Þessi færsla er meira en 5 ára gömul.

Lífskjör og fátækt á meðal barna á Íslandi

Í dag birtist skýrsla um þróun lífskjara og fátækar barna á árunum 2004-16, sem ég vann fyrir Velferðarvaktina. Skýrsluna má finna á vef félagsmálaráðuneytisins. Skýrslan var kynnt á fundi Velferðarvaktarinnar í morgun í húsakynnum ráðuneytisins. Á morgun verð ég svo með aðra kynningu á Velferðarkaffi velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, sem hefst klukkan 8:30 og er haldið í félagsmiðstöðinni Hraunbæ 105.

Helstu niðurstöður

Á heildina litið eru lífskjör barna á Íslandi góð í samanburði við flest önnur Evrópulönd. Árið 2016 voru lífskjör barna mæld í jafngildum ráðstöfunartekjum þau sjöundu bestu í Evrópu, lágtekjuhlutfallið það þriðja lægsta og hlutfall barna sem bjuggu á heimilum í fjárhagsþrengingum var það sjöunda lægsta. Þá voru börn undir lágtekjumörkum á Íslandi ekki mjög langt undir mörkunum samanborið við flest önnur Evrópulönd. Það bendir til þess að vandinn sé ekki óyfirstíganlegur ef grípa á til aðgerða til að draga úr fátækt á meðal barna.

Það má ætla að það séu einkum þrír þættir sem skýra þessa góðu stöðu. 1) Ísland býr við mikla hagsæld í alþjóðlegu tilliti; 2) atvinnustig á Íslandi er með allra besta móti og atvinnuþátttaka beggja kynja mjög há. Rannsóknir hafa sýnt að atvinnustig og sérstaklega atvinnuþátttaka mæðra gegna lykilhlutverki við að draga úr barnafátækt; 3) félagslegar tilfærslur virðast skila árangri ef horft er til þess hve mörgum þær lyfta upp yfir lágtekjumörk þó það séu líka vísbendingar um að þær lyfti fólki aðeins rétt yfir lágtekjumörkin og veita þannig tekjulágu fólki ófullnægjandi skjól frá fátækt.

Þó heildarmyndin sé ágæt eru engu að síður óleyst vandamál. Það brýnasta er að bæta lífskjör einstæðra foreldra og barna þeirra. Nærri fjögur af hverjum tíu börnum undir lágtekjumörkum eru börn einstæðra foreldra. Allur þorri einstæðra foreldra er í neðri helmingi tekjudreifingarinnar. Þá hefur húsnæðiskostnaður meiri áhrif á fátækt barna einstæðra foreldra en barna sem búa á annarskonar heimilum. Vandi einstæðra foreldra er tvíþættur. Þeir eru eina fyrirvinna heimilis síns og bera aukna umönnunarbyrði sem hamlar þeim frá að afla aukatekna.

Annar hópur sem er vert að huga að eru börn öryrkja. Staða öryrkja lítur ekki sérlega illa út þegar horft er til lágtekjuhlutfallsins en það skýrist einkum af annmörkum þess sem fátæktarmælingar. Ef við horfum til samsettrar mælingarinnar á fjárhagsþrengingum þá eru öryrkjar sá hópur sem er líklegastur til að búa við fjárhagsþrengingar og staða barna þeirra er á pari við stöðu barna einstæðra foreldra. Misræmið á milli lágtekjumarka og fjárhagsþrenginga skýrist af því að öryrkjar eru margir hverjir með langvarandi lágar tekjur sem eru rétt yfir lágtekjumörkum og eiga fyrir vikið hvorki sparifé eða eignir og hafa takmarkaða lánamöguleika. Þá stendur örorkan þeim fyrir þrifum hvað varðar að bæta hag sinn með vinnu. Þessar aðstæður geta leitt til fátæktar jafnvel hjá einstaklingum sem mælast aldrei fyrir neðan lágtekjumörk.

Að lokum er ljóst að staðan á húsnæðismarkaði hefur áhrif á lífskjör barna. Munurinn á lágtekjuhlutföllum barna fyrir og eftir húsnæðiskostnað er með meira móti hér í samanburði við önnur Evrópulönd. Það að búa í leiguhúsnæði felur í sér auknar líkur á því að búa við fjárhagsþrengingar sem og að vera undir lágtekjumörkum að teknu tilliti til húsnæðiskostnaðar. Húsnæðiskostnaðurinn hefur sérstaklega áhrif á fátækt á meðal barna öryrkja og einstæðra foreldra.

Lífskjör barna samanborið við aðra þjóðfélagshópa á Íslandi sem hér hafa verið til skoðunar er nokkuð góð. Þau eru að vísu almennt ögn verri en íbúa landsins almennt auk þess sem aðeins hærra hlutfall þeirra býr á heimilum undir lágtekjumörkum eða sem búa við fjárhagsþrengingar. Börn búa hinsvegar almennt við betri lífskjör en öryrkjar, eftirlaunaþegar og atvinnulaust fólk. Árið 2016 voru lágtekjuhlutföll barna nokkurn vegin á pari við öryrkja og eldriborgara. Ef við horfum hinsvegar til fjárhagsþrenginga eins og þær eru mældar í þessari skýrslu er staða öryrkja umtalsvert verri en barna en staða eftirlaunaþega allnokkuð betri.

