar 125 þúsund krónur á verðlagi ársins 2017 yfir 20 ára tímabil en á toppi hennar jukust þær um sirka 836.500 krónur. Í krónum talið er aukningin yfir 20 ára tímabi 6,7 sinnum hærri hjá þeim tekjuhæstu en þeim tekjulægstu og raunar var aukningin efsta hópsins á þessu tímabili meiri en meðal ráðstöfunartekjur í fimm neðstu tekjubilunum árið 2017.

Af ofansögðu leiðir að það hefur tognað úr tekjudreifingunni, þ.e. ójöfnuður var meiri árið 2017 en hann var árið 1997. Ekki samt þannig að það hafi tognað úr allri dreifingunni, að vegalengdin á milli meðaltekna allra tekjubila hafi lengst. Í prósentustigum talið jókst bilið mest á milli efstu og næst-efstu tíundar (14,6 prósentustig) Árið 1997 voru meðal ráðstöfunartekjur efstu tíundarinnar 47,1% hærri en þeirrar næst-efstu en árið 2017 voru þær 61,7% hærri. Næst mest jókst bilið á milli neðstu og næst-neðstu tíundar, um 9,4 prósentustig). Þetta þýðir að tekjulægsti hópurinn var að dragast aftur úr en sá tekjuhæsti að auka forskotið, það þó við horfum bara til næstu tekjubila við hliðina. Ef við skoðum tekjudreifinguna í heild? Eins og ég sagði hér að ofan voru ráðstöfunartekjur viðmiðunarheimilisins í efsta hluta tekjudreifingarinnar þrisvar sinnum hærri en þess í þeim neðsta árið 1997. Tuttugu árum seinna voru þær fjórum sinnum hærri.

Til að svara spurningunni í fyrirsögninni: Nei, þau fátæku hafa ekki orðið fátækari, a.m.k. ekki heilt yfir þegar við horfum til lágtekjufólks á vinnumarkaði (gögnin bjóða ekki upp á ályktanir um fólk utan vinnumarkaðarins) en þau hafa dregist aftur úr. Þau ríku hafa hinsvegar orðið umtalsvert ríkari og tekið til sín stærri sneið af kökunni. 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni