Úkraínuskýrslan

Frið­ar­við­ræð­ur í Tyrklandi

Nú eru allir að tala um „friðarviðræður í Istanbúl“ og áróðursvélin komin með fullan tank. Ég myndi ekki undrast ef þetta verði notað næstu mánuði til að kenna Úkraínu um að hafa gengið frá borði – og að í þetta skiptið hafi Evrópa eyðilagt viðræðurnar. Allt í þágu þess að stilla Pútín upp sem friðarleitandi leiðtoga.
· Umsjón: Óskar Hallgrímsson

Á meðan fjölmiðlar víða um heim sýndu frá árlegri Sigurhátíð í Moskvu komu fjórir leiðtogar Evrópuríkja saman til Kyiv: Emmanuel Macron, Keir Starmer, Friedrich Merz og Donald Tusk. Ferðin var skipulögð í kringum nýja tillögu að 30 daga vopnahléi – með stuðningi Hvíta hússins.

Þeir sátu saman í þrjár klukkustundir við alls konar bollaleggingar áður en þeir hringdu sameiginlega í Donald Trump. Zelensky lýsti símtalinu sem „jákvæðu og skýru.“

Skilyrðin voru skýr: Rússland hafði frest til miðnættis á mánudag til að samþykkja 30 daga vopnahlé – annars tæki við ný lota samræmdra þvingana með stuðningi Hvíta hússins.

Á sama tíma voru nýjar aðgerðir þegar í undirbúningi innan EES; Sautjándi þvinganapakkinn beindist að nærri 200 skipum úr skuggaflota Rússlands, 30 fyrirtækjum sem komu að sniðgöngu viðskiptaþvingana og 75 aðilum og fyrirtækjum tengdum rússneska hergagnaiðnaðinum.

Pútín hafnaði vopnahléinu á mánudag en lagði þess í stað til friðarviðræður í Tyrklandi.

Gekk í gildruna

Trump labbaði beint inn í gildruna sem Pútín lagði fyrir hann, og hvatti Zelensky til að fara til Tyrklands og taka þátt í friðarviðræðum.

Trump gerði þetta opinberlega, án þess að bera það undir leiðtoga Evrópu eða stjórnvöld í Úkraínu – og gelti þar með, og sprengdi upp það sem hafði verið ákveðið í Kyiv daginn áður.

Zelensky brást snöggt við og sagði: „Okey, ekkert mál, ég mæti ef þú mætir“ – og flaug til Tyrklands á miðvikudag, þar sem hann beið einfaldlega eftir Pútín.

Zelensky sýndi kænsku með því að mæta strax á svæðið og gerði það skýrt að hann ætlaði ekki að ræða við neinn annan en Pútín sjálfan.

En svo leið og beið – og Kreml fór að grugga vatnið og þynna út yfirlýsingar. Fljótt varð ljóst að þeim var aldrei alvara með fundinn; Pútín ætlaði ekki að mæta, heldur sendi hann nefnd.

Klassísk rússnesk/sovésk strategía sem Bandaríkin hafa reglulega fallið fyrir síðan í kalda stríðinu: Hægja á > endurmóta samhengið > afvegaleiða umræðuna > draga úr spennu eða villa fyrir með nýjum yfirlýsingum.

Pútín var auðvitað aldrei að fara að mæta – hann viðurkennir Zelensky ekki sem löglegan leiðtoga landsins. Hann hefði aðeins mætt ef Trump hefði gert það. Þegar Trump var spurður út í málið, sagðist hann ekki skilja spurninguna og svaraði: „Af hverju ætti hann að mæta ef Pútín ætlaði ekki að mæta?“

Eins og ég hef margoft hamrað á – þeim virðist finnast staðan svipuð og eftir seinni heimsstyrjöld: að alþjóðlegar umræður séu staddar þar sem Jalta-samningarnir voru gerðir um framtíð Evrópu, en þar voru það þjóðhöfðingjar Bandaríkjanna, Sovétríkjanna og Bretlands sem hittust til að ræða skiptingu landsvæða til sigurvegara eftir stríð.

Fleiri vopn, stærri her

Pútín hefur ekki dregið úr kröfum sínum – hann hefur einfaldlega bætt í vopnaiðnaðinn og aukið söfnun á herafla. Hann er að reisa stórar vopnaverksmiðjur djúpt inni í Rússlandi, og samkvæmt nýlegri frétt í Economist safna Rússar hátæknibúnaði framhjá höftum til að þróa ný vopn.

