Leiðarar

Þeg­ar fólk er svipt von­inni

„Hversu lengi þurfum við að treysta kerfi sem hefur ítrekað brotið á okkur og brugðist okkur?“
· Umsjón: Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir

„Það situr enn í mér þær nætur þar sem ég lá inni á geðdeild, gat ekki sofið og sat ein í eldhúsinu og grét. Það skipti sér enginn af mér, en starfsfólk sá mig og fylgdist með mér úr búrinu. Hvar er mennskan eða umhyggjan?“

Þannig segir kona að nafni Svava frá reynslu sinni af geðdeild Landspítalans, og veltir upp þeirri spurningu hvort það sé einhver manngæska falin í því að lyfja hana og loka inni, fjarri öllu og öllum, og búast svo við því að henni muni fyrir einhverja töfra fara að líða betur.

Svava er ein þeirra sem segir sögu sína í bókinni Boðaföll, nýjar nálganir í sjálfsvígsforvörnum. Frásagnir viðmælenda bókarinnar eru sláandi. 

Þeir hafi lagst inn á geðdeild með von um stuðning, umhyggju og áheyrn, í von um að þar myndi þeir finna á ný löngun til að lifa. Að allar þessar erfiðu hugsanir og líðan yrðu betri að dvölinni lokinni, en reynsla margra var sú að líðanin versnaði við innlögn. Vonleysi og vonbrigði hafi hellst yfir, þar sem hugmyndafræðin sem unnið er út frá byggi ekki á mannúð og það endurspeglist í starfsháttu, jafnvel þótt þar starfi gott fólk. 

Þegar þjáningin er látin afskiptalaus

Einn lýsir því hvernig maður í næsta herbergi öskraði sáran og grét seint á kvöldin. Þegar starfsmanni var gert viðvart voru viðbrögðin þessi: Já, hann gerir þetta stundum, hann hættir oftast eftir smá. 

Enginn ætlaði sér að ræða við manninn eða veita honum huggun. Eins og hann væri ekki álitinn fullgild manneskja. Aðrir áttu síðan að sofna við sársauka hans. 

„Ætli það sé svona að vera fangi?“

Alveg eins og þeir þurftu að horfa upp á starfsfólk beita skjólstæðinga sína nauðung, snúa þá niður og halda í læstri hliðarlegu á meðan þeir voru sprautaðir niður. Ekki vegna þess að þeir voru að skaða aðra eða valda ógn, heldur vegna þess að þeir voru órólegir og hátt uppi. Þannig varð það hættulegt að bregðast við áföllum og vanlíðan með uppnámi eða vilja fara heim, sem jók enn frekar á ótta, kvíða og vonleysi.

Önnur lýsir því hvernig henni var farið að líða eins og vanlíðan hennar væri smitandi, þess vegna mætti starfsfólkið ekki tala við hana, enda horfði það ekki í augu hennar, spurði einskis og virtist standa á sama um ástand hennar. 

„Ætli það sé svona að vera fangi?“ velti hún fyrir sér. 

Svava fann fyrir sömu tilfinningu eftir að herbergisfélagi hennar reyndi að svipta sig lífi inni á deildinni og lokað var á aðgengi allra að eldhúsinu í kjölfarið og eftirlitið aukið. Líðanin batnaði ekki við það. „Lausnin til að við getum hugsað okkur að lifa lengur felst ekki í því að herða enn meira að okkur,“ segir Svava, sem upplifði sig fasta í aðstæðum þar sem verið væri að líkja eftir fangelsi og segir að það hafi aukið enn frekar á örvæntinguna. 

Þegar það að vera veikur er eins og lögbrot

Í sumum tilfellum er upplifunin af fangelsi ekki aðeins tilfinning heldur raunveruleiki fólks sem vistað er á geðdeild. Heimilt er að svipta fólk sjálfræði og þvinga það í meðferð ef það þjáist af alvarlegum geðsjúkdómum. 

Árlega eru um 100 manns lagðir inn á sjúkrahús gegn vilja sínum. Varað hefur við því að fólk sem hefur verið nauðungarvistað gefist smám saman upp. Oft eigi þetta fólk við vandamál að stríða og jafnvel sögu af alvarlegum áföllum. Nauðungarvistun bætist þar ofan á og oft taki langan tíma að vinna úr því. „Eins og það að vera veikur sé lögbrot,“ sagði framkvæmdastjóri Geðhjálpar. Í stað þvingana sé æskilegra að beita fyrirframgefinni tilskipun, þar sem fólk veitir upplýsingar um vilja sinn áður en það veikist. 

