Undir áhrifum

Mr. Silla og PJ Har­vey

Mr. Silla, Sigurlaug Gísladóttir, hefur tekið mikið til sín frá tónlistarkonunni PJ Harvey. Hún hefur verið sískapandi í 30 ár og það hyggst Silla líka gera.
· Umsjón: Katrín Helga Andrésdóttir

Katrín: Hæ, Silla! Það er sönn ánægja að fá þig. Við ætlum að ræða saman um tónlistarkonuna PJ Harvey en fyrst ætla ég þó að kynna þig stuttlega. Þú hefur gefið út eina sólóplötu, Mr. Silla, og eina dúettaplötu með Magnúsi B. Skarphéðinssyni sem kallar sig Mongoose, plötuna Foxbite. Þú varst í hljómsveitinni múm, hefur spilað með Snorra Helgasyni, Teiti, Mice Parade auk annarra. Þar fyrir utan ertu með BA-gráðu í myndlist, hefur verið að hanna plötuumslög fyrir vini þína og nú ert þú komin á kaf í förðun. Nærri lagi?

Silla: Já, það má kannski orða það þannig.

Verðlaun og viðurkenningar

Katrín: Hvað varstu gömul þegar þú uppgötvaðir PJ Harvey? Hvernig kynntist þú henni?

Silla: Ég hef örugglega verið svona 15 ára. Það var um það leyti sem platan Stories from the City, Stories from the Sea kom út. Ég átti kærasta sem var alltaf að hlusta á plötuna á undan, Is This Desire. Ég datt alveg inn í það og hlustaði á allt eins og geðsjúklingur, svo kom hin út og það var svo gaman af því að hún er svo góð.

Katrín:Stories from the City, Stories from the Sea fékk Mercury-verðlaunin.

Silla: Akkúrat.

Katrín: Hún fékk svo aftur Mercury-verðlaunin 10 árum síðar fyrir Let England Shake. Hún er eini listamaðurinn sem hefur fengið þau tvisvar.

Silla: Í alvöru? Ekki bara svona eina konan?

Katrín: Ég held hún hafi verið fyrsta konan sem fékk verðlaunin og svo eini listamaðurinn sem hefur fengið þau tvisvar.

Silla: Vel að þeim komin.

Katrín: Nefnilega. Talandi um verðlaun, hún hefur fengið orðu frá breska konungsveldinu, Most Excellent Order of the British Empire, fyrir þjónustu sína við tónlist.

Silla: Geggjað! Það er alveg magnað þegar maður hugsar til fleiri breskra kvenna.

Lúkkið og lagasmíðarnar

Silla: Ég held það hafi verið lagasmíðarnar sem gripu mig fyrst. Svona drungaleg, rosalega emotional án þess að vera of heavy og mér fannst hún líka bara vera ógeðslega klár. Þessi hráleiki, rosa mikið pönk í þessu. Röddin taumlaus án þess að vera að öskra og gera ekki-músík. Á tímabili var hún með karakter í gangi sem var alltaf alltof mikið máluð, með það sem heitir „garage-door“, bláan augnskugga alveg upp að augabrúnum, dálítið subbulegan varalit og allt of mikið af honum, í minipilsum og háum stígvélum. Á þeim tíma var það svonasem sérstaklega á þessum tíma var svona vændiskonu útlit og að taka það til og taka á stig þar sem það er ósnertanlegt, af því að hún er svo ógeðslega kúl. Þetta er svona ofurhetjubúningur. Að vera í karakter gefur manni svo mikið frelsi til þess að semja um hluti sem eru kannski ekki endilega manns eigin upplifanir. Og líka, hún er ekki svona hefðbundið falleg. Hún er augljóslega gullfalleg, en hún er með grófa andlitsdrætti og það er gaman að leika með það.

„Auðvitað vissi ég alveg að maður gæti gert hlutina sjálfur, en það er geðveikt að hafa fyrirmyndir í því“

Katrín: Algjörlega. Það var víst mjög mikill skandall að hún skyldi vera með hár undir höndunum.

Silla: Tíundi áratugurinn var ekki til í það?

Katrín: Nei, framan á plötunni 4-Track Demos á víst að sjást í einhver handarkrikahár.

Silla: Og allir brjálaðir?

Katrín: Allir brjálaðir.

Silla: Nei, slökum á krakkar. Í fortíðinni. Það er líka annað sem mér fannst geðveikt áhrifamikið, þessi 4-Track Demos plata. Af því að jú, auðvitað vissi ég alveg að maður gæti gert hlutina sjálfur, en það er geðveikt að hafa fyrirmyndir í því. Þetta er held ég önnur platan eða þriðja og heitir bara það sem hún er, demó á fjórum rásum sem hún hefur gert og tekið upp sjálf. Það er geðveikt inspírerandi þegar maður er 17 ára að pæla í að verða tónlistarmanneskja, hvað það er hægt að gera mikið með lítið. Og líka, núna geta allir gert allt sjálfir í tölvunni, en á þeim tíma var óyfirstíganleg hugmynd að semja plötu, fara inn í stúdíó, taka hana upp. „Við hvern á ég að tala? Hvar á ég að finna peningana?“ Allt þetta. Og svo að heyra svona plötu sem er svo geðveik! Það er mjög hjálplegt til þess að láta mann ekki hugsa: „Ahh, ég get þetta ekki.“

Nýr hljóðheimur, nýjar melódíur

Katrín: Er eitthvað fleira sem þú hefur tekið frá henni inn í þínar lagasmíðar?

Silla: Já, einmitt. White Chalk er held ég fyrsta platan þar sem hún er ekki með rafmagnsgítar sem aðal hljóðfæri. Þá byrjar hún að semja á píanó og út frá því byrjar hún að nota alls konar önnur hljóðfæri. Hljóðfæri getur talað til þín og þetta þarf ekki allt að koma innan frá, heldur getur þú átt í samtali við hljóðfæri og það getur verið ótrúlega gefandi að skipta um hljóðfæri, þá kannski koma allt önnur lög til þín. Ég skipti mjög mikið um hljóðfæri, sérstaklega þegar ég er að semja.

Katrín: Þessi plata er í sérstöku uppáhaldi hjá mér. Hún er ótrúlega flott og allt öðruvísi en allt hitt frá henni.

Silla: Já, en síðan þá finnst mér hún hafa gert það með hverri plötu. Það var kannski svona smá augljós hennar rödd í gangi, og svo breyttist það með Stories from the City, Stories from the Sea. Eftir það er hver plata ólík hver annarri, alltaf nýr hljóðheimur og nýjar melódíur. Hún er svo dugleg að endurtaka sig ekki en vera samt með skýra listræna sýn. Mér finnst líka rosalega inspírerandi að hún virðist vera með rosalega skýr konsept, rannsakar hluti og leyfir þeim að veita sér innblástur. Setur sig í spor einhverrar manneskju, einhvers staðar í heiminum, í einhvers konar aðstæðum. Það er samt eitthvað svo mikill sannleikur fólginn í því og miklar tilfinningar. Og maður þarf ekki að vita nákvæmlega hvað er í gangi, maður bara finnur það. Ég hef alltaf ímyndað mér að fyrstu plöturnar séu svolítið sjálfsævisögulegar, sem ég ímynda mér að verði sama tilfellið hjá mér. Byrja á því að þurfa að koma sínu út og svo getur maður orðið farvegur fyrir heimsmálin.

Engan áhuga á því að vera fræg

Katrín: Svo er hún oft að segja sögur, eins og í Down by the Water er hún með frásögn sem hljómar dálítið eins og hún sé að drekkja dóttur sinni. Hún hefur sagt að sumir hafi tekið því bókstaflega.

Silla: Já, að hún sé barnamorðingi?

Katrín: Já. Svo er hún með allan þennan pönkpresens. Hugrökk og djörf, en líka inn í sig og til baka.

Silla: Akkúrat, og hún virkar aldrei á mann eins og hún hafi einhvern áhuga á því að vera fræg. Hún er bara að vinna sína vinnu og gera sína list og hitt er bara aukaatriði. Og að gera ótrúlegar plötur. Þær eru svo margar orðnar. Níu eða tíu plötur í fullri lengd. Og allar með sinn karakter.

Katrín: Með Let England Shake gaf hún líka út myndbönd, þetta var hálfgerð kvikmynd.

Silla: Já, ég fór að sjá hana í Bíó Paradís. Þá sat ég bara í bíó og grét smá. Svo sá ég hana spila á Airwaves, með brass og alls konar.

Katrín: Ég sá hana spila á Hróarskeldu, þá var hún að spila á saxófón.

Silla: Það er platan þar sem þú gast farið og skoðað utan frá. Einn veggurinn var bara gler og fólk gat komið og horft á hana vinna í stúdíóinu. Þá var hún að vinna mikið með saxófón, sem ég vissi ekki fyrr en nýlega að hún hefði spilað á í byrjun líka.

Ljótleiki og vitlaus tóntegund

Katrín: Þú átt þér uppáhaldslag með henni?