Þeir eru líka að færa til herlið og safna því saman á nýjum svæðum – ekki bara nálægt landamærum Úkraínu, heldur einnig við lönd eins og Eistland og Finnland.

Umræðan um vopnahlé hljómar æ meira eins og óskhyggja frá vestrænum leiðtogum, sem vonast til að Rússar hafi skipt um stefnu án þess að neitt bendi til þess – en gera lítið til að knýja þá breytingu fram.

Sendinefndin kom – og fyrstu beinu friðarviðræður Úkraínu og Rússlands síðan 2022 hófust formlega í Istanbúl 16. maí. Tyrkir tóku á móti báðum hópum.

Medinsky leiðir aftur

Rússar sendu sama mann og 2022 til að leiða umræðurnar – Vladimir Medinsky – ásamt öðrum úr sama hópi.

Marco Rubio, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagði að rússneska sendinefndin væri varla líkleg til að skila neinum árangri.

Í úkraínsku sendinefndinni voru meðal annarra varnarmálaráðherra Rustem Umerov, yfirmaður forsetaskrifstofunnar Andriy Yermak og utanríkisráðherra Andrii Sybiha

Í rússneskum fjölmiðlum er fundurinn kynntur sem framhald viðræðnanna frá 2022, ætlaður til að ræða „rótarástæður“ stríðsins.

Eftir viðræðurnar skrifaði Andriy Yermak: „Það eina sem minnir á viðræðurnar 2022 frá okkar sjónarhorni er staðsetningin – borgin Istanbúl – ekkert annað.“

Rustem Umerov sagði að Úkraína væri tilbúin í algjört og skilyrðislaust vopnahlé – sem yrði að fylgja eftir með raunverulegum mannúðarskrefum, þar á meðal að skila börnum sem hafa verið numin á brott og skipta á stríðsföngum eftir reglu „allir fyrir alla.“

Að senda Medinsky aftur til að leiða umræðurnar segir Úkraínumönnum að Rússum hafi aldrei verið alvara – markmiðið er að villa fyrir heiminum, sérstaklega í Hvíta húsinu, og framleiða nýtt eldsneyti fyrir áróðursvélina.

Það kæmi mér ekki á óvart ef athugasemdir við þetta myndband væru að endurspegla ýmsar hliðar þeirrar söguútgáfu.

Medinsky er talinn hafa skrifað, eða aðstoðað Pútín við að skrifa ritgerðina „Um sögulega einingu Rússa og Úkraínumanna,“ sem birtist á heimasíðu Kreml í júlí 2021 og réttlætti í um 7000 orðum hugsunina á bak við innrásina. Sú hugmyndafræði heldur enn vélinni gangandi – boðskapur Pútíns hefur lítið breyst, hvort sem það er í ræðum eða viðtölum.

Í rússneskum fjölmiðlum á föstudag var boðskapurinn skýr: Pútín sé aðeins að verja hagsmuni landsins og Medinsky sé alvara með friðarviðræður.

Nánast sömu kröfur Rússa og árið 2022

Auðvitað var það ekki raunin – Rússar komu með nánast sömu kröfur og árið 2022: um stöðu herafla, framtíð landsins og staðsetningu varna.

Nú ráða þeir ekki eins stóru landsvæði og þeir gerðu árið 2022, þegar þeir kröfðust nær algerrar uppgjafar.

Í staðinn komu þeir með kröfur sem voru augljóslega óraunverulegar og þeir vissu að Úkraína myndi aldrei samþykkja – að Úkraína drægi sig alfarið úr þeim fjórum héruðum sem Rússar segjast ráða yfir eftir ólöglega innlimun í kosningum árið 2022. Engar tilslakanir hafa komið fram síðan – hvorki fyrir ári né tveimur.

Enginn Rússlandsmegin við borðið hafði raunverulegt ákvörðunarvald – þeir voru þar til að útlista úrslitakosti og miðla skilaboðum frá Kreml, frekar en að semja í alvöru.

Eftir fundinn var haldinn símafundur með leiðtogum stærstu Evrópuríkja, Úkraínu og Donald Trump.

Það er áhugavert að sjá svip þjóðarleiðtoganna þegar þeir hlusta á Trump í gegnum fjarfundarbúnaðinn.

