Hörgdal kemur út úr skápnum

Þetta er ekki frétt. Þetta er persónulegur áfangi, afskaplega langþráð ákvörðun. Og þar með stórfrétt fyrir sjálfan mig og kannski agnarögn fyrir þá sem þekkja til mín sem rithöfundar:
Frá og með deginum í dag tek ég mér nafnið Davíð Hörgdal Stefánsson.
*****
Mér þykir ógurlega vænt um nafna minn, Davíð Stefánsson frá Fagraskógi. Hann var magnað ljóðskáld ... svo magnað að hann mun aldrei gleymast. Og eftir því sem árin hafa liðið hefur mér þótt sífellt óþægilegra að bera nákvæmlega sama nafn, verandi líka ljóðskáld og rithöfundur. „Hinn“ Davíð hefur því smám saman tekið sér stöðu sem hálfdraugur á hægri öxl minni, alltaf handan við hornið, alltaf að minna á sig.
En af hverju núna og af hverju svona seint?
Við því eru a.m.k. nokkur svör.
Í fyrsta lagi vegna óskýrleika og hálfkáks. Ég er sennilega búinn að hugsa um þetta í tuttugu ár – og tók meira að segja hálfskref fyrir mörgum árum þegar nokkrar bókanna minna komu út undir „skáldanafninu“ Davíð A. Stefánsson. Það var ekki góð ákvörðun vegna þess að hún var tekin í hálfkáki og útþynntu hugrekki. Ég þorði ekki að taka skrefið til fulls. Og fílaði aldrei þetta merkingarlausa „A“ sem átti að aðgreina mig frá Fagraskógsmeistaranum.
Í öðru lagi vegna þess að ég er rétt að byrja sem rithöfundur. Vegna þess að ég á öll mín bestu verk óskrifuð og tíminn fram að þessu hefur verið æfingatímabil, oft fálmandi og stundum sársaukafullt, þar sem ég hef leitað og fundið mína leið til að vera virkur rithöfundur. Vegna þess að ég er 45 ára og ætla að verða 95 ára eins og Svana föðuramma mín.
Í þriðja lagi: Hvers vegna ekki? Hvenær rennur út tímabilið í lífi manns þar sem manni leyfist að taka stórar ákvarðanir?
*****
Ég tek mér Hörgdal sem millinafn af hjartanlegri virðingu við þann stað í þessari jarðvist þar sem sterkustu rætur mínar liggja – Hörgárdal. Þar trónir Hraundranginn glæstur og dramatískur yfir allri tilvistinni, þar ólst amma Dísa upp á Myrká, þar bjó afi Búi á Ásgerðarstöðum, þar stofnuðu þau nýbýlið Myrkárbakka, þar ólst mamma mín upp ásamt stórum systkinahópi, þar bjó ég fyrstu tvö ár ævi minnar, þar og á Myrká var ég í sveit um árabil og lærði að snúa og garða og keyra ævagamlan Land Rover.
Dagurinn er fallegur og þessari langþráðu ákvörðun fylgir mikill léttir og gleði. Og þar með hefst ég handa við að klára skáldsöguna um Djáknann, klára bókina mína um skapandi skrif og setja saman langþráð ljóðabókarhandrit. Planið fyrir árið 2019:
Að minnsta kosti ein bók ... helst tvær!
Nýtt efni


Harpa Hildiberg Böðvarsdóttir
Í skugga kerfis sem brást

Fyrsti páfinn frá Bandaríkjunum

Rithöfundasambandið hvetur til sniðgöngu Storytel

Hafa fengið 174 milljónir úr ríkissjóði fyrir eigin kosningabaráttu

Stuðningur við veiðigjaldafrumvarpið eykst eftir auglýsingaherferð útgerðarmanna

Tekjur dragast saman og tapið eykst hjá Sýn

Framlengdu gæsluvarðhald vegna almannahagsmuna

Hulduverur, safnastarf og köldu ljósin Hafnafirði

Hungrað fólk berst við að fá matargjafir

Spurði hvort ráðherrar í ríkisstjórninni væru undanskildir lögum

Kardínálar streyma í Vatíkanið fyrir páfakjör

Verðbólga í Tyrklandi dregst saman – 37,9% á ársgrundvelli

Þrjú andlát síðustu fimm ár tengd heimilisofbeldi aldraðra

Lágu á baðherbergisgólfinu á meðan árásirnar gengu yfir

Athugasemdir