Undir áhrifum

Salka og Sevdaliza

Undir áhrifum er nýr liður í umsjón Katrínar Helgu Andrésdóttur þar sem íslenskar tónlistarkonur fjalla um áhrifavalda sína. Að þessu sinni ræðir hún við Sölku Valsdóttur, rappara og pródúsent, um tónlistarkonuna Sevdalizu. Salka heillaðist af því hvernig hún blandar saman hinu óþægilega og fallega.
· Umsjón: Katrín Helga Andrésdóttir

Katrín: Áður en við beinum athyglinni að Sevdalizu, langar mig aðeins að kynna þig, Salka. Þú hefur gert garðinn frægan með Reykjavíkurdætrum og Cyber, auk þess að koma fram með fleiri hljómsveitum. Nýlega gáfuð þið í Cyber út plötuna Bizness, sem er fyrsta íslenska hip hop-platan pródúseruð af konu og um þessar mundir ertu að vinna í nýrri plötu með Reykjavíkurdætrum sem er einnig pródúseruð af þér. Þú ert meðal annars undir áhrifum af írönsk-hollensku raftónlistarkonunni Sevdalizu. Viltu kynna hana aðeins fyrir okkur?

Salka: Já. Ég myndi segja að hún sé sú tónlistarkona, sem í þá tíð sem ég hef verið að gera raftónlist, hefur verið mín helsta fyrirmynd. Hún vinnur sem pródúsent, söngkona og píanóleikari, auk þess að vera listrænn stjórnandi allra tónlistarmyndbanda og plötuumslaga sinna. Hún hefur yfirumsjón með sínum heimi og fingurna í öllu sem kemur frá henni. Svo er hún líka dansari, sem maður sér á tónleikum, hún er með geðveikar sviðshreyfingar finnst mér. Ég fattaði þegar ég valdi að tala um hana hvað þetta er ungur tónlistarmaður, það er fullt af öðrum hljómsveitum sem ég veit í rauninni miklu meira um, því það er einfaldlega meira um þær að vita, en hún gaf út sína fyrstu, eða sína einu breiðskífu 2017, sem heitir Ison. Ekki löngu fyrir það var hún að gefa út singúlana af henni og þá kynntist ég henni. Það var Jóhanna sem sýndi mér hana, hún hafði þá séð Human-myndbandið.

Katrín: Er það myndbandið þar sem hún er með hestahófa?

Salka: Já, svona hálfur hestur.

„Ég er örugglega prógrammeruð til þess að líta upp til þessarar konu. Hún er gjörsamlega allt sem ég er með samviskubit yfir því að vera ekki“

Katrín: En samt ekki með búkinn einhvern veginn, heldur bara með fæturna. Mjög skrítið. Af því hún er svo ótrúlega falleg að ofan, og svo eru þessir fætur og það er ekki beint sexí, eiginlega bara skrítið. Flott hvernig hún blandar saman óþægilegu og fallegu.

Salka: Já. Heimurinn hennar er mjög leikrænn.

Katrín: Svolítið óhugnanlegur.

Salka: Já, dimmur en samt mjúkur, kvenlegur en samt … skynjunin mín á mörgu því sem hún gerir er eins og þetta gerist í geimnum eða eitthvað. Gerist á annarri plánetu, veistu hvað ég meina? Hún er alltaf að breyta formum, taka andlitið sitt og setja það á gínu ... alltaf að breyta eðli hluta og sjálfs síns, og líkama.

Katrín: Já, mér finnst þetta vera í hálfgerðri tölvuvídd, frekar en í geimnum. Af því að þetta er svo digital.

Salka: Mjög digital, já. Og tónlistin hennar líka. Ég er mjög innblásin af því hvernig hún blandar saman sínum pródúksjónum við alls konar upptökur á hljóðfærum. Hún nær að búa til rosalega stóran hljóðheim úr mjög litlu, nota ólíka heima sem mætast á ótrúlega fallegan hátt.

Katrín: Eigum við að fara aðeins í bakgrunninn? Hún fæddist í Teheran í Íran, en flutti þaðan til Hollands þegar hún var fimm ára. Hún er algjör „overacheiver“, var á skólastyrk þegar hún var sextán ára að spila með körfuboltaliðinu í skólanum sínum og fór svo seinna að spila með landsliðinu í körfubolta.

Salka: Já, einmitt. Hún er náttúrlega rosalega hávaxin, sko. Ég held hún sé einn og níutíu eða eitthvað djók.

Katrín: Nei!

