Viðtal
Viðtal1:30:00

Kristrún boð­ar sam­stöðu­stjórn­mál

Hvorki Evrópusambandið né ný stjórnarskrá eru forgangsmál í nýrri kjarnastefnu sem Kristrún Frostadóttir vinnur að sem formannsframbjóðandi í Samfylkingunni. Hún leitar til landsbyggðarinnar og vill að fólk með háar tekjur sjái hag sinn í að kjósa Samfylkinguna. Hún segir að sér hafi brugðið þegar umfjöllun um hana hófst fyrir síðustu kosningar.
· Umsjón: Jón Trausti Reynisson

Kristrún Frostadóttir, formannsframbjóðandi í Samfylkingunni, er í hringferð um Ísland til að kynna sér viðhorf fólks og kynna sín eigin stefnumál, sem eru líkleg framtíðarstefna Samfylkingarinnar. Það vekur athygli að eldri grunnstefna Samfylkingarinnar, Evrópusambandsaðild, og upptaka nýrrar stjórnarskrár, er ekki með í farteskinu. Kristrún situr fyrir svörum tveimur klukkustundum áður en hún leggur upp í fundarherferðina, á fyrsta fund á Akranesi. Hún segist vilja einfalda stefnu flokksins niður í það sem er öruggt að hægt sé að standa við.

„Ég er kannski fyrst og fremst að fara í þetta ferðalag með ákveðinn ramma, sem snýr að því að ná betri fótfestu í kjarnamálum jafnaðarmanna. Það þýðir ekkert að eitthvað eða allt sé undanskilið. En staðreyndin er sú að það er að birtast okkur ákveðinn vandi í Samfylkingunni, sem er sá að þrátt fyrir mörg góð mál og margt gott fólk þá hefur komið fram í könnunum að fólk virðist ekki vita hvað jafnaðarmannaflokkur Íslands stendur fyrir. Í mínum huga á að vera mjög skýrt að það eru kjör og efnahagur og velferð almennings. Þegar maður stendur frammi fyrir svoleiðis stöðu og líka að fólk upplifir algjört úrræðaleysi í mjög stórum málaflokkum, heilbrigðismálum, húsnæðismálum og fleira, þá getur maður ekki annað heldur en staldrað við og stillt upp forgangsröðun til þess að endurheimta trúverðugleika, fólk átti sig á því hvar innri kjarninn er og hvað sósíaldemókratískur flokkur stendur fyrir. Það er ekki þar með sagt að önnur mál séu ekki til staðar lengur og verði ekki áfram á stefnu flokksins.“

Vill ekki kljúfa þjóðina aftur

Og það er jafnaðarstefnan, en um leið er áhugavert, þú ert að leggja áherslu á landsbyggðina, þar sem Samfylkingin hefur ekki verið sérstaklega sterk í gegnum tíðina. Við höfum líka séð á síðustu árum og rúmlega það hvernig vinstri flokkarnir hafa gert ákveðin afdrifarík mistök í nálgun sinni gagnvart landsbyggðinni. Tvö dæmi: Þegar Steingrímur Joð segir að það sé „örlítill grenjandi minnihluti“ á móti miðhálendisþjóðgarðinum, og svo hitt sem fólk getur deilt um hvort hafi verið mistök eða ekki, en framkallaði svakalega bylgju utan af landi, það er nálgun ríkisstjórnar Jóhönnu og Steingríms gagnvart því að hækka veiðigjöldin á sínum tíma. Þar sem var meðal annars spurt: „Hvað höfum við gert ykkur?“ á fundi fyrir austan. Ertu meðvitað eða ómeðvitað að vinna í þessa átt að forðast þessi mistök og reyna að halda landsbyggðinni með ykkur í liði?

„Ég held að það skipti mjög miklu máli þegar ég fer í þetta framboð að fólk viti nákvæmlega hvar ég stend í þessum málum. Mér finnst skipta máli að hafa umboð til ákveðinna verka. Mér finnst þetta tvíþætt spurning hjá þér, annars vegar snýst þetta um: Vil ég kljúfa þjóðina, ef það er upplifun fólks í ákveðnum málum. Það eru auðvitað ákveðin mál sem skapa klofning. Það er auðvitað ekki alltaf svona svart hvítt, það fer eftir því hvar á landinu þú ert, hvern þú spyrð og allt það. En það er vissulega hreinn meirihluti í ákveðnum málum á höfuðborgarsvæðinu og það má velta fyrir sér hvort það sé alvöru lýðræði að skilja eftir meirihluta landsins, þrátt fyrir að stór hluti þjóðarinnar sem býr á höfuðborgarsvæðinu sé fylgjandi einhverju. Ef þetta snýr að málefnum og atvinnugreinum sem snerta kannski fyrst og fremst landsbyggðina og við erum með þá stefnu að hafa byggðajöfnuð og tryggja blómlega byggð, þá ber okkur að taka mið af þeim skilaboðum sem við heyrum. Það er ekki þar með sagt að þú sláir af öllum þínum réttlætismálum. Og ég vil að það sé alveg skýrt, bara svo það komi fram, að ég er á þeirri skoðun og hef alltaf verið að í sjávarútvegi þá þurfi stórútgerðin að greiða meira. Það finnst mér vera stórt réttlætismál. Ég hef verið ötull stuðningsmaður veiðigjalda, og mynd til dæmis vilja sjá þrepaskipt veiðigjöld í því samhengi. Þetta heyrir maður líka í samtölum við fólk á landsbyggðinni.“

Útgerðarmaður með 75 milljónir á mánuði

Það er kannski frekar almennt viðhorf á Íslandi, sérstaklega skömmu fyrir kosningar, að það eigi að ástunda einhvers konar jafnaðarstefnu. Ef við horfum á stjórnmálin sem vöru á markaði, þá er ekki skortur á jafnaðarstefnu á þeim markaði. Þannig að ykkar kjarnastarfsemi kannski fyrirfinnst annars staðar. Hún fyrirfinnst í Sósíalistaflokknum, í Vinstri grænum að einhverju marki, auðvitað í Framsóknarflokknum sem er samvinnusinnaður ofan á það. En niðurstaðan er samt sú, ef við horfum á t.d. Guðmund Kristjánsson, útgerðarmann í Brimi, þar sem þú ert á leiðinni á Akranes á eftir. Þar er Brim einn stærsti vinnuveitandinn. Hann er með 3,6 milljónir í mánaðartekjur, samkvæmt Frjálsri verslun, það er nú ekkert eitthvað svakalegt, en svo er hann með 72 milljónir króna á mánuði í fjármagnstekjur. Þetta er samfélag sem hefur verið lýst sem mjög jafnaðarsinnuðu þar sem er talað um að sé jöfnuður á heimsmælikvarða. Hvað nákvæmlega myndir þú gera sem tengist þessu? Myndi aðstaða þessa útgerðarmanns breytast eitthvað ef þú kæmist í ríkisstjórn, að því gefnu að þú verðir formaður Samfylkingarinnar í október?