Á sunnudag var alþjóðlegi geðheilbrigðisdagurinn. Fyrr í vikunni áréttaði umboðsmaður Alþingis að áfram væri ástæða til að fylgjast áfram grannt með aðbúnaði frelsissviptra. Um leið kallaði hann eftir nánari skýringum á að maður hefði dvalið í 572 daga á öryggisgangi á Kleppi.

Maðurinn fékk heilahimnubólgu í æsku og fór átján ára í skurðaðgerð erlendis þar sem hluti framheilans var fjarlægður, sá hluti sem hefur áhrif á dómgreind og hegðun. Hann bjó einn án gæslu eða þjónustu en gerði sér enga grein fyrir ástandi sínu eða gjörðum þegar hann skar mann í andlitið. Fyrir vikið var hann metinn ósakhæfur og vistaður á réttar- og öryggisgeðdeild. Þar var hann látinn dúsa í fjögur ár með alvarlega flogaveiki, heilaskaða og greindarskerðingu, án allrar nauðsynlegrar þjónustu, meinað um að fara heim um jólin og vera viðstaddur jarðarför afa síns, áður en fjallað var um málið í fjölmiðlum, sem varð til þess að umboðsmaður Alþingis heimsótti deildina með tilvísun í samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyntingum og grimmilegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. 

Á öryggis- og réttargeðdeild eru vistaðir einstaklingar með alvarlega geðsjúkdóma og ósakhæfir einstaklingar sem á að endurhæfa aftur út í samfélagið, en hér var hvorki um geðsjúkdóm að ræða né von um bata. Meira að segja yfirmaður réttargeðdeildar telur mannréttindi mannsins brotin, þar sem hann þyrfti að fá viðeigandi hjálp. „Fyrir utan manngæskuna og mannréttindin, að þetta er rangt. Þetta er fatlaður maður,“ sagði yfirlæknirinn, vistaður á geðdeild þegar hann þyrfti að komast í fallega íbúð, fá umönnun, alúð og aðhald.  

Þegar kerfið gefst upp 

Kerfið virðist stundum gefast upp á fólki. Annar maður sem kerfið gafst upp á, að mati bróður hans, var fársjúkur í íbúðarblokk í Hraunbæ. Þótt vitað væri af ástandi hans var ekkert aðhafst, fyrr en hann gekk berserksgang og lögreglan skaut hann til bana. Ung stelpa kallaði eftir aðstoð lækna þegar hún var í geðrofsástandi en lagði á flótta þegar lögreglan mætti á staðinn, var elt uppi, snúin niður og lést í höndum lögreglunnar. Þegar mæðgur mótmæltu því að aðstandandi þeirra væri útskrifaður beint á götuna voru viðbrögðin þau að handtaka þær. 

Í sumar var greint frá því að sex útskriftarfærir einstaklingar sætu fastir á geðdeild vegna úrræðaleysis sveitarfélaga sem áttu að taka á móti þeim. Einn hafði beðið þar í tvö ár, tveir í sex mánuði og aðrir skemur. Afleiðingarnar voru þær að sjálfsmyndin hrundi, þeir fylltust vonleysi og uppgjöf.

Þegar geðdeildin brást

Alvarleg atvik hafa átt sér stað þegar fólk missir vonina. 

Árið 2017 létust tveir ungir menn á Landspítalanum með tíu daga millibili. „Ef ég fer þangað inn þá kemst ég aldrei lifandi út,“ sagði annar þeirra, Hafliði Arnar Bjarnason, sem lést aðeins 23 ára gamall á sjálfsvígsgát þar sem fylgjast átti með honum á fimmtán mínútna fresti hið minnsta. Hann hafði ánetjast kannabisefnum um tvítugt og sokkið ofan í neyslu en náð sér á strik um tíma. Þegar hann féll aftur gekk hann í sjóinn en fannst sjóblautur á sokkaleistunum á leið upp á Akranes þar sem bróðir hans bjó. Í því ástandi var honum leyft að halda áfram för sinni en var að lokum nauðungarvistaður á geðdeild þar sem eftirlitið brást. Ekki hafði verið litið inn til hans í þrjá klukkutíma þegar hann fannst látinn.

Aðeins tíu dögum síðar lést 26 ára gamall maður, Sverrir Örn Sverrisson, sem var lýst sem skemmtilegum, uppátækjasömum og hæfileikaríkum ungum manni. Hann hafði verið metinn í sjálfsvígshættu, lýst leiðum til sjálfsvígs á deildinni og notaði að lokum áhöld sem voru til staðar í herberginu hans til verksins. 

Á þeim tíu dögum sem liðu á milli atvika hafði ekki verið gripið til neinna ráðstafana til að fyrirbyggja að slíkt gæti endurtekið sig. Tveimur árum síðar var deildin sem þeir dvöldu á enn óbreytt. 

