Úti var mikil áhersla á þjóðfræði í samtímanum og Björg velti meðal annars fyrir sér breytingum sem fylgja nýrri tækni til dæmis internetinu og farsímanum. Auk þess vann hún þjóðfræðilega rannsókn tengda stofnfrumum, genum og blóði en í því samhengi er meðal annars mikilvægt að velta fyrir sér margvíslegum siðferðilegum spurningum.
Björg hefur síðan unnið fjölbreytt störf meðal annars á Listasafni Íslands, sem forstöðumaður á menningarmiðstöð Hornafjarðar og sem sveitarstjóri á Svalbarðseyri. Hún er nú sjálfstætt starfandi og tekur að sér margvísleg verkefni. Hún hefur nýlega komið að verkefni sem snýr að björgun minja og minninga í Grindavík í samstarfi við Minja- og sögufélag Grindavíkur, í kjölfar eldsumbrotanna og óvissunnar á Reykjanesskaga. Í þættinum segir Björg frá þessari vinnu og mikilvægi þess að safna sögum og minningum frá Grindavík í samtímanum.
Þjóðhættir er hlaðvarp sem fjallar um nýjar rannsóknir og fjölbreytta miðlun í þjóðfræði. Umsjón hafa dr. Dagrún Ósk Jónsdóttir, kennari í þjóðfræði við Háskóla Íslands og Sigurlaug Dagsdóttir, verkefnisstýra vefsins Lifandi hefðir hjá Þjóðminjasafni Íslands.
Athugasemdir