Silla: Já, í augnablikinu. Það eru nokkur lög á fyrstu plötunum sem ég dýrka, en núna í seinni tíð hefur það verið On Battleship Hill. Það er svo rosalegur raddar-flutningur, og brjálæðislega fallegt lag. Á þeirri plötu leikur hún sér með óvenjulega hluti, með það að röddin þurfi ekki endilega að vera falleg og mjúk. Þetta lag er til dæmis bara rétt svo á raddsviðinu hennar. Hún er líka með alls konar sömpl og melódíur sem eru ekki endilega í tóntegundinni. Í einu laginu kemur rosalegur stríðstrompet sem er alveg á skjön við það sem er í gangi. Fyrst þegar maður hlustar á þetta þá er maður bara: ha? Svo verður það ótrúlegt. Brjálæðislega áhrifamikið.

Katrín: Það er ógeðslega flott. Trompetinn kemur einmitt alveg út úr kú, svo kemur gítarriffið og það tekur svo fallega utan um trompetinn, sjúklega fullnægjandi.

Silla: Já, og líka lýsir því svo vel sem hún er að fjalla um. Átök og streita. Fallega sett fram í laginu.

Katrín: Mér finnst hún gera það ótrúlega vel að fjalla um þung, drungaleg, stór mál með jolly-good popplagi. Textinn er: „How is our glorious country ploughed? Not by Iron Ploughs. Our land is ploughed by tanks and feet, feet marching.“ Ef maður er ekkert að pæla í textanum þá hljómar þetta bara eins og einhver stemning og svo kemur viðlagið sem er „Oh America, oh England“.

Silla: Ég er mjög hrifin af því þegar fólk gerir þetta, að semja hamingjusama tónlist og vera síðan með mjög þunga texta. Það býr til þessa streitu aftur sem við vorum að tala um áðan. Það er einhver aftenging í því og það á svo vel við viðfangsefnið.

Ferillinn, munnurinn og Nick Cave

Katrín: Hún er búin að vera að í 30 ár.

„Það er ekki fyrningardagur á því að vera tónlistarmaður, þótt maður sé kona“

Silla: Ég ætla líka að gera það. Það er ekki fyrningardagur á því að vera tónlistarmaður, þótt maður sé kona. Það eru svo mörg dæmi um hitt, bara: „Já, þú lítur ekki út fyrir að vera ung lengur,“ þá er eins og maður þurfi að hætta. Það er náttúrlega bara bölvuð þvæla. Það er líka eitthvert svona ególeysi í músíkinni hennar. Svo er hún líka með mjög stóran og fínan munn. Skrítið að taka það fram en hann er mjög sérstakur.

Katrín: Og hún geiflar hann á flottan hátt og málar hann gjarnan mjög rauðan þannig að hann er mjög áberandi. Hún var að vinna aðeins með Nick Cave. Þau voru par og það er sagt að á plötunni sem kemur á eftir hjá Nick Cave, The Boatmans Call, séu nokkur lög um hana. Meðal annars lagið Into My Arms.

Silla: Nei, nei, nei. Aðallagið.

Katrín: Það á víst að vera um hana og eða einhverja aðra.

Pólitísk list

Katrín: Hún leyfir sér að vera mjög pólitísk. Á Let England Shake kallar hún sig stríðsskáld. Platan sem kemur á eftir, The Hope Six Demolition Project, nafnið er tekið úr löggjöf í Bandaríkjunum sem var mjög umdeild. Myndbandið við eitt af lögunum á henni er tekið upp í Afganistan. Mjög pólitísk kona.

Silla: Ég fíla það mjög vel. Mér finnst það vera hetjudáð. Ég hef alltaf hræðst tilhugsunina um að vera pólitískur listamaður, en ég dáist rosalega að fólki sem getur gert það, og gert það af þessari nærgætni, sérstaklega að tala um stríð og svoleiðis án þess að verða einhverjir pólitískir leiðtogar. Hún er ennþá með sinn heiðarleika alveg.

Katrín: Hún pakkar þessu inn í svo góða list. Mér finnst svo oft með pólitíska list að verið sé að segja eitthvað sem ég hefði allt eins getað lesið í ritgerð eða fundið á skjali, en að setja það inn í einhverja góða list, það er aðalatriðið. Ok eitt. Hún fékk Mercury-verðlaunin fyrir Stories From The City, Stories From The Sea, 11. september 2001. Þá var hún á tónleikaferðalagi í Washington. Á meðan hún flutti ræðuna sína í gegnum vídeó var hún að horfa á Pentagon brenna. Það hefur örugglega haft svakaleg áhrif á hana. Hún sagði að verðlaunin hefðu ekki skipt neinu máli í þessu samhengi. Inni í þessari narratívu var þetta rosalega lítill dropi í hafið. Sem er líka til vitnis um hennar ególeysi.