„Já. Mér finnst þetta mjög góð uppsetning. Vegna þess að þetta er einmitt það sem mér finnst hafa verið vandamál í pólitík undanfarin 10 ár. Ég upplifi að þessi ríkisstjórn hafi í rauninni setið frá 2013, af því mér finnst ekki margt hafa breyst með tilkomu VG inn í hana árið 2017, ef ég er alveg hreinskilin. Á stundum er talað um eins og það sé verið að styrkja velferðina og vinna að úrbótum. En núna sit ég í fjárlaganefnd, og ég hafði alveg yfirsýn áður en ég fór inn í pólitík af því að ég er læs á fjármálin. Þá sér maður svart á hvítu að efnahagsstefnan sem á bak við þetta, fjármálastefnan, skattheimtan, tekjumyndunin, og hvernig misvægi milli útgjalda og tekna myndast, er algjörlega á móti þeim velferðaráherslum sem er verið að tala fyrir af ákveðnum flokkum. Auðvitað eru það ekki allir flokkarnir í ríkisstjórn.

Talandi um hvar Samfylkingin staðsetur sig í svona ranni og aðgreinir sig. Þá er lykilatriði að fara aftur í kjarnann og forgangsraða málum, vegna þess að ég veit að það eru stór málefni eins og heilbrigðiskerfið, húsnæðismál og staða samgangna úti um allt land sem hamlar atvinnuöryggi hjá ákveðnum einstaklingum. Svo lífeyris- og tryggingamál. Við verðum að standa undir fjármögnun á þessu kerfi. Þetta eru málefni sem stór hluti þjóðarinnar styður og vill að sé eitthvað gert í. 

Á móti kemur að fólk fær þau svör frá ríkisstjórninni að hún sé sammála og að vinna í þessu. Síðan er ekki verið að vinna í þessu. Þrátt fyrir að það sé ítrekað verið að leggja fram húsnæðistillögur eða skipa einhverja vinnuhópa á Landspítalanum eða heilbrigðisþjónustu úti á landi þá er ekkert fjármagn sem fylgir því. Þetta er bara eins og Joe Biden sagði á sínum tíma, ekki segja mér hvað skiptir þig máli, sýndu mér bara fjárlögin þín og ég skal segja þér hvað skiptir þig máli.“

Hvernig lítur tekjuöflunin út í þínum fjárlögum?

„Það er auðvitað grundvallaratriði til að ná trúverðugleika að það sem mun aðskilja okkur frá hinum flokkunum sem tala um þetta, er að ólíkt þeim, og ef ég kemst í ríkisstjórn og verð í forystu og leiði þennan flokk, þá eru þetta málaflokkar sem ég mun ekki gefa afslátt á og ég mun koma með trúverðuga tekjuöflun. Partur af þessu, er eignajöfnuður. Við horfum á fjármagnstekjur og þróun þeirra og horfum á eignaþróun í landinu. Margir eru mjög ósáttir við neikvætt narratív um hvert heimurinn er að fara og ég er sjálf þar. Ég vil að jafnaðarmenn tali um að þetta sé í okkar höndum og ástundi jákvæða pólitík. Við eigum ekki að vera að tala hlutina alltaf niður. En það breytir því ekki að við getum spurt okkur hvers vegna það var staðan að 1997 þá áttu efstu 10 prósentin 40% af eignunum í landinu og í fyrra áttu þau 43%. Árið 1997 áttu neðstu 50 prósentin 6% af eignunum í landinu og í fyrra áttu þau 3%. Ekkert hefur gerst á 25 árum. Ef við erum framþróunarsamfélag og viljum sjá hlutina batna, hljótum auðvitað að spyrja okkur að því, af hverju hefur þetta gengið svona hægt?“

Af því að þú ert að bjóða þig fram til formennsku, þá mun fólk spyrja sig í hvaða átt þú ert að fara. Ertu að fara eitthvað til hægri í áttina að Framsóknarflokknum eða ertu að fara til vinstri í áttina, hefðu verið Vinstri græn fyrir einhverjum árum en kannski meira Sósíalistaflokkurinn núna? Hvaða aðgerð, þú vilt ekki endilega koma með efnahags- eða skattastefnu núna án þess að hafa farið í hringferðina og átt samráð við flokkinn. En þetta eru taldar vera afleiðingar skattkerfisbreytinga sem eiga sér hliðstæðu í Bandaríkjunum á 9. áratugnum, mjög öfgagakenndra, þar sem fólk getur ekki vænst þess lengur að vera með hærri tekjur en foreldrar sínir. Hérna erum við með útgerðarmann, hann fær 72 milljónir króna á mánuði í rentu af auðlindum sem eru skilgreindar sem þjóðareign. Leiðin til að nálgast það er væntanlega annars vegar aukinn fjármagnstekjuskattur, einhver útfærsla, útsvar af fjármagnstekjuskatti. Í öðru lagi einhvers konar hækkuð veiðigjöld, þessi auðlindarenta til almennings. Í þriðja lagi uppboð á aflaheimildum. Er eitthvað sem þú myndir vilja segja nánar um þína áherslu áður en til kjörs í formennsku kemur?

„Það var ráðist í stórfelldar skattabreytingar á síðasta kjörtímabili, sem hafa gert það að verkum að tekjustofn ríkissjóðs hefur rýrnað um hátt í 50 milljarða. Þrátt fyrir að ég skilji tilfinningu fólks um takmörk fyrir skattlagningu, en mín afstaða er sú að við eigum að verja velferðina og það á að vera markmið mið-vinstri og vinstri flokka í landinu að verja fyrst og fremst velferðina.“ 

Vinstri með vit á fjármálum

Það hljómar eins og þú viljir setja útgjöldin fyrst, og síðan mæta tekjuöfluninni með einhverri útfærslu sem kemur síðar. Þú vilt skuldbinda þig til útgjaldanna, heilbrigðiskerfið, þú vilt fullfjármagna það, hver sem skilgreiningin á því er nákvæmlega, og vaxtabætur, barnabætur, þú vilt færa það meira til meðalfólks í tekjum, og svo kemur að tekjuöfluninni og við höfum séð á síðustu árum að stjórnmálafólk í þinni stöðu, þ.e.a.s. Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, talaði um það fyrir kosningar 2016 og 2017 held ég, að hún væri hlynnt hátekjuskatti. Nú hafa auðvitað orðið breytingar á tekjuskattskerfinu, milliþrep o.s.frv. En það er enginn sérstakur hátekjuskattur innleiddur. Og svo önnur leið sem var umdeild, eins og margt sem sú ríkisstjórn gerði, var auðlegðarskatturinn. Eru þetta leiðir sem þú myndir segja núna að þú myndir stefna að eða stefna ekki að?

„Já ég meina við töluðum fyrir breyttri skattheimtu í aðdraganda síðustu kosninga.“

... fara bara beint í hátekjuskatt?

