Í meistaranámi sínu í þjóðfræði ákvað Vilborg svo að rannsaka slysafrásagnir, en hún lauk meistaranámi í þjóðfræði árið 2018 og meistararitgerð hennar ber yfirskriftina Þjáning/tjáning: Gildi sagnamennsku í bataferli eftir slys. Í þeirri rannsókn ræddi Vilborg við einstaklinga sem höfðu lent í alvarlegu slysi og skoðaði meðal annars hvaða gildi það hafði fyrir þessa einstaklinga að segja frá því sem þeir höfðu lent í og hvernig og hvaða skilningavit komu við sögu í minningum fólks um atburðinn og í bataferlinu á eftir.
Vilborg miðlaði einnig rannsókn sinni með sýningu á Heilsustofnunn Náttúrulækningafélags Íslands í Hveragerði. Á sýningunni voru sögur fólksins sagðar, auk þess sem það valdi hluti sem endurspegluðu slysið eða bataferlið á einhvern hátt.
Vilborg hefur í framhaldinu fengist við ólík skilningarvit í rannsóknum sínum og meðal annars skoðað hvernig lykt og áferð móta minningar okkar og upplifun af heiminum. Árið 2023 komu út sex útvarpsþættir sem Vilborg vann í samstarfi við Áka Guðna Karlsson þjóðfræðing, þar sem þau skoðuðu ólíkar víddir þefskynsins. Útvarpsþættirnir heita Þefvarpið og er hægt að nálgast þá á efnisveitu Ríkisútvarpsins.
Þjóðhættir er hlaðvarp sem fjallar um nýjar rannsóknir og fjölbreytta miðlun í þjóðfræði. Umsjón hafa dr. Dagrún Ósk Jónsdóttir, kennari í þjóðfræði við Háskóla Íslands og Sigurlaug Dagsdóttir, verkefnisstýra vefsins Lifandi hefðir hjá Þjóðminjasafni Íslands.
Athugasemdir