Salka: Jú. Hún er „huge“. Og líka ótrúlega sterkbyggð. Hún er svona eins og manneskja sem er búið að hlutfallslega teygja út í hornunum, eins og mynd. Ótrúlega tignarleg, hún lítur út eins og einhver forngrísk gyðja.

Katrín: Algjörlega! Og hún er með svo sterkt nef! Myndi maður segja að þetta væri arnarnef? Eða er það bogið? Þetta er ekki bogið nef, þetta er mjög beint nef!

Salka: Þetta er beint nef með tign arnarnefsins!

Katrín: Mikil tign í þessu nefi. Og kinnbeinunum og allri andlitsbyggingunni. Og einmitt, breiðar axlir. Sterk. Svo er hún með mastersgráðu í Communications. Hvað myndi maður kalla það á íslensku?

Salka: Samskiptafræði?

Katrín: Mér líður eins og þetta hafi að gera með tengslamyndun.

Salka: Já, auðvitað, eitthvað svona PR.

„Samfélagið var stöðugt að gefa henni þau skilaboð að hún nyti velgengni, en henni leið ekki vel og skildi ekki af hverju“

Katrín: Einmitt. Ég skoðaði viðtal við hana þar sem hún talaði um að henni hafi ungri gengið mjög vel innan þeirrar senu, fengið gott starf og vel launað, en hafi á sama tíma verið mjög óhamingjusöm. Samfélagið var stöðugt að gefa henni þau skilaboð að hún nyti velgengni, en henni leið ekki vel og skildi ekki af hverju. Hún segir frá því að hún hafi farið í heimsreisu og verið að djamma með brasilískri fjölskyldu, sem sagt að spila, og fattað að þetta væri það sem gerði hana hamingjusama, og fór þá að stefna að því að verða tónlistarkona. Hún er fædd áttatíuogsjö.

Salka: Já, hún er þrjátíu og eins árs. En hún er greinilega einhver ofviti eða eitthvað.

Katrín: Hún talar sko fimm tungumál!

Salka: Já. Hvaða? Persnesku, hollensku, ensku …

Katrín: Portúgölsku og frönsku.

Salka: Já já. Beisikk.

Katrín: Hún segir líka í einhverju viðtali að hún sé mjög öguð – sem maður finnur!

Salka: Það kæmi mér mjög mikið á óvart ef hún væri það ekki! Ég er örugglega prógrammeruð til þess að líta upp til þessarar konu. Hún er gjörsamlega allt sem ég er með samviskubit yfir því að vera ekki.

Katrín: En hún hlýtur líka að setja mjög mikla pressu á sjálfa sig, vera algjör fullkomnunarsinni, með þvílíka áráttu. Ég gæti alveg trúað því að það sé erfitt að vera hún.

Salka: Já, ég bara vorkenni henni ekki neitt, sko (hlær). Mér finnst líka heyrast mjög vel að það sé eitthvað sem hún þarf að segja. Hún hefur einhverja svaka tjáningarþörf sem hún er drifin af. Sem er kannski ekki endilega bara „voluntary“. Hana klæjar einhvers staðar og verður að klóra sér.

Katrín: Vel orðað. Ég skoðaði instagrammið hennar, gaman að skoða það. Hún er mjög ljóðræn. Undir færslunum hennar eru oft bara ljóð.

Salka: Já, hún er mjög dramatísk. Það myndu alls ekki margir púlla það að vera svona dramatískir. Ég er mjög hrifin af dramatík, þegar rétt fólk er dramatískt. Eða dramatík í réttu samhengi. Eiginlega því meiri epík sem fólk kemst upp með að hafa í tónlist og performans, því betra finnst mér. En það er líka mjög vandmeðfarið, getur gjörsamlega fallið flatt á magann. Eitt sem er mjög sterkt í textunum hennar og orðræðu er þetta með kvenleikann. Að hann sé stórfenglegur og líka gjörsamlega undirgefinn og einhvern veginn ...

Katrín: Brothættur?

„Öll þessi niðurlæging og hvernig er risið úr henni. Sem mér finnst vera mjög afgerandi í hljóðheiminum hennar“

Salka: Já, brothættur og öll þessi niðurlæging og hvernig er risið úr henni. Sem mér finnst vera mjög afgerandi í hljóðheiminum hennar, þessum hörðu, digital-hljóðum og svo þessi mjúka fiðlustemning og röddin hennar og hvernig vinnslan er á henni, bæði svona ótrúlega mjúk, en líka höktandi og mikið unnin. Það kemur vel heim og saman við hvernig hún semur tónlist, hljóð, texta og hvernig myndheimurinn skilar öllu.

