Úkraínuskýrslan

Síð­ari hluti ann­áls frá Úkraínu: Stað­an á víg­vell­in­um

Hér er síðari hluti annálsins um árið 2024. Í þetta skiptið förum við yfir stöðuna á vígvellinum.
· Umsjón: Óskar Hallgrímsson

Margir vildu lýsa stöðunni í lok árs 2023 sem pattstöðu, sem fyrir mér hljómar eins og skák í lamasessi. Ekkert hreyfist, allt stopp.

Stríðandi fylkingar skiptu þá, eins og nú, oft aðeins nokkrum metrum eða kílómetrum á dag. Kostnaðurinn, sérstaklega fyrir Rússa, var gífurlegur fyrir hvern unninn metra. Hundruðir manna og þúsundir sprengja féllu hvern einasta dag.

Fram í lok desember 2023 höfðu Rússar beitt aðferð, sem þeir lærðu er þeir tóku yfir Bakhmut, að senda menn í opinn dauða í svokölluðum kjötbylgjum. Í desember 2023 er talið að Rússland hafi tapað um 20.000 manns og yfir 600 ökutækjum bara í tilraunum til að ná yfirráðum yfir framlínu borgarinnar Avdiivka með þeirri aðferð.

Hinn vinsæli Valeriy Zalushnyi var skipt út sem yfirmanni hersins og sendur til Bretlands. Við tók Oleksandr Cyrski, ekki eins vinsæll og bar viðurnefnið „Slátrarinn.“

Napóleon sagði að herir marsera á maganum. Þeir ganga þó einnig á skotfærum, mannskap, loftvörnum og vilja – helst góðri blöndu af öllu saman. Það var ekki tilfellið í febrúar 2024 fyrir Úkraínumenn, og fyrsta stóra borgin eftir Bakhmut sem féll í hendur Rússa var Avdiivka.

Avdiivka varð stökkpallur fyrir árásir á bæi og borgir síðar á árinu. Hefði Úkraína fengið mannskap og vopn hefði þróunin getað snúist við – kannski ekki lykillinn að Donetsk-fylki, en ansi nálægt því.

Eftir fall borgarinnar opnuðust margar leiðir fyrir Rússa til að halda áfram aðgerðum á svæðinu með stefnuna á Pokrovsk. Þegar þeir mættu sterkri mótstöðu á einum stað, færðu þeir þrýstinginn á annan.

Í byrjun mars hófu Tékkar átak til að leita að og kaupa skotfæri fyrir stórskotalið úkraínska hersins. Þjóðir víða um heim, þar á meðal Ísland, tóku þátt í átakinu, sem var í fyrsta skipti sem Íslendingar veittu beina hernaðaraðstoð í stríði.

Úkraínu vantaði ekki aðeins skotfæri heldur einnig mannskap. Flestar herdeildir höfðu ekki fengið frí í rúm tvö ár, og álagið hafði tekið sinn toll á hermennina.

Að lokum, 24. apríl, eftir mánuði af deilum milli forseta, öldungadeildar og fulltrúadeildar, var 61 milljarður dollara í aðstoð til Úkraínu samþykktur í bandaríska þinginu. Aðeins dögum seinna fóru vopn og birgðir að streyma inn á vígstöðvar, en það tók marga mánuði að fylla upp í skarðið sem hafði skapast.

Þann 6. ágúst hófu Úkraínumenn óvænta innrás í Kúrsk-hérað í Rússlandi. Aðgerðin kom öllum að óvörum, sérstaklega Rússum, þar sem engar varnir, skurðir eða hindranir voru til staðar. Rússar höfðu ekki búist við að Úkraína myndi ráðast inn í Rússland sjálft – kannski skjóta flugskeytum yfir landamærin, en ekki meira.

Á nokkrum dögum, gegn litlum sem engum vörnum, tóku Úkraínumenn yfir 1.000 ferkílómetra í Rússlandi. Þaulskipulögð leyni­aðgerð í anda Cyrsky náði nær öllum hernaðarlegum ætlunarverkum sínum á örfáum dögum.

Óljóst er hvers vegna ákveðið var að fara inn í Rússland, líklega til að minnka þrýsting á önnur svæði í Úkraínu með því að draga herlið þaðan. Ef það var veðmálið, þá misfórst það.

Mulningsherferð Rússa hélt áfram í september og október, sérstaklega með þrýstingi í kringum Toretsk, Niu York og Pokrovsk.

Virkisborgin Vuhledar var næst að falla, og þrýstingurinn á aðra staði hefur aðeins aukist síðan þá.

Eftir fall Vuhledar komst Rússland á sitt mesta skrið á svæðinu á árinu og tók yfir meira landsvæði í október einum saman en allt árið á undan samanlagt.

Í byrjun október bárust fregnir af því að Norður-Kórea hefði sent um 3.000 hermenn til Rússlands, en suðurkóreska leyniþjónustan uppfærði síðar töluna í um 12.000.

Mikill kvíði ríkti í Úkraínu fyrir niðurstöðum bandarísku forsetakosninganna í nóvember. Óvíst var hvað myndi gerast ef Donald Trump yrði forseti, þar sem stefna hans gagnvart Úkraínu var óljós. Ég hafði áhyggjur af yfirlýsingum hans um að stöðva allan stuðning, tengslum hans við Pútín og fleira.

Að lokum var Trump kjörinn forseti í annað sinn, og spurningin á allra vörum er hvað mun gerast er hann tekur við embætti. Hvað sem gerist er eitt ljóst: Stefnan sem var í gangi var ekki að virka. Stigmögnunarstjórnun Bidens, og líklega Harris, hefði haldið áfram. Til að binda enda á stríðið þarf stórar og afgerandi breytingar – í hvora áttina sem líður.

Staðan við framlínuna um áramót er sú að Rússar viðhalda þrýstingi á helstu stöðvum en taka á sig gífurlegt mannfall – nær tvöfalt meira en á sama tíma í fyrra.

Hvað árið framundan ber í skauti sér er alger ráðgáta – em eitt er víst það mun líklega ráðast í Washington frekar en í Kyiv.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
    Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.
    Emilia Pérez
    Paradísarheimt #20 · 31:41

    Em­ilia Pér­ez

    Sú fagra kemur í heimsókn
    Flækjusagan · 11:45

    Sú fagra kem­ur í heim­sókn

    Söguleg stund í Danmörku
    Eitt og annað · 09:57

    Sögu­leg stund í Dan­mörku

    Dýrlingurinn með hnútasvipuna
    Flækjusagan · 10:55

    Dýr­ling­ur­inn með hnúta­svip­una