Dagana fyrir 9. maí var skyldi slegið yfir Moskvu, höfuðborg Rússlands. Vikuna á undan höfðu Rússar bætt við um 280 loftvarnakerfum, komið þeim fyrir ofan á og milli íbúðablokka og dreift raftruflunarbúnaði víðsvegar um borgina. Farsímanetið var að hluta tekið úr sambandi – líklega ekki til að þagga niður í mótmælendum, heldur til að villa um fyrir úkraínskum drónum sem nýta rússneska netið til að stýra sér.
Þetta var auðvitað ekki gert að ástæðulausu. Úkraína var með plan: ráðast markvisst að Moskvu dagana fyrir gönguna og að neyða Rússa til að draga loftvarnir að höfuðborginni. Láta þá halda að mögulegt væri að ráðist yrði að göngunni og Xi Jinping, forseti Kína, yrði fyrir skaða. Flestir greinendur töldu ólíklegt að Úkraína myndi taka þá áhættu – að verða valdur að dauða þjóðarleiðtoga, hvað þá Xi, og draga fleiri ríki beint inn í stríðið – en það var veðmál sem Rússar vildu ekki taka. Þeir lokuðu lofthelginni yfir Moskvu. Um leið og ljóst var að Xi var lentur – hættu árásir á borgina.
Frá 4. til 8. maí hófst stærsta drónaárásaherferð stríðsins. Mesta árásin var 7. maí. Rússar fullyrða að 500 drónar hafi verið skotnir niður. Ómögulegt að staðfesta það. Þeir sem komust í gegn beindust að skotmörkum sem voru bæði viðkvæm og varnarsvæði sem venjulega væru betur varin: flugherstöðvarnar í Shaikovka og Kubinka, SPLAV skotfæraverksmiðjan í Túla og ljósleiðaraverksmiðjan í Saransk – sú eina í Rússlandi sem framleiðir hernaðarhæfa ljósleiðara fyrir FPV dróna.
Á sama tíma skaut úkraínskur sjódróni niður rússneska Su-30 orrustuþotu yfir Svartahafi – fyrsta staðfesta skiptið sem mannlaus dróni fellir herþotu. Þetta atvik tengist göngunni í Moskvu ósköp lítið, en það var ógerlegt að sleppa því að skjóta þessu inn.
Í göngunni sáust herdeildir frá Kína, Egyptalandi, Víetnam, Laos, Mongólíu og hinum ýmsu „stönum“. Engir norður-kóreskir hermenn tóku þátt í göngunni sjálfri – en hópur herforingja sat í stúkunni, tók í höndina á Pútín og jafnvel föðmuðu. Xi var fremstur í röðinni, við hliðina á Pútín, og öll tækifæri nýtt til að sýna þá sem hina mestu kumpána.
Í Animal Farm er talað um að sumir séu jafnari en aðrir. Xi var gullgrísinn – ef svo má segja – í röð einræðisherra og einræðishyggju-hallandi leiðtoga sem mættu til að fylgjast með göngunni. Vissulega má deila um hvort sumir í hópnum séu einræðisherrar, eða á leiðinni þangað. En ef þú sem þjóðarleiðtogi þyggur boð um að standa við hlið stríðsherra eins og forseta Burkina Fasó og styður við Rússland – þjóð sem stundar þjóðarmorð og fremur daglega stríðsglæpi í Úkraínu – þá er líklegt að stefna þín sé ekki beinlínisi í átt að lýðræði.
Verst er að Bandaríkin – sem Evrópa og önnur lýðræðisríki hafa litið til sem skjaldar fyrir lýðræðisríki – virðast færast í átt að einræðishyggju. Þjóðir sem treystu á stuðning þeirra, bæði hernaðarlega og í gegnum mjúkt vald eins og US-AID, eru nú í hálfgerðri óvissu eftir að Donald Trump skrúfaði fyrir slíkan stuðning og þær hafa þurft að leita annað. Rússland – og þá sérstaklega Kína – eru tilbúin að fylla í skarðið. En þar er oft galli á gjöf Njarðar: harðræði, spilling og – eins og í tilfelli Rússlands í Afríku – bein hernaðarleg yfirtaka á auðlindum landsins.
Í síðasta myndbandi talaði ég um stöðuna í Úkraínu og sívaxandi stuðning bandamanna Rússa. Ég nefndi Emil Hacha og hlutverk hans í seinni heimsstyrjöldinni. Nú, nokkrum vikum síðar, velti ég fyrir mér hvar við stöndum á tímalínunni. Ef sagan er ekki bein endurtekning, þá rímar hún sannarlega. Og samkvæmt því stöndum við töluvert nær Molotov–Ribbentrop-samningnum en flestir vilja viðurkenna.
Athugasemdir