Í þættinum fá hlustendur að heyra hvað dró Terry inná þjóðfræðibrautina og hvernig hann fann sína hillu í þjóðfræðinni. Terry hefur fengist við ýmis ólík viðfangsefni innan þjóðfræði, svo sem sviðslistafræði, þjóðsögur og norræna trú, en einnig þurft að svara fyrir þjóðtrú Íslendinga í gegnum árin, útskýra hana fyrir fjölmiðlafólki og öðrum áhugasömum.
Terry hefur nýlega lokið við að gera stóra könnun á þjóðtrú Íslendinga, í samstarfi við Félagsvísindastofnun. Þetta er í annað sinn sem Terry stýrir þessari könnun, en fyrri könnunin var gerð árin 2006-2007. Margt áhugavert kemur í ljós þegar niðurstöður þessara kannanna eru skoðaðar og bornar saman. Hefðbundin hjátrú, til dæmis á ættarfylgjur og nafnavitjanir virðist til að mynda vera að minnka, á meðan að trú á reimleika og geimverur er að aukast. Þá er bilið milli kynslóða og borgar og sveitar einnig að breikka. Í könnuninni er einnig spurt um trú á Guð, sem hefur einnig breyst þó nokkuð í gegnum tíðina, og svo auðvitað huldufólkið. Í þættinum veltir Terry upp ýmsum áhrifaþáttum þessara breytinga sem eru að verða á þjóðtrú Íslendinga og mikilvægi þess að rannsaka þjóðtrú dagsins í dag, á tímum upplýsingaóreiðu, samsæriskenninga og falsfrétta.
Myndin sem fylgir þættinum er tekin af Art Bicnick.
Þjóðhættir er hlaðvarp sem fjallar um nýjar rannsóknir og fjölbreytta miðlun í þjóðfræði. Umsjón hafa dr. Dagrún Ósk Jónsdóttir, kennari í þjóðfræði við Háskóla Íslands og Sigurlaug Dagsdóttir, verkefnisstýra vefsins Lifandi hefðir hjá Þjóðminjasafni Íslands.
Athugasemdir