Aðgerðir lögreglu í vikunni sem gerðar voru í samstarfi við ýmsar stofnanir og samtök voru með þeim umfangsmestu sem ráðist hefur verið í hér á landi.
Rætt verður um aðgerðirnar og það sem er framundan í málinu við Grím Grímsson, Jenný Kristínu Valberg og Sigrúnu Skaftadóttur í Pressu en Jenný Kristín segir í samtali við Heimildina að þau sem hafi komið að málinu ætli sér að halda þétt utan um fólkið sem grunur leikur á að sé fórnarlömb mansalsins.
Hún segir að ekki hafi enn tekist að ná tali af öllum sem talið er að séu þolendur í málinu. Í næstu viku verði fólkinu sem þá verði búið að ná tali af boðið að hitta fulltrúa frá samtökum og stofnunum sem hafi staðið að aðgerðunum í vikunni. „Við stefnum að því að geta svarað spurningum þeirra og hlúð að þeim eftir fremsta megni.“
Jenný Kristín segir að grunur leiki á að fólkið hafi unnið tólf klukkustunda vinnudaga sex daga vikunnar og ekki fengið greitt í samræmi við það. „Starfsfólk ASÍ mun skoða launaseðlana og hugsanlega er tilefni til að gera launakröfur á eigendur fyrirtækjanna.“
Í þættinum ræðir Helgi Seljan, rannsóknaritstjóri Heimildarinnar við Kristrúnu Frostadóttur, formann Samfylkingarinnar og sýnt verður brot úr viðtali Ölmu Mjallar Ólafsdóttir, blaðakonu á Heimildinni við Bashar Murad sem keppti í söngvakeppninni um síðustu helgi.
Pressa er send út í beinu streymi í hádeginu alla föstudaga á vef Heimildarinnar. Útsending hefst klukkan 12.00.
Athugasemdir