Svanhvít lýsir leið sinni í þjóðfræðina og segir frá BA ritgerð sinni þar sem hún rannsakaði sagnaheim Vestur Íslendinga, hvaða þjóðtrúarverur fluttust yfir hafið og hvernig þeim vegnaði á nýjum stað.
Svanhvít stofnaði fyrirtækið Jaðarmiðlun með vinkonum sínum í háskólanum þar sem nýjasta tækni og hulduheimar renna saman. Markmið verkefnisins er að lífga þjóðsögurnar við með sýndarveruleika og setja á svið hulduverur á Íslandi.
Nú starfar Svanhvít á Byggðasafni Hafnarfjarðar, þar hefur hún fengist við fjölbreytt verkefni, setti meðal annars upp sýninguna Köldu ljósin þar sem saga fyrstu rafmagnsljósanna í Hafnarfirði er sögð. Sýningin er á sérstökum stað, í undirgöngum undir Lækjargötunni, en Svanhvít segir okkur einnig frá færanlegum sýningum sem safnabíllinn Tukki færir Hafnfirðingum.
Þjóðhættir er hlaðvarp sem fjallar um nýjar rannsóknir og fjölbreytta miðlun í þjóðfræði. Umsjón hafa dr. Dagrún Ósk Jónsdóttir, kennari í þjóðfræði við Háskóla Íslands og Sigurlaug Dagsdóttir, verkefnisstýra vefsins Lifandi hefðir hjá Þjóðminjasafni Íslands.
Athugasemdir