Öryrkjar og eldriborgarar eru stundum nefndir í sömu andrá en staðreyndin er sú að það er ekki líku saman að jafna. Umtalsverður hluti eldriborgara hefur haft prýðilegar tekjur yfir lífshlaupið, búa í skuldlausu eiginhúsnæði og hafa hóflega framfærslubyrði þar sem þeir eru í fæstum tilfellum með börn á framfæri. Hópurinn er hinsvegar fjölbreyttur og á meðal eldriborgara er sannarlega hópur sem býr við mjög bág kjör, oft fólkið sem hefur varið ævinni í láglaunastörf eða verið öryrkjar þegar þau voru á vinnualdri.

Lífskjör barna versnuðu hlutfallslega meira en lífskjör eftirlaunaþega og öryrkja í kjölfar hrunsins og þrátt fyrir að lífskjör barna hafi batnað mikið eftir 2011 þá áttu börn lengra í land árið 2016 með að ná aftur lífskjörum ársins 2008 en aðrir hópar. Þá bendir þróun lágtekjuhlutfalla til þess að öryrkjar og eftirlaunaþegar með lágar tekjur hafi verið betur varðir en börn á lágtekjuheimilum. Hlutfallið á heimilum í fjárhagsþrengingum hækkaði svipað á meðal barna og öryrkja í kjölfar hrunsins en meira en á meðal eftirlaunaþega. Aftur á móti dró hraðar úr fjárhagsþrengingum á heimilum barna en á heimilum eftirlaunaþega og öryrkja eftir að kreppunni lauk og raunar hefur tíðni fjárhagsþrenginga á meðal öryrkja ekki lækkað aftur eftir hækkunina í kjölfar hrunsins.

Á milli 2008 og 2016 versnuðu lífskjör barna, mæld með kaupmætti miðgildis jafngildra ráðstöfunartekna, meira á Íslandi en í öðrum Evrópulöndum, að Grikklandi undanskildu, jafnvel þó lífskjörin hafi batnað eftir 2011.Þá var Ísland á meðal þeirra þjóða þar sem tíðni fjárhagsþrenginga á heimilum barna jókst hvað mest í kjölfar hrunsins en þó einnig á meðal þeirra landa þar sem dró einna mest úr fjárhagsþrengingum eftir að kreppunni lauk.

Versnandi lífskjör barna á Íslandi í kreppunni skýrast að mestu af því að atvinnutekjur heimila þeirra lækkuðu. Félagslegar greiðslur á borð við barnabætur, fæðingarorlofsgreiðslur, húsaleigubætur gerðu lítið til að draga úr áfallinu og raunar jók þróun barnabóta á vandann, ef eitthvað er.

Batnandi lífskjör barna eftir að kreppunni lauk skýrast einnig af stærstu leyti af vaxandi atvinnutekjum heimila þeirra eftir að uppsveiflan hófst á ný. Aftur á móti vann þróun félagslegra greiðslna á borð við barnabætur, fæðingarorlofsgreiðslur og húsaleigubætur á móti batanum.

Það að þróun hverskyns fjölskyldubóta skyldi hafa þessi áhrif er í samræmi við það sem kemur fram í 2. kafla að það var dregið umtalsvert úr útgjöldum í tilfærslur til fjölskyldumála og dregið verulega úr stuðningi við barnafjölskyldur með breytingum á upphæðum fæðingarorlofsins og aukinni lágtekjumiðun og minna örlæti barnabóta. Áhrifin voru þó ekkert sérlega mikil sem skýrist af því að barnabótakerfið var fremur lágtekjumiðað jafnvel fyrir hrun. Ekkert af ofangreindu bendir til þess að það hafi verið sérstök áhersla á að vernda börn á Íslandi fyrir áhrifum kreppunnar né heldur að það hafi verið reynt að bæta lífskjör barna í gegnum tæki fjölskyldustefnunnar þegar hagur þjóðarbúsins fór að vænkast. Aftur á móti hækkuðu barnabætur umtalsvert í byrjun árs 2013 en það var hinsvegar ekki upphafið að endurreisn barnabótakerfisins heldur fremur eins skiptist aðgerð sem var ekki fylgt eftir árin eftir.

Árið 2016 stóð Ísland hinum Norðurlöndunum að baki hvað varðar útgjöld til barnabóta, fæðingar- og foreldraorlofs og til daggæslu og raunar var Ísland ekki í fremstu röð hvað varðar útgjöld til barnabóta og fæðingar- og foreldraorlofs í víðara samhengi Evrópulanda og réttindi til fæðingar- og foreldraorlofs allnokkuð frá því sem best gerist.

Börn sem búa á heimilum sem eru í viðkvæmri stöðu, svo sem börn einstærða foreldra, öryrkja og atvinnulausra, voru mun líklegri til að búa við fjárhagsþrengingar en börn á heimilum sem ekkert ofangreint á við um. Hlutfall barna sem bjuggu við fjárhagsþrengingar jókst líka mun meira hjá börnum sem bjuggu á heimilum í viðkvæmri stöðu en hjá þeim sem gerðu það ekki. Þar stóðu börn á heimilum sem urðu fyrir atvinnuleysi útúr, sem bendir til þess að viðbrögð stjórnvalda við kreppunni hafi ekki náð að hlífa börnum við afleiðingum kreppunnar sem skyldi. Börn komu verr út en almenningur, börn í viðkvæmri stöðu verr en þau sem voru það ekki.

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni