Tekjusagan: Stuðningur við leigjendur hefur minnkað
Í kjölfar hrunsins fjölgaði mjög þeim heimilum sem bjuggu í leiguhúsnæði fremur en eigin húsnæði og fjölgunarinnar gætti einkum á meðal ungs fólks, lágtekjufólks og einstæðra foreldra. Leiguverð hækkaði hratt, bæði vegna þessa og aukinnar eftirspurnar eftir tímabundnu leiguhúsnæði sem leiddi af fjölgun erlends ferðafólks á Íslandi.
Nú er svo komið að ein af helstu kröfugerðum verkalýðshreyfingarinnar í yfirstandandi kjarasamningum er að gripið verði til stórtækra aðgerða í húsnæðismálum til að leysa þann vanda sem hefur orðið til.
Í því samhengi er áhugavert að skoða hvernig húsnæðisstuðningur hins opinbera við leigjendur hefur þróast á undanförnum árum. Á vefnum Tekjusagan er hægt að sjá upplýsingar um þróun einstakra tekjuliða á verðlagi ársins 2017, og þ.m.t. húsaleigu- og húsnæðisbætur (héreftir "húsnæðisstuðningur).
Það þarf að skilgreina hópa á umræddri síðu og hér notast ég við við fólk í hjúskap með 1-2 börn (eins nærri vísitölufjölskyldunni og hægt er að komast) á landinu öllu sem eru leigjendur.
Mynd 1 sýnir þróun upphæða húsnæðisstuðnings fyrir vísitölufjölskyldurnar okkar á árunum 1995-2017, sundurgreint eftir tekjubilum. Það eru aðeins þær fjölskyldur sem eru á neðsta tekjubilinu sem hafa fengið húsnæðisbætur öll árin, sem er til marks um lágtekjumiðun húsaleigubótakerfisins. Árið 2017 tóki gildi ný lög en með þeim var húsaleigubótakerfið aflagt en í stað þess voru innleiddar húsnæðisbætur til stuðnings fólks á leigumarkaði. Yfirlýst markmið laganna, eins og það er skilgreint í 2. grein þeirra, "er að lækka húsnæðiskostnað efnaminni leigjenda með greiðslu húsnæðisbóta vegna leigu á íbúðahúsnæði." Það er ekki að sjá á breytingunni á milli 2016 og 2017 í mynd 1 að kerfisbreytingin hafi skilað miklu til hinna tekjulægstu, hækkun húsnæðisstuðnings við tekjulægsta hópinn er hverfandi. Aftur á móti virðist hafa verið dregið nokkuð úr lágtekjumiðun húsnæðisstuðningins enda hækkuðu upphæðirnar fyrir 2.-4. lægstu tekjubilin.
Raunvirði húsnæðisstuðningsins var þannig svipað fyrir 2. lægsta tekjubilið og það hafði verið árið 1995, rúmlega helmingi hærri fyrir þriðja lægsta tekjubilið og með því hæsta sem hann það hefur verið fyrir fjórða lægsta tekjubilið, en þó aðeins tæpar 6 þúsund krónur á mánuði fyrir þann hóp. Fyrir tekjulægsta hópinn hefur raunvirði húsnæðisstuðningsins hinsvegar lækkað nokkuð frá 1995, eða um tæp 31%.
Mynd 2 sýnir vægi húsnæðisstuðningins í ráðstöfunartekjum vísitöluheimilanna okkar sem voru í lægstu tekjutíund ár hvert. Það eru nokkrar sveiflur á milli tímabila sem skýrast ekki einvörðungu af kerfislægum þáttum heldur einnig af tekjuþróun sem leiða af tekjutengingum. Á heildina litið hefur vægi húsnæðisstuðningsins minnkað yfir tímabilið, hafði mest numið 12,9% af ráðstöfunartekjum lágtekju vísitölufjölskyldna árið 2001 og var 12,2% árið 1995 en árið 2017 nam húsnæðisstuðningurinn 5,8% af ráðstöfunartekjum þeirra viðmiðunar fjölskyldna sem tölurnar vísa til. Áhrif húsnæðisstuðnings á lífskjör leigjenda með lágar atvinnutekjur hafa því farið dvínandi.
Kaupmáttur ráðstöfunartekna heimila fólks í hjúskap, með 1-2 börn, í neðstu tíund atvinnutekna og á leigumarkaði jókst um tæp 45% á milli 1995 og 2017. Ef húsnæðisstuðnings hefði ekki notið við þá hefði kaupmáttur þessara heimila aukist um rúm 55% en af lægri grunni. Þetta þýðir að þróun húsnæðisstuðnings hefur í raun leitt til þess að kjörin á botni atvinnutekjudreifingarinnar hafa batnað minna en þau hefðu gert ef hlutfallslegt vægi húsnæðisstuðnings hefði haldist óbreytt.
Ef húsnæðisbætur hefðu haldist sama hlutfall af ráðstöfunartekjum og þær voru árið 1995 þá hefðu ráðstöfunartekjur þeirra heimila sem ég nota sem viðmið verið rúmum 6% hærri eða sem nemur tæpum 32.500 krónum á mánuði. Ef þau hefðu aðeins haldið raunvirði sínu hefðu þessi heimili haft rúmum 13 þúsund krónum meira á milli handana á mánuði sem jafngildir hækkun ráðstöfunartekna um 2,6%. Vægi húsnæðisstuðnings í ráðstöfunartekjum þessara heimila hefði þá værið 8,4% í stað 5,8%. Ef að húsnæðisstuðningur hefði haldið verðgildi sínu hefðu ráðstöfunartekjur þeirra hækkað um 48,5% í stað 45% og um tæp 54% ef þær hefðu haldist sama hlutfall af ráðstöfunartekjum.
45% aukning á kaupmætti á frá 1995 til 2017 er samt umtalsverð aukning og hugsunin er auðvitað sú að batnandi lífskjör leiði til þess að fólk þurfi síður á stuðningi að halda. Ein hlið á þessu er þróun leiguverðs sem margt bendir til að hafi þrengt verulega að fjárhag heimila á leigumarkaði, sem eru fremur tekjulág en tekjuhá heimili. Hin hliðin er svo hvernig við skiptum kökunni. Raunvirði húsnæðisstuðnings við tekjulága leigjendur hefur lækkað og leitt minni kaupmáttaraukningar tekjulægsta hópsins en hefði annars orðið, 45% í stað 48,5% eða 54% ef vægi þeirra hefði haldist það sama í ráðstöfunartekjum þeirra heimila sem eru hér til skoðunar. Á sama tíma hefur kaupmáttur heimila sem voru að öðru leyti eins en því að vera á meðal þeirra 10% sem hafa hæstar atvinnutekjurnar aukist um rúm 104%, úr 984.021 krónur á mánuði í 2.010.423 krónur.
Athugasemdir