„Við ræddum um eignaskatt í því samhengi. Sérstaklega út frá því sjónarmiði sem ég nefndi áðan, varðandi hvernig hlutföllin hafa ekki þróast þegar kemur að eignajöfnuði í landinu. Talandi um hvar þú setur markið og hvar útgangspunkturinn er. Það er alltaf verið að stilla því upp að flokkar á vinstri væng stjórnmálanna og miðjunni hafi ekki sans fyrir fjármálum. Þeir séu að fara að setja ríkissjóð á hausinn, stunda óábyrga stefnu, séu bara að fara að halda þenslu í samfélaginu. Markmið þeirra sem sitja við stjórnvölinn á hverjum tíma er að muna af hverju við erum að gera þetta til að byrja með.

„Við erum ekki að reka fyrirtæki hérna, við erum að reka samfélag.“

Við erum ekki að reka fyrirtæki hérna, við erum að reka samfélag. Útgangspunkturinn hlýtur alltaf að vera þjónustan og grunnþarfir fólksins í landinu. Síðan erum við með tæki og tól, sem eru vextir Seðlabankans, skattar og gjöld, og allir þessir þættir, sem þurfa að vera breytilegir eftir hagsveiflu og stöðunni í kerfinu. Stundum kemur mikill peningur inn af því það gengur vel í hagkerfinu, stundum minna. Ég er ekki að segja að það komi aldrei upp móment þar sem þarf að passa upp á útgjöld, það þarf auðvitað að vera skilvirkni í ríkisrekstri og það á ekki bara að skrúfa frá. En grunnþætti eins og fjármögnun á heilbrigðiskerfi, infrastrúktúr og fjárfestingu á ekki að nota sem sveiflujafnandi þætti í hagkerfinu, út af skattheimtu hverju sinni.“

Svo við förum í eitt sértækt atriði af þessum atriðum þá talaðir þú um kerfisbreytingar á húsnæðismarkaði á Alþingi í vetur. Hverjar eru þær kerfisbreytingar sem þú myndir vilja sjá?

„Ég myndi vilja sjá að ríkið kæmi með öflugri hætti inn á húsnæðismarkaðinn. Fyrir mér er þetta bara grundvallaratriði að þetta sé skilgreint sem grunnþörf hjá fólki.“

Bankarnir stýri ekki hagkerfinu

Leiguhúsnæði eða að standa að byggingu húsnæðis eða varla leiguþak eða neitt þannig?

„Það eru margar leiðir. Tillögur því tengdar snúa að vonbrigðum margra með þróun húsnæðismála eftir að verkamannabústaðakerfið var lagt niður á sínum tíma. Þá var farin sú leið að auðvelda öllum að skuldsetja sig meira og meira fyrir húsnæði. Upphaflega hugmyndin var sú að Íbúðalánasjóður ætti að koma inn og veita há lán fyrir tekjulága. Síðan var kosningaloforð 2003 þar sem ákveðið var að opna á 90% lán fyrir alla landsmenn. Frá þeim tíma höfum við séð mikla skuldsetningu hjá fólki sem hefur ekki gert neitt annað en drífa áfram þenslu á markaðnum. Við erum ekki með neitt apparat til staðar sem tryggir stöðuga uppbyggingu húsnæðis óháð hagsveiflunni.“

Hvernig myndir þú gera það?

„Meðal annars með því að ríkið komi inn og fjárframlög komi í auknum mæli. Í dag eru við með almenna íbúðakerfið. Hugmyndin á bak við það var í rauninni vísir að verkamannabústaðakerfi, þar sem ríkið setur inn stofnframlög, sveitarfélög koma inn á móti og það er hægt að fá lán á hagstæðum kjörum. Þetta var hugmyndin að niðurgreiða uppbyggingarkostnað til þess að halda aftur af leigukostnaði í þessum íbúðum síðar meir. En líka til að koma í veg fyrir að þegar hagsveiflan fer af stað, sem hún gerir óneitanlega og mun alltaf gera á Íslandi, séu það ekki bara bankarnir sem stýri uppbyggingu í landinu. Vegna þess að þeir eru áhættufælnir í niðursveiflu en áhættusæknir í uppsveiflu og þá sveiflast húsnæðisuppbygging alltaf með stemningunni í þjóðfélaginu. Þegar hún ætti að sveiflast með mjög fyrirséðri fólksfjölgun í landinu.“

Meira félagslegt húsnæði

En nú hefur ríkið komið að húsnæðislánum með Íbúðalánasjóði og HMS, þetta eru aðilar sem eru með mun verri vaxtakjör heldur en yfirleitt bankarnir. Sástu fyrir þér að ríkið kæmi inn með þannig hætti að tryggja lánafjármögnun til tekjulægri?

„Þetta er auðvitað tvíþætt. Við höfum verið að fókusa mikið undanfarin ár hér á Íslandi á fjármögnun til að kaupa. Vandinn hefur fyrst og fremst verið á uppbyggingarhliðinni, þ.e.a.s. að það sé stöðugt og nægt húsnæði.

Það hefur varla verið vitað hversu margar íbúðir eru í byggingu hverju sinni. 

„Það er partur af stærra vandamáli. Ég ætla að gefa núverandi ríkisstjórn kredit fyrir að þessi vinna virðist vera í gangi en við sjáum hvað kemur út úr henni. Ég er ekki að tala fyrir því að ríkið taki yfir allan húsnæðismarkaðinn. En ef þú horfir á tölfræði yfir íbúðir sem eru byggðar á félagslegum grunni á Íslandi, þá er það í kringum 6% af húsnæði.“

Þú vilt hækka það og útfæra það nánar?

„Já. Á sínum tíma var hlutfallið nær 11-12%. Í löndunum í kringum okkur eru hlutföllin miklu hærri. Þetta er ákveðið akkeri, grunnur sem heldur aftur af markaðnum. Það er ekki þar með sagt að allir eigi að vera í leiguhúsnæði og enginn geti keypt sjálfur, en staðan á leigumarkað fellur á því að það er ekkert akkeri sem kemur inn, sem er óhagnaðardrifið og heldur aftur af leigumarkaðnum. Ef þú nærð að halda aftur hækkunum á leigumarkaðnum, þá heldurðu líka aftur af kaupmarkaðnum. Vegna þess að þessir markaðir spila saman. Ríkið á að taka ábyrgð á þróun á grundvallaratriði í hagkerfinu.  Þróun á húsnæðismarkaði bitnar beint á skattfé og útgjöldum hér. Þetta er stærsta hagsveiflubreytan í hagkerfinu. Að láta eins og þetta komi ekki ríkinu við finnst mér galin framsetning.“

Vill bíða með sölu á Landsbankanum

En varðandi bankana sem eru mjög fyrirferðarmiklir núna í útlánum á húsnæðismarkaði. Landsbankinn hefur heilt yfir verið með lægri vexti heldur en Arion og Íslandsbanki, þ.e.a.s. ríkisbankinn. Finnst þér ástæða til að leggja áherslu á að halda ríkisbanka? Í öðru lagi, af því að þú ert fyrrverandi aðalhagfræðingur Kviku og þekkir bankaumhverfið, eru bankarnir að taka of mikið til sín í vöxtum, gætu þeir til dæmis farið þá leið að hækka ekki vexti strax þó að stýrivextir hækki, gætu þeir tekið þátt í þessu með samfélaginu að hemja útgjaldavöxtinn sem er samhliða verðbólgunni núna, vera seinni til að hækka vexti? Hvað finnst þér um þetta?