Í kjölfarið fylgdu yfirlýsingar frá þeim flestum – óþarfi að telja þær upp allar, nema kannski þá frá hinum pólska Donald Tusk: „Með þessu hafa Rússar endað friðarviðræður og neitað vopnahléi.“

Bara svo það sé á hreinu: Rússar hafa alltaf neitað vopnahléi og aldrei lýst áhuga á slíku – nema á meðan Sigurhátíðin í Moskvu fór fram um daginn.

En það er ekki allt svart. Umerov, varnarmálaráðherra Úkraínu, tilkynnti að samþykkt hefði verið 1000 fyrir 1000 fangaskipti – þó dagsetningin sé leynd.

Mig grunar að rússneska sendinefndin hafi fengið leyfi til að tilkynna Úkraínu þetta fyrirfram – frekar en að þetta hafi verið raunveruleg niðurstaða samninga.

Að mínu mati – og flestra greinenda – náðu Rússar því sem þeir vildu: að slá ryki í augun á fjölmiðla og skapa ímynd friðarviðræðna.

Nú eru allir að tala um „friðarviðræður í Istanbúl“ og áróðursvélin komin með fullan tank. Ég myndi ekki undrast ef þetta verði notað næstu mánuði til að kenna Úkraínu um að hafa gengið frá borði – og að í þetta skiptið hafi Evrópa, ekki Boris Johnson, eyðilagt viðræðurnar. Allt í þágu þess að stilla Pútín upp sem friðarleitandi leiðtoga.

Þarf að endurtaka sannleikann

Sannleikurinn – og hann þarf að endurtaka öðru hvoru – er þessi: Rússland réðist ólöglega inn í Úkraínu. Það heldur áfram að ráðast inn í landið og fremur daglega stríðsglæpi gegn óbreyttum borgurum. Þetta er ólöglegt árásarstríð gegn Úkraínu, sem ver sig með hjálp Vesturlanda. Þetta snýst ekki um landsvæði eða tungumál.

Sömu rök voru lögð fyrir Breta og Frakka árið 1938 – og hafa verið notuð til að réttlæta innrásir bæði fyrir og eftir þann tíma. Ég leyfi ykkur að draga eigin ályktanir um hvar við erum stödd á tímalínunni fyrir seinni heimsstyrjöld, í ljósi þeirra sögulegu pælinga sem ég hef farið yfir í síðustu myndböndum.

Ég get allavega sagt eitt: Tímalínan færðist ekki afturábak – svo mikið er víst.

Ég sé nær daglega myndbönd af hrottalegri hegðun Rússa – gagnvart eigin hermönnum sem neita að berjast eða reyna að flýja, gagnvart úkraínskum hermönnum sem gefast upp en eru samt teknir af lífi, og í árásum á óbreytta borgara.

Við ræðum oft hlutina úr svo mikilli hæð að við missum af þessum hluta stríðsins – hvar línan liggur og hverjir deyja þegar ekkert er eftir.

Í dag heyrði ég í vini mínum úr sérsveit sem berst á einum af erfiðari stöðum víglínunnar. Þegar ég spurði hvernig hann hefði það, svaraði hann einfaldlega:

„Mjög þungt, en undir stjórn.“

Ég sagði bara að ég væri að tékka á honum – að mér þætti vænt um hann og vildi vera viss um að hann væri enn á meðal okkar.

Hann svaraði: „Takk, bróðir.“

Svo sendi hann mér myndband af kettlingum og móður þeirra sem hann hefur tekið að sér á bækistöðinni.

Langaði bara að deila því með ykkur.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
    Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.
    Ójöfnuður í menntun: Framtíðarsýn og áskoranir innflytjenda í atvinnumálum
    Samtal við samfélagið #10 · 53:40

    Ójöfn­uð­ur í mennt­un: Fram­tíð­ar­sýn og áskor­an­ir inn­flytj­enda í at­vinnu­mál­um

    Hvað kostar sál margar kokteilsósur?
    Sif · 06:10

    Hvað kost­ar sál marg­ar kokteilsós­ur?

    Reham Khaled
    Raddir Gaza #1 · 10:50

    Reham Khaled

    Flateyri, sveppasósur og svæðisvitund
    Þjóðhættir #63 · 35:22

    Flat­eyri, sveppasós­ur og svæðis­vit­und