Að segja 'fokk jú' á diplómasísku
Evrópusambandið er enginn nýgræðingur í því að tala við litla prinsa sem vilja verða kóngar eða þá alvöru einræðisherra sem eru óvart í Evrópusambandinu.
Það liggur hvað næst við að nefna Ungverjaland sem hefur undanfarið einhliða breytt stjórnarskrá sinni, lýst því yfir að stór hluti Rúmeníu sé í rauninni Ungverjaland, og fleira í þeim dúr. Victor Orbán, forsætisráðherra Ungverjalands, hefur þurft að díla við svona há-evrópska diplómasíu, líkt og utanríkisráðherra vor. Helsti munurinn er hins vegar að Evrópusambandið tekur ungverska forsætisráðherrann alvarlega.
Ef það er eitthvað sem silfurskeiðarbandalagið hefur ekki tamið sér þá er það að kunna að tala á diplómasísku. Það er ýmist "meirihlutinn ræður" eða "ég ræð" eða "ég vil sitja áfram" eða "ég hafði ekkert rangt fyrir mér (þrátt fyrir að allir aðrir segja að ég hafi rangt fyrir mér)".
Það hefur ýmis vandræði í för með sér að kunna ekki að tala á diplómasísku. Til dæmis gerir það yfirhylmingu spillingar töluvert erfiða. Það liggur beint við að tala um tunglskinssónötu menntamálaráðherra sem fékk ekki minnisblaðið um að það væri óeðlilegt að gerast bissnesskall á í skjóli nætur, rétt eins og það er óeðlilegt að vera varúlfur á fullu tungli.
Lof mér að reifa stöðuna í leiknum Ísland-Evrópusambandið. Staðan er svona: 2-5 fyrir Evrópusambandinu og rétt í þessu var Gunnari Braga Sveinssyni, hæstvirtum utanríkisráherra, dæmd rangstaða eftir að hafa vaðið upp að markinu og þrykkt boltanum í það meira af kappi en forsjá.
Tveggja Turna tal
Gunnar Bragi sendi bréf þann 12. mars 2015 þess efnis að ríkisstjórnin hefði ákveðið að rjúfa umsóknarferli Íslands að Evrópusambandinu - einhliða og ákveðið af ríkisstjórninni en engum öðrum. Það fór ekki framhjá neinum sem hafði kynnt sér málið að mótmæli brutust út -- mikil reiði var innan þings sem utan.
Hvernig getur ráðherra bara ákveðið eitthvað svona stórvægilegt sem engin lög eða þingumboð segir til um að sé leyfilegt? Í flestum lýðræðirsríkjum þá tíðkast það ekki, og góð ástæða fyrir því að veigamiklar ákvarðanir þurfa að fara í gegnum þing áður en viðeigandi ráðherra hafi rétt til að taka stjórnvaldsákvörðun um framtíð lands og þjóðar. Annað kallast nefnilega einræði.
Svar ráðherraráðsins endurspeglar það. Fyrir það fyrsta, þá segir að þeir taki til greina að stefna (e. policy) ríkisstjórnarinnar hafi breyst. Þar að auki segir í bréfinu 'will consider certain further practical adjustments to the EU Council working procedures'.
Orðalagið 'clarify the policy of the Icelandic government' sýnir að Evrópusambandið telur ríkisstjórnina ekki hafa lagalegt umboð til þess að rjúfa aðildarferlinu. 'Policy' er einungis 'stefna' og hefur ekkert lagalegt gildi nema lög eða þingsályktunartillögur seu gerðar til þess að framfylgja stefnunni.
Það eina sem nokkur gæti sagt fram að því fram að því væri "Já, ég er búinn að ná því að þetta er stefna ríkisstjórnarinnar."
Hvað 'we will consider certain further practical adjustments to the EU Council working procedures' varðar þá þarf það ekki að beinast að því hvernig staða Íslands er skráð hjá Evrópusambandinu (enda hefur því ekki verið breytt) heldur hvernig Evrópuráðið sjálft skuli að eiga við gerræðislega stjórnarhætti.
Þeim er nefnilega alveg fullkomlega ljóst hversu óeðlileg framganga Gunnars Braga hefur verið í þessu máli og eru eflaust að hugsa hvort það sé eitthvað sem þeim beri að gera til þess að koma í veg fyrir að slíkt endurtaki sig.