„Ég hef verið hlynnt því að Landsbankanum sé haldið eftir, ef svo má segja, sem ríkisbanka.“

Ertu sammála sölunni á Íslandsbanka, þ.e.a.s. að selja hluti í Íslandsbanka?

„Ég hef ekki gert athugasemdir við þá hugmynd að bankinn sé seldur. Mér finnst ekkert sérstakt áherslumál að ríkið eigi tvo þriðju af bankageiranum. En það fer eftir hvernig það er gert. Varðandi Landsbankann þá hefur mér fundist skynsamlegt að bíða með að selja hann þar til við erum komin með skýrari sýn um framtíðarmúsíkina í bankakerfinu.“

Þannig að þú værir alveg sátt við að selja Landsbankann, það er bara tímasetningin sem skiptir máli?

„Nei. Ég held að í grunninn væri skynsamlegt að vera með einn ríkisrekinn banka og er opin fyrir mismunandi útfærslum í því samhengi. Það sem mér fyndist ekki skynsamlegt væri að selja bankann, eða skilgreina hann sem ákveðna tegund af banka áður en við höfum rætt hvers konar fyrirkomulag okkur vantar. Viljum við frekar vera með áhættuminni banka sem stundar fyrst og fremst almennar lánveitingar en ekki fjárfestingabankastarfsemi. Eða eigum við að vera með aðra þætti líka? Þetta hefur ekki verið rætt í tengslum við Landsbankann. En þetta veitir okkur tækifæri til þess að vera með banka sem er með lægri arðsemiskröfu og starfar á öðrum og samfélagslegri forsendum. Bankarnir eru mjög stór lífæð í hagkerfinu. Þeir ákveða hvaða fyrirtæki lifa eða deyja. Og hafa gríðarleg áhrif líka bara á lífskjör fólks. Þarna ertu kominn með starfsemi sem er á öðrum arðsemisforsendum en þarf auðvitað að bera sig og á ekkert að vera með þunga ríkisábyrgð. Það veitir bönkunum ákveðið aðhald.“

Bankarnir í fákeppnisstöðu

Finnast þér bankarnir vera að taka óhóflega vexti af fólki núna í ljósi umhverfisins, eru þeir að ganga lengra en þeir þurfa að gera, ættu þeir að vera að gefa fólki meiri slaka?

„Í svona fákeppnisumhverfi eins og við erum í þá hljóta spurningar alltaf að vakna. Við erum í kerfi sem er flókið að því leytinu til að ef við værum bara að velta fyrir okkur stærðarhagkvæmni og að ná niður grunnkostnaði, sem bankarnir bera oft fyrir sig, þá átta ég mig á að infrastrúktúr í svona litlu landi er flóknari og kostnaðarbyrði er öðruvísi. Undir eðlilegum kringumstæðum, í fullkomnu hagfræðilíkani, þá væri einn banki á Íslandi að þjónusta 350 þúsund manns. Það gengur ekki upp því við viljum samkeppni en það er samt fákeppni. Þetta eru þó ekki nema þrír bankar sem eru með um 90% markaðshlutdeild.“

... og eru reknir með góðum afgangi.

„Reknir með góðum afgangi. Höfum í huga að þegar óvissa skapaðist um Covid þá var hræðsla um að bankarnir myndu lenda í vandræðum með lánin sín. Hvað gerist þá? Ríkið kemur inn til að koma í veg fyrir spíral í hagkerfinu og í raun undirskrifar ákveðin lán með því að styðja við bankana og gerir það að verkum að eignasöfn bankanna, með beinum og óbeinum rýrna ekki eins mikið vegna aðgerða ríkisins. Svo eru eignasöfnin uppfærð og auðvitað þarf arðsemin að taka mið af meðaltölum þessara tveggja ára.

„Þetta hefur ekkert að gera endilega með rekstrarsnilld þeirra sem eru í bönkunum“

Þetta hefur ekkert að gera með rekstrarsnilld þeirra sem eru í bönkunum heldur undirskrift frá ríkinu. Það er partur af hagnaðinum. Það er meiri vaxtamunur hérna en er í öðrum löndum. Það verður mjög fróðlegt að sjá niðurbrotið á kostnaði bankanna í því samhengi. En þetta er tilfinning, að þetta hafi ekki bara með undirliggjandi kostnað að gera, heldur að þetta hafi að gera með fákeppnisstöðu. En það er eitthvað sem ég myndi vilja fá á hreint. Það breytir því ekki að meira segja þótt þeir tækju á sig einhverja samfélagslega ábyrgð og myndu ekki hækka vexti. Þeir taka þetta bara út með öðrum hætti. Þeir myndu bara bíða með að hækka vexti á innlánsreikningum. Á meðan að það er verið að starfa eftir ákveðnum arðsemisforsendum sem eru tiltölulega háar í íslensku hagkerfi og verið er að miða við stöðuna í alþjóðlegum hagkerfum og stærri mörkuðum þar sem það eru forsendur til þess að vera með hærri arðsemi. Þá er bara, þau finna leiðir til að ná þessum arðsemismarkmiðum.“

Evrópusambandið af dagskrá

Nú eru stýrivextir á Íslandi hærri en samanlagt á öllum Norðurlöndunum og ESB-svæðinu ef lagðar eru saman þessar prósentutölur. Einhver sögðu fyrir nokkrum árum að leiðin framhjá þessu væri að ganga í Evrópusambandið og taka upp evru, sem var stefna Samfylkingarinnar. En þú ert í rauninni að segja að þetta sé ekki þannig forgangsmál að þetta væri leiðin til þess að leysa að einhverju leyti þessa vaxtaáþján og verðbólguþróunina og allt það. Er það ekki rétt skilið hjá mér að þú ert ekki að líta á þetta sem einhver kjarnamál í þá átt?

„Ég myndi nú ekki orða þetta sem slíkt. Og ég get bara sagt það hér eins og ég hef sagt annars staðar, að ég er sjálf mjög mikill ESB-sinni, og hef verið það í langan tíma.“

„Ég er sjálf mjög mikill ESB-sinni“

En það er ekki höfuðmálið til þess að ná þessu. 

„Mér finnst lykilatriðið vera í þessu samhengi að við séum bara hreinskiptin að það er langtíma vegferð. Þrátt fyrir að ég sjái mikla kosti fyrir íslenskan almenning að ganga inn í Evrópusambandið þá hindrar það ekki að við tökum til í húsnæðismálum og heilbrigðismálum til skemmri tíma.“

Þannig að þú vilt bara bíða með þá umræðu.

