Í fyrri hluta Pressu verður fjallað um ójöfnuður sem er að aukast milli hverfa á Höfuðborgarsvæðinu. Ný rannsókn sem birt var í morgun sýnir þetta og margt fleira varðandi ójöfnuð í borginni.
Kolbeinn H. Stefánsson, dósent við Félagsráðgjafadeild HÍ kemur í þáttinn en hann gerði rannsóknina. Einnig koma þær Sigrún Ólafsdóttir, prófessor í félagsfræði við HÍ sem hefur rannsakað ójöfnuð í heilsu í Reykjavík og Sanna Magdalena Mörtudóttir, borgarfulltrúi.
Þá er rætt við nokkra íbúa á tveimur ólíkum tekjusvæðum; Hólunum í Breiðholti og Garðabæ.
Í síðari hluta þáttarins verður sýnt viðtal við systkinin Asil Al Masri og Suleiman Al Masri sem eru fædd og uppalin í Palestínu en þau koma til Íslands í dag. Þau misstu foreldra sýna, systur og barnungan systurson í árás Ísraelshers á Gaza í október og Asil slasaðist mjög alvarlega í árásinni. Þau eru bæði komin með ríkisborgararétt á Íslandi og hittust í fyrsta sinn í sex ár fyrir skömmu.
Systkinin voru í Belgíu þegar Pressa náði tali af þeim þar sem þau voru að undirbúa ferðalagið heim til Íslands.
Athugasemdir