Katrín: Það er líka gaman að sjá hvað þetta er mikið hún. Hún er með sitt eigið sánd og lúkk og maður fær það alls ekki á tilfinninguna að hún sé að elta tískustrauma, þetta er einhvern veginn miklu tímalausara en það.

Salka: Já, þetta er mjög tímalaust. Ég held þetta verði aldrei eitthvað asnalegt, nema þá fyrir þeim sem finnst þetta asnalegt nú þegar. Þetta lyktar all mjög mikið af svona klassík og einhverju … konungsveldi! Svona Í ljósi sögunnar-klám.

Katrín: Algjörlega! Hún talaði líka um það í viðtali hvað íranska þjóðin sé rík af menningu og að það hafi bara verið tímaspursmál hvenær það kæmi upp á yfirborðið.

Salka: Það er eitt af því sem er svo spennandi við hljóðheiminn hennar. Hvernig hún notar augljóslega áhrifin frá sinni menningu og nær að tvinna þau saman við þennan raftónlistarheim á svo spennandi hátt.

Katrín: Já, körrent og klassískt á sama tíma. Hún hefur unnið dálítið mikið með, eins og þú segir, hlutverk konunnar. Hefurðu séð myndbandið við Amandine Insensible? Þar er hún eins og ideal kona í mismunandi hlutverkum. Hún er í hvítu vakúm-speisi og hún er sterka konan, hún er sexí konan, hún er vinnu-success-career konan, hún er öll þessi hlutverk og það er svo yfirþyrmandi ómögulegt!

Salka: Já. Þetta er góð viðbót við þennan heim sem er svona klassískur og konunglegur, hvernig hún tæklar kvenleika á mjög „relatable“ hátt. Þetta verður þannig kunnuglegra, allavega fyrir mig.

Katrín: Einmitt. Ég las viðtal við hana þar sem hún talar um, af því að hún er svo kröftug kona og tignarleg og bara eins og hún sé með hlutina alveg á hreinu, þá talar hún um að sem kona fái hún á móti gagnrýnina: getur hún verið „vulnerable“, getur hún verið mjúk? Að ef hún væri karl þá væri ekki eins mikil krafa á að hún væri hvort tveggja.

Salka: Ég held að það sé oft mikill núningur inni í konum út af þessu, að þurfa í rauninni að þykjast vera karlmenn til að fá ákveðin völd, en þykja þá sömuleiðis tapa kvenleikanum og eru þar af leiðandi gagnrýndar harkalega. Gullni meðalvegurinn er talsvert þrengri.

Katrín: Einmitt. En hvernig myndir þú segja að hennar áhrif endurspeglist í þinni tónlist?

Salka: Á mjög margan hátt, myndi ég segja. Ég man bara þegar ég heyrði í fyrsta skipti tónlistina hennar, og ég fékk svona … ótrúlega mikla … það losnaði eitthvað. Þetta var eiginlega í fyrsta skipti sem ég heyrði eitthvað sem ég var bara, mig langar að búa þetta til, ég hefði viljað búa þetta til! Og óháð öllu! Ekki út af því að ég héldi að þetta yrði svo vinsælt eða eitthvað svoleiðis, það var bara, vá hvað mig langar að vera að gera þetta! Það að heyra hennar tónlist hvatti mig mikið til að halda áfram, bæði í að læra að framleiða raftónlist, en líka í að finna eitthvert sánd. Ég hef ótrúleg mikla ástríðu fyrir hljóði og ég heyri ekki oft eitthvað sem mér finnst raunverulega mjög gott, eða sem talar mjög vel til mín og að sama skapi bý ég ekki oft eitthvað til sem gerir það. Hún er svo ótrúlega góð í að búa til eftirvæntingu eða „suspence“. Hún er meistari í því að búa til spennu og nota rými, nota þögnina. Það eru oft ótrúlega fíngerðir núansar í hljóðvinnslunni sem eru ótrúlega áhrifaríkir og maður heyrir þá einhvern veginn í gegnum allt og finnur ásetninginn í hverju einasta litlu tvíki á einhverri tíðni.

Katrín: Mér finnst það trait vera dálítið kvenlegt, að hafa allt útpælt, en hafa líka svona mikið speis. Hafa þögnina og hafa eitthvað sem er viðkvæmt og gefa hlutunum rými. Kannski er eitthvað gert sem er svo aldrei endurtekið. Það er verið að gefa manni litla nammimola hér og þar.