„Fyrir mér snýst þetta um að setja ekki á bið stóra mikilvæga málaflokka með því að tala um töfralausnir þegar kemur að Evrópusambandinu. Ég hef sjálf verið þeirrar skoðunar og sagt það víða, að ein helsta ástæðan einmitt fyrir því að við erum með fákeppni á bankamarkaði eru aðgangshindranir vegna gjaldmiðils. Þetta á líka við um tryggingamál. Við verðum að taka afstöðu gagnvart því sem samfélag og ég er mjög hlynnt því að það verði farið í þjóðaratkvæði um þetta mál. En það þýðir ekki að það séu ekki aðrir þættir sem þarf að hafa í huga. En þegar ég segi forgangsmál þá vil ég bara að það sé alveg skýrt: Ég er á þeirri skoðun að Samfylkingin sé ekki í þeirri stöðu núna, að fara í ríkisstjórn næst og vera búin að lofa einhverju upp í ermina á sér sem hún getur ekki skilað af sér.“

Þannig að þetta er svona realpolitik að vera ekki að setja þetta á dagskrá vegna þess að í raun eini, ætli það sé ekki eini flokkurinn sem myndi styðja ykkur í því væri Viðreisn.

„Það er staðan í dag. Þetta getur auðvitað breyst hratt ef vilji þjóðarinnar breytist. Og ég skef ekkert af mínum skoðunum í þessu máli og þetta er enn þá stefnumál Samfylkingarinnar. Hins vegar er staðan sú að það er úrræðaleysi í stórum málaflokkum sem stór hluti þjóðarinnar skilur einfaldlega ekki af hverju ekki er búið að leysa.“

Skýringin á því hefur hingað til verið sögð tekjuöflunin, þið þurfið þá að útskýra hvernig þið ætlið að breyta. 

„Já, og það er, enda er það vissulega forgangsmál og partur af trúverðugleikanum sem ég er að tala fyrir í þessu samhengi.“

Markmiðið 20% fylgi

En nú fer fólk að kjósa í síðasta lagi væntanlega 2025 og ef allt fer sem horfir verður þú að leiða Samfylkinguna í samkeppni við Sósíalistaflokkinn og Framsóknarflokkinn eða hvernig sem það verður skilgreint. Hljómar eins og þú ætlir að reyna að láta flokkinn verða allra og síðan vinna með smáatriðin eftir það. Síðan kemur að því eins og 2010, 2011 eða 2012, þegar átti að fara að afla tekna, bjarga þjóðarbúinu upp úr þeirri kreppu sem hún var þá, það kemur að því að fólk eins og Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, sem er með 61 milljón króna í fjármagnstekjur að meðaltali á mánuði, verður kannski bara ósammála því að hann eigi að borga meira til samfélagsins. Þannig að þá munu væntanlega koma upp einhver átök. En það veltur væntanlega á því hvernig útfærslan er, en það hljómar eins og þú viljir taka meiri tíma í að útfæra þá nálgun.

„Ég hef verið alveg skýr á því, svo ég ítreki það bara, við eigum að fá meira út úr sjávarauðlindinni inn í ríkissjóð. Ein leið að því er til að mynda þrepaskipt veiðigjald. Mér finnst að við þurfum að taka tillit til stærðarhagkvæmni fyrirtækja. Það liggur fyrir að rentan er mismikil eftir eðli fyrirtækja. Þetta er auðvitað líka partur af sjónarmiðum um byggðajöfnuð. Ég hef líka verið að velta fyrir mér tillögum um útgönguskatt úr greininni. Þegar þú selur þig út úr og í rauninni innleysir rentu út úr greininni, þá erum við ekki að fara beint inn í rekstur fyrirtækjanna og skipta honum upp eða hafa áhrif á hann beint, heldur erum við einfaldlega að segja að ef þú ætlar að losa hér um rentu sem er í rauninni tilkomin út af samfélagsgerðar, þá borgar þú talsvert hærri skatta á það fé. Það eru margar leiðir til þess að innheimta þetta fjármagn, sem snýr ekki að því að setja hópa af samfélögum úti á landi í mikla óvissu þegar kemur að framtíðarþróun greinarinnar. Ég vil að það sé alveg skýrt.

„Samfylkingin er að reyna að verða 20% flokkur.“

Samfylkingin er að reyna að verða 20% flokkur. Við þurfum að vera búin að ákveða þegar við förum í ríkisstjórn, hvar munum við alls ekki veita neinn afslátt og hvar gætum við mögulega bakkað. Það hefur verið vandamálið í þessari ríkisstjórn. Ég er að reyna að draga þá línu í sandinn og segja, ég mun ekki gera það sem VG og Framsókn gerðu þegar kom að stóru velferðarmálunum, ég mun ekki gefa eftir þar. Og ætla ekki að fara í ríkisstjórn sem hefur ekki tekjurnar og getuna til að hrinda þessum hlutum í framkvæmd.“

Katrín hafi gefið of mikið eftir

Finnst þér að Katrín Jakobsdóttir hafi gert mistök með því að leggja upp í þessa ríkisstjórn. 

„Ég held það, já. Hún hefur gefið allt of mikið eftir. Ég er ósátt við þá uppstillingu sem kemur frá ríkisstjórninni að það sé verið að gera allt sem hægt er að gera. Annars vegar er verið að senda þau skilaboð að það sé verið að vinna í einhverju, sem er ekki fjármagnað. Það er gjörsamlega óþolandi að það sé hægt að mæta sem ráðherra og láta eiginlega hálfpartinn eins og þú sért í stjórnarandstöðu. Þú ert að tala fyrir málefnum sem þú berð ábyrgð á en ert ekki að reyna að hafa áhrif á fjármögnunarhliðina á. Hins vegar er verið að senda þau skilaboð til þjóðarinnar, þar sem meirihluti er fyrir ákveðnum breytingum í stórum málaflokkum, að það sé einfaldlega ekki hægt að framkvæma þær.“

En er hún ekki að einhverju leyti að gera það sem þú ert að vinna eftir, er hún ekki að halda sátt, er hún ekki að halda saman ríkisstjórn með ólíkum sjónarmiðum? Ertu viss um að þú myndir ekki gera málamiðlanir sem krefjast þess að setja saman ríkisstjórn ef út í það færi?

„Það er neyðarástand í heilbrigðiskerfinu, það er neyðarástand á húsnæðismarkaði, við erum í vanda þegar kemur að fólki sem þiggur tekjur úr almannatryggingakerfinu. Við erum í vandræðum varðandi atvinnuöryggi úti á landi út af samgöngumálum. Þetta eru grunnmál, en ekki tæmandi listi. Í fjölflokka kerfi muntu þurfa að gefa eitthvað eftir, en ég vil að fólk viti hvað við stöndum fyrir. Þessi kjarnamál verða okkar leiðarvísir. Ég hef engan áhuga á að taka Samfylkinguna inn í ríkisstjórn sem veldur vonbrigðum. Það er ekki gott fyrir flokkinn, það er ekki gott fyrir trúverðugleika og það er heldur bara ekki gott fyrir þjóðina núna.“

Vandamálið sé í fjármálaráðuneytinu

Þannig að Evrópusambandið, stjórnarskráin, svoleiðis mál. Við höfum reyndar ekkert talað um þjóðgarð á miðhálendinu eða svoleiðis mál, það eru væntanlega ekki kjarnamál. En þið munið þá þegar fram líða stundir skilgreina nákvæmlega einhverjar aðgerðir sem þið ætlið að fara í. Sem þó liggur fyrir að fjármagna heilbrigðiskerfið. Hverjir eru líklegastir, eða hverja vildir þú helst sjá í ríkisstjórn með ykkur næst?