Þegar húsnæðið er hættulegt

Í innri skoðun Landspítalans varð til langur listi yfir úrbætur sem þyrfti að grípa til varðandi húsnæði, þjálfun starfsfólks og verkferla. Öllum þessum þáttum hafði verið ábótavant. 

Engin lágmarksviðmið voru til staðar til að meta öryggi geðdeilda, en þegar spítalinn mótaði loks sjálfur slík viðmið fengu fimm af átta geðdeildum falleinkunn. Umhverfið var ekki aðeins óaðlaðandi og ólíklegt til að stuðla að bata, heldur var það beinlínis hættulegt. 

„Á geðdeild er komið í veg fyrir að við getum tekið eigið líf, en okkur er ekki gefin ástæða til að lifa“ 

Enda gengur illa að manna þessar deildir og mönnun er í sögulegu lágmarki. Það vilja ekki margir vinna þarna. Ástæðan er meðal annars sögð húsnæðið, sem hefur lengi verið vanrækt og er löngu orðið úrelt, svo slæmt að það er sagt hafa slæm áhrif á bata og líðan fólks sem þar dvelur. Samt hafa rannsóknir sýnt að ef húsnæðið er aðlaðandi geti það ekki aðeins aukið batalíkur heldur einnig dregið úr nauðungarúrræðum. 

Viðmælendur bókarinnar Boðaföll lýsa því sem svo að með því að ganga inn á geðdeild hafi þeir afsalað sér ákveðnu sjálfræði. Í stað þess að þeir gætu hlúð að sjálfum sér, borðað þegar þeir voru svangir, hreyft sig eftir þörfum og varið tíma með sínum nánustu var þeim haldið í umhverfi þar sem þeir segja að „grundvallarmannréttindi hafi verið virt að vettugi“.

Fólk hafi verið lyfjað og sagt að vera rólegt í húsnæði sem var „dökkt, drungalegt, með hraunuðum veggjum“.

Þeir sem voru metnir í alvarlegri sjálfsvígshættu var haldið í sjálfsvígsheldum rýmum, hvítum köldum kassa sem veitti hvorki ró né öryggi. Þar var ekkert nema berir veggir, rúm, sæng og koddi. Óheimilt var að hafa hjá sér persónulega muni. Fyrir utan sat manneskja á vakt sem átti að tryggja líf þeirra, en hafði sem minnst samskipti við sjúklinga og veitti þeim litla athygli svo lengi sem þeir voru ekki að skaða sig.

„Á geðdeild er komið í veg fyrir að við getum tekið eigið líf, en okkur er ekki gefin ástæða til að lifa,“ segir Svava.  

Í bókinni er því haldið fram að starfsfólk brenni út í starfsumhverfi þar sem það þarf að aftengjast vanlíðan og tilfinningum skjólstæðinga. Mannekla, álag og skortur á fjármagni sé ekki meginvandi geðheilbrigðiskerfisins heldur viðhorfin sem liggja þar að baki. 

Þegar þvingunum er beitt

Nýlega var hjúkrunarfræðingur á geðdeild Landspítalans úrskurðaður í gæsluvarðhald vegna gruns um manndráp. Greint hefur verið frá því í fréttum að hjúkrunarfræðingurinn hafi þvingað mat ofan í konu á sextugsaldri með þeim afleiðingum að konan kafnaði. Samkvæmt fyrri fréttaflutningi telur starfsfólk að lögreglan hafi farið offari, deildin hafi verið undirmönnuð, álagið mikið og sjúklingurinn að glíma við veikindi sem væru þess eðlis að hún átti ekki heima á geðdeild. 

En varað hefur verið við þvingunum. 

Eftir fréttaflutning af slæmum aðbúnaði öryggis- og réttargeðdeildar á Kleppi ræddi umboðsmaður Alþingis við vistfólk, starfsfólk og stjórnendur þar. Niðurstaðan var sú að meðferð sjúklinga væri almennt í samræmi við mannúð og mannvirðingu, viðmót starfsfólks gagnvart þeim virtist hlýlegt og einkennast af virðingu. 

Fréttaflutningurinn byggði hins vegar á frásögnum núverandi og fyrrverandi starfsfólks, sem lýsti ofbeldi, lyfjaþvingunum, ógnarstjórnun og miklum samskiptavanda. Mörg atvika gætu varðað við lög. Verið væri að beita svo harkalegum aðferðum við þvingaðar lyfjagjafir að sjúklingar og starfsfólk hefði slasast. Ef einstaklingar gerðust síðan sekir um að brjóta reglur væru þeir jafnvel læstir inni á öryggisherbergi svo dögum skipti. 

