Í desember 2024 skrifaði ég grein fyrir Heimildina sem bar titilinn Enn hinar sönnu ofurhetjur. Þar sagði ég frá því þegar ég fylgdi eftir BaseUA, hópi sjálfboðaliða sem fer daglega inn á hættusvæði til að sækja óbreytta borgara – veita þjónustu eða koma fólki í skjól ef eftir því er leitað. Einnig fór ég með þeim í ferð til Konstantinivka til að flytja í skjól hjón og eldri mann frá Chasiv Yar.
Ég kynntist þeim fyrst í nóvember 2022. Síðan þá hafa þau nær daglega mætt á svæðin sem aðrir forðast og veitt þá þjónustu sem óskað er eftir – komið fólki í skjól, sent lyf, farið aftur með vistir. Eftir þörfum.
Tveimur vikum áður en ég fór í þá ferð hafði annar af brynvörðum bílum samtakanna orðið skotmark tveggja FPV-dróna. Pylyp hét sá er var ökumaðurinn þá. Enginn slasaðist alvarlega, nema eldri kona sem var verið að bjarga – aðeins skrámur. Heppni.
Í ferðinni í desember var Pylyp aftur með í för. Hann var ekki ökumaður í það skiptið – það var hinn pólski Sebastian. Pylyp bar eigur fólks, hjálpaði þeim sem áttu erfitt með gang og aðstoðaði Sebastian við leiðsögnina. Hann var ekki í sviðsljósinu þennan daginn, bara maður í hópnum – með augun opin; tilbúinn.
Hefðbundinn dagur. Komnir heim snemma. Jafnvel frekar þægilegur dagur.
Næsta dag – annað verkefni, annar staður, fleiri í nauð. Á milli verkefna var hann á verkstæðinu að koma bílunum í stand, svo hægt væri að halda áfram. Dag eftir dag, ný verkefni í 3 ár.
Ég fór til Kyiv. Pylyp og félagar urðu eftir og héldu áfram. Ég veit hreinlega ekki hversu stór hópur liggur að baki BaseUA, en þau virðast öll taka þessari ofurmennsku með furðulegu æðruleysi. Þetta er bara það sem þau gera.
Stuttu eftir að ég fór með þeim, í einni af mörgum ferðum þeirra til stríðshrjáðu borgarinnar Pokrovsk, varð hinn brynvarði bíllinn fyrir árás. Pylyp var ekki í ökusætinu í þetta skiptið. Það var Eddie – breskur sjálfboðaliði sem hafði verið í Úkraínu síðan í október 2022, en var þarna orðinn fastur meðlimur í brottflutningateyminu.
Á leið út úr borginni í annað sinn sama dag, með nýjan hóp af fólki í skjól, skall FPV-dróni beint framan á bílinn, bílstjóramegin og myndaði þar gat. Vinstri fótur og hönd Eddie fóru með í sprengingunni. Hann er sveitastrákur frá Dorset sem hafði áður stýrt lúxussnekkjum í Karabíahafinu, en lagði síðan land undir fót og hafði þarna í tvö og hálft ár helgað sig því að bjarga fólki í nauð í Donbas.
Og heppnin – ef það telst heppni – var að Pylyp var snöggur; nýtti reynsluna sem hann hafði áunnið sér á undanförnum árum og var mættur við hurðina bílstjóramegin á örskotstundu, og náði þannig að stöðva tvær alvarlegar blæðingar á innan við tveimur mínútum. Með hjálp hermanna sem áttu leið hjá tókst að bjarga lífi Eddie og koma honum í skjól.
Ég hitti Eddie þegar hann lá á sjúkrahúsi í Kyiv að jafna sig eftir aðgerð. Við töluðum saman í rúma þrjá klukkutíma. Á upptökunni hér að ofan er rúmlega hálftími úr því samtali.
Pylyp, Anton og félagar eru enn í Donbas. Stefnan er að koma bílnum í lag og fara á honum í aðgerðir sem fyrst. Þó að ökumaðurinn sé illa farinn eftir sprenginguna er auðveldara að laga skemmdir á bifreið eftir eina sprengingu en tvær.
Athugasemdir