Karlmennskan, hlaðvarp #4933:02
„Það er búið að þagga niður milljón svona mál“ - Pétur Marteinsson fyrrverandi atvinnumaður og landsliðsmaður í knattspyrnu
„Við vitum að yfir 10% kvenna er nauðgað og yfir 30% lenda í kynferðisofbeldi sem hefur áhrif á þær til framtíðar [...] samt erum við ekki tilbúnir til að trúa þolendum.“ segir Pétur Marteinsson fyrrverandi atvinnumaður og landsliðsmaður í knattspyrnu.
Í kjölfar frásagna af þöggun KSÍ um ofbeldisbrot leikmanna íslenska karlalandsliðsins í fótbolta, afsagnar formannsins, afsagnar stjórnar og brotthvarf framkvæmdastjórans (allavega tímabundið) hefur verið töluverð umræða um eitraða íþróttamenningu, skaðlega karlmennsku og klefamenningu. Á síðustu dögum hefur þó meira farið fyrir skoðanapistlum miðaldra karlmanna, löglærðra manna, og annars málsmetandi fólks sem gefa í skyn að þolendur sem stigið hafa fram séu ótrúverðugir og í raun hafi ekki verið tilefni til afsagnar formanns og stjórnar KSÍ. Vararíkissaksóknari, sem aðstoðar ríkissaksóknara æðsta handhafa ákæruvalds í landinu, virðist deila þeim viðhorfum að brotaþolar sem stigið hafa fram séu ótrúverðugir. Þótt vararíkissaksóknari hafi sjálfur útskýrt læk og share, á facebook-pistli sem var síður en svo þolendavænn, sem stuðning við tjáningafrelsið.
Síðustu vikuna hef ég óskað eftir samtali við fyrrverandi formann KSÍ, landsliðsþjálfarann og nokkra karlkyns einstaklinga sem eru fyrrverandi knattspyrnumenn eða starfa við umfjöllun um fótbolta. Enginn sem ég leitaði til gaf kost á sér í spjall við mig, nema Pétur Marteinsson sem þó var aðeins tvístígandi.
Í 49. hlaðvarpsþætti Karlmennskunnar veltum við því fyrir okkur hvers vegna svo margir þora ekki að tjá sig eða forðast umræðuna um ofbeldi, fáum innsýn fyrrverandi atvinnumanns í knattspyrnu í klefamenninguna, karlasamstöðuna og forréttindi. Snertum á því hvernig umræðan sem hverfist núna um KSÍ og fótboltamenn er útbreiddur samfélagslegur vandi sem byltingar kvenna undanfarin ár hafi svo sannarlega varpað ljósi á og að karlar sem þráast við breytingunum muni tapa.
Umsjón: Þorsteinn V. Einarsson
Intro/outro: Futuregrapher
Þátturinn er tekinn upp í stúdíó Macland og er í boði Veganbúðarinnar og The Body Shop.
Athugasemdir