„Ég átta mig alveg á því hvar vandamálið er í núverandi ríkisstjórn, og það er í fjármálaráðuneytinu.“

„Sko þetta er auðvitað mjög erfitt að segja á þessum tímapunkti. En ég skef ekkert af því að ég átta mig alveg á því hvar vandamálið er í núverandi ríkisstjórn og það er í fjármálaráðuneytinu. Ég hef engan sérstakan áhuga á því að fara í ríkisstjórn þar sem hendur mínar eru bundnar undir sömu forsendum og núverandi ríkisstjórn.“

Var brugðið við umfjöllun

Við erum búin að tala um skattkerfið. Svo eru fleiri hlutir sem koma til kastanna þegar kemur að stjórnmálum og einn hlutur sem er ekki allt of mikið talað um, hvernig er að vera í stjórnmálum. Er umhverfið gott fyrir fólk? Þú ákvaðst seinna en margir aðrir að fara í stjórnmál, kemur úr bankakerfinu, menntuð frá Yale, hefur starfað hjá Morgan Stanley sem greinandi. Kemur óhefðbundna leið. Um það hefur verið mikið talað, þú hefur verið spurð spurninga, það hefur verið skrifað um þig slúður. Á einhverjum tímapunkti þótti Viðskiptablaðinu ástæða til að ræða hvernig þú hefðir hagnast, þótt þeim hafi yfirleitt þótt það eðlilegt. En þú brást frekar hart við því þegar var byrjað að skrifa um þig, um sölu á hlutum í Kviku sem þú keyptir og hefur væntanlega selt hærra verði eftir einhverjum samningum. Fannst þér, ég er að spyrja um gagnsæi og persónuvernd, fannst þér óeðlilegt fjalla um þetta fyrir síðustu kosningar, að fjalla um þinn persónulega fjárhag með þessum hætti?

„Óeðlilegt er ekki rétta orðið. Ég held að hreinskilna svarið sé að mér var bara brugðið.“

„Mér var bara brugðið.“

Þér var brugðið þegar þú last um þig, af hverju?

„Mér var brugðið vegna þess að ég átti mjög hraða inngöngu inn í stjórnmál og hafði aldrei tekið þátt í rauninni svona ferli áður.“

Bjóstu ekki við því að það yrði talað þessa hluti?

„Ég bjóst ekki við að fá eins mikla athygli og ég fékk í kosningabaráttunni. Sem gerði það að verkum að mín persóna varð áhugaverðari en annarra á þeim tímapunkti. Ég held að fólk verði að sjá stóra samhengið og það er miklu auðveldara fyrir mig að sjá það í dag af því að ég hef þroskast og lært rosalega mikið á einu ári. En þetta var bara mjög mikið að taka inn. Á þessum tímapunkti var um að ræða upplýsingar sem voru ekki opinberar. Ég var nýhætt hjá þessu fyrirtæki og þetta snerist ekki um að ég gerði athugasemd við að fólk vissi hvað ég hefði gert eða að ég ætti pening. Heldur að það var verið að setja þetta í samhengi við óeðlilega viðskiptahætti. Mér fannst verið að teikna upp mjög óheilbrigða mynd upp af mér. Það var enginn sem spurði mig einfaldra spurninga um minn persónulega fjárhag, sem ég hefði mjög líklega svarað eftir einhverskonar ráðgjöf.“

Prívat manneskja

Var það að einhverju leyti vegna þess að almennt er Viðskiptablaðið ekki að fjalla um það að fólk fái arðgreiðslur eða slíkt, það forðast í rauninni ákveðna umfjöllun um einstaklinga, en þarna er einstaklingur tekinn fyrir. Af skiljanlegum ástæðum má segja, því þú ferð í stjórnmál, þú ert óþekkt stærð, þú ert vinstra megin, vinstri manneskja sem hefur hagnast á starfi í banka, yfirleitt eru þetta andstæður. En þú upplifðir að þetta væri ósanngjarnt, framsetningin þá frekar en efnið? 

„Ég upplifði að það væri markvisst verið að teikna ákveðna mynd af mér, já.“

Bara hluti af stjórnmálum, hagsmunabaráttu?

„Já, ég upplifði það. En það breytir því ekki að sko, maður er bara mannlegur. Maður þarf tíma til að melta ákveðna hluti.“

Sérðu eftir að hafa brugðist svona við? Finnst þér þú hafa brugðist of hart við?

„Ég vissi ekki betur á þeim tíma. Maður bara lærir og lifir. Ég gerði upp þetta mál í Silfrinu eftir kosningarnar og hef sett allt á borðið. Ég hef ekkert að fela. Fyrir mér var þetta framsetningarmál. Það var mjög meðvitað verið að stilla þessu upp á ákveðinn hátt, með einhverju narratívi sem ég hafði enga stjórn á. Í allri hreinskilni var ég ekki undir þetta búin. Ég er í grunninn mjög prívat manneskja. Áður en ég fór í stjórnmál þá var ég eiginlega ekkert á samfélagsmiðlum. Ég kem ekki úr fjölskyldu þar sem allir vita hver fólk er og er í blöðunum. Þetta gerðist mjög hratt fyrir mig.

„Þú ert búin að vera í kosningabaráttu í fjórar vikur, og varla sofið, síðan ertu með fimm viðtöl og síðan hringir síminn þinn út af þessu“

Í aðdraganda kosninga datt mér ekki í hug að ég yrði í þeirri stöðu að fólk væri að grafa upp einhverjar upplýsingar og setja í svona samhengi. Ég get alveg sagt í dag að mér er engin vorkunn. Ég er í sterkri stöðu, í forréttindahópi og mér finnst fullkomlega eðlilegt að fólk spyrji þessara spurninga. Þetta er partur af því að stíga inn á nýtt svið. Ég á mann og börn, foreldra og afa og ömmu, sem eru líka að ganga í gegnum þetta með mér. Og ég kem ekkert fullmótuð inn í það ferli. Þetta er lærdómur sem ég dró. En ég meina, ég er ekkert sköðuð á sálinni og það er engin biturð eða ósætti í mér gagnvart þessu, þótt ég hafi upplifað á þeim tíma. Auðvitað er þetta líka bara partur af því að hafa verið í kosningabaráttu í fjórar vikur og varla sofið. Síðan ertu í fimm viðtölum og allt í einu hringir síminn út af þessu. Þú vilt tala um málefnin. Þetta er auðvitað bara partur af aðstæðum, gert til að taka mann úr jafnvægi.“

Til þess gert?

