Þessi færsla er meira en 5 ára gömul.

Búa öryrkjar í alvöru við fátækt?

Þegar ég var að vinna skýrsluna um lífskjör og fátækt barna rakst ég á dálítið sem mér þótti áhugavert, þ.e. að aðeins rúm 11% þeirra sem skilgreina sjálfa sig sem öryrkja eru undir hefðbundnum lágtekjumörkum, þ.e. hafa ráðstöfunartekjur undir 60% af því sem einstaklingurinn í miðju tekjudreifingarinnar hefur. Það er ekkert rosalega hátt hlutfall, þó það sé vissulega hærra en á meðal þeirra sem ekki skilgreina sig sem öryrkja. Þegar maður sér svona tölu vakna tvær spurningar: 1) Getur verið að fátækt á meðal öryrkja sé stórlega ýkt í umræðunni?; og 2) Er eitthvað að þessum gögnum? Svarið við báðum spurningum er "nei". Það er annað í gangi sem varpar ljósi á hvernig fátækt og fátæktarmælingar virka.

Staðreyndin er sú að staðsetning lágtekjumarkanna er frekar handahófskennd. Hugmyndin er sú að það sé einhver punktur í tekjudreifingunni þar sem fólk hættir að geta notið þeirra lífsgæða sem teljast sjálfsögð og eðlileg í því samfélagi sem það býr. Við vitum ekki hvar sá punktur er, en vonin er að með því að skella niður slíkum punkti á einhverjum stað í neðrihluta tekjudreifingarinnar fáum við mynd af því sem er að gerast í kringum hin raunverulegu lágtekjumörk.

Þegar kemur að lágtekjumörkum er meira betra, þ.e. því fleiri skilgreiningar á lágtekjumörkum sem við notum því meira upplýsandi verða þau. Við getum til dæmis sett mörkin á einhvern annan stað, t.d. miðað við 70% af ráðstöfunartekjum einstaklingsins í miðju dreifingarinnar, frekar en 60%. Við það myndi fjölga bæði öryrkjum og öðrum undir lágtekjumörkum, en öryrkjum myndi fjölga mun meira eða um rúm 17 prósentustig samanborið við rúm 7 prósentustig hjá öðrum. Það sem þetta segir okkur er að umtalsverður hluti öryrkja er rétt fyrir ofan hin hefðbundnu lágtekjumörk. Að vera rétt fyrir ofan lágtekjumörk til lengri tíma er áskrift á fátækt jafnvel þó maður mælist ekki undir því sem áður var kallað fátæktarmörk enda gengur fólk á eignir og sparifé og fullnýtir lánstraust til að láta enda ná saman (og þegar lánstraust er fullnýtt þrengir endurgreiðsla lána enn frekar að fjárhagnum).

Önnur leið til að nota lágtekjumörk er að skilgreina lágtekjumörk út frá dreifingu ráðstöfunartekna að frádregnum húsnæðiskostnaði. Tekjurnar sem við höfum eftir að við höfum greitt fyrir húsnæði er það sem við höfum úr að spila til að kaupa mat, föt, húsgögn, lyf, til að komast á milli staða og bara fyrir allt okkar hversdagslega líf. Hlutfall bæði öryrkja og annarra undir lágtekjumörkum hækkar hjá bæði öryrkjum og öðru, en mun meira þó hjá öryrkjum eða um tæp 14 prósentustig samanborið við um fimm og hálft prósentustig hjá öðrum en öryrkjum. Húsnæðiskostnaðurinn þrengir þannig meira að fjárhag öryrkja en annarra.

Lágtekjumörk eru tekjumæling á fátækt en slíkar mælingar snúast um bjargir. Svo eru til aðrar mælingar sem skoða útkomur, svo sem mæling Eurostat á skorti á efnislegum gæðum (aftasta mælingin í efri myndinni). Tæp 23% öryrkja búa við skort á efnislegum gæðum, samanborið við aðeins tæp 7% annarra. Þetta er vísbending um að ekki aðeins séu margir öryrkjar margir rétt fyrir ofan lágtekjumörk heldur séu þeir fastir þar með þeim afleiðingum sem því fylgja.

Og fyrst við erum farin að skoða ólíkar hliðar fátæktar, því fátækt er jú margþætt fyrirbæri sem nær m.a. til upplifana, þá bendir mat fólks á því hversu auðvelt eða erfitt það er að láta enda ná saman til þess að lífsjör öryrkja séu mun verri en annarra.

Þannig búa rum tveir af hverjum þremur öryrkjum á heimilum sem eiga að einhverju leyti erfitt með að láta enda ná saman, samanborið við um þriðjung þeirra sem ekki eru öryrkjar. 28,5% öryrkja eiga mjög erfitt með að láta enda ná saman, samanborið við um 5,5% annarra.

Til að svara spurningunni í titlinu: Já, mjög margir öryrkjar búa við fátækt. Þegar við notumst við fleiri mælingar en bara hin hefðbundnu lágtekjumörk kemur í ljós að öryrkjar eru í mun meiri hættu á að lenda í fátækt en aðrir. Öryrkjar eru einn verst setti hópur íslensks samfélags ásamt fjölskyldum einstæðra foreldra

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni