Í það minnsta 184 óbreyttir almennir borgarar létu lífið og um 856 til viðbótar særðust í árásum Rússa á Úkraínu í ágústmánuði, sem gerir hann að næstblóðugasta mánuðinum árið 2024, á eftir júlí sem var með 220 látna og yfir þúsund slasaða óbreytta borgara.
Tölur látinna og slasaðra eru örlítið á reiki þar sem því miður er algengt að fólk látist af meiðslum sínum dögum eða jafnvel vikum eftir árásina.
Árásirnar sýna skýrt að Rússar beina skotum sínum að innviðum og þar sem almenningur safnast saman. Í gegnum stríðið hafa verslunarmiðstöðvar, útimarkaðir, skólar og hótel orðið fyrir árásum reglulega.
Það er erfitt að færa í orð umfang skaðans, tjónið og sársaukann sem almennir borgarar verða fyrir á hverjum einasta degi, einungis fyrir það eitt að búa í Úkraínu.
Því þó að víglínan sé skorðuð austan megin í landinu er enginn staður óhultur fyrir langdrægum drónum og eldflaugum.
Mögulega er hægt að gera sér í hugarlund hvað almennir borgarar ganga í gegnum með því að fara rúman mánuð aftur í tímann og skoða helstu árásir Rússa á almenning á því tímabili. Í skýrslu vikunnar er gerð tilraun til þess og þótt sú upptalning sé langt í frá tæmandi er þar yfirlit yfir fjölda árása.
Athugasemdir (1)