„Já, ég meina að einhverju leyti. Ég meina hvernig þessu var stillt upp, tímasetningin og innrömmunin, var þannig að ég náði ekki að anda til þess að segja almennilega sjálf frá hvað gerðist. Og gat það í rauninni ekki fyrr en eftir kosningar, ég var búin að hvíla mig og ná áttum. Ég skil alveg að fólk sé að velta mínum uppruna fyrir sér. Fólk er bara flókið, en mér finnst líka hollt að við séum með fjölbreytta einstaklinga í stjórnmálum. Ég myndi vilja sjá Samfylkinguna þannig að við séum með fólk allstaðar að úr samfélaginu sem deilir þessum gildum í velferðarmálum. Það hvar ég hef unnið breytir ekkert mínum grunnskoðunum í lífinu.“

Ólst upp við stöðugleika

Hvaðan kemur þessi jafnaðarhugsjón til þín? Sumir alast upp við kröpp kjör eða verða einhvers áskynja, hafa einhverja lífsreynslu sem þrýstir þeim áfram í einhverja hugsjónabaráttu eða berjast fyrir einhverju. Þú býrð ekki við kröpp kjör, þú kemur ekki úr þeim reynsluheimi, hvað er það sem fær þig til að stíga þetta skref yfir í ákveðin óþægindi sem fylgja því að vera stjórnmálamaður og væntanlega einhver fleiri óþægindi sem eiga eftir að koma í framtíðinni? Þú ert að leggja þetta á þig, fyrir hvað og hvers vegna?

„Þótt ég hafi staðið ágætlega undanfarin ár þá er það ekki þannig að ég sé alin upp við slíkar aðstæður. Enginn í kringum mig hafði nokkurn tímann unnið í viðskipta- og fjármálageiranum. Það sama á við um manninn minn. Við stöndum bæði mikið sterkar fjárhagslega en baklandið.“

Þú ert ekki hluti af einhverri elítu, eins og var skilgreind þannig að íslensk elíta væri á ákveðnum svæðum. Og félagsleg tengsl þar á milli. Þú sprettur ekki úr þannig umhverfi?

„Það er mjög venjulegt fólk sem ól mig upp. Ég var heppin að því leytinu til að ég ólst upp við félagslegan stöðugleika. Og ég upplifði aldrei skort. Það þýðir ekki að það hafi allt flætt af peningum á mínu heimili. Alls ekki.“

En er það rökleg ályktun sem þú dregur eða það sem þú hefur lært á lífsleiðinni?

„Ég er afrakstur úr velferðarsamfélagi“

„Upplifað og gengið í gegnum allskonar hluti í sinni æsku. Þótt það snúist ekki um að maður hafi verið í mikilli fátækt, en ég hef viljandi ekkert viljað blanda öllum mínum persónulegu reynslum í gegnum tíðina í opinbera umræðu. En ég hef verið mjög meðvituð um að mér hefur vegnað vel í lífinu. Mér tókst að skara fram úr út af ákveðinni samfélagsgerð. Ég ólst upp í íslensku velferðarkerfi og ókeypis menntakerfi. Mér var gert kleift að skara fram úr. Ég komst til Bandaríkjanna á styrk, fór í Háskóla Íslands og fékk styrk til að fara inn á hvatningarverðlaunum. Ég hafði ákveðna meðfædda eiginleika sem voru eftirsóttir á þessu tímabili í sögunni og tikkaði í ákveðin box. Og það var ekkert þannig með allt fólkið í kringum mig.“

Rætur stjórnmálaheimspekinnar

Þú hljómar eins og Haraldur Þorleifsson sem ákvað, eftir að hafa selt fyrirtækið sitt til Twitter, að borga skatta af launatekjum á Íslandi. Hann hefur einmitt talað á þennan máta, og manni finnst svolítið eins og fleiri og fleiri séu að tala á þennan hátt. Ertu svolítið að byggja þína nálgun í þessum kjarnamálum á þessu nákvæmlega, að við erum öll afsprengi umhverfisins og umhverfið er það sem býr til tækifærin og þú nýtir þau síða?. Upp að einhverju marki ertu það síðan af eigin rammleik. Er það þarna sem þín stjórnmálaheimspeki á sínar rætur? 

„Ég er mjög meðvituð um að það er misjafnt gefið. Það situr mjög fast í mér þessi þróun mála þegar kemur að hugmynd um jöfnuð eða jöfn tækifæri. Hvað eru jöfn tækifæri? Sumir hafa ákveðnar forsendur til þess að nýta tækifærin betur en aðrir. Og hvaða tækifæri eru það? Þau henta sumum frekar en öðrum. Það sem ég myndi vilja styrkja er að fólk upplifi ábyrgð og skuldbindingar gagnvart samfélaginu sínu. Ég gerði þetta ekkert ein. Það hefur oft verið sagt við mig: Þú varst nú svo dugleg, fékkst háar einkunnir, fórst í Yale og komst inn í Morgan Stanley. Já, ég lagði á mig en það er fullt af fólki sem leggur mikið á sig en kemst takmarkað áfram vegna þess að aðstæður hamla því. Mér finnst skipta máli að fólk geti skarað fram úr og verið stolt af því hvar það stendur, en það má ekki gleyma því hvaðan það kom og að það er einhver samfélagsgerð sem gerði því kleift að komast áfram. Það hafði  mjög mikil áhrif á mig að ég kem ég frá heimili þar sem fólk svona þenkjandi og skilur hvernig meginþorri fólks lifir. Er ekki firrt, er ekki í einhverjum elítuhringjum. Fólk sem hefur tengsl við venjulegt fólk. Ég hef tengingar víða og er ekki firrt gagnvart því hvernig aðrar stéttir lifa, jafnvel einstaklingar sem fengu nákvæmlega sömu tækifæri og ég. Eins hafði dvölin í Bandaríkjunum mikil áhrif á mig. Ég komst inn í elítuskóla á skólastyrk og umgekkst upp til hópa yndislegt fólk, en fólk sem fór eftir bara ákveðnum fasa í bandarísku samfélagi og var einangrað frá öðrum stéttum. Þú getur eiginlega ekki verið ósnortin af því til að mynda að búa í New Haven, þar sem Yale-háskóli er, á svæði sem þú deilir með börnum ráðherra eða forseta, fólk sem býr við mikil forréttindi og svo labbarðu í næstu götu og þar er fólk sem gengur ekki einu sinni um í skóm. Ef það virkar eitthvað í hjartanu á þér hlýtur þú að vera mjög djúpt snortinn þegar þú sérð svona samfélög.“

Fólk með ákveðin örlög. Fólk sem kemur af einhverjum ættum. 

„Það eru svo miklar öfgar í bandarísku samfélagi. Oft var sagt við mig á meðan ég var þarna að ef ég yrði þar áfram þá gæti ég átt stórkostlegt líf. En ég vil ekki alast upp í þannig samfélagi og ég vil ekki að börnin mín alist upp í þannig samfélagi. Ég er stolt af því að koma frá Íslandi og að vera partur af þessari þjóð. Fyrir mér er þessi pólitíska þátttaka samfélagsþjónusta.“

Hvernig dettur þér þetta í hug?