Salka: Ég myndi allavega segja að ég hafi unnið mjög mikið með það í minni tónlist, búa til spennu, nota þagnir, finna leiðir til að lagið verði meira … þannig að þig langi næstum því að hreyfa þig með því eins og þú sért í öldugangi. Veistu hvað ég meina? Að lagið haldi þér og stjórni því hvernig þú andar, haldi þér í heljargreipum. Ég vil þetta í tónlist. Ég vil að tónlist taki mig og fokki mér smá upp. Það er það sem ég elska mest og ég held að það sé líka ástæðan fyrir því að ég er svona hrifin af þessari tegund af flutningi. Manneskjan veit nákvæmlega hvað hún vill og hvað hún ætlar að gera og þú getur bara setið og hlustað og horft á. Ég vil bara að fólk stjórnist í mér. Ég er bara lítill sub (hlær).

Katrín: Viltu segja okkur aðeins frá laginu sem þú ætlar að covera?

Salka: Já. Það var mjög erfitt að velja lag, því hún er geðveikt góð í því sem mig langar að verða góð í. Það er ekkert lag með henni sem ég myndi í rauninni vilja endurgera, það er mjög fátt sem mér fyndist ég vera í stakk búin til þess einu sinni að hugsa um hvernig mætti breyta. Þannig að ég valdi lag sem heitir Bebin, það kom út minnir mig daginn eða tveimur dögum eftir að sett voru ferðahöftin á Mið-Austurlönd til Bandaríkjanna.

Katrín: Sem hefur verið kallað múslímabannið.

Salka: Einmitt, og hún verandi íranskur ríkisborgari var gerð útlæg. Þetta hafði áhrif á túrinn hennar, hún gat ekki spilað eitthvað í Bandaríkjunum, þannig að hún gerði þetta lag. Bebin þýðir á ensku beware eða behold, en lagið er á persnesku. Þetta orð getur verið hótun en þarf ekki endilega að vera neikvætt.

Katrín: Svona búðu þig undir eitthvað.

„Að lagið haldi þér og stjórni því hvernig þú andar, haldi þér í heljargreipum. Ég vil þetta í tónlist.“

Salka: Já. Ég sagði varaðu þig. Þetta er ekki beinþýtt, ég tók innihaldið og leyfði mér aðeins að skálda í kringum það. Ég segi eiginlega allt sem hún segir en svo segi ég líka sumt fleira sem mér fannst skreyta myndina betur, rímaði eða flæddi betur. Svolítið erfitt að þýða svona úr persnesku. Ég setti þetta bara í Google translate, hef engan sans fyrir tungumálinu, það er náttúrlega bara allt annað letur og ekkert fyrir mig að miða við. En það var eitt komment á youtube eftir íranskan strák sem var búinn að þýða þetta, sem ég studdist við. Viltu að ég fari með textann?

Katrín: Endilega!

Salka: Ég íslenskaði hann sem sagt svona:

Reykur og blóð
Leggðu aftur augun þín
Stórt ber smátt
Leggðu aftur augun
Loka loka
Reykur blóð og þoka
Hvað sem er
undir augnlokum þér
Varaðu þig
varaðu þig
Spurðu að því hvað hún er að fela
Spurðu að því hvernig það má vera
Það sem þú vilt það skal ég gefa
Það sem þú vilt það skal ég gefa
Ef heimurinn sér það
Loka loka
Reykur blóð og þoka
Hvað sem er
undir augnlokunum á þér
Varaðu þig
Varaðu þig

Katrín: Manni finnst þetta svo íslenskt einhvern veginn, eins og krípí íslensk vögguvísa.

Salka: Ég á alveg einhvern þátt í því, held ég, að vera svona drungalegur íslenskur filter.

Katrín: Sem höfðar svo vel til mín og vonandi lesenda líka. Það er búið að vera mjög skemmtilegt að tala við þig, Salka, um Sevdalizu. Takk fyrir komuna!

Salka: Takk fyrir mig!

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.
Keisaraynjan sem hvarf
Flækjusagan · 12:19

Keis­araynj­an sem hvarf

Draumurinn um Grænland: „Make Greenland great again“
Eitt og annað · 07:09

Draum­ur­inn um Græn­land: „Make Green­land great again“

Nauðgunargengi norðursins
Sif · 06:53

Nauðg­un­ar­gengi norð­urs­ins

Síðari hluti annáls frá Úkraínu: Staðan á vígvellinum
Úkraínuskýrslan #22 · 21:02

Síð­ari hluti ann­áls frá Úkraínu: Stað­an á víg­vell­in­um