Anna Margrét hefur mikið rannsakað húmor og skrifaði mjög áhugaverða lokaritgerð sem bar heitið Að stríða feðraveldinu: Notkun húmors í jafnréttisumræðu. Fyrir rannsóknina tók hún viðtöl við nokkra einstaklinga sem höfðu verið virkir í jafnréttisbaráttu og skoðaði meðal annars hvernig þau nota húmor sem tól til valdeflingar. Anna segir okkur einnig frá því hvernig hún horfir á húmor öðrum augum, eftir að hafa rannsakað virkni hans í mannréttindabaráttu.
Anna Margrét hefur á undanförnum árum fengist við fjölbreytt störf innan hins svokallaða þriðja geira. Anna segir frá hvað felst í þriðja geiranum, en þar hefur hún starfað til dæmis fyrir UNICEF og nú fyrir Endó samtökin, þá segir hún einnig frá því hvernig hún hefur getað nýtt sér húmor í þessum störfum. Anna segir einnig frá nýrri heimildamynd samtakanna sem frumsýnd var um daginn í Bíó Paradís og heitir Tölum um Endó.
Að lokum segir Anna frá nýju hlaðvarpi sem hún og Hjördís Eva vinkona hennar stýra og heitir Myndugleikinn, en þar fjalla þær um reynsluheim kvenna út frá margvíslegum sjónarhornum.
Þjóðhættir er hlaðvarp sem fjallar um nýjar rannsóknir og fjölbreytta miðlun í þjóðfræði. Umsjón hafa dr. Dagrún Ósk Jónsdóttir, kennari í þjóðfræði við Háskóla Íslands og Sigurlaug Dagsdóttir, verkefnisstýra vefsins Lifandi hefðir hjá Þjóðminjasafni Íslands.
Athugasemdir