Það liggur líka fyrir að félagslegur hreyfanleiki er töluvert meiri hér heldur en í Bandaríkjunum að því leyti til er þetta ákveðin mýta, bandaríski draumurinn. En talandi um áhrifin af umhverfinu, fólk á það til að breytast, svolítið við það að fara í stjórnmál. Er eitthvað sem þú hefur áhyggjur af í þínu fari eða einhver lífsreynsla í tengslum við stjórnmálastarfið, hvernig þetta hafi áhrif á þig eða jafnvel bara á möguleika þína í framtíðinni. Einhverjir kvarta undan því að fá ekki góða vinnu eftir stjórnmál. Ég veit ekki hvort þú hefur áhyggjur af því. Hver er reynsla þín af því að vera í þessari stöðu? Fyrir utan auðvitað að þú varst til umfjöllunar strax í upphafi.

„Þegar ég gaf kost á mér á sínum tíma þá var fólk sem spurði hvernig dettur þér í hug að gera þetta? Viltu vera að óhreinka þig með þessu. Ég er af kynslóð sem sá geislavirkni í kringum pólitík. 

Ég byrjaði í hagfræði haustið 2008. Mín reynsla af bankageiranum er alltaf sú að ég sá aldrei þessa uppsveiflu fyrir hrun. Ég áttaði mig ekkert á hvað var í gangi, en var ung og með allskonar hugrenningartengsl á árum sem fólk talaði mjög illa um stjórnmál. Ef þú lítur yfir pólitískt landslag þá hefur þetta þurkkað út kynslóð af stjórnmálamönnum. En ég ákvað að gera þetta á mínum forsendum. Ég er að fara inn vegna þess að ég hef ákveðna þekkingu og ástríðu. Það eru ákveðnir hlutir sem ég vil sjá breytast. Ég horfi á þetta sem verkefni en ekki sem starfsferil. Ég hef ákveðna eiginleika sem mig langar að nýta til góðs. Það er ástæðan fyrir því að ég tók ákvörðun um að hætta í vinnunni. Þetta var kalt mat hjá mér. Hvar er ég að eyða mínum hæfileikum og í þágu hverra? Þannig tók ég þessa ákvörðun.

Það sem ég held að sé erfiðast hérna er að standa í fæturna. Og segja hvað þér raunverulega finnst. Auðvitað þarftu að gera málamiðlanir, það er fullkomlega eðlilegt. En ég verð að standa og falla með því sem ég geri. Ef mér bregst í þessari vegferð þá verð ég við að bregðast á mínum eigin forsendum. Ég verð að hafa sannfæringu fyrir því sem ég segi. Ég verð að hafa eitthvað fram að færa, vera með sýn á forgangsröðum og gæta þess að okkur færist ekki of mikið í fang. Við verðum að sjá hvar við getum raunverulega haft áhrif.“

Athugasemdir (12)

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
  • Jóhannes Ragnarsson skrifaði
    Bætra væri hjá henni að boða samfarapoletik. Það mundi leggjast mun betur í Viðreisn og Sjálfstæðisflokkinn. En sennilega bætir hún þessum nauðsynlega þætti við krataeðlisstöffið sitt á allra næstu dögumþ
    0
    • Reynir Vilhjálmsson skrifaði
      Mjög athygglisvert viðtal. Margir segja að stjórnmál séu skítug. Herkúles mokaði Ágías fjósið og það var ein af hans hetjudáðum. Varð hann ekki skítugur við það? Stjórnmál eru það sem þjóðin þarf ef hún vill ekki vera undirseld ofbeldisstjórn. Ég gekk í Samfylkinguna af því að ég hélt að hún væri sósíaldemókrataflokkkur og ég held enn að hún sé það. Nú skiptir máli að standa við það. Kristrún hefur sannfært mig um að nú skal taka til handanna. Við verðum að viðurkenna veruleikann - ESB og sanngjörn veiðigjöld eru langtíma barátta. Við verðum að takast á við krísuna NÚNA sem er heibrigðiskerfi í rúst og húsnæðismál á reiki svo fátt sé nefnt. Af stað!
      -1
      • Stefán Örvar Sigmundsson skrifaði
        Hún hefði ekki fengið að rísa svo hátt í flokknum ef hún hefði einhverja róttækni. Hún hefur sannað sig sem skjólstæðingur auðvaldsins með áralöngun störfum hjá Arion banka, Viðskiptablaðinu, Morgan Stanley, Viðskiptaráði Íslands og Kviku banka. Samfylkingin er Sjálfstæðisflokkurinn Lite.
        2
        • ÓY
          Óttar Yngvason skrifaði
          Loksins er von til að vit komist í stjórnmálastéttina og öfluga forystu jafnaðarmannaflokks Íslands. Eftir því hefur stór hluti þjóðarinnar beðið í mörg ár. Efnilegur foringi hefur nú stigið fram. Til hamingju.
          1
          • I
            Þessi grein krassar vafranum mínum
            1
          • Edda Ögmundsdóttir skrifaði
            Líst mjög vel á Kristrúnu í pólitíkinni.
            5
            • Ólafur Kristófersson skrifaði
              Þá vitum við alþýðufólk og eldri borgarar hvar Samfylkingin stendur. Hægri krata flokkur sem líkist Viðreisn. Draumurinn er að vera í ríkisstjórn með Framsókn og Sjálfstæðisflokk, sem sagt að leysa Katrínu Jakobsdóttur af vaktinnni og taka við stýrinu.
              1
              • Jón Þór Ólafsson skrifaði
                Hægri krati 🥀 + Samstöðustjórnmál 🤝 = Samfylkingin styður Sjálfstæðisflokkinn aftur til valda 💩 og Samfylkingarfólk fær að borða skít í 4 ár - Sorglegt en líklega satt.
                0
                • Ólafur Kristófersson skrifaði
                  Samfylkingin hefur aldrei verið jafnaðarmannaflokkur. Vonandi fer hann sömu leið og Vinstri Græn.
                  -1
                • Garðar Garðarsson skrifaði
                  Hvað er hægri pólitík í því sem Kristrún segir? Og hvar segist hún ætla með sjöllum í stjórn þegar hún segir að óskastjórnin sé með vinstri- og miðjuflokkum? Færðu rök fyrir þínu máli Jón Þór og hættu öllu bulli.
                  2
              Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.
              „Ég var ekk­ert til­bú­in í að verða mamma“
              Móðursýkiskastið #4 · 31:40

              „Ég var ekk­ert til­bú­in í að verða mamma“

              „Bullshit“ jól
              Sif · 05:42

              „Bulls­hit“ jól

              Valkyrjur Stefáns Ingvars
              Tuð blessi Ísland #8 · 1:03:00

              Val­kyrj­ur Stef­áns Ingvars

              Á vettvangi einmanaleikans
              Á vettvangi: Einmanaleiki · 1:06:00

              Á vett­vangi ein­mana­leik­ans