Úkraínuskýrslan

„Ósk­ar! Vakn­aðu, það er risa­stór árás í gangi!“

Óskar Hallgrímsson eyddi nóttinni á köldu baðherbergisgólfi, ásamt konu sinni, á meðan sprengjur Rússa féllu í Kyiv. Eldflaug sprakk í íbúabyggð og næsta dag voru þeir sem lifðu af grafnir úr rústum - hinir látnu líka.
· Umsjón: Óskar Hallgrímsson

Eftir rúmlega tveggja vikna frí, í fyrsta skipti eftir þrjú ár af stríði, sneri ég aftur heim til Kyiv – útsofinn eftir vel nýttar kyrrðarnætur á sveitahótelum í vesturhluta Úkraínu.

Markmiðið var að fara rólega af stað, klára eina grein sem ég hafði nær hálfskrifað fyrir fríið og mögulega skreppa aftur út í sveit.

Við hjónin komum heim um kvöldið og lognuðumst út af um miðnætti eftir klukkutíma af sjónvarpsglápi. Hálftíma síðar vakti konan mín mig með látum: „Óskar! Vaknaðu, það er risastór árás í gangi!“

Við heyrðum dróna fljúga lágt yfir húsinu. Nokkrum sekúndum síðar varð sprenging. Við hlupum inn á baðherbergið með bangsa og teppi – aðgerð sem orðin er að vöðvaminni rútínu.

Árásin hélt áfram fram undir morgun. Við eyddum nóttinni á baðherbergisgólfinu. Lítill svefn, en um sjöleytið færðum við okkur í rúmið þar sem ég náði smá dúr.

Eftir tvo tíma vaknaði ég aftur og hélt á vettvang. Þar hafði norður-kóresk KN-23 eldflaug hafnað í miðri íbúabyggð.

Björgunarstarfið gekk eins og vel smurð vél. Þegar ég mætti voru öll glerbrot þegar sópuð af götunum. Þeir sem lifðu höfðu verið grafnir úr rústunum – hinir látnu líka.

Á svæðinu hitti ég Mykola, 87 ára, sem lifði árásina af. Hann missti sex ættingja í seinni heimsstyrjöldinni og var sendur eignalaus með fjölskyldu sinni til Síberíu árið 1947.

„Rússar eru ekki fólk,“ sagði Mykola. „Þeir taka allt frá þér. Ég veit hvað ég segi – ég lifði af stríð Þjóðverja og Rússa, og núna gerist þetta aftur.“

Hann rifjaði upp að þegar hann var barn gaf þýskur hermaður honum nammi – og jafnvel munnhörpu. „Rússar gefa aldrei neitt,“ bætti hann við.

Lífið í Kyiv gengur áfram – upp að vissu marki. En fólk heldur dauðahaldi í hversdagsleikann þrátt fyrir stríðið. Við erum þreytt, en við erum öll saman í þessu.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
    Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.
    Eigum við bara að láta slíkt viðgangast?
    Sif · 06:16

    Eig­um við bara að láta slíkt við­gang­ast?

    Árásin aðfararnótt 17. júní
    Úkraínuskýrslan #31 · 11:41

    Árás­in að­far­arnótt 17. júní

    „Þessi kona er rugluð“
    Sif · 05:54

    „Þessi kona er rugl­uð“

    Væntingar barna af erlendum uppruna til menntunar
    Samtal við samfélagið #13 · 44:22

    Vænt­ing­ar barna af er­lend­um upp­runa til mennt­un­ar