Úkraínuskýrslan

Öfl­ug­asta spreng­ing­in í stríð­inu

Rússar hafa ítrekað haldið því fram að allir drónar sem Úkraníumenn sendu í átt að hernaðarlegum skotmörkum í Rússlandi hafi verið skotnir niður. Hins vegar birtust fljótlega myndbönd af stórum sprengingum á svæðinu.
· Umsjón: Óskar Hallgrímsson

Á miðvikudag sendi Úkraína um 100 dróna í átt að hernaðarlegum skotmörkum í Rússlandi, sérstaklega að aðal eldflauga- og skotfærageymslu númer 107 GRAU í Toropets í Tver-fylki, um 475 kílómetra frá landamærum Úkraínu. Svæðið, fullklárað árið 2019, er um 8 ferkílómetrar að stærð með 70 skemmum ofanjarðar og 41 birgðageymslu grafna í jörðu. Hver geymsla getur hýst allt að 240 tonn af skotfærum, sem þýðir að yfir 30.000 tonn af sprengiefnum gætu hafa verið geymd á svæðinu.

Fyrstu fregnir frá Rússum voru að allir drónar hefðu verið skotnir niður og að brak úr þeim hefði valdið eldi og þeir væru með þetta allt undir stjórn: Ekkert að sjá hér. 

Sást á jarðskjálftamælum

Hins vegar birtust fljótlega myndbönd af stórum sprengingum víðsvegar um svæðið, þar á meðal eitt sem sýndi gífurlega öfluga sprengingu og stærðarinnar höggbylgju sem þeyttist um svæðið á ógnarhraða út frá þykku sveppaskýi sem myndaðist upp úr eldtungunum.

Gervihnattamyndir frá FIRMS hjá NASA staðfestu að allt svæðið, allir átta ferkílómetrarnir, væru í ljósum logum. Sprengingarnar voru svo öflugar að þær mældust á jarðskjálftamælum í Eistlandi, Úkraínu og jafnvel í Noregi, á bilinu 2,0 til 2,8 á Richterkvarða. 

Um 11.000 manns var skipað að rýma nærliggjandi þorp og bæi. Yfirvöld á svæðinu héldu áfram að koma fram margoft fyrir framan myndavélar og láta fólk vita að hlutirnir væru undir fullri stjórn, að það hefði bara myndast eldur út frá braki dróna sem var skotinn niður, þrátt fyrir skýr og hávær sprengjuhljóð í bakgrunni.

Sprengingin í Tver er ekki aðeins öflugasta sprengingin í stríðinu fram að þessu, heldur er líklegt að hún hafi verið ein sú öflugasta á 21. öldinni. 

Drakaris dróninn

Í byrjun september birtist myndband af dróna fljúga yfir skógarlínu og neðan úr honum flæddi glóandi straumur af fljótandi málmi og kveikti í öllu sem varð á vegi hans. Dróninn hefur fengið viðurnefnið Drakaris, sem á rætur sínar að rekja til Game of Thrones. Fljótandi málmurinn er thermít, sem brennur á um 2.200°C, svipað hitastig og í logsuðuloga, og getur brætt sig í gegnum ál, stál og er nær ómögulegt að slökkva í.

Drónarnir eru notaðir til að brenna gróður og gera framlínu Rússa sýnilega, brenna hermenn úr skotgröfum og eyðileggja nær allan búnað sem það snertir. Svo sé nú ekki minnst á sálræn áhrif þess að mögulega gæti hvað á hverju rúmlega tvö þúsund gráðu heitt málmregn skyndilega byrja að flæða niður úr himninum.

Athugasemdir (1)

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.
Keisaraynjan sem hvarf
Flækjusagan · 12:19

Keis­araynj­an sem hvarf

Draumurinn um Grænland: „Make Greenland great again“
Eitt og annað · 07:09

Draum­ur­inn um Græn­land: „Make Green­land great again“

Nauðgunargengi norðursins
Sif · 06:53

Nauðg­un­ar­gengi norð­urs­ins

Síðari hluti annáls frá Úkraínu: Staðan á vígvellinum
Úkraínuskýrslan #22 · 21:02

Síð­ari hluti ann­áls frá Úkraínu: Stað­an á víg­vell­in­um