Gainsbourglegt skvaldur

Silla: Einmitt. Hún gerði líka ógeðslega skemmtilega plötu með Josh Homme. Hann gerði svona seríu af plötum, var með stúdíó í eyðimörkinni og plöturnar heita allar Desert Sessions. Þeirra er held ég númer níu og tíu og þar er til dæmis ógeðslega gott lag sem heitir I Wanna Make It Wit Chu. Hún gerði líka aðra plötu með John Parish. Þar kynnti hún mig fyrir ofsalega fallegu lagi. Talandi um að gera melankólískt lag á fallegan, hressan hátt: Is That All There Is? Þau gerðu ábreiðu af því. Peggy Lee í upphaflegu útgáfunni, hún talar mjög mikið af laginu og svo kemur viðlagið í smá söngleikjastíl. Það er ógeðslega flott! „Is that all there is? er svo drungaleg og flott existensíal setning.

Katrín: Ég elska svona tal-lög.

Silla: Ég held að ég myndi ekki treysta mér í það. Stundum langar mig að skrifa eitthvert skvaldur, muldra eitthvað og hafa það í bakgrunninum en svo enda ég alltaf á því að klippa það út. Ég fæ alltaf eitthvað svona „Ugh, nei“.

Katrín: Það eru tvö tal-lög sem ég elska. Annað er La Folie með Stranglers, það er allt á frönsku. Það hjálpar.

Silla: Ég hugsa meira að segja að mig langi oft að blaðra á frönsku í þessum kafla. Það væri eitthvað svo kúl, svona Gainsbourgesque.

Katrín: Já, þetta er mjög Geinsbourglegt. Ég hef reynt að eiga við þetta líka. Það er mjög auðvelt að gera það illa.

Silla: Einhvern veginn finnst mér eins og þú gætir komist upp með það. Stíllinn á textunum gæti komið vel út.

Katrín: Jæja, takk, þetta er góð hvatning, ég held þá áfram að reyna.

Ekki manneskja sem staðnar

Katrín: Talandi um að halda áfram að reyna og þróa sig áfram, þá las ég það að hún Polly Jean stundar það mikið að vera í kvöldskóla og læra tungumál, teikningu og svo framvegis.

Silla: Ég var einmitt að pæla í þessu út frá hetjum í mínu lífi. Amma mín tók stúdentspróf þegar hún var fimmtug, eftir að hún var búin að eignast fjögur börn, og fór eftir það í háskólanám. Pabbi var alltaf að sækja hana á fyrirlestra í háskólanum þegar hún var orðin áttræð, samt fædd 1918 – á öðrum tíma. Svo er líka önnur fyrirmynd, hún Nína Elíason, sem er tónlistarkona. Hana langaði að fara í kvenna-big band sem var í gangi í Kaupmannahöfn, nema það vantaði ekki píanóleikara sem var hennar hljóðfæri og hún var kasólétt. En þær vantaði sellóleikara. Þá keypti hún sér bara selló, kenndi sjálfri sér á það og svo þegar hún var búin að eignast barnið þá bara „Já! Heyrðu, ég er mætt!“ og byrjaði í big bandinu þannig. Mér hefur þótt þetta dálítið gaman. Eins og þú varst að tala um með meiköppið, að vera alltaf að skoða og opna fyrir fleiri leiðir til að búa til og gera og taka þátt.

Katrín: Til að fara áfram ótroðnar slóðir, svo þetta sé ennþá spennandi fyrir mann sjálfan.

Silla: Algjörlega. Það eru svo margar leiðir til þess að skoða lífið og listina. Mér finnst mjög gaman að heyra þetta, ég vissi þetta ekki um hana. Maður finnur alveg fyrir því í tónlistinni. Hún er ekki svona manneskja sem staðnar.

Katrín: Hún er alls ekki manneskja sem staðnar. Eigum við að láta það vera lokaorð?

Silla: Endilega!

Katrín: Þakka þér kærlega fyrir komuna, Sigurlaug Gísladóttir, Mr. Silla.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.
Falsfréttir og rangar upplýsingar um stríðið
Úkraínuskýrslan #1

Fals­frétt­ir og rang­ar upp­lýs­ing­ar um stríð­ið

Mesta listaverkarán sögunnar
Eitt og annað

Mesta lista­verkarán sög­unn­ar

Sif #10: Ægivald hinna þekktu og voldugu
Sif #10

Sif #10: Ægi­vald hinna þekktu og vold­ugu

Samkeppnistríóið
Pressa #19

Sam­keppn­i­stríó­ið