„Oft og tíðum var þetta hræðilega vont,“ segir Ingibjörg Lára Sveinsdóttir um reglulegar heimsóknir hennar til fanga á Litla-Hrauni þegar hún var unglingur.
Hún er viðmælandi í fyrsta þætti Eddu Falak fyrir Heimildina. Þar lýsir hún því hvernig hún var sextán ára gömul undir valdi manns sem var fimm árum eldri en hún og sat í fangelsi fyrir alvarlega glæpi. Hún segist hafa orðið fyrir vonbrigðum með fangelsisyfirvöld, sem sáu ekki eða brugðust ekki við hættumerkjum.
Páll Winkel fangelsismálastjóri segir að reglum hafi verið breytt vegna þess að ástandið hafi verið orðið mjög slæmt og ungar stúlkur jafnvel gengið á milli fanga.
Fyrir nokkrum árum sendi Ingibjörg Lára manninum sem um ræðir bréf og brást hann við með því að axla ábyrgð og biðjast afsökunar. „Ég sannarlega vildi þér aldrei neitt slæmt, en hafði engan skilning á eðlilegum mörkum,“ skrifaði hann þá. Hann vildi allavega „biðja þig innilegrar afsökunar og láta þig vita að ég hef fyrir löngu áttað mig á hversu rangt og illa ég kom fram við þig.“
Nú segir hann hins vegar að afsökunarbeiðnin hafi verið almenns eðlis. „Ég biðst afsökunar á alls konar hlutum okkar á milli, en ekki ofbeldi,“ þar sem Ingibjörg Lára hafi aldrei verið þvinguð til kynferðislegra athafna í þeirra sambandi.
Athugasemdir (2)