Svo mikið hefur gerst í alþjóðamálum tengdum Úkraínu síðustu vikur, að ég hef nánast þurft að skrifa nýtt handrit að Úkraínuskýrslunni á hverjum degi – aðeins til að komast að því að það var þegar úrelt áður en ég náði að klippa upptökurnar. Eftir þriðju tilraun gafst ég upp og blandaði saman sjónarhorni hress, nývaknaðs blaðamanns með ferskar fréttir og þess, sem svefnlaus og örmagna, reynir að taka upp handrit klukkan tvö um nótt til að ná skilafresti daginn eftir.
Skýrsla vikunnar fjallar um þá flækju sem hefur skapast í samskiptum Bandaríkjanna, Úkraínu og bandamanna þeirra; sérstaklega í ljósi nýlegra atburða í Washington. Þar niðurlægðu Trump og varaforseti hans, JD Vance, Zelensky og húðskömmuðu hann eins og tveir þunnir helgarpabbar að öskra á hávær börn sín. Trump hefur lengi beitt sömu taktík, meðal annars gagnvart Palestínu, með því að tala við sterkara afl til að þrýsta á veikari aðilann. Hann bauð Netanyahu í Hvíta húsið til að ræða framtíð Gaza án þess að taka mið af þeim sem búa í rústunum þar.
Samskiptin við Úkraínu hafa fylgt sama mynstri. Donald Trump lagði til svokallaðan „friðar“samning, sem í raun hefði þýtt uppgjöf Úkraínu – þar sem landið hefði þurft að greiða fyrir eyðilegginguna á meðan Rússland hefði ekki þurft að gefa neitt eftir. Þegar Zelensky hafnaði samningnum tók alþjóðasamfélagið afstöðu með honum.
Þetta gerðist á sama tíma og hernaðaraðgerðir Rússa héldu áfram í Úkraínu. Nóttina eftir að Úkraína settist að samningaborðinu skutu Rússar eldflaugum á almenn skotmörk, sem sendi skýr skilaboð um að hernaðarátökin héldu áfram óháð viðræðum. Ljóst er að Evrópa þarf að efla stuðning sinn við Úkraínu, en án Bandaríkjanna skortir henni bolmagn til að veita nægjanlega hernaðarlega og fjárhagslega aðstoð.
Bandaríkin tilkynntu að vopnasendingum til Úkraínu yrði hætt og að deilingu upplýsinga yrði stöðvuð, nema úkraínskir ráðamenn samþykktu að hefja friðarviðræður. Þetta hafði strax áhrif á varnir landsins og hernaðaraðgerðir á jörðu niðri, þar sem mikilvæg gögn og gervihnattaupplýsingar hættu að berast.
Eftir að utanríkisráðherrar ríkjanna settust við samningaborð í Sádi-Arabíu til að ræða mögulegt vopnahlé, ákvað ríkisstjórnin í Washington, sem betur fer, að aflétta þvingunum gegn Úkraínu.
Í mars 1939, að boði Sir Basil Newton, sendiherra Breta í Tékkóslóvakíu, fór Hácha til Berlínar til að ræða við Hitler um framtíð landsins. Seint um kvöld bauð Hitler honum að ríkisbústaðnum en lét hann bíða einn í nokkrar klukkustundir á meðan hann horfði á kvikmynd. Að lokum, um klukkan 1.30 um nóttina, hitti Hitler Hácha ásamt Hermann Göring, yfirmanni flughersins, og tilkynnti honum að þýski herinn væri að undirbúa innrás í það sem eftir var af landinu.
Hitler og Göring öskruðu á Hácha, niðurlægðu hann í klukkutíma og buðu honum tvo kosti: annaðhvort að gefa eftir, skrifa undir og leyfa þeim að ganga inn í Prag eða horfast í augu við innrás með vopnavaldi.
Hácha neitaði að skrifa undir.
Hácha fékk hjartaáfall og hneig niður á gólfið í ríkisbústaðnum. Þetta skapaði vandamál fyrir Þjóðverja, því ef þeir réðust inn myndu þeir mæta mótspyrnu frá Tékkum, sem áttu á þeim tíma einn öflugasta vopnaiðnað í heimi – og sem Þjóðverjar höfðu nýlega gert samning við í München, aðeins nokkrum mánuðum fyrr. Hitler var ekki viss um hvort hann hefði Tékkana alla á valdi sínu.
Sem betur fer fyrir Hitler tókst lækni að koma Hácha aftur til meðvitundar – nóg til að Göring gæti otað símtóli að honum, þar sem hann neyddist til að gefa skipun um að leggja niður vopn. Þannig gengu nasistar inn í Prag án mótspyrnu.
En hvað ef Tékkar hefðu barist? Það hefði ef til vill kostað þá hálfa þjóðina – en ekki alla Evrópu. Kannski, hver veit? Helvíti stórt veðmál að taka í ríkisbústaðnum klukkan 01:30 um nótt með Hitler og Göring eltandi þig með penna í kringum borð.
Líklega var það auðveldara fyrir Zelensky að standast það sem á gekk í Hvíta húsinu, hversu erfitt sem það kann að hafa verið.
Sagan endurtekur sig ekki, en hún á það til að ríma. Að mínu mati er Úkraína í dag í svipaðri stöðu og Tékkóslóvakía í september 1938. Hácha ákvað að berjast til baka – því hann vissi, eins og Tékkarnir, að það var samningur á borðinu, bara ekki þessu borði. Stóru ríkin gerðu samning um Tékkland í München, rétt eins og í Búdapest var gerður sambærilegur samningur um Úkraínu. Báðir samningarnir áttu að tryggja vernd gegn innrás, en hvorugur stóðst loforðin. Zelensky stóð upp gegn yfirþyrmandi mótmælti – Hácha fékk hjartaáfall.
Von er góð, en óskhyggja er það sem gerir styrjöldum kleift að hefjast og halda áfram – en sjaldnast að ljúka.
Athugasemdir