Eins væru dæmi um að fólk væri geymt inni á deild í marga mánuði á grundvelli þess að úrræðin sem eru í boði neiti að taka við þeim. Á deildunum væri lítið sem ekkert fyrir stafni, dvölin einhæf og tilbreytingarlaus og deildirnar varla mikið annað en geymslustaðir. 

„Ég tók eftir því að þarna gekk allt út á hindranir. Ekki neitt út á að gefa fólki tækifæri,“ sagði geðhjúkrunarfræðingur, sem taldi mikilvægt að breyta hugmyndafræðinni og vinna út frá styðjandi og persónumiðaðri nálgun.  

Þegar kallað er eftir mannúð 

Rétt eins og sumstaðar hefur verið gert. Alveg eins og notendur kerfisins sem standa að útgáfu bókarinnar Boðaföll eru að kalla eftir. Og Geðhjálp, sem hefur lagt áherslu á endurskoðun hugmyndafræði og meðferðar á geðsviði Landspítalans. Samtökin hafa vísað í heimsóknarskýrslu umboðsmanns Alþingis á þrjár lokaðar geðdeildir árið 2018, þar sem fram kemur að lagaheimildir skorti fyrir nauðungum, dagleg útivera var ekki tryggð öllum og húsnæði víða ábótavant. 

Gagnrýndi Geðhjálp að viðbrögð ráðuneytisins hefðu verið að lagfæra lögin í stað þess að endurskoða hugmyndafræðina, meðferðina og húsnæðið. 

Á sama tíma væri verið að innleiða nútímalegri úrræði í löndunum í kring, setja á fót lyfjalausar deildir, nýja meðferðarmöguleika, auka vægi notenda, samfélagsþjónustu og endurhæfingu utan sjúkrahúsa, sem og opna samræðu með vinum og fjölskyldu sem gengur út á að hlusta og skilja, vinna með erfiðleika, áföll og áskoranir og styrkja seiglu fólks í stað þess að einblína á sjúkdómseinkenni. 

Að mati Geðhjálpar ætti það að heyra til undantekninga að leggja þurfi einstaklinga inn á geðdeild í framtíðinni.  

Þegar geðsviðið gleymist 

Þrátt fyrir það snýst umræðan meira um geðrofsgult húsnæði geðdeildar heldur en endurskoðun á kerfinu og innleiðingu mannúðarsjónarmiða við ákvarðanir um meðferð sjúklinga. 

 „Hversu lengi þurfum við að treysta kerfi sem hefur ítrekað brotið á okkur?“ 

Vandinn er ekki á ábyrgð starfsfólks spítalans sem er að gera sitt besta í erfiðum aðstæðum og gerir oft vel þótt hér sé einblínt á það sem betur má fara. Vandinn felst í langvarandi vanrækslu stjórnvalda og lítilsvirðandi viðhorfi samfélagsins gagnvart geðheilbrigðismálum, þar sem einstaklingar með geðrænar áskoranir hafa verið sveipaðir skömm og afskiptaleysi. Fólk sem hefur veikst af geðsjúkdómum hefur gjarnan mætt öðru viðhorfi heldur en fólk sem veikist til dæmis af krabbameini, þótt engin ástæða sé til annars en að byggja áfram á styrkleikum þeirra og getu. 

Bent hefur verið á hversu undarlegt það var að gera ekki ráð fyrir geðsviði á nýjum Landspítala. Ráðherra var einmitt að undirrita samning um nýtt bílastæðahús undir Landspítalanum þegar RÚV náði af honum tali vegna málsins, sagði það „umhugsunarvert“ að ekki hafi verið gert ráð fyrir geðsviði en það væri ekki of seint að bæta því við. Þetta var þann 10. september, tveimur vikum fyrir alþingiskosningar. Allt kjörtímabilið hefur hins vegar ekki skort tækifæri til að bregðast við.

Á meðan spyrja höfundar bókarinnar Boðaföll, fólk sem hefur reynslu af geðheilbrigðiskerfinu, einfaldlega: „Hversu lengi þurfum við að treysta kerfi sem hefur ítrekað brotið á okkur og brugðist okkur?“

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.
Tuð blessi kappræður í Tjarnarbíó!
Tuð blessi Ísland #6 · 1:04:00

Tuð blessi kapp­ræð­ur í Tjarn­ar­bíó!

Kappræður í Tjarnarbíó
Pressa · 1:29:00

Kapp­ræð­ur í Tjarn­ar­bíó

Flökkusögur og orðrómur um flóttafólk og umsækjendur um alþjóðlega vernd á Íslandi
Þjóðhættir #57 · 26:43

Flökku­sög­ur og orð­róm­ur um flótta­fólk og um­sækj­end­ur um al­þjóð­lega vernd á Ís­landi

„Ég er að leggja allt undir“
Formannaviðtöl #6 · 1:11:00

„Ég er að leggja allt und­ir“