Eigin konur #861:07:00
„Þeir eru að kaupa sér vald“
Brynhildur Björnsdóttir og Eva Dís Þórðardóttir segja í þættinum frá bókinni Venjulegar konur sem fjallar um vændi á Íslandi. Í bókinni sem Brynhildur skrifar er rætt við sex konur sem hafa verið í vændi á Íslandi og einn karl sem hefur keypt vændi. Eva Dís fékk hugmyndina að því að setja reynslusögur kvenna sem hafa verið í vændi í bók. Eva Dís og Brynhildur segjast vilja sýna að vændi jafnvel þótt það sé óþvingað, geti haft miklar og slæmar afleiðingar. Eva Dís segir lang flestar konur sem hafa verið í vændi séu ekki reiðubúnar að stíga opinberlega fram og á meðan svo sé hafi hún tekið að sér að tala fyrir þeirra hönd en Eva Dís var sjálf í vændi í Kaupmannahöfn um skeið. „Ég þurfti að vera búin að taka fjóra kúnna yfir daginn áður en ég fór að fá pening til þess að eiga fyrir auglýsingunum, til þess að borga fyrir leiguna á herberginu sem ég notaði á vændishúsinu, ég þurfi að borga símadömu og ákveðin verndargjöld inní skipulagða glæparstarfsemi. Það er fyrir utan, fatnað, smokka, sleipiefni og allt draslið sem maður þarf til að stunda þetta,“ segir Eva Dís. Hún segir að í Þýskalandi kosti vændi svipað og hamborgari á skyndibitastað og það sé líka mjög ódýrt að kaupa aðgang að líkama kvenna í vændi í Danmörku. „Fyrir mér er kynlífsvinna ekki orð,“ segir Eva Dís og Brynhildur segir að þeir sem kaupi aðgang að líkama kvenna séu alls ekki að kaupa kynlíf. „Þeir eru að kaupa sér vald. Þeir eru að kaupa sér réttinn á því að ganga yfir mörk,“ segir Brynhildur. „Við verðum að berjast gegn því að normalisera vændi, af því að það er bara ekkert normal við vændi,“ segir Brynhildur og bætir við að 90 prósent þeirra sem hafa verið í vændi upplifi það sem ofbeldi. Eva Dís og Brynhildur fara einnig yfir það í þættinum hvaðan hugmyndir okkar um vændi eru komnar og þá staðalímynd sem við höfum af konum í vændi. „Fólk heldur að þetta séu konur sem finnst kynlíf bara geggjað og þetta séu bara einhverjar kynlífsvélar,“ segir Brynhildur.
Athugasemdir