Evrópusambandið skoraði alveg nokkur mörk í þessu bréfi sínu. Fyrir það fyrsta, þá segir það í raun nákvæmlega ekki neitt nema "Takk fyrir bréfið, við föttum hvað stendur í því."
Það skuldbindur Evrópusambandið ekki til þess að endurskoða stöðu Íslands sem umsóknarríki, þar sem í þeirra bókum: Eitt sinn umsóknarríki, ávallt umsóknarríki. Það er bara þannig, þeir vilja ekki formlega slíta viðræðum vegna þess að það er bæði kostnaðarsamt og gæti haft slæmar diplómatískar afleiðingar í framtíðinni.
Rétt eins og að vera hluti af þjóð, þá er það að vera hluti af Evrópusambandinu endalaus samningaviðræða og þótt einhver vilji hætta við að taka fyrsta skrefið þá er voðalega erfitt breyta fortíðinni. Það sem er gert, hefur gerst og ekki einu sinni ráðherra getur breytt því. Ef Gunnar Bragi vill slíta samningaviðræðum algjörlega þá væri íslenska ríkið mögulega skaðabótaskylt fyrir alla þessa styrki og eyðslu á tíma og fjármunum Evrópusambandsins fyrir ekki neitt.
Viljum við virkilega fara út á þann hála ís? Ég er ekki svo viss um það. Ekki frekar en ég er viss um að við viljum sturta okkar eigin peningum og tíma sem farið hefur í þetta ferli niður. Til þessara atriða ætti þjóðin auðvitað að taka afstöðu á upplýstan hátt, rétt eins og stjórnarflokkarnir og ríkisstjórnin hafa marglofað að yrði gert.
Enginn er eyland
Það virðist vera markmið silfurskeiðabandalagsins að gera Ísland að enn meiri eyju en það nú þegar er. Umfram allt þá virðist ríkisstjórnin vera að einangra sig frá almenningi með lélegri diplómasíu og hagsmunaræði. Það sést vel á vefsíðu Utanríkisráðuneytisins hvert segir við spurningu "Má búast við þjóðaratkvæðagreiðslu?"
"Ríkisstjórnin hefur engin áform uppi um að efna til þjóðartkvæðis um viðræður við Evrópusambandið, þar sem slíkt væri atkvæðagreiðsla um mál sem hún er mótfallin. Komi til þess að hefja ætti þetta ferli að nýju telur núverandi ríkisstjórn mikilvægt að það sé ekki gert án þess að spyrja þjóðina hvort hún vilji gerast aðili að ESB."
Ekki nóg með að þarna komi alveg skýrt og fallega fram að ríkisstjórnin hafi engan áhuga á að efna til þjóðaratkvæðis um þetta málefni þá kemur líka fram ákveðinn valdhroki fram í útskýringunni:
Þau vilja ekki halda þjóðaratkvæði um það sem þau eru ósammála um -- þjóðaratkvæði er gerræðisleg ákvörðun en ekki lýðræðislegt umboð.
Þar að auki, þá gerir ríkisstjórnin heiðarlega tilraun til þess að setja fram kröfu um að endurvakning á aðildarviðræðunum verði aðeins gerð að undanfarinn þjóðaratkvæðagreiðslu, þar sem hún sjálf ákveður hvað spurt verði um.
Hvað næst? Mun Framsóknarflokkurinn lýsa sig einvaldan á Íslandi og sleppa því að boða til réttmætrar kosningar 2017? Lýsa því yfir að það fyrirkomulag verði ekki afnumið nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu (sem aldrei verður haldin)? Miðað við einhliða og ódiplómatíska framgöngu í ESB málinu þá kæmi það mér ekki á óvart.
Enginn maður er eyland -- það er það sem Evrópusambandið snýst um: Samvinnu, samtal og samningaviðræður. Það er þannig lýðræði sem ég vil, það er lýðræðið sem Evrópusambandið vill. Sjálfstæði okkar byggist á samvinnu innbyrðis sem og við við önnur lönd, en að láta eins og börn sandkassaleik í bréfaskriftum og framgöngu gagnvart þjóðinni hefur verið svarað á há-diplómasísku innan Evrópusambandsins.
Svarið er: Grow up.
Myndin er fengin frá Flickr síðu Utanríkisráðuneytisins
Athugasemdir